Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 208 . mál.


249. Frumvarp til laga



um viðskiptabanka og sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


    Lög þessi gilda um viðskiptabanka í eigu ríkisins, hér eftir nefndir ríkisviðskiptabankar, viðskiptabanka sem reknir eru af hlutafélögum, hér eftir nefndir hlutafélagsbankar, og sparisjóði.
    Málefni viðskiptabanka og sparisjóða heyra stjórnarfarslega undir viðskiptaráðherra.

2. gr.


    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er einungis heimilt, nema annað leiði af lögum, að stunda viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í V. kafla laga þessara.

3. gr.


    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er skylt og einum heimilt, nema lög ákveði annað, að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „banki“ eða „sparisjóður“ eitt sér eða samtengt öðrum orðum, sbr. þó 5. mgr. 84. gr.
     Viðskiptabanki má ekki auðkenna starfsemi sína á þann hátt að unnt sé að líta svo á að um Seðlabanka Íslands geti verið að ræða.

II. KAFLI


Stofnun, starfsleyfi o.fl.


4. gr.


    Óheimilt er að hefja starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs nema að fengnu starfsleyfi viðskiptaráðherra. Skráning hlutafélagsbanka í hlutafélagaskrá veitir ekki sjálfkrafa rétt til að hefja slíka starfsemi. Ráðherra getur bundið starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs því skilyrði að hefjist starfsemi hlutaðeigandi stofnunar ekki innan tiltekins tíma eftir veitingu leyfisins falli það úr gildi.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir hlutafélagsbanka eða sparisjóðs. Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um stofnendur, hlutafé eða stofnfé, hluthafa eða stofnfjáreigendur og hlut hvers um sig og aðrar upplýsingar og gögn sem viðskiptaráðherra ákveður.
     Áður en ráðherra afgreiðir umsókn um starfsleyfi skal hann leita umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     Birta skal tilkynningar um starfsleyfi viðskiptabanka og sparisjóða í Lögbirtingablaði.

5. gr.


    Einungis einstaklingar og lögaðilar búsettir hér á landi geta verið stofnendur viðskiptabanka eða sparisjóðs, sbr. þó 8. gr.
     Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir búsetuskilyrði 1. mgr. Ráðherra er heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

6. gr.


    Viðskiptabanki eða sparisjóður verður ekki stofnaður með lægra hlutafé eða stofnfé en 400 milljónum króna og skal hlutafé eða stofnfé aldrei nema lægri fjárhæð. Fjárhæð þessi skal bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við kaupgengi hennar á útgáfudegi laga þessara.
     Ráðherra er heimilt að víkja frá lágmarkskröfum 1. mgr. um fjárhæð stofnfjár í sparisjóði að fengnum tillögum bankaeftirlitsins og Tryggingarsjóðs sparisjóða. Þó skal stofnfé aldrei nema lægri fjárhæð en 80 milljónum króna og vera bundið gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU samkvæmt því sem segir í 1. mgr.
     Viðskiptabanka eða sparisjóði er óheimilt að hefja starfsemi fyrr en hlutafé eða stofnfé hefur verið greitt að fullu í reiðufé. Allt hlutafé hlutafélagsbanka skal vera greitt áður en bankinn er skráður í hlutafélagaskrá. Ekki skal skrá hækkun hlutafjár fyrr en hlutafjárauki er að fullu greiddur.

7. gr.


    Starfandi viðskiptabönkum eða sparisjóðum við gildistöku laga þessara með eigið fé lægra en það hlutafé eða stofnfé sem mælt er fyrir um í 1. eða 2. mgr. 6. gr. er heimilt að halda áfram starfsemi sinni, enda fari eigið fé þeirra ekki niður fyrir þá fjárhæð sem það nam við gildistöku laganna. Nú fer eigið fé niður fyrir framangreind mörk og er þá bankaeftirlitinu heimilt að veita hlutaðeigandi stofnun hæfilegan frest til úrbóta. Uppfylli stofnunin ekki skilyrðin um eigið fé að liðnum veittum fresti skal starfsleyfi hennar afturkallað samkvæmt ákvæðum XIII. kafla.
     Yfirtaki nýir aðilar starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs sem starfar skv. 1. mgr. skal eigið fé stofnunarinnar hafa náð því lágmarki sem kveðið er á um í 1. eða 2. mgr. 6. gr. innan þriggja mánaða frá yfirtökunni.

A. Ríkisviðskiptabankar.


8. gr.


    Ríkisviðskiptabankar eru sjálfstæðar stofnanir og lúta sérstakri stjórn samkvæmt lögum þessum. Þeir verða einungis stofnaðir samkvæmt sérstökum lögum.
     Heimili og varnarþing ríkisviðskiptabanka er í Reykjavík nema annað leiði af lögum.
     Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka.
     Nánar skal kveðið á um starfsemi ríkisviðskiptabanka í reglugerð.

B. Hlutafélagsbankar.


9. gr.


    Einungis hlutafélögum er heimilt að reka viðskiptabanka aðra en ríkisviðskiptabanka. Ákvæði laga um hlutafélög gilda um hlutafélagsbanka nema annað sé boðið í lögum þessum.

10. gr.


    Engar hömlur má leggja á viðskipti með hluti í hlutafélagsbanka, sbr. þó 101. gr. um Lánastofnun sparisjóðanna hf.
     Í samþykktum skal kveðið á um atkvæðisrétt sem fylgir hlutum í hlutafélagsbanka og um meðferð hans. Í samþykktum er óheimilt að veita tilteknum hlutum aukið atkvæðagildi eða skipa hlutum með öðrum hætti í sérstaka flokka.
     Þeir hluthafar, sem eiga eða hyggjast eignast virkan eignarhlut í viðskiptabanka, skulu fyrir fram tilkynna bankaeftirlitinu þar um. Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi stofnunar. Einnig skal hlutaðeigandi tilkynna bankaeftirlitinu ef hann hyggst auka við hlutafjáreign sína það mikið að hlutur hans í hlutafélagsbanka eða samsvarandi réttur til meðferðar atkvæða nemi 20%, 33% eða 50% eða svo stórum hluta að hlutafélagsbanki verði talinn dótturfyrirtæki hans.
    Bankaeftirlitið getur synjað hluthafa um að eignast hlut eða um rétt til meðferðar atkvæða skv. 3. mgr. telji það viðkomandi ekki hæfan til þess með tilliti til heilbrigðs reksturs hlutaðeigandi stofnunar eða eðlilegra viðskiptahátta. Rökstudd synjun bankaeftirlitsins skal hafa borist hlutaðeigandi innan þriggja mánaða frá þeim degi er tilkynning skv. 3. mgr. berst bankaeftirlitinu.
    Sé um að ræða aukningu á eignarhlut skv. 3. mgr. er bankaeftirlitinu heimilt að kveða á um hvenær henni skuli í síðasta lagi hrint í framkvæmd, enda hafi henni ekki verið hafnað.
     Hyggist hluthafi, sem á 10% eða meira af hlutafé í hlutafélagsbanka, draga úr hlutafjáreign sinni skal hann tilkynna það bankaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 33%, 50% eða svo mikið að bankinn hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi, sbr. 3. mgr., skal það einnig tilkynnt.

11. gr.


    Þegar tilkynning hefur borist um kaup eða eigendaskipti hlutabréfa í hlutafélagsbanka sem valda því að hlutafjáreign fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 3., 4. eða 5. mgr. 10. gr. skal bankaráð eða bankastjórn tilkynna bankaeftirlitinu þar um án ástæðulauss dráttar.
     Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal hlutafélagsbanki tilkynna bankaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga 10% eða meira af hlutafé bankans og hlutafjáreign hvers þeirra.

12. gr.


    Fari aðili, sem á svo mikinn hlut í hlutafélagsbanka sem segir í 3. mgr. 10. gr., þannig með hlut sinn að skaði heilbrigðan rekstur bankans eða samrýmist ekki eðlilegum viðskiptaháttum getur bankaeftirlitið ákveðið að þessum hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur eða lagt fyrir hlutaðeigandi banka að grípa til viðeigandi ráðstafana.
     Bankaeftirlitið getur ákveðið að eignarhlutum, sem ekki hafa verið tilkynntir fyrir fram skv. 3. mgr. 10. gr., fylgi ekki atkvæðisréttur. Synji bankaeftirlitið ekki viðkomandi um að eignast hlut eða auka við hann skv. 4. og 5. mgr. 10. gr. fá þessir hlutir atkvæðisrétt að nýju.
     Hafi bankaeftirlitið ákveðið skv. 1. eða 2. mgr. að hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur skulu þeir hlutir ekki teknir með við útreikning á því hve miklum hluta atkvæða mælt hafi verið fyrir á hluthafafundum.

13. gr.


    Viðskiptabanka er óheimilt að eiga sjálfur eða taka að veði meira en 10% af eigin hlutafé. Eignist stofnunin meira af hlutafénu, svo sem með kaupum eða fyrir annað framsal, skal hún hafa selt hlutabréf þannig að lögmæltu marki sé náð innan þriggja mánaða.

14. gr.


    Ákvæði 10.–12. gr. eiga einnig við um sparisjóði, eftir því sem við getur átt.

C. Sparisjóðir.


15. gr.


    Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu ekki vera færri en 30.
     Á stofnfundi sparisjóðs fer hver stofnandi með eitt atkvæði. Stofnfundur setur sparisjóði samþykktir. Í þeim skulu vera ákvæði sem varða sérstaklega hlutaðeigandi sparisjóð, svo sem:
    heiti sparisjóðs,
    heimili sparisjóðs og varnarþing,
    heildarupphæð stofnfjár, skiptingu í stofnfjárhluti og atkvæðisréttur,
    reglur um eigendaskipti að stofnfjárhlutum og aukningu stofnfjár,
    kosning sparisjóðsstjórnar og störf hennar,
    breytingar á samþykktum og
    slit á sparisjóði og ráðstöfun eigin fjár í því sambandi.
     Ákvörðun um breytingu á samþykktum sparisjóðs verður því aðeins gild að hún hljóti samþykki 2 / 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2 / 3 hlutum þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundi stofnfjáreigenda.
     Þegar starfsemi sparisjóðs er bundin við ákveðið svæði skulu stofnfjáreigendur vera búsettir eða reka atvinnu eða aðra starfsemi á því svæði, sbr. þó 2. mgr. 5. gr.

16. gr.


    Gefin skulu út stofnfjárbréf fyrir skráðum stofnfjárhlutum og skulu þau undirrituð af sparisjóðsstjórn. Þau má ekki afhenda fyrr en hlutur er að fullu greiddur. Stofnfjárbréf skulu hljóða á nafn og verða þau ekki framseld til handhafa þannig að gildi hafi gagnvart sparisjóðnum. Í stofnfjárbréfi skal greina:
    heiti sparisjóðs og heimilisfang,
    númer og fjárhæð hlutar,
    nafn, heimilisfang og kennitölu stofnfjáreiganda,
    útgáfudag stofnfjárbréfs,
    efni 1. mgr. 18. gr. og 20.–21. gr. laga þessara og
    sérstök atriði er varða réttindi og skyldur stofnfjáreigenda.
     Færð skal skrá yfir stofnfjáreigendur og skulu þeir allir eiga aðgang að henni.

17. gr.


    Stofnfjáreigendur bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt.
     Stofnfjáreigendur hafa ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem mælt er fyrir um í lögum þessum.
     Stofnfjáreigendur skulu einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu.
     Stofnfé verður ekki endurgreitt til stofnfjáreigenda nema samkvæmt ákvæðum 71. gr.

18. gr.


    Sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimil.
     Um skattalega meðferð á stofnfé stofnfjáreiganda og arði fer að sama hætti og um hlutafé.

19. gr.


    Sparisjóði er óheimilt að eiga sjálfur meira en 10 % af eigin stofnfé. Eignist sparisjóður meira af stofnfénu vegna ákvæða 20. og 21. gr. skal hann hafa selt stofnfjárhlut þannig að lögmæltu marki sé náð innan þriggja mánaða.

20. gr.


    Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði þegar svo stendur á sem hér segir:
    við andlát stofnfjáreiganda,
    við eigendaskipti á stofnfjárhlut þegar fjárslit fara fram milli hjóna og
    við brottflutning stofnfjáreiganda af starfssvæði sjóðsins.
     Stjórn sparisjóðs er skylt að innleysa stofnfjárhlut í eftirgreindum tilvikum:
    þegar stofnun, sem er eigandi að stofnfjárhlut, er slitið eða hún lögð niður,
    við gjaldþrotaskipti á búi stofnfjáreiganda og
    við fjárnám í stofnfjárhlut stofnfjáreiganda.

21. gr.


    Nú synjar sparisjóður um heimild til sölu stofnfjárhlutar, sbr. 1. mgr. 18. gr., eða neytir ekki heimildar til innlausnar skv. 1. mgr. 20. gr. og skal hann þá, ef óskað er, hafa milligöngu um sölu hlutarins eða innleysa hann innan árs frá því er skrifleg beiðni kom fram um sölu eða innlausn, sbr. þó ákvæði 19. gr.
     Fari innlausn stofnfjárhlutar fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 23. gr.

22. gr.


    Fundur stofnfjáreigenda getur ákveðið að auka stofnfé í starfandi sparisjóði og sett reglur um áskrift nýrra stofnfjárhluta í samræmi við ákvæði í samþykktum.
     Það verð, sem nýr stofnfjáreigandi skal greiða fyrir hlut, skal vera nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 23. gr.


23. gr.


    Frá ársbyrjun 1993 er sparisjóðum heimilt að endurmeta stofnfé sjóðsins og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda. Við endurmat þetta skal hafa hliðsjón af eftirgreindum atriðum:
    verðlagsbreytingum frá 1. janúar 1992 miðað við lánskjaravísitölu og
    stöðu eigin fjár hjá sparisjóði.
    Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats miðað við inngreiðslu þess innan ársins.
     Um skattalega meðferð endurmats fer að ákvæðum tekju- og eignarskattslaga um endurmat hlutafjár.

III. KAFLI


Synjun umsókna um starfsleyfi.


24. gr.


    Uppfylli viðskiptabanki eða sparisjóður, eftir því sem við á, ekki skilyrði 2. mgr. 4. gr. um form umsóknar, 5. gr. um stofnendur, 6. gr. um stofnfé, 8. gr. um stofnun ríkisviðskiptabanka, 9. gr. um stofnun hlutafélagsbanka, 1.–3. mgr. 10. gr. um hluti í hlutafélagsbanka, 2. mgr. 15. gr. um stofnun sparisjóðs og 38. gr. um stjórn viðskiptabanka eða sparisjóðs skal umsókn um starfsleyfi synjað.

25. gr.


    Ráðherra er heimilt að synja umsókn um starfsleyfi, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, sé eignarhlutur hluthafa í hlutafélagsbanka eða stofnfjáreiganda í sparisjóði skv. 10. gr. talinn ósamrýmanlegur eðlilegum rekstri hlutaðeigandi stofnunar.

26. gr.


    Synjun ráðherra á starfsleyfi skal rökstudd og send umsækjanda skriflega, að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum frá því að fullbúin umsókn barst ráðherra. Ákvörðun ráðherra skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.

IV. KAFLI


Stjórn.


A. Ríkisviðskiptabankar.


27. gr.


    Yfirstjórn ríkisviðskiptabanka er í höndum viðskiptaráðherra og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.
     Bankaráð ríkisviðskiptabanka skipa fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi til fjögurra ára í senn ásamt jafnmörgum til vara. Ráðherra skipar formann bankaráðs til fjögurra ára úr hópi hinna kjörnu aðalmanna og annan varaformann. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt hefur verið kjörið.
     Ráðherra ákveður þóknun bankaráðsmanna og varamanna þeirra.

28. gr.


    Ráðherra getur hvenær sem er krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka.

29. gr.


    Bankastjórn ríkisviðskiptabanka skal skipuð þremur bankastjórum sem skulu eigi ráðnir til lengri tíma en sex ára í senn. Hafi bankastjóri brotið af sér í starfi getur bankaráð vikið honum frá fyrirvaralaust og án launa. Bankaráð skal skýra bankastjóra skriflega frá ástæðum fyrir frávikningu úr starfi.
     Auglýsa skal opinberlega eftir umsóknum um stöður bankastjóra með hæfilegum fyrirvara.

B. Hlutafélagsbankar.


30. gr.


    Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum hlutafélagsbanka samkvæmt því sem lög og samþykktir bankans ákveða.

31. gr.


    Stjórn hlutafélagsbanka nefnist bankaráð. Bankaráðið fer með málefni hlutafélagsbanka milli hluthafafunda.
     Bankaráð hlutafélagsbanka skal skipað eigi færri en fimm mönnum og jafnmörgum til vara. Bankaráð skal kjörið af hluthöfum á aðalfundi.

C. Sparisjóðir.


32. gr.


    Fundur stofnfjáreigenda fer með æðsta vald í málefnum sparisjóðs samkvæmt því sem lög og samþykktir sparisjóðsins ákveða. Stjórn sparisjóðs fer með málefni hans milli þeirra funda.
     Aðalfund skal halda samkvæmt ákvæðum samþykkta, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári og aldrei síðar en níu mánuðum frá lokum hvers reikningsárs.
     Aukafund skal halda ef stofnfjáreigendur, sem fara með minnst 1 / 3 hluta stofnfjár, krefjast þess skriflega og greina fundarefni.
     Aukafund skal annars halda þegar sparisjóðsstjórn telur þess þörf.

33. gr.


    Fundir stofnfjáreigenda skulu boðaðir með þeim hætti sem samþykktir ákveða en þó með tíu daga fyrirvara hið skemmsta. Fundarboði skal fylgja dagskrá fundarins. Stofnfjáreiganda er óheimilt að fela öðrum umboð sitt á framangreindum fundum nema slíkt sé leyft í samþykktum sparisjóðs.
     Afl atkvæða samkvæmt reglum 35. gr. ræður úrslitum á fundum nema öðruvísi sé mælt í lögum þessum.
     Hver stofnfjáreigandi á rétt til að fá ákveðið mál tekið til úrlausnar á fundum stofnfjáreigenda sparisjóðs ef hann gerir skriflega kröfu um það til sparisjóðsstjórnar með svo miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá fundarins.

34. gr.


