Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:06:30 (8336)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það kemur mér satt að segja á óvart að formaður umhvn. skuli leggjast gegn því að tekin séu á dagskrá þau mál sem er samkomulag um í umhvn. Ég hélt að það væri nú áhugaefni hv. formanns nefndarinnar að þau mál gengju fram fyrir sem samkomulag væri um í nefndinni. En þannig stendur á að varðandi 19. dagskrármálið liggja fyrir tvö nefndarálit og um það mál má búast við nokkurri umræðu. Ég á ekki von á því að svo sé um 20. dagskrármálið sem var full samstaða um við afgreiðslu frá umhvn. og allshn. sem fékk málið til meðferðar en umhvn. fjallaði um málið efnislega í samkomulagi við allshn.
    Ég vil jafnframt geta þess að í morgun þegar þingfundur hófst kl. 9, þá varð nokkur umræða um þingsköp og þau mál sem á dagskránni eru. Þar komu fram óskir frá hv. 3. þm. Austurl. í tengslum við mál. nr. 25--27 á dagskránni og síðan komu fram ábendingar frá öðrum hv. þm. um mál sem búast mætti við að umræða yrði nokkur um. Forseti lýsti þeirri stefnu varðandi dagskrána að láta þau mál hafa forgang á dagskránni, það var aðalforsetinn sem lýsti þeirri stefnu sinni varðandi vinnubrögð í dag að láta þau mál hafa forgang á dagskránni sem samkomulag væri um frá nefndum og ekki þyrfti að reikna með miklum umræðum um.
    Forseta var greint frá því varðandi nokkur mál. Það voru tilgreind m.a. 21. og ég held 23. mál að um þau mætti búast við umræðum og það var einnig greint frá því varðandi 19. málið, því var komið á framfæri við forseta varðandi 19. málið að það hagaði einnig þannig til að það mætti reikna með umræðu um það sérstaklega. Þetta var sú stefna sem lögð var til grundvallar hér í upphafi þessa fundar og ég vil, af því að sá forseti sem nú stýrir fundi mun ekki hafa verið við þessa umræðu, rifja þetta upp um leið og ég vænti þess að þessi tilhögun á þingstörfum verði viðhöfð til þess að greiða fyrir framgangi mála sem samkomulag er um.