Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 173 . mál.


199. Tillaga til þingsályktunar



um atvinnuþróun í Mývatnssveit.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu. Að úttektinni verði unnið samhliða rannsóknum á áhrifum kísilgúrnáms úr Mývatni á lífríki svæðisins og fyrstu niðurstöðum skilað og þær kynntar Alþingi fyrir febrúarlok 1993.

Greinargerð.


    Íslenska ríkið hefur óvenjumiklar skyldur við Mývatnssveit og svæðið meðfram Laxá. Því valda ákvarðanir sem teknar hafa verið um lögverndun á náttúru svæðisins og aðild ríkisins að uppbyggingu atvinnufyrirtækja þar síðustu áratugi, einkum Kísiliðjunnar og Kröfluvirkjunar.
    Mývatnssveit er þjóðgarðsígildi og hefur auk þess fengið alþjóðlega stöðu í náttúruvernd með því að flokkast undir Ramsar-sáttmálann. Svæðið er einstakt á heimsmælikvarða, bæði sökum lífríkis og jarðmyndana. Mývatn hefur gífurlegt alþjóðlegt aðdráttarafl eins og best sést á þeim mikla og vaxandi fjölda ferðamanna sem þangað leggur leið sína.
    Uppbygging og rekstur Kísiliðjunnar hf. í Mývatnssveit frá árinu 1967 að telja hefur haft mikil áhrif á byggðarlagið og verið aðalundirstaðan undir fjölgun íbúa frá því sem áður var. Starfsemi verksmiðjunnar hefur frá upphafi verið umdeild og margir hafa haft áhyggjur af því að rekstur hennar hefði neikvæð áhrif á lífríki svæðisins. Þessar áhyggjur hafa ýtt undir rannsóknir og með lögunum um verndun Mývatns- og Laxársvæðisins var sett á fót sérstök rannsóknastöð við Mývatn.
    Nefndir sérfræðinga hafa starfað á vegum stjórnvalda til að fá sem gleggsta mynd af lífríki Mývatns og til að láta kanna hugsanleg áhrif af starfsemi verksmiðjunnar á það. Í júlí 1991 skilaði sérfræðinganefnd á vegum umhverfisráðuneytisins áliti um „áhrif Kísiliðjunnar hf. á lífríki Mývatns“ og í framhaldi af því setti iðnaðarráðherra á fót sérfræðingahóp til að móta tillögur um frekari rannsóknir á áhrifum kísilgúrnáms á lífríki svæðisins. Sá hópur skilaði tillögum 25. mars 1992 og í samræmi við þær verða nú hafnar rannsóknir á vegum umhverfisráðuneytis á áhrifum efnistöku af botni Mývatns. Þessar rannsóknir eiga að varpa ljósi á þá spurningu hvort og hversu lengi sé ráðlegt að halda áfram kísilgúrtöku af botni Mývatns og þá um leið starfrækslu verksmiðjunnar.
    Hér er um svo afdrifaríkt mál að ræða fyrir samfélagið við Mývatn að óverjandi er annað en að stjórnvöld láti samhliða kanna möguleika á þróun atvinnulífs og nýsköpun til að tryggja byggð og sjálfbæra þróun í Mývatnssveit. Það er nú orðin viðurkennd regla víða um lönd að fyllstu varúðar beri að gæta þá mannleg umsvif eru annars vegar og óvissu eigi að meta náttúruverndinni í vil. Það getur varla orkað tvímælis að slíka reglu beri að virða þegar lífríki Mývatns er annars vegar. Því leggja flutningsmenn þessarar tillögu áherslu á að stjórnvöld komi til liðs við heimamenn nú þegar með þeirri úttekt sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Tillaga þessi var flutt síðla á 115. löggjafarþingi en komst þá ekki til umræðu. Svipuð tillaga um áætlun um uppbyggingu og eflingu atvinnulífs í Mývatnssveit var flutt á 110. löggjafarþingi en varð þá ekki útrædd. Er hún prentuð sem fylgiskjal hér á eftir ásamt fréttatilkynningu umhverfisráðuneytis frá 27. mars 1992 um námaleyfi Kísiliðjunnar við Mývatn. Einnig fylgir útdráttur úr skýrslu ráðgjafarhóps um könnun á áhrifum kísilgúrnáms á setflutninga í Mývatni og mikilvægi þeirra fyrir lífríki vatnsins.

    Um samhljóða fylgiskjöl vísast til þskj. 731 bls. 4562–4573 í A-deild Alþt. 1991–92.