    Á aðalfundi skal m.a. taka eftirgreind mál fyrir:
    skýrslu stjórnar um starfsemi liðins starfsárs,
    staðfestingu á endurskoðuðum ársreikningi og ráðstöfun tekjuafgangs að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, sbr. 60. gr.,
    kosningu sparisjóðsstjórnar, sbr. 36. gr., og skoðunarmanna, sbr. 59. gr.,
    þóknun stjórnarmanna, svo og þóknun skoðunarmanna, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar,
    breytingar á samþykktum sparisjóðs og
    önnur mál sem aðalfundur skal fjalla um samkvæmt lögum þessum eða sparisjóðsstjórn ákveður að leggja fyrir fundinn.

35. gr.


    Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan hlut nema samþykktir heimili annað.
     Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan atkvæðisrétt nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum sparisjóðs. Þó er einstökum stofnfjáreigendum aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, sbr. þó 99. gr. ef sveitarfélag er eini stofnfjáreigandinn.
     Óheimilt er að fara með atkvæðisrétt samkvæmt þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóður á sjálfur, sbr. 19. gr.
     Þar sem talað er um heildaratkvæðamagn í sparisjóði í lögum þessum er átt við heildaratkvæðamagn að frádregnum atkvæðum samkvæmt þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóður á sjálfur.

36. gr.


    Í stjórn sparisjóðs skulu sitja fimm menn. Stofnfjáreigendur kjósa þrjá stjórnarmenn en hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Séu sveitarstjórnir einu stofnfjáreigendurnir kjósa hlutaðeigandi sveitarstjórnir, eða fulltrúar þeirra, alla stjórnina í samræmi við samþykktir sparisjóðsins. Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa varamenn, jafnmarga aðalmönnum, eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skal vera hlutbundin ef óskað er.
     Nú eru stofnfjáreigendur í sparisjóði fleiri en 150 og er þá heimilt að ákveða í samþykktum sparisjóðs að aðalfundur kjósi fulltrúaráð skipað að minnsta kosti 21 fulltrúa. Fulltrúaráð skal kosið til þriggja ára og þriðjungur árlega nema í fyrsta skipti. Fulltrúaráð kýs stjórn sparisjóðsins samkvæmt reglum 1. mgr. eftir því sem við getur átt.
     Stjórnarmenn, sem eru ekki kosnir af stofnfjáreigendum, sitja aðal- og aukafundi án atkvæðisréttar.
    Umboð stjórnarmanns gildir þann tíma sem til er tekinn í samþykktum. Kjörtímabili skal vera lokið við lok aðalfundar í síðasta lagi fjórum árum eftir kjörið.

37. gr.


    Nú sameinast tveir eða fleiri sparisjóðir og er þá heimilt að ákveða í samþykktum að stjórn sparisjóðsins verði kosin hlutbundinni kosningu af sérstöku fulltrúaráði.
     Fulltrúaráð skal þannig skipað:
    að 3 / 5 hlutum af stofnfjáreigendum hlutaðeigandi sparisjóða samkvæmt samningi þeirra þar um,
    að 2 / 5 hlutum af hlutaðeigandi sveitarstjórnum eða héraðsnefndum enda hafi sveitarstjórnir eða sýslunefndir áður kosið til stjórnar sparisjóða.
     Við sameiningu sparisjóða er heimilt að ákveða í samþykktum að starfa skuli staðbundnar stjórnir, þriggja til fimm manna, á starfssvæði sparisjóðanna eins og það var fyrir sameiningu, kjörnar skv. 36. gr. Stjórn sparisjóðsins setur staðbundnum stjórnum erindisbréf þar sem starfssviði þeirra er nánar lýst og skal það staðfest á fundi stofnfjáreigenda.

D. Sameiginleg ákvæði.


38. gr.


    Bankastjórar viðskiptabanka og sparisjóðsstjórar skulu vera búsettir hér á landi, vera fjárráða, hafa óflekkað mannorð og aldrei hafa verið sviptir forræði yfir búi sínu.
     Auk þess að fullnægja skilyrðum 1. mgr. skal menntun eða starfsreynsla og starfsferill bankastjóra og sparisjóðsstjóra vera með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.
     Bankaráðsmenn og stjórnarmenn sparisjóðs skulu einnig uppfylla skilyrði 1. mgr. Ríkisborgarar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins eru þó undanþegnir búsetuskilyrðinu. Ráðherra er heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
     Bankastjórum og sparisjóðsstjórum er óheimilt að eiga sæti í bankaráði eða stjórn sparisjóðs.

39. gr.


    Bankaráð eða sparisjóðsstjórn hefur yfirumsjón með starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs í samræmi við lög þessi, reglugerðir eða samþykktir. Bankaráð eða sparisjóðsstjórn skulu einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri hlutaðeigandi stofnunar. Bankaráð eða sparisjóðsstjórn annast m.a. eftirfarandi verkefni:
    að ráða bankastjóra eða sparisjóðsstjóra, ákveða laun og ráðningarkjör þeirra og verkaskiptingu samkvæmt sérstöku erindisbréfi sem gildir í ákveðinn tíma,
    að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar, sbr. þó 7. mgr. 63. gr.,
    að staðfesta ráðningu staðgengla bankastjóra eða sparisjóðsstjóra samkvæmt tillögum bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra,
    að staðfesta tillögur bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra um höfuðþætti í stjórnskipulagi hlutaðeigandi stofnunar,
    að setja, að fenginni umsögn bankastjóra eða sparisjóðsstjóra, almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir stofnunarinnar, þar með talið um hámark lána til einstakra lántakenda og um greiðslutryggingar, sbr. þó 1. mgr. 46. gr.,
    að ákveða hvaða starfsmenn, auk bankastjóra eða sparisjóðsstjóra, hafa heimild til að skuldbinda hlutaðeigandi stofnun og setja reglur þar um,
    að ákveða hver skuli taka sæti af hálfu viðskiptabanka eða sparisjóðs í stjórn stofnunar eða atvinnufyrirtækis nema lög kveði á um annað,
    að taka ákvörðun um ráðstöfun á tekjuafgangi til varasjóðs og annarra sjóða ríkisviðskiptabanka eða leggja tillögur um þessi atriði fyrir hluthafafund eða aðalfund hlutafélagsbanka eða aðalfund sparisjóðs,
    að taka ákvörðun um að stofna eða leggja niður útibú,
    að taka ákvörðun um byggingu, kaup, sölu og veðsetningu á fasteignum stofnunarinnar,
    að ákveða kaup og sölu hlutabréfa og annarra eignarhluta í félögum eða stofnunum sem viðskiptabanki eða sparisjóður á aðild að og
    að taka ákvörðun um samruna hlutaðeigandi stofnunar við aðra viðskiptabanka eða sparisjóði, sbr. 73. og 75. gr.
    Áður en ákvörðun er tekin skv. 6.–12. tölul. 1. mgr. skal leitað tillagna bankastjóra eða sparisjóðsstjóra.
     Bankaráð og sparisjóðsstjórn fjalla einnig um önnur mál sem þau skulu annast samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða samþykktum hlutaðeigandi stofnana, svo og þau mál sem bankastjórar og sparisjóðsstjórar leggja fyrir bankaráð eða sparisjóðsstjórn.

40. gr.


    Bankaráð eða sparisjóðsstjórn heldur fundi eftir þörfum eða samkvæmt því sem ákveðið er í reglugerðum eða samþykktum. Bankaráðsfundi og stjórnarfundi sparisjóðs skal ætíð halda ef einn eða fleiri bankaráðsmenn eða stjórnarmenn sparisjóðs óska þess eða telji banka- eða sparisjóðsstjórar þess þörf. Bankastjórar og sparisjóðsstjórar sitja bankaráðsfundi eða stjórnarfundi sparisjóðs og taka þátt í umræðum nema bankaráð eða sparisjóðsstjórn ákveði annað.
     Fundir eru lögmætir ef meiri hluti bankaráðsmanna eða stjórnarmanna sparisjóðs er á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu máls. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Um það sem gerist á bankaráðsfundum og stjórnarfundum sparisjóðs skal haldin gerðabók og fundargerðir staðfestar á þann hátt sem bankaráð eða stjórn sparisjóðs ákveður.
     Bankaráðsmenn eða stjórnarmenn sparisjóðs og varamenn þeirra skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku bankaráðsmanna eða stjórnarmanna sparisjóðs í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega.
     Bankaráðsmenn og stjórnarmenn sparisjóðs, varamenn þeirra, skoðunarmenn og aðrir starfsmenn mega ekki koma fram sem umboðsaðilar annarra gagnvart hlutaðeigandi stofnun.

41. gr.


    Bankastjórar og sparisjóðsstjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri hlutaðeigandi stofnunar og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum hennar sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum. Þeim ber að sjá um að reksturinn sé í öllum greinum samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða samþykktum og ákvörðunum bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar.

42. gr.


    Bankastjórum og sparisjóðsstjórum er óheimilt, nema að fengnu leyfi bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar, að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan viðskiptabanka eða sparisjóðs eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema lög kveði á um annað eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem hlutaðeigandi stofnun á aðild að.
     Um heimildir annarra starfsmanna skv. 1. mgr. fer samkvæmt reglum sem bankaráð eða sparisjóðsstjórn setja að fengnum tillögum bankastjóra eða sparisjóðsstjóra.

43. gr.


    Bankaráðsmenn, stjórnarmenn sparisjóðs, bankastjórar og sparisjóðsstjórar, skoðunarmenn og aðrir starfsmenn viðskiptabanka eða sparisjóðs eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

V. KAFLI


Starfsemi.


44. gr.


    Starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða er fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum, verðbréfaviðskiptum og annarri þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við slík viðskipti:
    Móttaka innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
    Útlánastarfsemi, m.a.:
         
    
    neytendalán,
         
    
    langtímaveðlán,
         
    
    kröfukaup og kaup skuldaskjala og
         
    
    viðskiptalán.
    Fjármögnunarleiga.
    Greiðslumiðlun.
    Útgáfa og umsýsla greiðslumiðla (t.d. greiðslukorta, ferðatékka og víxla).
    Að veita ábyrgðir og tryggingar.
    Viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
         
    
    greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
         
    
    erlendan gjaldeyri,
         
    
    framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
         
    
    gengisbundin bréf og vaxtabréf og
         
    
    verðbréf.
    Þátttaka í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipti tengd slíkum útboðum.
    Ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjöf og þjónusta varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
    Peningamiðlun.
    Stjórnun og ráðgjöf varðandi samval verðbréfa.
    Varsla og ávöxtun verðbréfa.
    Upplýsingar um lánstraust (lánshæfni).
    Útleiga geymsluhólfa.
     Viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum stofnunum, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, er einum heimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.
     Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að stunda vátryggingarstarfsemi með stofnun dótturfyrirtækis.
     Viðskiptabönkum og sparisjóðum er einnig heimilt að stunda aðra starfsemi en um ræðir í 1. mgr., enda sé slík hliðarstarfsemi í eðlilegu framhaldi af viðskiptabanka- eða sparisjóðsstarfsemi. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki bankaeftirlitsins sem jafnframt getur ákveðið að hún skuli stunduð í sérstöku félagi.

45. gr.


    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt að mati bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra.
     Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að stunda tímabundið aðra starfsemi en þá sem um getur í 44. gr. ef slík þátttaka er einungis í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum fyrirtækja við viðskiptabanka eða sparisjóð og sé liður í endurskipulagningu á starfsemi viðskiptaaðila þessara stofnana. Skýrsla hér að lútandi skal send bankaeftirlitinu.

46. gr.


    Viðskiptabankar og sparisjóðir mega ekki eiga eða taka að veði eignarhluti í einstökum fyrirtækjum sem stunda aðra starfsemi en þá sem getið er í 44. gr. og nema hærri fjárhæð en 15% af bókfærðu eigin fé hlutaðeigandi stofnunar áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 4. mgr. 56. gr. Eignarhlutur viðskiptabanka eða sparisjóðs og heildarskuldbindingar fyrirtækis gagnvart hlutaðeigandi stofnun skulu vera innan þeirra marka sem getur í reglum er bankaeftirlitið setur samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands er varða hámark lána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila.
     Samtala virkra eignarhluta skv. 3. mgr. 10. gr. má ekki nema hærri fjárhæð en 60% af eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 4. mgr. 56. gr. Bókfært virði samanlagðra eignarhluta, sem viðskiptabanki eða sparisjóður hefur eignast, má ekki nema hærri fjárhæð en 100% af eigin fé þeirra. Eignarhlutir sem dregnir skulu frá við útreikning á eigin fé og eignarhlutir í fyrirtækjum, sem mynda samstæðu með viðskiptabanka eða sparisjóði, skulu ekki teknir með við útreikning hlutfalla skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar. Tímabundinn eignarhlutur viðskiptabanka eða sparisjóðs í fyrirtæki skv. 45. gr. skal ekki tekinn með við útreikning skv. 1. mgr. og 2. málsl. þessarar málsgreinar.
     Heimilt er að eignarhlutir viðskiptabanka eða sparisjóða fari fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr., enda sé sú fjárhæð, sem umfram er, dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi stofnunar.
     Viðskiptabankar og sparisjóðir skulu gefa bankaeftirlitinu sundurliðað yfirlit yfir eignarhluti í öðrum viðskiptabönkum eða sparisjóðum sem þeir hafa eignast eða tekið að veði, sbr. þó 1. mgr. 18. gr.
    Veiti viðskiptabanki eða sparisjóður lán til kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárhlutum fyrir hærri fjárhæð en 5% af heildarfjárhæð hlutafjár eða stofnfjár hlutaðeigandi stofnunar skulu settar óumdeildar tryggingar fyrir lánum sem eru umfram framangreint hlutfall.

47. gr.


    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er óheimilt að veita bankastjórum eða sparisjóðsstjórum lán eða ganga í ábyrgðir fyrir þá nema fyrirgreiðsla til þeirra sé samþykkt af bankaráði eða sparisjóðsstjórn, bókuð í gerðabók og sé á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptamanna. Bankastjórum og sparisjóðsstjórum er óheimilt að vera ábyrgðarmenn gagnvart hlutaðeigandi stofnun. Ákvæði þessarar greinar gildir einnig um maka þeirra.
     Að öðru leyti fer um viðskipti starfsmanna við hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóð eftir reglum sem bankaráð eða sparisjóðsstjórn setur að fengnum tillögum bankastjóra eða sparisjóðsstjóra.

48. gr.


    Innlánsreikningar, fjárvörslureikningar og geymsluhólf skulu skráð á nafn viðskiptamanns ásamt heimilisfangi hans og kennitölu. Sömu upplýsinga skal einnig aflað við stofnun annarra viðskiptasambanda hlutaðeigandi stofnunar og viðskiptamanna hennar, eftir því sem unnt er.

49. gr.


    Glatist innlánsskilríki eða viðtökuskírteini er viðskiptabanki eða sparisjóður hafa gefið út fyrir handveði eða geymslufé getur bankaráð eða sparisjóðsstjórn stefnt til sín handhafa nefndra skjala með þriggja mánaða fyrirvara frá síðustu birtingu áskorunar sem birt skal þrisvar sinnum í Lögbirtingablaði.
     Gefi enginn sig fram áður en fyrirvarinn er liðinn falla niður öll réttindi á hendur viðskiptabanka eða sparisjóði samkvæmt innlánsskilríkinu eða viðtökuskírteininu. Skal viðskiptabanki eða sparisjóður þá, að ósk þess sem fengið hafði hið fyrra innlánsskilríki eða viðtökuskírteini afhent úr hlutaðeigandi stofnun, gefa út nýtt honum til handa eða þeim sem sannar að hann leiði rétt sinn löglega frá þessum aðila og skal hið nýja skjal vera með sömu skilmálum og hið fyrra.

50. gr.


    Innlánsskilríki viðskiptabanka eða sparisjóða, ávísanir og hvers konar skuldbindingar sem gefnar eru út í nafni þeirra, skuldbindingar sem veita þeim handveðsrétt, arðmiðar af skuldabréfum þeirra og framsöl skulu undanþegin stimpilgjaldi.
     Ákvæði 1. mgr. á einnig við um aðrar stofnanir eða sjóði sem lög þessi taka til.

51. gr.


    Viðskiptabanki eða sparisjóður má ekki eiga fasteignir eða hluti í félögum um fasteignir fyrir hærri fjárhæð en sem nemur 20% af eigin fé. Fasteignir sem viðskiptabanki eða sparisjóður notar vegna starfseminnar og fasteignir, sem hlutaðeigandi stofnun hefur yfirtekið til lúkningar kröfu skv. 1. mgr. 45. gr., reiknast þó ekki með.

52. gr.


    Að minnsta kosti einu sinni á ári skal bankaráði og sparisjóðsstjórn gerð grein fyrir veittum lánum og ábyrgðum til einstaklinga og lögaðila sem, beint eða óbeint, vegna eignarhlutdeildar eða á annan hátt hafa veruleg áhrif á ráðstafanir stofnunar eða eru undir stjórn einstaklinga eða lögaðila sem hafa slík áhrif.

53. gr.


    Við ákvörðun vaxta og þjónustugjalda er viðskiptabönkum og sparisjóðum óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir. Sparisjóðum er þó heimilt að fela Lánastofnun sparisjóðann eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 101. gr., að leggja fyrir hlutaðeigandi sparisjóð leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld.

VI. KAFLI


Um laust fé og eigið fé.


54. gr.


    Viðskiptabankar og sparisjóðir skulu kappkosta að hafa ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi hlutaðeigandi stofnana fylgja. Með lausu fé er átt við peninga í sjóði, óbundnar nettóinnstæður í innlendum og erlendum innlánsstofnunum eða Lánastofnun sparisjóðanna, ríkisvíxla og aðrar sambærilegar nettóeignir með skemmri binditíma en 90 daga.

55. gr.


    Eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða, eins og það er skilgreint skv. 2. mgr., skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 8% af áhættugrunni, þ.e. heildareignum hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs og liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli viðskiptabanka og sparisjóða sem Seðlabankinn setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning, sbr. 67. gr.
     Við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 1. mgr. skal eigið fé samsett af tveimur þáttum, eiginfjárþætti A og eiginfjárþætti B og frádráttarliðum skv. 56. gr.
     Eiginfjárþáttur A telst vera:
    Innborgað hlutafé eða stofnfé.
    Varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár eða stofnfjár og óráðstafað eigið fé að frádregnu tapi ársins.
    Sá hluti afskriftareiknings sem endurspeglar ekki rýrnun á verðmæti útlána, þó að hámarki 1,25% af áhættugrunni, og er umfram almenn og sérstök tillög í reikninginn.
    Endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum.
    Frá eiginfjárþætti A skal draga eigin hlutabréf eða stofnfjárhluti, viðskiptavild og aðrar óáþreifanlegar eignir, svo og áfallnar ófærðar skattskuldbindingar sem rýra möguleika viðskiptabankans eða sparisjóðsins til að mæta tapi.
     Eiginfjárþáttur B telst vera:
     Víkjandi lán sem viðskiptabankar eða sparisjóðir taka gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs eða slit hans fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur viðskiptabankanum eða sparisjóðnum en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár eða sambærilegs eigin fjár ríkisviðskiptabanka. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár sem líður af þessum fimm árum nema um sé að ræða lán sem greiðist niður með jöfnum afborgunum á tímabilinu. Heildarfjárhæð víkjandi lána má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.

56. gr.


    Frá eigin fé skv. 2. mgr. 55. gr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi lánum viðskiptabanka eða sparisjóða hjá öðrum þeim félögum sem stunda starfsemi sem talin er upp í viðauka I með lögum þessum í samræmi við eftirfarandi ákvæði í 1.–3. tölul., sbr. þó 2. mgr. og eftirfarandi:
    Eignarhlutur í félögum þar sem eignarhlutir hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs nema meira en 10% af hlutafé viðkomandi félaga. Enn fremur víkjandi lán hjá sömu félögum. Eignarhlutur sparisjóðs í Lánastofnun sparisjóðanna hf., eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 101. gr., er undanskilinn.
    Eignarhlutur í félagi, sem viðskiptabanki eða sparisjóður hefur eignast tímabundið vegna endurskipulagningar þess félags, skal ekki dragast frá.
    Eignarhlutur í félögum þar sem eignarhlutir viðskiptabanka eða sparisjóðs nema allt að 10% af hlutafé viðkomandi félaga, svo og eignarhlutur sparisjóðs í Lánastofnun sparisjóðanna hf., eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 101. gr. Frádrátturinn takmarkast við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi lána sem er umfram 10% af eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs eins og það er reiknað skv. 2. mgr. 55. gr. fyrir frádrátt samkvæmt þessari grein.
     Eignarhlutir og víkjandi lán hjá öðrum félögum, sbr. 1. mgr., sem reiknast með í samstæðureikningi hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs, dragast ekki frá eigin fé hlutaðeigandi stofnunar.
    Eignarhlutir og víkjandi lán hjá dótturfélögum, sem reka vátryggingarstarfsemi skv. 3. mgr. 44. gr. eða starfsemi skv. 4. mgr. sömu greinar, dragast frá eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 2. mgr. 55. gr.
     Frá eigin fé dragast enn fremur eignarhlutir í félögum sem eru umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 46. gr.
     Ráðherra er heimilt að ákveða að aðrir efnahagsliðir en greindir eru í 3. og 4. mgr. 55. gr. skuli teljast með eigin fé að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Ákvæði þessarar greinar og 55. gr. skulu einnig gilda fyrir Lánastofnun sparisjóðanna eða félag það sem leysir hana af hólmi, sbr. 101. gr.

VII. KAFLI


Ársreikningur, endurskoðun og samstæðureikningsskil.


57. gr.


    Bankaráð og bankastjórar eða sparisjóðsstjórn og sparisjóðsstjórar skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár viðskiptabanka og sparisjóða er almanaksárið.
     Ársreikningur og skýrsla stjórnar skulu undirrituð af bankaráði eða sparisjóðsstjórn og bankastjórum eða sparisjóðsstjórum. Ársreikningur ríkisviðskiptabanka skal auk þess staðfestur af ráðherra. Hafi bankaráðsmaður eða stjórnarmaður sparisjóðs, bankastjóri eða sparisjóðsstjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal viðkomandi undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í skýrslu stjórnar hvers eðlis fyrirvarinn er.

58. gr.


    Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga og reglur settar samkvæmt þeim.
     Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu viðskiptabanka eða sparisjóðs.
     Bankaeftirlitið setur reglur um gerð ársreiknings en í því felst m.a. að kveða á um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum.

59. gr.


    Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi stofnunar og afkomu hennar á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningum.
     Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
    atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
    væntanlega þróun stofnunarinnar og
    aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun hennar.
     Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu, heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, bankaráðs, bankastjóra, sparisjóðsstjórnar, sparisjóðsstjóra og annarra í þjónustu hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs. Sé um ágóðahlut að að ræða til bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar og bankastjóra eða sparisjóðsstjóra skal hann sérgreindur. Í skýrslu stjórnar skal upplýst um fjölda hluthafa eða stofnfjáreigenda í lok reikningsárs. Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga eftir því sem við á.
     Bankaráð og sparisjóðsstjórn skulu í skýrslu stjórnar gera tillögu um ráðstöfun á hagnaði hlutaðeigandi stofnana eða jöfnun taps.

60. gr.


    Hagnaði sparisjóðs skal ráðstafað sem hér segir:
    Aðalfundur getur ákveðið að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar að greiða stofnfjáreigendum arð af stofnfé. Tryggingarsjóður sparisjóða ákveður árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu. Óheimilt er að flytja arðgreiðsluheimild milli ára.
    Hagnað, sem ekki er ráðstafað skv. 1. tölul., skal leggja í varasjóð.

61. gr.


    Ársreikningar viðskiptabanka og sparisjóða skulu endurskoðaðir af a.m.k. tveimur skoðunarmönnum og skal annar eða einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa. Ársreikningur ríkisviðskiptabanka skal þó endurskoðaður af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og skal hann vera löggiltur endurskoðandi.
     Skoðunarmenn skv. 1. málsl. 1. mgr. skulu kjörnir á aðalfundi viðskiptabanka eða sparisjóðs til eins árs í senn.
     Þegar um sparisjóð er að ræða er bankaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 2. mgr. um kosningu löggilts endurskoðanda. Aðalfundur sparisjóðs skal í því tilviki kjósa einn skoðunarmann til eins árs en stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða tilnefnir annan til sama tíma sem skal vera löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa.
     Ársreikningar móður-, systur- og dótturfélaga viðskiptabanka eða sparisjóða skulu endurskoðaðir af sömu skoðunarmönnum og endurskoða ársreikning hlutaðeigandi stofnunar. Bankaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar í sérstökum tilvikum.
     Skylt er að veita skoðunarmönnum aðgang að öllum eigum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum viðskiptabanka og sparisjóðs. Jafnframt skulu bankaráð eða sparisjóðsstjórn og starfsmenn hlutaðeigandi stofnunar veita þeim allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.

62. gr.


    Skoðunarmenn viðskiptabanka og sparisjóða mega ekki eiga sæti í stjórn, vera starfsmenn stofnunarinnar eða starfa í þágu hennar að öðru en endurskoðun.
     Skoðunarmenn viðskiptabanka og sparisjóða mega ekki vera skuldugir þeirri stofnun sem þeir annast endurskoðun hjá, hvorki sem aðalskuldarar né ábyrgðarmenn. Hið sama gildir um maka þeirra.
     Þóknun skoðunarmanna ríkisviðskiptabanka er háð samþykki ráðherra að fengnum tillögum bankaráðs.

63. gr.


    Skoðunarmenn skulu framkvæma endurskoðun í samræmi við góða endurskoðunarvenju og reglur bankaeftirlitsins þar að lútandi. Með endurskoðun sinni skulu þeir komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem ársreikningurinn veitir. Þeir skulu ganga úr skugga um að ársreikningurinn sé gerður í samræmi við lög, reglur og samþykktir.
     Skoðunarmenn skulu árita ársreikninginn og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Þeir skulu gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Þeir skulu láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar að öðru leyti.
     Telji skoðunarmenn að skýrsla stjórnar hafi ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða sé hún ekki í samræmi við ársreikning skulu þeir vekja á því athygli í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar sé þess kostur. Að öðru leyti geta skoðunarmenn greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem þeir telja eðlilegt að komi fram í ársreikningi.
     Ábendingar og athugasemdir, sem skoðunarmenn vilja koma á framfæri við bankaráð og sparisjóðsstjórn eða bankastjóra og sparisjóðsstjóra, skal bera fram skriflega og veita skal þessum aðilum hæfilegan frest til að svara.
     Skoðunarmönnum er skylt að veita bankaeftirlitinu, svo og Tryggingarsjóði sparisjóða þegar um sparisjóði er að ræða, allar þær upplýsingar um málefni viðskiptabanka og sparisjóða og framkvæmd endurskoðunar sem þessir aðilar kunna að óska eftir og þeir geta látið í té. Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla í rekstri hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs varðandi innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagslega stöðu stofnunarinnar eða viðskiptatraust hennar skulu skoðunarmenn gera stjórn hennar og bankaeftirliti viðvart, svo og Tryggingarsjóði sparisjóða þegar um sparisjóði er að ræða.
     Skoðunarmenn hafa rétt til að sitja bankaráðsfundi og stjórnarfundi sparisjóðs þar sem fjallað er um ársreikning. Einnig hafa þeir rétt til að sitja aðalfundi viðskiptabanka og sparisjóðs.
     Bankaeftirlitið getur sett nánari reglur um framkvæmd endurskoðunar hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, þar með talið um stofnun innri endurskoðunardeilda.

64. gr.


    Bankaeftirlitið getur leyst skoðunarmenn frá störfum ef þeir hafa ekki hagað störfum sínum í samræmi við lög, reglur eða samþykktir og í stað þeirra útnefnt aðra skoðunarmenn þar til nýir skoðunarmenn hafa verið valdir í samræmi við 1. og 2. mgr. 61. gr.
     Bankaeftirlitið getur látið framkvæma sérstaka endurskoðun hjá viðskiptabanka eða sparisjóði og er heimilt að láta hlutaðeigandi stofnun bera kostnaðinn af slíkri endurskoðun sem skal háður samþykki bankaeftirlitsins.

65. gr.


    Endurskoðaður og undirritaður ársreikningur viðskiptabanka eða sparisjóðs ásamt skýrslu stjórnar skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Hafi á aðalfundi verið samþykktar breytingar á undirrituðum ársreikningi skal breyttur ársreikningur sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá aðalfundi og gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið.
     Ársreikningur viðskiptabanka og sparisjóðs ásamt skýrslu stjórnar skal liggja frammi á afgreiðslustað hlutaðeigandi stofnunar og afhentur hverjum viðskiptaaðila sem þess óskar innan tveggja vikna frá staðfestingu ráðherra þegar um ríkisviðskiptabanka er að ræða eða samþykkt aðalfundar þegar um aðra viðskiptabanka eða sparisjóði er að ræða.

66. gr.


    Bankaeftirlitið setur reglur um:
    mánaðarleg efnahagsyfirlit,
    árshlutauppgjör á eiginfjárhlutfalli, sbr. 55. gr.,
    árshlutarekstraruppgjör og efnahagsuppgjör og
    lausafjáruppgjör, sbr. 54. gr.
     Árshlutauppgjör, sem viðskiptabankar og sparisjóðir birta opinberlega, skulu vera á samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður.
     Bankaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum um gerð árshlutauppgjörs.

67. gr.


    Viðskiptabanki eða sparisjóður, sem er móðurfyrirtæki, myndar ásamt dótturfyrirtæki samstæðu.
     Viðskiptabanki eða sparisjóður telst vera móðurfyrirtæki þegar hlutaðeigandi stofnun:
    ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa afgerandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða
    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
     Fyrirtæki, sem hafa þau tengsl við móðurfyrirtæki sem lýst er í 2. mgr., teljast vera dótturfyrirtæki.
     Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem bæði móður- og dótturfyrirtæki ráða yfir.
    Við mat á atkvæðisrétti í dótturfyrirtæki skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfyrirtækisins eða dótturfélögum þess.
     Bankaeftirlitið setur nánari reglur um gerð samstæðureikningsskila.
     Ákvæði 46. gr. um eignarhluti o.fl., 51. gr. um fasteignir, 52. gr. og 54.–56. gr. um lánveitingar, ábyrgðir og laust fé og eigið fé skulu einnig gilda þegar um samstæðu er að ræða. Bankaráð, sparisjóðsstjórn, bankastjórar og sparisjóðsstjórar móðurfyrirtækisins skulu sjá um framkvæmd þessa ákvæðis.
     Ákvæði 57.– 59. gr. um ársreikning og skýrslu stjórnar, 1. og 5. mgr. 61. gr. um endurskoðun ársreikninga, 1. mgr. 62. gr., 63. gr. og 64. gr. um skoðunarmenn, 1. og 2. mgr. 65. gr. um ársreikninga og 2. mgr. 93. gr. um eftirlitsskyldu bankaeftirlitsins gilda eftir því sem við á bæði fyrir samstæðuna og fyrir einstök fyrirtæki samstæðunnar. Ákvæði 3. mgr. 65. gr. um skil á ársreikningi til bankaeftirlitsins og 66. gr. um hvernig standa skuli að upplýsingaskyldu viðskiptabanka og sparisjóða gilda einnig fyrir samstæðuna.
    Bankaeftirlitið getur ákveðið að ákvæði 6., 7. og 8. mgr. þessarar greinar gildi einnig fyrir önnur tilvik þegar um er að ræða viðskiptabanka eða sparisjóð sem einn og sér eða í samstarfi við annan aðila er í þannig eignatengslum við fyrirtæki að nauðsynlegt teljist að beita þessum reglum.
     Ákvæði 6., 7. og 8. mgr. þessarar greinar gilda ekki um fyrirtæki sem viðskiptabanki eða sparisjóður hefur eignast tímabundið hlut í, annaðhvort til að tryggja fullnustu kröfu eða vegna endurskipulagningar þess fyrirtækis. Bankaeftirlitið getur þó ákveðið að umrædd ákvæði skuli gilda.
     Bankaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum 6., 7. og 8. mgr. þessarar greinar.

VIII. KAFLI


Slit viðskiptabanka og sparisjóða.


68. gr.


    Hafi bankaráð eða sparisjóðsstjórn, bankastjórar, sparisjóðsstjórar eða skoðunarmenn hlutaðeigandi stofnunar ástæðu til að ætla að eigið fé stofnunarinnar sé undir því lágmarki sem ákveðið er í 55. gr. ber þeim þegar í stað að tilkynna það bankaeftirlitinu.
     Er bankaeftirlitinu berst tilkynning að hætti 1. mgr. eða telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eigið fé viðskiptabanka eða sparisjóðs sé undir lágmarki 55. gr. skal það krefja skoðunarmenn stofnunarinnar þegar í stað um reikningsuppgjör sem þeim ber að afhenda innan þriggja vikna frá því þeim berst krafan.
     Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eigið fé viðskiptabanka eða sparisjóðs fullnægi ekki ákvæðum 55. gr. skal bankaráð eða sparisjóðsstjórn án tafar boða til fundar hluthafa eða stofnfjáreigenda til ákvörðunar og afhenda síðan bankaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af þessu tilefni. Skal bankaeftirlitið þegar afhenda ráðherra reikningsuppgjör skoðunarmanna og greinargerð bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar ásamt umsögn sinni.
     Þegar ráðherra hafa borist gögn skv. 3. mgr. er honum heimilt að veita hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði frest í allt að sex mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 55. gr. Séu til þess ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja þennan frest í allt að sex mánuði til viðbótar. Ráðherra er heimilt að stytta áður ákveðinn frest eða fella hann niður ef honum þykir sýnt að viðleitni viðskiptabankans eða sparisjóðsins til úrbóta muni ekki bera árangur.

69. gr.


    Bú viðskiptabanka eða sparisjóðs verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum.
     Slíta ber viðskiptabanka eða sparisjóði í eftirtöldum tilvikum:
    ef ráðherra synjar viðskiptabanka eða sparisjóði um frest að hætti 4. mgr. 68. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að stofnuninni hafi tekist að auka eigið fé fram yfir það lágmark sem kveðið er á um í 55. gr.,
    ef skylt er að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði samkvæmt samþykktum hlutaðeigandi stofnunar,
    ef hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda ákveður að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði.
     Í þeim tilvikum, sem getið er í 2. eða 3. tölul. 2. mgr., skal bankaeftirlitið samkvæmt beiðni ráðherra afla reikningsuppgjörs skoðunarmanna hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs á sama hátt og skv. 2. mgr. 68. gr. og afhenda það honum ásamt álitsgerð sinni um hvort eignir viðskiptabankans eða sparisjóðsins hrökkvi fyrir skuldum.
     Ákvörðun skv. 3. tölul. 2. mgr. er því aðeins gild að hún hljóti samþykki minnst 2 / 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2 / 3 hlutum þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundi stofnfjáreigenda.

70. gr.


    Þegar skylt er að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði skv. 1. tölul. 2. mgr. 69. gr. eða þegar fram kemur af álitsgerð bankaeftirlitsins, í tilvikum sem eiga undir 2. eða 3. tölul. sama ákvæðis, að óvíst sé að eignir viðskiptabanka eða sparisjóðs hrökkvi til greiðslu skulda stofnunarinnar skal ráðherra senda héraðsdómara á varnarþingi hlutaðeigandi stofnunar kröfu um að bú hennar verði tekið til gjaldþrotaskipta. Bann í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. við því að bú opinberrar stofnunar verði tekið til gjaldþrotaskipta er ekki því til fyrirstöðu að slíkt sé gert varðandi ríkisviðskiptabanka.
    Þegar skylt er að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði skv. 2. eða 3. tölul. 2. mgr. 69. gr. og bankaeftirlitið telur sýnt að eignir hlutaðeigandi stofnunar hrökkvi fyrir skuldum skal ráðherra senda héraðsdómara á varnarþingi stofnunarinnar kröfu um að bú hennar verði tekið til skipta til slita á viðskiptabankanum eða sparisjóðnum.
     Þegar héraðsdómari hefur kannað hvort fullnægt sé skilyrðum 69. gr. fyrir kröfunni skal hann kveða upp úrskurð um hvort orðið skuli við henni.
     Í innköllun í bú viðskiptabanka eða sparisjóðs skal tekið fram hvort það hafi verið tekið til skipta að hætti 1. eða 2. mgr.

71. gr.


    Leiði ekki annað af ákvæðum þessara laga skulu um skipti á búi viðskiptabanka eða sparisjóðs gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem átt getur við að því undanteknu að ákvæði þeirra um riftun ráðstafana gilda ekki um skipti sem komin eru til skv. 2. mgr. 70. gr.
     Þegar ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. miða réttaráhrif við frestdag skal jafngilda þeim degi við skipti á búi viðskiptabanka eða sparisjóðs sá dagur sem ráðherra hefur veitt frest að hætti 4. mgr. 68. gr. en sé slíkur frestur ekki undanfari skipta skal miðað við þann dag sem héraðsdómara berst krafa ráðherra skv. 1. eða 2. mgr. 70. gr.
    Þegar allar skuldir sparisjóðs hafa verið greiddar skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna sjóðsins. Þeim eignum, sem þá kunna að vera eftir, skal ráðstafað í samræmi við ákvæði samþykkta sparisjóðsins. Þó er ekki heimilt að ráðstafa eftirstöðvum eigna til stofnfjáreigenda, sbr. 4. mgr. 18. gr.

72. gr.


    Þegar skipt er búi ríkisviðskiptabanka skal ráðherra njóta sömu heimilda til að sækja skiptafundi og til að halda þar uppi mótmælum eða gera kröfur og lánardrottinn sem fer með viðurkennda kröfu í búið.

IX. KAFLI


Samruni.


73. gr.


    Samruni viðskiptabanka eða sparisjóða er því aðeins heimill að ákvörðum þar að lútandi hafi hlotið samþykki minnst 2 / 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda viðkomandi stofnana sem ráða yfir minnst 2 / 3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum eða fundum stofnfjáreigenda að fengnu samþykki ráðherra og umsögn bankaeftirlitsins. Um samruna hlutafélagsbanka gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt og samningar hlutaðeigandi aðila.
     Við samruna viðskiptabanka eða sparisjóða við einstaka rekstrarhluta annarra stofnana skal fara að hætti 1. mgr.
     Við samruna skv. 1. og 2. mgr. tekur hin sameinaða stofnun við allri starfsemi, réttindum og skyldum hlutaðeigandi stofnana.
     Viðskiptabanka eða sparisjóði, sem er slitið vegna samruna skv. 1. mgr., er ekki skylt að gefa út innköllun til lánardrottna eða halda eignum sínum aðgreindum. Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum vegna samruna viðskiptabanka eða sparisjóða er undanþegin stimpilgjöldum.
     Auglýsa skal samruna viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi í Lögbirtingablaði. Í auglýsingu skal tilgreina hvenær samruni tekur gildi, nöfn hlutaðeigandi stofnana, frest til að gera athugasemdir við yfirfærslu innlánsreikninga, hugsanlegar breytingar á greiðslustöðum skuldaskjala og annað sem kunngera þarf viðskiptamönnum sérstaklega.

74. gr.


    Við samruna tveggja eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða skal eigið fé, sem verður til við samruna, ekki vera lægra en samanlagt eigið fé hlutaðeigandi stofnana á þeim tíma sem samruni átti sér stað, enda hafi lágmarki skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr. ekki verið náð.

75. gr.


    Samruni ríkisviðskiptabanka við annan viðskiptabanka eða sparisjóð er aðeins heimill að fengnu leyfi ráðherra. Að öðru leyti gilda ákvæði 73. gr. um slíkan samruna eftir því sem við getur átt.

X. KAFLI


Tryggingarsjóðir viðskiptabanka og sparisjóða.


A. Viðskiptabankar.


76. gr.


    Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag og hefur það markmið að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að skv. 1. mgr. 70. gr. Stefnt skal að því að heildareign Tryggingarsjóðs nái a.m.k. 1% af heildarinnlánum bankanna á innlánsreikningum. Í þessu skyni skal hver banki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til Tryggingarsjóðs er nemi allt að 0,15% af heildarinnlánum bankans um næstu áramót á undan samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
     Yfirstjórn Tryggingarsjóðs er í höndum viðskiptaráðherra og skal hann setja nánari ákvæði um sjóðinn í reglugerð, svo sem um skipan stjórnar og verksvið hennar, ávöxtun á fé sjóðsins og tilhögun greiðslna úr honum er tryggi eigendum innlánsfjár sem skjótasta endurgreiðslu innlána þegar úrskurður um töku bús banka til skipta er genginn.

B. Sparisjóðir.


77. gr.


    Tryggingarsjóður sparisjóða er sjálfseignarstofnun sem allir sparisjóðir skulu vera aðilar að.
     Meginhlutverk Tryggingarsjóðs er að tryggja fjárhagslegt öryggi sparisjóða og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu eða slit sparisjóðs, sbr. IX. og X. kafla laga þessara. Stjórn Tryggingarsjóðs getur eftir atvikum ákveðið að tryggja skil á öðrum skuldbindingum sparisjóðs. Í þessu skyni er stjórn Tryggingarsjóðs heimilt:
    að veita sparisjóði lán eða yfirtaka vissar eignir sparisjóðs,
    að ganga í ábyrgð fyrir sparisjóð,
    að bæta sérstakt tap og kostnað sem sparisjóður verður fyrir og
    að veita sparisjóðum stuðning að öðru leyti á hvern þann hátt sem stjórn Tryggingarsjóðs ákveður í samræmi við lög þessi og samþykktir sjóðsins.
     Stjórn Tryggingarsjóðs getur sett tiltekin skilyrði fyrir aðstoð sem sparisjóði er veitt samkvæmt heimildarákvæðum þessum.

78. gr.


    Hver sparisjóður skal eigi síðar en 1. mars ár hvert greiða framlag til Tryggingarsjóðs er nemi allt að 0,15% af heildarinnlánsfé sparisjóðsins um næstu áramót á undan. Aðalfundur ákveður hlutfallið en það skal vera hið sama fyrir alla sparisjóðina. Stefnt skal að því að heildareign Tryggingarsjóðs nái a.m.k. 1% af heildarinnlánsfé sparisjóðanna á innlánsreikningum. Þegar því hlutfalli er náð og ábyrgðir skv. 2. mgr. eru fallnar niður er aðal- eða aukafundi heimilt að ákveða að greiðslum til Tryggingarsjóðs verði hætt. Verði ráðstöfunarfé minna en 1% af heildarinnlánsfé sparisjóðanna skulu greiðslur teknar upp að nýju samkvæmt nánari ákvörðun aðal- eða aukafundar.
     Þar til heildareign Tryggingarsjóðs hefur náð lágmarki skv. 2. mgr. 77. gr. skal hver sparisjóður ganga í ábyrgð fyrir Tryggingarsjóð með upphæð er nema skal 0,4% af heildarinnlánsfé sjóðsins á hverjum tíma. Þessi ábyrgð lækkar hlutfallslega eftir að eigið fé Tryggingarsjóðs hefur náð 0,6% af heildarinnlánsfé sparisjóðanna. Sparisjóðirnir skulu leggja fram formlegar tryggingar fyrir ábyrgð sinni eftir nánari ákvörðun stjórnar Tryggingarsjóðs.

79. gr.


    Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Tryggingarsjóðs.
     Hver sparisjóður fer á aðalfundi með atkvæðisrétt í samræmi við hlutfall innborgaðs ársframlags hans af heildarársframlögum í sjóðinn síðasta reikningsár fyrir aðalfund. Enginn sparisjóður má þó fara með meira en 1 / 10 hluta heildaratkvæðamagns í Tryggingarsjóðnum.
     Aðalfundur staðfestir ársreikning sjóðsins.
     Um boðun og lögmæti aðalfundar fer skv. 1. mgr. 33. gr. laga þessara.

80. gr.


     Stjórn Tryggingarsjóðs fer með málefni hans milli aðalfunda. Stjórnin skal skipuð fimm mönnum. Fjórir stjórnarmenn ásamt jafnmörgum varamönnum skulu kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, hlutbundinni kosningu ef óskað er. Forstöðumaður bankaeftirlitsins eða varamaður hans á fast sæti í stjórn Tryggingarsjóðs. Stjórn Tryggingarsjóðs kýs sér formann og skiptir með sér verkum.

81. gr.


    Stjórn Tryggingarsjóðs hefur heimild til að rannsaka eða láta rannsaka rekstur og efnahag sparisjóðs, þar með talin framkvæmd endurskoðunar. Getur stjórnin í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá sparisjóði.
     Stjórn og starfsmenn Tryggingarsjóðs eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði 43. gr.

82. gr.


    Aðalfundur setur Tryggingarsjóði samþykktir sem háðar skulu staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn bankaeftirlitsins.

83. gr.


    Tryggingarsjóður sparisjóða er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt og greiðslu aðstöðugjalds samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

XI. KAFLI


Um starfsemi erlendra viðskiptabanka og sparisjóða hér á landi.


84. gr.


    Erlendir viðskiptabankar og sparisjóðir, sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og hlotið hafa starfsleyfi lögbærra yfirvalda í því ríki, geta stofnsett útibú hér á landi tveimur mánuðum eftir að bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þess efnis frá eftirlitsaðilum í heimaríkinu. Útibúinu er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem lög þessi taka til, enda sé hlutaðeigandi stofnun heimiluð slík þjónusta í heimaríki hennar.
     Bankaeftirlitið skal krefja eftirlitsaðila í heimaríki erlends viðskiptabanka eða sparisjóðs um eftirfarandi upplýsingar:
    lýsingu á starfsemi útibúsins, skipulag og fyrirhugaða starfsemi þess hér á landi,
    staðfestingu á að fyrirhuguð starfsemi sé heimiluð í heimaríkinu,
    heimilisfang útibúsins,
    nöfn stjórnenda útibúsins,
     upphæð eigin fjár og eiginfjárhlutfall viðskiptabankans eða sparisjóðsins og
    upplýsingar um tryggingar í heimaríkinu á innlánum í útibúinu sé um þær að ræða.
     Verði breytingar á áður tilkynntum upplýsingum skv. 1.–4. og 6. tölul. í 2. mgr. skal hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður tilkynna þær bankaeftirlitinu eigi síðar en einum mánuði áður en breytingarnar koma til framkvæmda.
     Ákvæði laga um hlutafélög varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.
     Viðskiptabanki og sparisjóður skv. 1. mgr. geta notað sama heiti og notað er í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar. Sé hætta á að villst verði á nöfnum erlendra og innlendra viðskiptabanka eða sparisjóða sem starfa hér á landi getur bankaeftirlitið farið fram á að nöfn hinna fyrrnefndu verði auðkennd sérstaklega.

85. gr.


    Erlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum, sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og hafa hlotið starfsleyfi lögbærra yfirvalda í því ríki, er heimilt að veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús þegar bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá lögbærum eftirlitsaðilum í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar. Framangreindum stofnunum er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem lög þessi taka til samkvæmt viðauka með lögum þessum, enda hafi eftirlitsaðilar í heimaríki þeirra staðfest að starfsleyfið taki til slíkrar þjónustu.

86. gr.


    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um þá starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða sem um getur í 1. mgr. 84. gr.
     Um heimildir erlendra viðskiptabanka og sparisjóða, annarra en um ræðir í 1. mgr. 84. gr., til starfsemi hér á landi fer eftir reglum sem viðskiptaráðherra setur að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.

XII. KAFLI


Um starfsemi innlendra viðskiptabanka og sparisjóða erlendis.


87. gr.


    Viðskiptabankar og sparisjóðir, sem hlotið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra skv. 4. gr. og óska eftir að starfrækja útibú í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, skulu tilkynna það bankaeftirlitinu ásamt eftirfarandi upplýsingum:
    í hvaða ríki fyrirhugað sé að stofna útibú,
    lýsingu á starfsemi útibúsins, skipulagi og fyrirhugaðri starfsemi,
    heimilisfangi útibúsins og
    nöfnum stjórnenda þess.
     Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að bankaeftirlitið hefur móttekið upplýsingar skv. 1. mgr. skal það senda þær til eftirlitsaðila í gistiríkinu ásamt upplýsingum um eigið fé hlutaðeigandi stofnunar, gjaldfærni og tryggingar innlána. Tilkynning hér að lútandi skal einnig send viðkomandi stofnun. Bankaeftirlitið skal samtímis einnig senda hlutaðeigandi eftirlitsaðilum staðfestingu þess efnis að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi viðskiptabankans eða sparisjóðsins.
     Bankaeftirlitið getur hafnað beiðni um að senda upplýsingar skv. 2. mgr. telji það ástæðu til að efast um að stjórnunarleg uppbygging og fjárhagsstaða hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs sé nægilega traust til að réttlæta stofnun útibús skv. 1. mgr. Tilkynna skal hlutaðeigandi stofnun svo fljótt sem auðið er um afstöðu bankaeftirlitsins og eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku upplýsinga skv. 1. mgr.
     Viðskiptabankar og sparisjóðir skulu tilkynna bankaeftirlitinu og lögbærum eftirlitsaðila í því ríki þar sem þeir starfrækja útibú um hverjar þær breytingar sem kunna að verða á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. eigi síðar en einum mánuði áður en fyrirhugaðar breytingar koma til framkvæmda.

88. gr.


    Óski viðskiptabanki eða sparisjóður að veita þjónustu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, án þess að stofna þar útibú, skal tilkynna það bankaeftirlitinu. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki eigi í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
     Eigi síðar en einum mánuði frá því að bankaeftirlitið hefur móttekið tilkynningu skv. 1. mgr. framsendir það þessar upplýsingar til lögbærra eftirlitsaðila í viðkomandi ríki ásamt staðfestingu á því að starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs heimili fyrirhugaða starfsemi.

89. gr.


    Hyggist viðskiptabanki eða sparisjóður hefja starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt bankaeftirlitinu fyrir fram ásamt lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og öðrum upplýsingum sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.

XIII. KAFLI


Afturköllun starfsleyfa.


90. gr.


    Ráðherra getur afturkallað starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóða að fengnum tillögum bankaeftirlitsins:
    uppfylli hlutaðeigandi stofnanir ekki ákvæði 6. gr. um stofnfé, 7. gr. um eigið fé eða 1. mgr. 15. gr. um fjölda stofnfjáreigenda eftir því sem við á,
    hefji hlutaðeigandi stofnun ekki starfsemi innan þeirra tímamarka sem ráðherra ákveður skv. 1. mgr. 4. gr.,
    brjóti hlutaðeigandi stofnun með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim eða
    séu aðstæður með þeim hætti sem greinir í 4. mgr. 10. gr. um hæfi hluthafa eða 38. gr. um hæfi bankaráðsmanna eða stjórnarmanna sparisjóðs og stjórnenda viðkomandi stofnana.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal hlutaðeigandi stofnun veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.

91. gr.


    Uppfylli viðskiptabanki eða sparisjóður ekki skilyrði 55. gr. um eigið fé skal ráðherra afturkalla starfsleyfi hlutaðeigandi stofnunar að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, enda hafi eigið fé ekki verið fært í lögmælt horf innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 4. mgr. 68. gr.

92. gr.


    Afturköllun á starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs skal tilkynnt bankaráði eða sparisjóðsstjórn og rökstudd skriflega. Tilkynning um afturköllun skal birt í Lögbirtingablaði og auglýst í fjölmiðlum. Starfræki hlutaðeigandi stofnun útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki um afturköllunina.
     Komi til afturköllunar á starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs skal hlutaðeigandi stofnun slitið.

XIV. KAFLI


Eftirlit.


93. gr.


    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með að starfsemi þeirra fyrirtækja og stofnana, sem lög þessi taka til, sé í samræmi við ákvæði laga, reglur settar samkvæmt þeim og samþykktir hlutaðeigandi stofnana. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.
     Bankaeftirlitið skal rannsaka fjárhag viðskiptabanka og sparisjóða sem skulu veita allar þær upplýsingar sem eftirlitið telur nauðsynlegar. Í þeim mæli, sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegt til að meta fjárhagsstöðu viðskiptabanka eða sparisjóðs, hefur það rétt til að afla upplýsinga og framkvæma vettvangsathugun hjá tengdum fyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum.

94. gr.


    Eftirlitsaðilum í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra stofnana hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til bankaeftirlitsins.

95. gr.


    Bankaeftirlitinu er heimilt að banna erlendum viðskiptabanka eða sparisjóði með aðalstöðvar í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins að stunda starfsemi hér á landi hafi hlutaðeigandi stofnun brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða samþykktum og reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármála- og lánastofnanir, enda hafi ekki tekist að binda enda á framangreind brot samkvæmt tilmælum eða viðurlögum þessara laga.
     Málsmeðferð skv. 1. mgr. fer að ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eftir því sem við á.

96. gr.


    Bankaeftirlitið skal halda skrá yfir starfandi viðskiptabanka og sparisjóði og útibú þeirra. Í skránni skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar um hlutaðeigandi stofnun. Allar breytingar á áður skráðum upplýsingum, þar á meðal fjölgun eða fækkun útibúa, skulu tilkynntar bankaeftirlitinu fyrir fram.

XV. KAFLI


Ýmis ákvæði.


97. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

98. gr.


    Ráðherra getur falið bankaeftirlitinu veitingu og afturköllun starfsleyfa samkvæmt lögum þessum, svo og setningu reglna sem ráðherra er falið að setja samkvæmt lögunum.

99. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 15. gr. um fjölda stofnfjáreigenda í sparisjóði og 2. mgr. 35. gr. um tilhögun atkvæðisréttar í sparisjóði taka hvorki til þeirra sparisjóða þar sem sveitarfélög og héraðsnefndir eru ein stofnfjáreigenda við gildistöku laga þessara né til samruna þeirra, sbr. 72. gr. Sé héraðsnefnd ein stofnfjáreigandi takmarkast atkvæðisréttur hvers aðila við 1 / 5 hluta af atkvæðamagni í sparisjóði.

100. gr.


    Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum greiðist af hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði.

101. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. er heimilt að leggja hömlur á viðskipti með hluti í banka sem stofnaður er af sparisjóðunum og ætlað er m.a. að taka við hlutverki Lánastofnunar sparisjóðanna, sbr. ákvæði til bráðabirgða III.

XVI. KAFLI


Viðurlög.


102. gr.


    Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.

XVII. KAFLI


Gildistaka o.fl.


103. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar. Jafnframt falla þá úr gildi eftirtalin lög:
    lög nr. 86 frá 1985, um viðskiptabanka, með síðari breytingum,
    lög nr. 87 frá 1985, um sparisjóði, með síðari breytingum,
    lög nr. 1 frá 1900, um stofnun veðdeildar Landsbanka Íslands,
    lög nr. 34 frá 1979, um veðdeild Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum,
    lög nr. 30 frá 1902, viðaukalög við lög nr. 1 frá 1900,
    lög nr. 60 frá 1928, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka (seríur) bankavaxtabréfa,
    lög nr. 122 frá 1935, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa,
    lög nr. 94 frá 1941, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa,
    lög nr. 55 frá 1945, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa, og
    lög nr. 73 frá 1965, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


     Ákvæði laga þessara, sem fjalla um stofnfjáreigendur í sparisjóði, taka einnig til ábyrgðaraðila eftir því sem við getur átt þar til fullnægt hefur verið ákvæðum 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar.
     Í starfandi sparisjóði, þar sem stofnfé hefur ekki verið lagt fram heldur einungis ábyrgðir, skal aðalfundur innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara ákveða að í stað ábyrgða komi stofnfé.
     Leggi ábyrgðarmaður ekki fram stofnfé samkvæmt ákvæðum þessarar greinar fellur hann úr aðilahópi.
     Stofnfé, sem innborgað er skv. 1. mgr., má ekki nema lægri fjárhæð en samanlagðri upphæð ábyrgða í sparisjóði. Ábyrgðaraðilar eiga rétt til stofnfjárins í hlutfalli við ábyrgðarfjárhæð sína.
     Inneign stofnfjáreigenda í séreignarsjóði stofnfjáreigenda í sparisjóði skal við gildistöku laga þessara færa til aukningar á stofnfé viðkomandi stofnfjáreiganda og skal hlutverki séreignarsjóðs þar með vera lokið.

II.


     Fyrri Tryggingarsjóður sparisjóða, sbr. lög nr. 69/1941, skal að fengnu samþykki hlutaðeigandi sparisjóðs lagður til Tryggingarsjóðs sem aukaárgjald að lokinni jöfnun framlaga miðað við heildarinnlánsfé sparisjóðs í árslok 1992. Miðað skal við að eftir jöfnun nemi aukaframlagið bókuðum inneignum fyrri Tryggingarsjóðs 31. desember 1992.

III.


     Heimilt er að starfrækja Lánastofnun sparisjóðanna hf. í allt að sex mánuði frá gildistöku laga þessara. Um starfsemi hennar á þeim tíma gilda eftirfarandi ákvæði:
    Lánastofnun sparisjóðanna hf. er hlutafélag að fullu í eigu sparisjóðanna og gilda um hana ákvæði laga um hlutafélög nema annað sé boðið í lögum þessum.
    Lánastofnun sparisjóðanna hf. greiðir skatta og önnur gjöld samkvæmt sömu ákvæðum og gilda um innlánsstofnanir.
    Meginhlutverk Lánastofnunar sparisjóðanna hf. er að annast starfsemi í þágu sameiginlegra hagsmuna sparisjóðanna. Í því skyni er stofnuninni heimilt að stunda starfsemi skv. V. kafla laga þessara. Stofnuninni er þó óheimilt að eiga innlánsviðskipti við almenning.
    Lánastofnun sparisjóðanna hf. tekur við innlánum frá sparisjóðum, Tryggingarsjóði sparisjóða og fyrirtækjum í eigu sparisjóðanna. Einnig aflar stofnunin sér starfsfjár með öðrum þeim hætti sem stjórn hennar ákveður og samrýmist fyrirmælum laga þessara.
    Sala eða annað framsal hluta í Lánastofnun sparisjóðanna hf. er óheimilt nema til annars sparisjóðs. Veðsetning hluta er óheimil. Stjórn Lánastofnunar sparisjóðanna hf. er skylt að innleysa hlutafé sparisjóðs í eftirgreindum tilvikum:
         
    
    við slit sparisjóðs skv. VIII. kafla laga þessara eða samruna hans við annars konar innlánsstofnun,
         
    
    við fjárnám skuldheimtumanna sparisjóðs í hlut hans í stofnuninni.
     Innlausnarverð hlutar skal miðast við reiknað verðgildi hlutarins samkvæmt síðasta ársreikningi að teknu tilliti til skattskuldbindinga sem kunna að hvíla á stofnuninni.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Viðskiptaráðherra skipaði vinnuhóp 18. nóvember 1991 sem falið var það verkefni að „semja nauðsynleg lagafrumvörp og drög að reglugerðum vegna aðlögunar á íslenskum rétti á sviði lánastofnana og verðbréfaviðskipta að ákvæðum í samningi um Evrópskt efnahagssvæði“. Í vinnuhópinn voru skipaðir Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, formaður, Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri, viðskiptaráðuneyti, Tryggvi Axelsson deildarstjóri, viðskiptaráðuneyti, Sveinbjörn Hafliðason forstöðumaður, Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, og Ólafur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra viðskiptabanka. Þá tók Sigurður Hafstein, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, einnig sæti í vinnuhópnum. Starfsmaður og ritari vinnuhópsins var Jóhann H. Albertsson, deildarstjóri í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands. Tryggvi Axelsson lét af störfum í vinnuhópnum um miðjan apríl 1992 og tók Páll Ásgrímsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneyti, sæti hans. Þá tók Einar Baldvin Stefánsson lögfræðingur þátt í starfi vinnuhópsins við samningu þessa frumvarps.

1.    Löggjöf um viðskiptabanka og sparisjóði.
    
Löggjöf um viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi á sér langa sögu hér á landi og hefur tekið miklum breytingum í tímans rás. Allt til ársins 1985 giltu sérstök lög fyrir hvern einstakan viðskiptabanka sem fólu hverjum banka um sig að sinna að verulegu leyti tilteknum atvinnugreinum, atvinnurekstri eða hagsmunahópum. Með núgildandi lögum, nr. 86/1985, um viðskiptabanka, varð grundvallarbreyting á löggjöf um starfsemi þessara stofnana og með þeim var sett fyrsta almenna löggjöfin um viðskiptabankastarfsemi hér á landi.
     Að því er varðar sparisjóði hafa einnig gilt sérstök lög um starfsemi þeirra og má rekja þá löggjöf allt til ársins 1915. Núgildandi lög um sparisjóði eru nr. 87/1985 og fólst í þeim víðtæk breyting frá fyrri lögum.
     Frumvarp þetta er meginfrumvarp á sviði lánastofnana sem vinnuhópurinn samdi í samræmi við efni skipunarbréfs. Samhliða því er lagt fram frumvarp til laga um aðrar lánastofnanir. Eftir því sem unnt var voru frumvörpin kynnt hagsmunaðilum, auk þess sem rætt var við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði. Ýmsar ábendingar komu fram og hefur verið tekið tillit til þeirra eftir því sem ástæða þótti til.

2.    Meginefni frumvarpsins.
    
Eins og frumvarpið ber með sér er lagt til að horfið verði frá því að hafa aðskilda löggjöf um viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi en setja í þess stað sameiginlega löggjöf um starfsemi þessara stofnana. Á starfsheimildum þessara stofnana er enginn munur en tekið er tillit til mismunandi stjórnunarlegrar uppbyggingar og eignaraðildar að þeim í frumvarpi þessu. Helstu tilskipanir Evrópubandalagsins á sviði lánastofnana, sem höfð var hliðsjón af við samningu frumvarpsins, eru þessar:
     Tilskipun 77/1980/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um stofnun og rekstur lánastofnana.
     Tilskpun 89/646/EBE um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um stofnun og rekstur lánastofnana og um breytingu á tilskipun nr. 77/1980/EB.
     Tilskipun 83/350/EBE um eftirlit með lánastofnunum á samstæðugrundvelli.
     Tilskipun 89/299/EBE um eigið fé lánastofnana.
     Tilskipun 89/647/EBE um eiginfjárhlutfall lánastofnana.
     Tilskipun 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana.
     Tilskipun 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð.
     Tilskipun 83/349/EBE um samstæðureikninga.
    Að öðru leyti var stuðst við núgildandi löggjöf um viðskiptabanka og sparisjóði en auk þess höfð hliðsjón af löggjöf nágrannalandanna, einkum Danmerkur. Dönsk löggjöf hefur þegar verið löguð að tilskipunum Evrópubandalagsins vegna aðildar Dana að bandalaginu.
     Kaflaskipting frumvarpsins er eftirfarandi auk ákvæðis til bráðabirgða:
   I. kafli:          Almenn ákvæði.
  II. kafli:          Stofnun, starfsleyfi o.fl.
 III. kafli:          Synjun umsókna um starfsleyfi.
  IV. kafli:     Stjórn.
   V. kafli:     Starfsemi.
  VI. kafli:     Um laust fé og eigið fé.
 VII. kafli:     Ársreikningur, endurskoðun og samstæðureikningsskil.
VIII. kafli:     Slit viðskiptabanka eða sparisjóða.
  IX. kafli:     Samruni.
   X. kafli:     Tryggingarsjóðir viðskiptabanka og sparisjóða.
  XI. kafli:     Um starfsemi erlendra viðskiptabanka og sparisjóða hér á landi.
 XII. kafli:     Um starfsemi innlendra viðskiptabanka og sparisjóða erlendis.
XIII. kafli:     Afturköllun starfsleyfa.
 XIV. kafli:  Eftirlit.
  XV. kafli:  Ýmis ákvæði.
 XVI. kafli:  Viðurlög.
XVII. kafli:  Gildistaka o.fl.
    Enda þótt að verulegu leyti hafi verið stuðst við gildandi lög um viðskiptabanka og lög um sparisjóði felur frumvarp þetta í sér allnokkrar breytingar frá þeim lögum. Flestar breytingarnar má rekja til tilskipana Evrópubandalagsins á þessu sviði en einnig voru gerðar ýmsar breytingar sem taldar voru heppilegar að fenginni reynslu af framkvæmd gildandi laga, svo og vegna sameiningar laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Þannig eru ákvæði II. kafla um stofnun og starfsleyfi ítarlegri en samkvæmt gildandi lögum og sama er að segja um synjun umsókna, sbr. III. kafla frumvarpsins sem er nýmæli, sem og ákvæði XIII. kafla um afturköllun starfsleyfa. Í IV. kafla er að finna sameiginleg ákvæði varðandi viðskiptabanka og sparisjóði. Þar er m.a. kveðið sérstaklega á um hæfi bankastjóra og nánari ákvæði eru um verkefni bankaráða eða stjórna sparisjóða. Með V. kafla eru gerðar verulegar breytingar frá gildandi lögum að því er varðar starfsemi sem viðskiptabönkum eða sparisjóðum er heimilt að stunda. Ákvæði VI. og VII. kafla um laust fé og eigið fé og ársreikninga, endurskoðun og samstæðureikningsskil eru mun ítarlegri en samkvæmt núgildandi löggjöf. Þá má nefna ákvæði IX. kafla um samruna og XI. og XII. kafla um starfsemi erlendra viðskiptabanka og sparisjóða hér á landi og innlendra viðskiptabanka og sparisjóða erlendis. Loks er lagt til í frumvarpinu að ákvæði gildandi laga um sparisjóði, sem lúta að Lánastofnun sparisjóðanna hf., verði felld brott og í stað Lánastofnunar verði stofnaður sérstakur banki sparisjóðanna sem hafi fullar heimildir sem viðskiptabanki og falli að öðru leyti undir ákvæði frumvarpsins. Í framangreindum köflum frumvarpsins felast meginbreytingar þess frá gildandi lögum, auk annarra breytinga sem leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og varða viðskiptabanka og sparisjóði. Nánar verður vikið að breytingum, sem frumvarp þetta hefur í för með sér, í umfjöllun um einstaka kafla og einstök ákvæði frumvarpsins.
    Samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði er heimilt að veita viðskiptabönkum og sparisjóðum aðlögunarfrest að frumvarpinu til 1. janúar 1995. Ákveðið var að nýta ekki þessa heimild með tilliti til hagsmuna þessara stofnana sem ekki hefðu fengið aðgang að sameiginlegum markaði EES-ríkjanna fyrr en að aðlögun lokinni.
     Frumvarpið tekur til viðskiptabanka, sparisjóða, Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, Tryggingarsjóðs sparisjóða og Lánastofnunar sparisjóðanna hf. Nú eru starfandi tveir ríkisviðskiptabankar, Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands, og einn hlutafélagsbanki, Íslandsbanki hf. Starfandi sparisjóðir eru 33.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


     Í I. kafla eru sett fram almenn ákvæði um gildissvið frumvarpsins, stjórnarfarslega stöðu viðskiptabanka og sparisjóða og starfsemi þeirra. Ákvæði kaflans eru í flestu efnislega sams konar og í samsvarandi kafla í núgildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Vegna sameiningar löggjafar um þessar stofnanir reyndist þó nauðsynlegt að færa einstök ákvæði samsvarandi kafla núgildandi laga til innan lagatextans.

Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um viðskiptabanka að öðru leyti en því að sparisjóða er sérstaklega getið.
     Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við 14. gr. laga um viðskiptabanka að því er varðar hlutafélagsbanka og 1. mgr. 17. gr. laga um sparisjóði og á eðli málsins samkvæmt við um ríkisviðskiptabanka. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 2. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er efnislega óbreytt frá 1. mgr. 4. gr. laga um viðskiptabanka og 2. mgr. 1. gr. laga um sparisjóði enda þótt orðalagi sé breytt lítillega. Í athugasemdum við frumvörp að gildandi lögum er tekið fram að meginstefna þeirra sé að þessar stofnanir reki aðeins viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi. Á þessari meginstefnu er einnig byggt í þessu frumvarpi enda þótt hugtakið viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi sé rýmkað nokkuð frá gildandi lögum, sbr. V. kafla.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er mælt fyrir um skyldu viðskiptabanka eða sparisjóða til að nota í firma sínu, eða til nánari skýringar á starfsemi sinni, orðin „banki“ eða „sparisjóður“ eftir því sem við á nema lög ákveði annað. Að þessu leyti er ákvæðið efnislega óbreytt frá 2. mgr. 4. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 3. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Ákvæði 2. mgr. á sér fyrirmynd í dönskum lögum á þessu sviði og þarfnast ekki skýringa.

Um II. kafla.


     Í þessum kafla er sérstaklega fjallað um stofnun viðskiptabanka og sparisjóða, starfsleyfi og fleiri atriði sem ýmist eiga bæði við um ríkisviðskiptabanka, hlutafélagsbanka og sparisjóði eða einungis um viðkomandi stofnanir hverja um sig. Ákvæði kaflans eru nokkuð breytt frá gildandi lögum um þessar stofnanir og fela í sér nokkur nýmæli.

Um 4. gr.


    Ákvæði 1. mgr. gerir ráð fyrir að starfsleyfi viðskiptaráðherra þurfi til að hefja starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóða. Með ákvæðinu verður áherslubreyting hvað varðar sparisjóði en samkvæmt núgildandi lögum um þá er stofnun þeirra háð leyfi ráðherra en í frumvarpinu er miðað við upphaf starfsemi þeirra. Að því er varðar hlutafélagsbanka er sérstaklega tekið fram í ákvæðinu að skráning þeirra í hlutafélagaskrá veiti ekki sjálfkrafa rétt til að hlutaðeigandi viðskiptabanki hefji starfsemi en slíkt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum um viðskiptabanka. Þá er einnig gert ráð fyrir að ráðherra geti bundið leyfisveitingu því skilyrði að starfsleyfi falli niður án frekari aðgerða hefjist starfsemi hlutaðeigandi stofnunar ekki innan tiltekins frests sem tiltekinn er í starfsleyfi. Samsvarandi ákvæði er að finna í 3. mgr. 4. gr. gildandi laga um sparisjóði en hins vegar ekki í lögum um viðskiptabanka. Þykir rétt að gæta samræmis að þessu leyti.
     Í 2. mgr. er kveðið nánar á um með hvaða hætti umsókn skuli komið á framfæri og hvaða gögn skuli fylgja henni. Meðal annars skulu samþykktir hlutafélagsbanka og sparisjóða fylgja umsókn. Á þessu stigi er gert ráð fyrir að gengið sé úr skugga um að samþykktirnar fullnægi skilyrðum laga. Hins vegar er fallið frá þeirri skipan núgildandi laga að samþykktirnar hljóti formlega staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn bankaeftirlitsins eða bankaeftirlitsins og Tryggingarsjóðs sparisjóða, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um viðskiptabanka og 1. mgr. 7. gr. laga um sparisjóði. Jafnframt er fallið frá því að breytingar á samþykktum hlutaðeigandi stofnana þurfi að staðfesta að undangenginni umsögn bankaeftirlitsins. Það er eðlilegur hluti reglubundins eftirlits að kanna hvort samþykktir séu í samræmi við lög og reglur hverju sinni.
     Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra skuli leita umsagnar bankaeftirlitsins áður en hann afgreiðir umsókn um starfsleyfi. Það er nýmæli að því er varðar viðskiptabanka en hins vegar breyting frá gildandi lögum um sparisjóði sem mæla fyrir um umsögn bankaeftirlitsins og einnig stjórnar Tryggingarsjóðs sparisjóða, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um sparisjóði. Umsögn bankaeftirlitsins þykir hins vegar nægja í þessum tilvikum og því er Tryggingarsjóðs sparisjóða ekki getið hér.
     Ákvæði 4. mgr. er nýmæli. Eðlilegt þykir að veiting leyfa til að stunda starfsemi, sem nýtur lögverndaðs einkaréttar, sé tilkynnt almenningi með þeim formlega hætti sem hér er lagt til.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um hverjir geti verið stofnendur viðskiptabanka eða sparisjóða. Ákvæðið er nokkuð breytt frá gildandi lögum. Breytingin er einkum veruleg að því er varðar sparisjóði. Samkvæmt núgildandi lögum geta einungis einstaklingar, sem eru íslenskir ríkisborgarar, sveitarfélög og starfandi sparisjóðir, verið stofnendur sparisjóðs. Til viðbótar því að felld eru brott skilyrði um ríkisfang eru einnig felldar brott takmarkanir á því hvaða lögaðilar geti verið stofnendur sparisjóðs.
     Ákvæðið á við um hlutafélagsbanka og sparisjóði. Að því er varðar hlutafélagsbanka er kveðið á um það í 9. gr. frumvarpsins að ákvæði laga um hlutafélög eigi við um þá eftir því sem við getur átt. Með lögaðilum er í ákvæðinu átt við þá lögaðila sem getið er í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 32/1978, með síðari breytingum. Eðlilegt er að sama eigi við um lögaðila sem stofnendur sparisjóða. Sama á við um einstaklinga sem geta verið stofnendur viðskiptabanka eða sparisjóða og skulu þeir vera lögráða. Meginregla 1. mgr. um búsetu stofnenda viðskiptabanka eða sparisjóðs hér á landi er í samræmi við ákvæði gildandi laga.
     Með 2. mgr. er ríkisborgurum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins veitt undanþága frá meginreglu 1. mgr. um búsetu hér á landi. Ákvæði þetta leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þá er viðskiptaráðherra heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

Um 6. gr.


    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um lágmark stofnhlutafjár hlutafélagsbanka eða stofnfjár sparisjóða. Ekki var talin nauðsyn á að ákvæðið taki til ríkisviðskiptabanka með tilliti til 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við tilskipanir Evrópubandalagsins á þessu sviði og í því felast verulega auknar kröfur að þessu leyti frá því sem er samkvæmt gildandi lögum. Samsvarandi ákvæði er einnig að finna í dönskum lögum á þessu sviði. Ákvæðið á einungis við um nýja viðskiptabanka eða sparisjóði.
     Samkvæmt 1. mgr. skal meginreglan vera sú að lágmark stofnhlutafjár viðskiptabanka eða stofnfjár sparisjóða sé 400 milljónir króna og skal hlutafé eða stofnfé aldrei verða lægra. Svarar þessi fjárhæð til 5 milljóna ECU en það lágmark er sett samkvæmt tilskipunum Evrópubandalagsins. Lágmark samkvæmt núgildandi lögum er 100 milljónir króna fyrir viðskiptabanka en 3 milljónir króna fyrir sparisjóði. Þá gerir 1. mgr. ráð fyrir því að þessar lágmarksfjárhæðir verði bundnar við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við kaupgengi hennar á útgáfudegi laganna. Í gildandi viðskiptabankalögum er ráðherra gert skylt að breyta lágmarksfjárhæð hlutafjár í hátt við almennar verðlagsbreytingar og samkvæmt gildandi sparisjóðalögum er ráðherra heimilt að víkja frá ákvæðum um lágmark stofnfjár til hækkunar eða lækkunar þegar sérstaklega stendur á að hans mati. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er sköpuð skýrari viðmiðun og samræmi milli stofnana en er samkvæmt núgildandi lögum. Þá er ekki lengur kveðið á um lágmarksfjölda hluthafa eða lágmarksfjárhæð hvers hlutar í hlutafélagsbanka eins og gert er í 2. mgr. 5. gr. laga um viðskiptabanka. Þykir eðlilegt að heimildir séu að þessu leyti rýmkaðar til samræmis við það sem heimilað er erlendis. Í þessu felst einnig að minna er lagt upp úr dreifðri eignaraðild sem öryggisatriði í starfsemi viðskiptabanka. Á hinn bóginn lúta ýmis önnur atriði frumvarpsins að öryggisþættinum með skýrari hætti en nú er, t.d. auknar kröfur um stofnhlutafé og ákvæði frumvarpsins um virka eignarhluti, sem raunar kunna að stuðla að dreifingu eignarhluta.
    Í 2. mgr. er viðskiptaráðherra veitt heimild til að víkja frá lágmarkskröfum 1. mgr. að því er varðar lágmarksstofnfé sparisjóða. Engu að síður verður lágmark stofnfjár mun hærra en er samkvæmt gildandi lögum um sparisjóði. Miðað er við 80 milljónir króna. Ákvæðið er í samræmi við tilskipanir Evrópubandalagsins en samkvæmt þeim er viðmiðunin í þessu sambandi 1 milljón ECU.
     Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Þessi grein er sett í samræmi við heimildir í tilskipunum Evrópubandalagsins á þessu sviði. Með 1. mgr. er tekið tillit til þeirra stofnana sem þegar eru starfandi við gildistöku laganna en uppfylla ekki lágmarkskröfur 1. eða 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins, enda var ekki ætlunin að þvinga minni stofnanir til að hætta starfsemi sinni. Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að tryggja áframhaldandi starfsemi minni sparisjóða sem útilokað er að geti uppfyllt strangari skilyrði frumvarpsins enda verður að telja hæpið að svo verði ástatt um viðskiptabanka sem í ákvæðinu greinir. Viðmiðun ákvæðisins er eigið fé hlutaðeigandi stofnunar eins og það er við gildistöku laganna og er ekki ætlast til að það fari niður fyrir þau mörk síðar. Ákvæðið á einungis við um stofnanir sem eru starfandi við gildistöku laganna og uppfylla ekki lágmarkskröfur 6. gr. á þeim tíma. Lækki eigið fé frá því sem ákvæðið mælir fyrir um er bankaeftirlitinu heimilt, en ekki skylt, að veita hæfilegan frest til úrbóta. Dugi slíkur frestur ekki skal slíta hlutaðeigandi stofnun. Sérstakt ákvæði er um eigið fé við samruna viðskiptabanka eða sparisjóða í 74. gr. frumvarpsins.
     Ákvæði 2. mgr. er eðlilegt með tilliti til efnisraka sem liggja til grundvallar fyrri málsgrein 7. gr. Með 2. mgr. er fyrst og fremst ætlunin að koma í veg fyrir að nýir aðilar komist í þá aðstöðu að geta komist inn á sameiginlegan markað Evrópska efnahagssvæðisins með því að nýta sér undanþágu sem veitt er af sérstökum ástæðum án þess að þurfa að fullnægja þeim ströngu kröfum sem frumvarpið setur. Með yfirtöku er átt við að nýir aðilar eignist eða hafi ráðstöfunarrétt yfir það miklum hlut í hlutaðeigandi stofnun að það geri þeim kleift að ráða í raun stjórnun þess og stefnu. Ákvæðið á ekki við um samruna skv. 74. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega óbreytt frá 1. mgr. 2. gr. viðskiptabankalaga að öðru leyti en því að sérstaklega er tekið fram að ríkisviðskiptabankar verði einungis stofnaðir með sérstökum lögum. Enda þótt það sé ekki berlega tekið fram í ákvæðinu leiðir af því að ríkisviðskiptabankar verða ekki lagðir niður eða þeim breytt í hlutafélagsbanka nema með sérstökum lögum.
     Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Í 3. mgr. er gerð breyting frá gildandi lögum. Felldur er brott áskilnaður 2. málsl. 2. mgr 2. gr. laganna um sérstaka lagaheimild hverju sinni til lántöku ríkisviðskiptabanka erlendis án tryggingar í sjálfs sín eigum. Þetta ákvæði gildandi laga á sér langa sögu en hefur hins vegar í raun ekki haft neina þýðingu eftir því sem viðskiptahættir og starfsemi viðskiptabanka hafa þróast. Í framkvæmd hefur verið litið fram hjá því og viðurkennt að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Stjórnvöld hafa í raun beitt slíkri túlkun með því að leggja á sérstakt ríkisábyrgðargjald á þær stofnanir sem njóta ríkisábyrgðar, sbr. lög nr. 37/1981, sbr. lög nr. 65/1988. Þykir því eðlilegt að fella tilvitnað ákvæði úr lögum og eyða þar með hugsanlegri lagaóvissu að þessu leyti.
     Ákvæði 4. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. 1. gr. gildandi laga um viðskiptabanka.

Um 10. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá 1. mgr. 6. gr. gildandi laga um viðskiptabanka.
     Samkvæmt 2. mgr. skal kveðið á um atkvæðisrétt og meðferð hans í samþykktum hlutafélagsbanka. Samkvæmt þessu gætu samþykktir kveðið á um takmarkanir á heimildum til að fara með hluti fyrir sjálfs sín hönd eða annarra. Núgildandi lög miða við 1 / 5 hluta samanlagðra atkvæða í hlutafélagsbanka en ekki er sérstaklega mælt fyrir um þessi atriði í frumvarpinu, m.a. vegna þess að ekki er lengur mælt fyrir um lágmarksfjölda hluthafa eða hluta eins og gert er í gildandi lögum. Að öðru leyti er 2. mgr. efnislega óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 3.–6. mgr. er að finna nýmæli varðandi tilkynningar til bankaeftirlitsins um þá sem eiga eða hyggjast eignast virkan eignarhlut í hlutafélagsbanka. Ákvæðin eru í samræmi við tilskipanir Evrópubandalagsins og einnig eru samsvarandi ákvæði í dönskum lögum. Í þessu sambandi er fyrst og fremst miðað við hugtakið „virkur eignarhlutur“ sem er nýtt í löggjöf hér á landi. Hugtakið er nánar skilgreint í 3. mgr. greinarinnar. Ákvæði þessi eru sett með hagsmuni hlutaðeigandi stofnana í huga og er ætlað að tryggja að eigendur þeirra uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Meðal annars eru gerðar kröfur um að helstu hluthafar eða stofnfjáreigendur eða þeir sem fara með hluti séu hæfir til þess með tilliti til hagsmuna hlutaðeigandi stofnunar eða viðskiptamanna hennar. Þetta kemur fram í einstökum ákvæðum frumvarpsins, t.d. 2. mgr. 4. gr. um upplýsingar sem fylgja skulu umóknum um starfsleyfi, svo og 1. mgr. 24. gr. að því er varðar synjun umsókna. Þessi sjónarmið um hæfi eiga einnig við eftir að leyfi hefur verið veitt enda væri óeðlilegt að unnt væri að komast fram hjá þeim með því að skipta um eigendur eða aðra sem fara með hluti síðar. Meginmarkmið ákvæðanna er að tryggja heilbrigðan og traustan rekstur hlutaðeigandi stofnana.
     Í 3. mgr. kemur fram skilgreining á virkum eignarhlut. Með því er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun hlutaðeigandi stofnunar. Með óbeinni hlutdeild er átt við þá aðstöðu að aðili, sem ekki er hluthafi sjálfur, fari með hluti í umboði annarra, t.d. vegna stöðu sinnar. Dæmi um slíkt væri ef tiltekinn lögaðili á 10% eða meira af hlutafé viðskiptabanka og forsvarsmaður lögaðilans fer með ráðstöfunarrétt á þessum hlutum. Með annarri hlutdeild er fyrst og fremst átt við að eignarhlutur aðila eða heimild hans til meðferðar á atkvæðisrétti sé undir 10% markinu en viðkomandi geti þrátt fyrir það haft veruleg áhrif á stjórnun hlutaðeigandi stofnunar í krafti aðstöðu sinnar. Skylda til tilkynningar um aukningu á hlut eða rétti til meðferðar atkvæða er eðlileg með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru til stórra eignaraðila hlutafélagsbanka með tilliti til heilbrigðs rekstrar og eðlilegra viðskiptahátta. Nauðsynlegt er að ávallt liggi fyrir upplýsingar um þessi atriði til að unnt verði að grípa til viðeigandi ráðstafana af hálfu bankaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum síðari málsgreina þessarar greinar. Ákvæði 3. mgr. nær bæði til þeirra sem þegar eiga hlut í viðskiptabanka og þeirra sem hyggjast eignast hann.
     Ákvæði 4. mgr. er nýjung. Því er ætlað að tryggja heilbrigðan rekstur hlutaðeigandi stofnunar og eðlilega viðskiptahætti. Ákvæðið heimilar bankaeftirlitinu að hafna nýjum hluthöfum eða kaupum þeirra sem fyrir eru á viðbótarhlutafé teljist þeir ekki hæfir að mati bankaeftirlitsins. Telji bankaeftirlitið ekki grundvöll til þess að hafna eignarhlut getur það ákveðið að hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur. Meta verður hvert tilvik sjálfstætt.
     Með 5. mgr. er girt fyrir að óvissa skapist um raunverulega eignaraðild að þeim stofnunum sem hér um ræðir. Ákvæðið er nauðsynlegt til að ávallt liggi fyrir traustar heimildir um þessi atriði. Þá er ákvæðið einnig nauðsynlegt út frá almennu eftirlitshlutverki bankaeftirlitsins.
     Ákvæði 6. mgr. er í eðlilegu samhengi við ákvæði 10. gr. að öðru leyti og þarfnast ekki sérstakrar skýringar.

Um 11. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er nýmæli og nauðsynlegt í samhengi við 10. gr. frumvarpsins og þau sjónarmið sem liggja að baki ákvæðinu. Skylda til tilkynninga samkvæmt málsgreininni hvílir á bankaráði eða bankastjórn hlutaðeigandi viðskiptabanka. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig efnislega sjálft.
     Ákvæði 2. mgr. er einnig nýmæli en þarfnast ekki skýringar.

Um 12. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er nýmæli. Það á við í þeim tilvikum að hluthafi, sem áður var talinn hæfur og á svo stóran hlut sem um getur í 3. mgr. 10. gr., fer þannig með réttindi samkvæmt hlut sínum að andstætt sé hagsmunum hlutaðeigandi viðskiptabanka eða eðlilegum viðskiptaháttum. Í stað þess að beita heimild til að svipta hlut atkvæðisrétti getur bankaeftirlitið lagt fyrir hlutaðeigandi viðskiptabanka að grípa til viðeigandi ráðstafana. Bankaeftirlitið gæti m.a. lagt til að ráðstafanir verði gerðar til að hnekkja ákvörðun sem kann að hafa verið tekin í krafti hlutafjáreignar viðkomandi hluthafa.
    Hafi virkir eignarhlutir ekki verið tilkynntir bankaeftirliti fyrir fram skv. 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins veitir 2. mgr. bankaeftirlitinu heimild til að ákveða að þessum hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur. Ákvæðinu er ætlað að vera bráðabirgðaráðstöfun þar til ákvörðun hefur verið tekin um hvort nýr hluthafi eða eldri hluthafi, sem eykur hlutafé, teljist hæfur til að eiga hlut sem hann hefur keypt en ekki tilkynnt um samkvæmt ákvæði 3. mgr. 10. gr. Frestir skv. 4. og 5. mgr. 10. gr. eiga við í þessum tilvikum. Komi synjun ekki frá bankaeftirliti innan þeirra fá hlutir sjálfkrafa atkvæðisrétt að nýju.
     Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við 1. mgr. 46. gr. laga um hlutafélög að því er varðar bann við því að hlutafélagsbankar eigi sjálfir meira en 10% af eigin hlutabréfum og tímamörk til að selja það sem fer umfram þau mörk. Hins vegar er það nýtt að bannið nær einnig til þess að taka eigin hlutabréf að veði. Ákvæðið, eins og það er hér sett fram, er í samræmi við ákvæði danskra laga að þessu leyti. Ákvæðið ber að skýra þannig að samtala eigin hlutabréfa sem banki á og eigin hlutabréfa, sem hann hefur tekið að veði, megi ekki fara fram yfir 10%.

Um 14. gr.


    Ákvæðið mælir fyrir um að ákvæði 10.–12. gr. frumvarpsins eigi einnig við um stofnfjárhluti í sparisjóðum. Þykir eðlilegt að samsvarandi reglur gildi um þessar stofnanir eftir því sem við á. Ákvæðið tekur mið af tilskipunum Evrópubandalagsins og er sambærilegt við ákvæði danskra laga.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. er mælt fyrir um lágmarksfjölda stofnenda og stofnfjáreigenda í sparisjóði. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi ákvæðum laga um sparisjóði að öðru leyti en því að ekki er rætt um sparisjóðsaðila heldur einungis stofnfjáreigendur. Stafar það af því að frumvarpið gerir ráð fyrir að ekki verði stofnaðir aðrir sparisjóðir en stofnfjársjóðir og að innan tiltekins tíma frá gildistöku laga þessara heyri ábyrgðarsjóðir sögunni til, sbr. ákvæði til bráðabirgða I. Er þar mælt fyrir um að skylt sé að breyta ábyrgðarsjóðum í stofnfjársjóði en í 1. mgr. 15. gr. gildandi laga er einungis um heimildarákvæði að ræða.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá samsvarandi ákvæðum gildandi laga að öðru leyti en því að felld eru út efnisatriði sem lúta að ábyrgðarsjóðum sérstaklega.
     Ákvæði 3. mgr. er nýtt. Höfð var hliðsjón af ákvæðum gildandi laga um hlutafélög eftir því sem við gat átt.
     Í 4. mgr. er stuðst við ákvæði gildandi laga en þó er gerð undantekning vegna almennrar undanþágu 2. mgr. 5. gr. varðandi ríkisborgara annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins sem leiðir af samningi um það. Ákvæði 4. mgr. ætti einnig við þá ríkisborgara ríkja utan EES sem fengið hafa undanþágu viðskiptaráðherra skv. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði efnislega óbreytt frá 1. og 2. mgr. 8. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 12. gr. núgildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að ekki er getið ábyrgðaraðila. Þá er einnig mælt fyrir um að allir stofnfjáreigendur skuli hafa aðgang að skrá sem haldin er samkvæmt ákvæðinu. Samsvarandi ákvæði er að finna í 4. mgr. 12. gr. núgildandi laga. Ekki er sérstaklega kveðið á um það í 2. mgr. hvaða efnisatriði skrá samkvæmt ákvæðinu skuli hafa að geyma eða hvernig fara skuli með skráningu verði eigendaskipti að stofnfjárhlut. Almennt var slíkt talið óþarft og er gengið út frá því að svipuð sjónarmið gildi um þessi atriði og gert er ráð fyrir í 2. og 3. mgr. 12. gr. núgildandi laga.

Um 17. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um ábyrgð stofnfjáreigenda á skuldbindingum sparisjóðs og er hún bundin við upphæð stofnfjár eins og gert er í 3. mgr. 1. gr. gildandi laga. Hins vegarer ekki getið inneignar í séreignarsjóði eða skráðra ábyrgða líkt og gert er í gildandi lögum. Stafar það af því að ákvæði um séreignarsjóði eru felld niður samkvæmt frumvarpinu og sama á við um ábyrgðarsjóði.
    Ákvæði 2. mgr. er óbreytt frá 3. mgr. 1. gr. gildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að nú er notað orðið „ágóðahlutur“ í stað þess að rætt er um ágóða af rekstrarafgangi. Þykir sú framsetning, sem hér er lögð til, skýrari.
     Með 3. mgr. er skýrt tekið fram að stofnfjáreigendur njóti einungis arðs af innborguðu stofnfé sínu. Um arðgreiðslur er fjallað í 60. gr. frumvarpsins. Er ákvæðið sama efnis og 4. mgr. 1. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Í 4. mgr. er fjallað um endurgreiðslur stofnfjár og er ákvæðið efnislega óbreytt frá gildandi lögum að teknu tilliti til þess að ákvæði um séreignarsjóð hafa verið felld niður.

Um 18. gr.


    Í 1. mgr. er ákvæði um heimildir til sölu eða framsals stofnfjárhlutar í sparisjóði. Þá er einnig lagt bann við veðsetningu stofnfjárhluta. Ákvæðið er samhljóða 9. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Kveðið er á um skattalega meðferð stofnfjár og arðs af því í 2. mgr. Ákvæðið er breyting frá gildandi lögum sem gera ráð fyrir að um þessi atriði fari samkvæmt ákvæðum um skattlagningu innlánsfjár. Þessi breyting er í samræmi við þá meginstefnu frumvarpsins að draga, eftir því sem unnt er, úr mismun milli sparisjóða og hlutafélagsbanka.

Um 19. gr.


     Ákvæði þessarar greinar er óbreytt frá 1. og 2. mgr. 13. gr. laga um sparisjóði en orðalagi er breytt til samræmis við orðalag 13. gr. frumvarpsins um heimildir hlutafélagsbanka í þessum efnum. Ekki þótti hins vegar ástæða til að taka í frumvarpið ákvæði 3. mgr. 13. gr. gildandi laga um sparisjóði um að óheimilt sé að taka eigin stofnfjárbréf að veði til tryggingar skuldbindingum gagnvart sparisjóði enda er slíkt ákvæði óþarft með hliðsjón af 1. mgr. 18. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um innlausn stofnfjárhluta. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 10. gr. gildandi laga um sparisjóði enda þótt orðalagi hafi verið breytt nokkuð.

Um 21. gr.


    Í 1. mgr. eru efnislega óbreytt ákvæði frá 11. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Í 2. mgr. eru settar reglur um ákvörðun á verði stofnfjárhlutar komi til innlausnar. Ákvæðið er nokkuð breytt frá því sem kveðið er á um í 2. mgr. 11. gr. gildandi laga enda er gert ráð fyrir því að séreignarsjóður stofnfjáreigenda falli niður samkvæmt frumvarpinu. Í stað þess er mælt fyrir um í 2. mgr. að innlausnarverð stofnfjárhlutar sé nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 23. gr. frumvarpsins sem fjallar nánar um heimildir til endurmats.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er fjallað um aukningu stofnfjár. Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá 1. mgr. 14. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Í 2. mgr. er mælt fyrir um breytta viðmiðun varðandi verðlagningu nýrra stofnfjárhluta frá því sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 14. gr. gildandi laga. Breytingin á rót að rekja til þess að séreignarsjóður stofnfjáreigenda er lagður niður en í stað hans veitt heimild til endurmats stofnfjár, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Við verðlagningu nýs hlutar á þannig að miða við nafnverð hlutar að viðbættri ónýttri heimild til endurmats í stað greiðslu í séreignarsjóð að tiltölu við hlut eldri stofnfjáreigenda í sjóðnum.

Um 23. gr.


    Svo sem áður hefur komið fram er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að séreignarsjóður stofnfjáreigenda verði lagður niður. Ákvæði um séreignarsjóð voru nýmæli í núgildandi lögum um sparisjóði og var fyrst og fremst ætlað að tryggja stofnfjáreigendum að hlutur þeirra rýrnaði ekki vegna verðbólgu, svo sem verið hafði fyrir gildistöku laganna frá 1985. Framkvæmd gildandi ákvæða hefur hins vegar reynst flókin og fremur ómarkviss. Hinu nýja ákvæði er ætlað að ná sama tilgangi og stefnt var að með séreignarsjóði en á mun markvissari og einfaldari hátt. Til þess að staða stofnfjáreigenda rýrni ekki er talið nauðsynlegt að veitt verði almenn og viðvarandi heimild til endurmats á stofnfé í sparisjóðum með þeim hætti sem lagt er til í 1. mgr.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um III. kafla.


     Í þessum kafla er sérstaklega fjallað um synjun umsókna um starfsleyfi fyrir viðskiptabanka eða sparisjóði. Ákvæðin eru nýmæli.

Um 24. gr.


    Í þessari grein er fjallað um þau atriði sem valda synjun umsókna um starfsleyfi. Með ákvæðinu er tekið tillit til tilskipana Evrópubandalagsins, auk þess sem svipuð ákvæði er að finna í dönskum lögum á þessu sviði. Tilvísun til 2. mgr. 15. gr., sem kveður á um þau atriði sem koma skulu fram í samþykktum sparisjóða, felur í sér að tryggt skuli vera að þegar við umsókn fullnægi samþykktirnar lágmarksskilyrðum laganna. Er þetta talið nauðsynlegt þar sem fallið er frá því fyrirkomulagi gildandi laga að veita formlega staðfestingu á samþykktum eða breytingum á þeim. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.

Um 25. gr.


    Með þessu ákvæði er viðskiptaráðherra heimilað, að fenginni umsögn bankaeftirlitsins, að synja umsókn um starfsleyfi teljist eignarhlutur hluthafa í hlutafélagsbanka eða stofnfjáreiganda í sparisjóði ósamrýmanlegur eðlilegum rekstri hlutaðeigandi stofnunar. Miðað er við virka eignarhluti í skilningi 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Höfð er hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins að þessu leyti og samsvarandi ákvæði er að finna í dönskum lögum. Þykir óeðlilegt að veita stofnun starfsleyfi þegar svo stendur á sem í ákvæðinu segir. Með ákvæðinu er ráðherra falið að meta aðstæður í hverju tilviki. Þótt ráðherra sé ekki bundinn af umsögn bankaeftirlitsins má almennt gera ráð fyrir að synjun á grundvelli þess yrði ekki beitt nema umsögn þess styddi þá niðurstöðu.

Um 26. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu er ráðherra skylt að rökstyðja synjun á umsókn um starfsleyfi og senda umsækjanda. Almennt hlýtur synjun að varða umsækjanda miklu og því er taliðeðlilegt að hún sé rökstudd þannig að umsækjandi geti metið ástæður hennar og tekið ákvörðun um hvort hann uni synjun eða ákveði að leita réttar síns fyrir dómstólum samkvæmt almennum reglum. Þá má einnig ætla að það skipti umsækjanda miklu að ákvörðun ráðherra liggi fyrir innan hæfilegs frests. Því er kveðið svo á um að ákvörðun ráðherra skuli að jafnaði liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum og í síðasta lagi sex mánuðum frá því að honum barst fullbúin umsókn. Þykir eðlilegt að miða frestinn við þann tíma sem umsókn er fullbúin þar sem það kann að taka umsækjanda nokkurn tíma að bæta úr annmörkum á henni ef um þá er að ræða. Ber einnig að hafa í huga í þessu sambandi að það er að hluta til á valdi ráðherra hvaða gögn og upplýsingar skulu fylgja umsókn, sbr. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins.

Um IV. kafla.


     Í IV. kafla er fjallað um stjórn viðskiptabanka og sparisjóða. Fjallað er um einstakar stofnanir í sérstökum undirköflum en það var talið nauðsynlegt vegna mismunandi uppbyggingar þeirra stofnana sem frumvarpið tekur til.

Um 27. gr.


    Í 1. mgr. er viðskiptaráðherra falin yfirstjórn ríkisviðskiptabanka ásamt bankaráði samkvæmt nánari ákvæðum frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 9. gr. gildandi laga um viðskiptabanka.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá 2. mgr. 9. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að nú er tekið sérstaklega fram að umboð bankaráðs gildi þar til annað hefur verið kjörið. Að fenginni reynslu þykir þessi viðbót nauðsynleg þannig að ekki komi til þess að vafi geti leikið á um það hverjir séu ábyrgir fyrir stjórn ríkisviðskiptabanka dragist af einhverjum ástæðum að kjósa í bankaráð vegna aðstæðna á Alþingi.
     Ákvæði 3. mgr. er efnislega óbreytt frá samsvarandi ákvæði 3. mgr. 9. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.


    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 10. gr. gildandi laga og er ætlað að veita ráðherra ótvíræða heimild til að fylgjast með rekstri ríkisviðskiptabanka hvenær sem hann telur þess þörf.

Um 29. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um fjölda bankastjóra ríkisviðskiptabanka og ráðningartíma þeirra. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 1. og 2. mgr. 11. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er nýmæli. Eðlilegt þykir að stöður bankastjóra ríkisviðskiptabanka séu auglýstar með sama hætti og tíðkast um flestar aðrar stöður hjá opinberum stofnunum og með sambærilegum fyrirvara og almennt gerist.

Um 30. og 31. gr.


    Þessar greinar eru efnislega samhljóða ákvæðum gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um þá aðila sem fara með yfirstjórn sparisjóðs. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um sparisjóði. Í ákvæðinu er þó rætt um fundi stofnfjáreigenda. Með því er gert ráð fyrir að komið geti til slíkra funda enda þótt ekki sé um formlegan aðalfund að ræða og að slíkir fundir geti tekið allar þær ákvarðanir sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um að aðalfundur taki. Með þessu orðalagi er einnig hnykkt á þeirri breytingu að eingöngu verði um að ræða stofnfjársjóði innan tiltekins tíma frá gildistöku laganna, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I.
     Í 2. mgr. eru sett skýrari ákvæði um aðalfundi en gert er samkvæmt gildandi lögum.
     Ákvæði 3. mgr. er efnislega óbreytt frá samsvarandi ákvæði 3. mgr. 17. gr. gildandi laga um sparisjóði enda þótt orðalagi hafi verið breytt vegna þess að horfið verður frá ábyrgðarsjóðum samkvæmt frumvarpinu.

Um 33. og 34. gr.


    Ákvæði þessara greina eru efnislega óbreytt frá samsvarandi ákvæðum 18. og 19. gr. gildandi laga um sparisjóði. Þó er fellt brott ákvæði 2. mgr. 18. gr. sem fjallar um að reikna skuli aukinn meiri hluta af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Er það til samræmis við aðrar breytingar frumvarpsins í þessu samhengi.

Um 35. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega óbreytt frá 1. mgr. 20. gr. núgildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en að breytt hefur verið orðalagi þar sem frumvarpið gerir einungis ráð fyrir stofnfjársjóðum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
     Í 2. mgr. felst breyting frá núgildandi lögum. Samkvæmt þeim er atkvæðisréttur takmarkaður við 1 / 5 hluta af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Með hliðsjón af þeim breytingum, sem lagðar eru til í 5. gr. frumvarpsins og opna stofnfjáreign í sparisjóðum fyrir öllum lögaðilum, þykir rétt að takmarka atkvæðisrétt enn frekar og miða nú við að enginn geti farið með fyrir sjálfs sín hönd eða annarra meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Með því er enn frekar stuðlað að valddreifingu innan sparisjóða og jafnframt má ætla að ákvæðið stuðli frekar að því að einstaklingar eða lögðaðilar sjái sér hag í því að festa fjármuni sína í sparisjóðum. Líkt og er samkvæmt núgildandi lögum á ákvæðið eðli máls samkvæmt ekki við um þá sparisjóði þar sem sveitarstjórnir eða héraðsnefndir eru einu stofnfjáreigendur sparisjóðsins, sbr. 99. gr. frumvarpsins.
     Ákvæði 3. og 4. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum um sparisjóði.

Um 36. gr.


    Í 1. mgr. eru gerðar nokkrar breytingar frá gildandi lögum að því er varðar kosningu stjórnar sparisjóðs. Samkvæmt núgildandi lögum er fjöldi stjórnarmanna valkvæður og geta þeir verið annaðhvort þrír eða fimm samkvæmt ákvæðum samþykkta. Hér er lagt til að lögbinda fimm manna stjórnir. Þykir það heppilegra og líklegt til að tryggja betur skilvirka stjórnun sparisjóða. Að öðru leyti er ákvæðið óbreytt frá gildandi lögum um sparisjóði.
     Ákvæði 2. mgr., sem er nýmæli og heimildarákvæði, á sér fyrirmynd í ákvæðum danskra laga. Samkvæmt ákvæðinu má ákveða í samþykktum sparisjóðs sem náð hefur tiltekinni stærð að sérstakt fulltrúaráð, kosið af aðalfundi, kjósi stjórn sparisjóðs. Hér er verið að skapa möguleika á meiri breidd í stjórn sparisjóðs sem starfar í fleiri en einu sveitarfélagi en þar sem aðeins eitt sveitarfélag tilnefnir stjórnarmenn. Þá er ákvæðinu ætlað að skapa meiri festu í stjórn sparisjóðs eftir að atkvæðisréttur hefur verið takmarkaður, sbr. 35. gr. frumvarpsins, en festa í stjórn innlánsstofnunar er grundvöllur trausts á viðkomandi stofnun.
    Ákvæði 3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum um sparisjóði að öðru leyti en því að í stað þess að nefna sparisjóðsaðila er nú notað orðið stofnfjáreigendur.
     Ákvæði 4. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum um sparisjóði.

Um 37. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru óbreytt frá samsvarandi ákvæðum gildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að í 3. mgr. er notað orðið „samruni“ í stað „sameiningar“ til samræmis við orðalag í IX. kafla frumvarpsins. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringar.

Um 38. gr.


    Þetta ákvæði er nýmæli og kveður á um hæfisskilyrði bankaráðsmanna, stjórnarmanna sparisjóða, bankastjóra eða sparisjóðsstjóra. Ákvæðið er í samræmi við meginreglu tilskipana Evrópubandalagsins á þessu sviði. Samsvarandi ákvæði er að finna í dönskum lögum.
     Samkvæmt 1. mgr. er íslenskt ríkisfang ekki gert að skilyrði fyrir því að einstaklingar gegni þeim störfum sem ákvæðið tekur til. Samkvæmt samningi um hið Evrópska efnahagssvæði er óheimilt að setja slík skilyrði gagnvart ríkisborgurum ríkja innan svæðisins. Eðlilegt þykir hins vegar að bankastjórar eða sparisjóðsstjórar, hverrar þjóðar sem þeir eru, séu búsettir hér á landi, enda væri annað vart framkvæmanlegt eðli máls samkvæmt. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
     Ákvæði 2. mgr. á við um bankastjóra og sparisjóðsstjóra. Þykir eðlilegt að gera kröfur um menntun eða starfsreynslu við ráðningu í jafnábyrgðarmikil störf og hér um ræðir. Þá er jafnframt mælt fyrir um að starfsferill, óháð menntun eða starfsreynslu, sé með þeim hætti að réttlætanlegt sé að viðkomandi gegni þessari stöðu. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu á gildissviði ákvæðisins að þessu leyti. Ákvæðið er ekki bundið við að brotið hafi verið gegn lögum eða að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir umrædda háttsemi. Áherslan liggur á því hvort ferill viðkomandi eða fyrri störf séu með þeim hætti að rýrt hafi álit hans þannig að ekki sé rétt, með tilliti til hagsmuna stofnunarinnar eða almennings, að hann gegni þessum ábyrgðarstörfum. Almennt yrði að vera um alvarlegar ávirðingar að ræða.
     Samkvæmt 3. mgr. skulu bankaráðsmenn eða stjórnarmenn í sparisjóði uppfylla skilyrði 1. mgr. Þó er sú undantekning gerð að ekki er krafist búsetu hér á landi gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Er þetta í samræmi við meginreglu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Þá veitir ákvæðið viðskiptaráðherra heimild til að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu en þeir eiga ekki sjálfkrafa rétt á henni. Almennt eru ekki sömu rök fyrir kröfu um búsetu gagnvart bankaráðsmönnum eða stjórnarmönnum sparisjóðs og gilda gagnvart bankastjórum eða sparisjóðsstjórum.
     Ákvæði 4. mgr. er í samræmi við 4. mgr. 24. gr. laga um viðskiptabanka og 4. mgr. 22. gr. laga um sparisjóði. Þó er gerð sú breyting að ekki er sérstaklega tekið fram að bankastjórar eða sparisjóðsstjórar sitji fundi og taki þátt í umræðum nema bankaráð eða sparisjóðsstjórn ákveði annað. Þótti óþarft að taka þessi atriði sérstaklega fram enda er um almenna verklagsreglu innan þessara stofnana að ræða eðli máls samkvæmt.

Um 39. gr.


    Í 1. mgr. er gerð grein fyrir því að bankaráð og sparisjóðsstjórn hafi yfirumsjón með málefnum viðskiptabanka eða sparisjóðs og almennt eftirlit með daglegum rekstri þeirra. Er ákvæðið að flestu leyti sambærilegt við 18. gr. laga um viðskiptabanka og 1. mgr. 22. gr. laga um sparisjóði en þó er bætt við einstökum ákvæðum sem eru í sjálfstæðum greinum samkvæmt gildandi lögum. Felld eru brott ákvæði gildandi laga sem fela bankaráðum eða sparisjóðsstjórnum að ákvarða vexti og þjónustugjöld hlutaðeigandi stofnana eða taka ákvarðanir um afskriftir. Þykir eðlilegt að slíkar ákvarðanir færist til bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra í samræmi við starfsskyldur þeirra skv. 41. gr. frumvarpsins. Þá er einnig fellt brott það verkefni bankaráða eða sparisjóðsstjórna að ráða útibússtjóra. Útibússtjórar eru nánir samstarfsmenn bankastjóra og sparisjóðsstjóra og þykir rétt, og í samræmi við viðurkennd stjórnunarsjónarmið, að þessir starfsmenn séu ráðnir af bankastjórn eða sparisjóðsstjórn eftir atvikum.
    Í 1. tölul. er bankaráði eða sparisjóðsstjórn falið að ráða bankastjóra eða sparisjóðsstjóra, ákveða ráðningarkjör þeirra, verkaskiptingu þeirra og uppsögn. Að því er varðar ráðningarkjör er gert ráð fyrir að til þeirra teljist biðlaun og eftirlaun sé samið sérstaklega um slík réttindi. Er að þessu leyti um samræmingu að ræða milli ríkisviðskiptabanka og hlutafélagsbanka enda er talið eðlilegt að bankaráð hinna fyrrnefndu taki þessar ákvarðanir í stað þess að um þau gildi lagafyrirmæli. Þá er gert ráð fyrir að bankaráð eða sparisjóðsstjórn setji þessum aðilum erindisbréf sem gilda skal tiltekinn tíma. Er það nýmæli að því er varðar bankastjóra en sams konar ákvæði er í 2. mgr. 26. gr. gildandi laga um sparisjóði.
     Samkvæmt 2. tölul. skal bankaráð eða sparisjóðsstjórn ráða forstöðumann endurskoðunardeildar. Er þetta í samræmi við gildandi ákvæði viðskiptabankalaga en samsvarandi ákvæði er ekki í gildandi lögum um sparisjóði. Ákvæðið ber að skoða í samhengi við 7. mgr. 63. gr. frumvarpsins sem felur bankaeftirlitinu að setja reglur um framkvæmd endurskoðunar, þar á meðal um stofnun innri endurskoðunardeilda.
     3. tölul. er nýjung. Samkvæmt ákvæðinu eru felld brott ákvæði gildandi laga sem snerta aðstoðarbankastjóra eða aðstoðarsparisjóðsstjóra sérstaklega. Starfsheiti þessi verða þar með ekki lögbundin eins og nú er. Gert er ráð fyrir því samkvæmt þessum tölulið að frumkvæði að ráðningu verði hjá banka- eða sparisjóðsstjórum en hljóti staðfestingu bankaráðs eða stjórnar sparisjóðs. Hvort starfsheitið aðstoðarbankastjóri eða aðstoðarsparisjóðsstjóri verður áfram notað er hins vegar á valdi hverrar stofnunar fyrir sig. Á hinn bóginn er staða þeirra sem gegna störfum samkvæmt þessum lið skýrar afmörkuð en nú er með því að hún tekur aðeins til þeirra sem samkvæmt stjórnskipulagi hlutaðeigandi stofnunar eru staðgenglar banka- eða sparisjóðsstjóra.
     Í 4. tölul. er fjallað um staðfestingu á tillögum bankastjóra eða sparisjóðsstjóra um höfuðþætti í stjórnskipulagi hlutaðeigandi stofnunar, aðra en þá sem mælt er fyrir um í lögum. Ákvæðið er nýjung og gerir ráð fyrir auknum afskiptum bankastjóra eða sparisjóðsstjóra af skipulagi stofnunar frá því sem verið hefur. Er það í samræmi við þá meginstefnu frumvarpsins, sem fram kemur í 41. gr., að auka ábyrgð þessara aðila.
     5. tölul. er efnislega í samræmi við ákvæði 4. mgr. 21. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 5. mgr. 24. gr. gildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að felldur er brott áskilnaður um reglulega endurskoðun og að bankaeftirlitið láti í té álit á þeim. Er ætlast til að bankaráð eða sparisjóðsstjórn annist um að halda þessum reglum í takt við aðstæður á hverjum tíma. Þá er einnig gert ráð fyrir að reglur samkvæmt þessum staflið séu í samræmi við reglur bankaeftirlitsins um þessi efni sem því er ætlað að setja skv. 1. mgr. 46. gr. frumvarpsins og frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands. Reglur bankaeftirlitsins yrðu bindandi fyrir viðskiptabanka og sparisjóði þó þeim væri heimilt að setja strangari reglur og útfæra ýmis efnisatriði nánar hver fyrir sig.
     6.–8. tölul. eru í samræmi við ákvæði gildandi laga að öðru leyti en því að 7. tölul. er ekki að finna í gildandi lögum um sparisjóði. Þykir eðlilegt að samræma ákvæði um viðskiptabanka og sparisjóði að þessu leyti og að stjórn sparisjóðs ákveði hver skuli taka sæti af hálfu sparisjóðs í stjórn stofnana eða atvinnufyrirtækja.
     Sú breyting er gerð í 9. tölul. að tekið er fram að bankaráð eða sparisjóðsstjórn taki ákvarðanir um að leggja útibú niður. Þykir rétt að taka það fram enda þótt slíkar ákvarðanir yrðu vafalaust teknar af þessum aðilum í framkvæmd núgildandi laga.
     10. og 11. tölul. eru óbreyttir frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
     Í 12. tölul. er efnisbreyting frá gildandi lögum þar sem einungis er gert ráð fyrir samruna viðskiptabanka eða sparisjóða innbyrðis eða hverra við aðra en ekki við aðrar innlánsstofnanir eins og nú er. Nánar er vikið að þessu í athugasemdum við 1. mgr. 73. gr.
     Ákvæði 3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 40. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um fundi bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar. Með ákvæðinu er gerð sú breyting frá gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að skylt er að halda bankaráðs- eða sparisjóðsstjórnarfund ef einn bankaráðsmaður eða stjórnarmaður í sparisjóði óskar þess í stað formanns eða meiri hluta bankaráðs- eða sparisjóðsstjórnarmanna. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um Seðlabanka Íslands sem lagt var fram á Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–1992.
     Ákvæði 2.–4. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að í 2. mgr. er það nýmæli að kveðið er á um að atkvæði formanns ráði úrslitum falli atkvæði jöfn. Þá er nú gert ráð fyrir í 2. mgr. að fundargerðir verði staðfestar með þeim hætti sem bankaráð eða stjórn sparisjóðs ákveður í stað þess að gerðabók sé undirrituð af þeim sem fundi sitja eins og segir í gildandi lögum. Orðalagsbreytingin veitir meira svigrúm til að taka tillit til mismunandi verklagsreglna sem kunna að hafa skapast innan einstakra stofnana. Hins vegar er meginreglan áfram sú að ávallt liggi fyrir skráðar upplýsingar um það sem gerist á bankaráðsfundum eða stjórnarfundum sparisjóðs. Að öðru leyti þarfnast 2.–4. mgr. ekki skýringa.

Um 41. gr.


    Í þessu ákvæði er fjallað um starfsskyldur bankastjóra og sparisjóðsstjóra með afdráttarlausara orðalagi en gert er í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Er sérstaklega tekið fram að þeir beri ábyrgð á daglegum rekstri og fari jafnframt með ákvörðunarvald í öllum málefnum hlutaðeigandi stofnunar sem ekki eru falin öðrum samkvæmt frumvarpinu. Ákvæðið skýrir því stöðu bankastjóra eða sparisjóðsstjóra gagnvart bankaráði eða sparisjóðsstjórn.
     Þá er felldur brott úr gildandi lögum sérstakur áskilnaður um að bankastjórn eða sparisjóðsstjórar taki ákvarðanir um einstakar lánveitingar. Þótti slíkur áskilnaður óþarfur þar sem banka- eða sparisjóðsstjórar bera ábyrgð á þessum atriðum samkvæmt almennum starfsskyldum sínum.
     Með ákvæðinu er einnig felld brott skylda sparisjóðsstjóra skv. 2. mgr. 27. gr. gildandi laga um sparisjóði til að staðfesta útlánaákvarðanir með áritun á lánsskjöl eða á annan hátt og gera grein fyrir þeim á stjórnarfundum. Með þessari breytingu er ekki ætlunin að draga úr ábyrgð sparisjóðsstjóra á daglegum rekstri sjóðsins eða eftirlitsskyldum sparisjóðsstjórnar sem lágu til grundvallar þessu ákvæði gildandi laga. Þykir nægilegt að um þessi atriði fari eftir skipulagi hlutaðeigandi stofnunar.

Um 42. gr.


    Ákvæði 1. mgr. felur í sér breytingu frá gildandi lögum og felur í sér rýmkun á heimildum bankastjóra ríkisviðskiptabanka til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða þátttöku í atvinnurekstri að öðru leyti. Þykir eðlilegt að samræma heimildir bankastjóra viðskiptabanka og sparisjóðsstjóra að þessu leyti. Gert er ráð fyrir að bankaráð eða stjórn sparisjóðs tryggi að gætt verði þess megintilgangs ákvæðisins að hindra að aðrir hagsmunir en hlutaðeigandi stofnunar hafi áhrif á störf banka- eða sparisjóðsstjóra. Ákvæðið ber að skýra þröngt þannig að ekki verði veitt leyfi nema tryggt sé að seta í stjórnum stofnana eða fyrirtækja eða þátttaka í atvinnurekstri að öðru leyti skaði ekki hagsmuni hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs eða stefni í hættu óháðri stöðu þeirra aðila sem ákvæðið tekur til. Tekið skal fram að enda þótt 2. og 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. núgildandi laga um viðskiptabanka séu felldir niður samkvæmt þessari grein ber að túlka þetta ákvæði frumvarpsins í samræmi við tilvitnað lagaákvæði.
     Þá er einnig gerð sú breyting frá gildandi lögum um sparisjóði að nú tekur ákvæðið til sparisjóðsstjóra hvort sem þeir eru í fullu starfi eða ekki. Loks er aðstoðarbankastjóra, aðstoðarsparisjóðsstjóra og útibússtjóra ekki getið í ákvæðinu eins og gert er í gildandi lögum. Um heimildir þeirra fer skv. 2. mgr. greinarinnar.
     Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að bankaráð eða sparisjóðsstjórn setji reglur um heimildir annarra starfsmanna en um getur í 1. mgr., þar á meðal aðstoðarbankastjóra, aðstoðarsparisjóðsstjóra og útibússtjóra, til að sitja í stjórn stofnana eða atvinnufyrirtækja eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Gert er ráð fyrir að sömu meginsjónarmið og gerð var grein fyrir í athugasemdum við 1. mgr. verði ráðandi í slíkum reglum.

Um 43. gr.


    Í þessari grein eru sett þagnarskylduákvæði í samræmi við ákvæði gildandi laga. Þagnarskylda þeirra aðila, sem ákvæðið tilgreinir, er fortakslaus nema skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu samkvæmt úrskurði dómara. Þá er einnig gerður sá fyrirvari að lög heimili frávik frá meginreglunni um þagnarskyldu. Dæmi slíkra lagaákvæða eru ákvæði þessa frumvarps og gildandi laga um Seðlabanka Íslands, sem heimila bankaeftirliti aðgang að upplýsingum sem það telur nauðsynlegar vegna eftirlitshlutverks síns, ákvæði skattalaga um heimildir skattyfirvalda í þessu sambandi og loks er í undirbúningi frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti sem mun hafa í för með sér ríka upplýsingaskyldu starfsmanna viðskiptabanka og sparisjóða.

Um V. kafla.


     Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Veruleg rýmkun er lögð til varðandi starfsheimildir þessara stofnana frá því sem mælt er fyrir um í núgildandi löggjöf og eru t.d. ákvæði 28. gr. viðskiptabankalaga og 32. gr. laga um sparisjóði felld úr gildi. Túlkun þess hvað teljist til viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi hefur almennt tekið verulegum breytingum til rýmkunar á undanförnum árum. Rýmkun starfsheimilda þessara stofnana er einnig nauðsynleg vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og þeirrar gagnkvæmni sem hann er grundvallaður á. Án hennar kann að skapast hætta á mismunun í starfsheimildum á milli innlendra stofnana og sambærilegra erlendra stofnana sem heimilt verður að starfa hér á landi á grundvelli starfsleyfa lögbærra yfirvalda í heimaríki þeirra. Í ákvæðum kaflans er höfð hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins, svo og ákvæðum danskra laga.
     Ákvæði 1. mgr. 31. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 35. gr. gildandi laga um sparisjóði, um rétt þessara stofnana til að taka við geymslufé eru felld niður samkvæmt frumvarpinu. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp til breytinga á lögum nr. 9/1978, um geymslufé, sem felur í sér að viðskiptabankar og sparisjóðir halda þessum heimildum eftir sem áður.

Um 44. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er almenn skilgreining á starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Upphaf ákvæðisins er óbreytt frá gildandi lögum um þessar stofnanir að öðru leyti en því að nú eru verðbréfaviðskipti tilgreind með afdráttarlausari hætti en gert er samkvæmt gildandi lögum um viðskiptabanka, sbr. 3. mgr. 28. gr. þeirra. Er þetta gert til áhersluauka en heimildir til þessara viðskipta felast í upptalningunni í ákvæðinu. Þar eru taldar upp starfsheimildir sem þessar stofnanir eru almennt taldar njóta samkvæmt tilskipunum Evrópubandalagsins. Um er að ræða verulega rýmkun frá gildandi lögum hér á landi sem veitir þessum stofnunum beina heimild til að stunda starfsemi sem nú verður einungis stunduð af sérstökum fyrirtækjum sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt sérlögum. Með tilliti til þeirra starfsheimilda, sem nú eru taldar falla undir almenna skilgreiningu á viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi, var talið eðlilegt að fella niður 1. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 32. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Starfsheimildirnar skv. 1. mgr. eru þessar:
    Móttaka innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
    Útlánastarfsemi, m.a.:
         
    
    neytendalán,
         
    
    langtímaveðlán,
         
    
    kröfukaup og kaup skuldaskjala og
         
    
    viðskiptalán.
    Fjármögnunarleiga.
    Greiðslumiðlun.
    Útgáfa og umsýsla greiðslumiðla (t.d. greiðslukorta, ferðatékka og víxla).
    Að veita tryggingar og ábyrgðir.
    Viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
         
    
    greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
         
    
    erlendan gjaldeyri,
         
    
    framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
         
    
    gengisbundin bréf og vaxtabréf og
         
    
    verðbréf.
    Þátttaka í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipti tengd slíkum útboðum.
    Ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjöf og þjónusta varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
    Peningamiðlun.
    Stjórnun og ráðgjöf varðandi samval verðbréfa.
    Varsla og ávöxtun verðbréfa.
    Upplýsingar um lánshæfni.
    Útleiga geymsluhólfa.
     Ákvæði þessarar greinar verður að skoða með hliðsjón af 2. gr. frumvarpsins. Í þeirri grein er kveðið skýrt á um það að önnur starfsemi en viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi, eins og hún er skilgreind í V. kafla frumvarpsins, sé þessum stofnunum óheimil. Hvort viðskiptabanki eða sparisjóður telst stunda aðra starfsemi verður að skoða sérstaklega í hverju tilviki. Meirihlutaeignarðild í fyrirtæki er augljóslega eitt af meginskilgreiningaratriðum. Í öðrum tilvikum kann atkvæðisréttur í fyrirtæki eða önnur hlutlæg atriði að ráða úrslitum og leiða til þeirrar niðurstöðu að telja megi að hlutaðeigandi stofnun stundi tiltekna starfsemi. Slík starfsemi er óheimil nema innan þeirra marka sem greinir í 46. gr. frumvarpsins.
    Önnur þjónustustarfsemi verður að standa í eðlilegum tengslum við viðskipti sem tengjast starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða skv. 1. mgr.
     Í 2. mgr. er viðskiptabönkum og sparisjóðum veittur einkaréttur til að taka við innlánum frá almenningi, ásamt öðrum stofnunum sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, og er ákvæðið að því leyti óbreytt frá gildandi lögum.
     Í 3. mgr. er einnig fólgin breyting að því leyti að viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilað að stunda vátryggingarstarfsemi. Með tilliti til þeirrar þróunar, sem orðið hefur varðandi þátttöku viðskiptabanka á þessu sviði, m.a. í ríkjum innan Evrópubandalagsins, og nauðsyn þess að gera viðskiptabönkum og sparisjóðum kleift að laga starfsemi sína að frekari þróun af þessu tagi, er þessi heimild veitt. Sú takmörkun er þó gerð að stofna þarf sérstakt dótturfélag um þessa starfsemi. Er ástæða þess fyrst og fremst sú áhætta sem fylgir tryggingastarfsemi almennt. Samsvarandi ákvæði er að finna í dönskum lögum um viðskiptabanka og sparisjóði frá árinu 1991.
     Í 4. mgr. er veitt heimild til að viðskiptabankar eða sparisjóðir stundi aðra starfsemi en um getur í 1. mgr. enda sé hún í eðlilegu framhaldi af viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi. Ákvæðið er fyrst og fremst sett með það í huga að auðvelda viðskiptabönkum og sparisjóðum að laga sig að breyttum markaðsaðstæðum og breyttum kröfum eða þörfum viðskiptamanna sinna. Mat á því hvenær ákvæðið á við verður að mótast af framkvæmd laganna og hverju einstöku tilviki. Við það mat má m.a. ætla að til athugunar komi hvort starfsemi sé óvenjuleg miðað við viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi á hverjum tíma og einnig hvort henni fylgi sérstaklega mikil áhætta. Samsvarandi ákvæði er í dönskum lögum á þessu sviði.
     Áskilið er samþykki bankaeftirlitsins fyrir starfsemi skv. 4. mgr. og því jafnframt veitt heimild til að ákveða að starfsemi samkvæmt ákvæðinu verði stunduð í sérstöku félagi og er þar átt við dótturfélag. Atriði, sem m.a. hefðu áhrif á það hvort stofna eigi sérstakt félag, eru áhættan sem talin er samfara fyrirhugaðri starfsemi, hve ólík starfsemin er meginstarfsemi hlutaðeigandi stofnunar og hve umsvifamikil hún er með tilliti til þeirrar meginstarfsemi.

Um 45. gr.


    Í 1. mgr. er viðskiptabönkum og sparisjóðum veitt almenn heimild til að yfirtaka eignir til fullnustu krafna. Ákvæðið er óbreytt frá 2. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 33. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og sparisjóði og þarfnast ekki skýringa.
     Í 2. mgr. er kveðið sérstaklega á um það að danskri fyrirmynd að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé heimilt tímabundið að stunda aðra starfsemi en þeim er almennt heimiluð samkvæmt frumvarpinu, enda sé það gert í því skyni að tryggja fullnustu kröfu. Ákvæðið getur átt við starfsemi viðskiptamanns í heild eða að hluta. Með þessari rýmkun er komið til móts við þá þróun sem orðið hefur í aðgerðum hlutaðeigandi stofnana til að tryggja fullnustu kröfu og ákvæðið styrkir einnig almenna heimild til yfirtöku skv. 1. mgr. Gert er ráð fyrir að heimild þessi verði fyrst og fremst notuð þegar aðrar aðgerðir til að tryggja fullnustu kröfu eru ófærar eða ekki líklegar til árangurs. Á grundvelli 45. gr. verður viðskiptabönkum og sparisjóðum einnig betur kleift en nú er að sameina það að tryggja fullnustu kröfu og að aðstoða við endurskipulagningu viðkomandi fyrirtækja. Eignist viðskiptabanki eða sparisjóður hluti í viðkomandi fyrirtæki á grundvelli þessa ákvæðis eiga takmarkanir skv. 46. gr. frumvarpsins ekki við.

Um 46. gr.


    Í þessari grein er fjallað um heimildir viðskiptabanka og sparisjóða til að eiga hluti í fyrirtækjum sem stunda aðra starfsemi en um getur í 44. gr. Ákvæðið er rýmkað verulega frá því sem nú gildir skv. 2. mgr. 28. gr. laga um viðskiptabanka og 2. mgr. 32. gr. laga um sparisjóði. Ákvæði greinarinnar taka mið af tilskipunum Evrópubandalagsins á þessu sviði og sambærileg ákvæði eru einnig í dönskum lögum.
     Með 1. mgr. er heimild viðskiptabanka eða sparisjóða til að eiga hlut í fyrirtækjum sem stunda aðra starfsemi en um getur í 44. gr. rýmkuð verulega frá því sem nú er samkvæmt gildandi lögum. Bókfært virði á eignarhlut í fyrirtæki sem viðskiptabanki eða sparisjóður á eða hefur að veði má nú ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eigin fé eða sparisjóðs. Heimildin takmarkast þó við það að viðskiptabanki eða sparisjóður sé ekki ráðandi í öðru fyrirtæki eða stofnun sem stundar aðra starfsemi en skv. 1. mgr. 44. gr. frumvarpsins þannig að telja megi að viðskiptabanki eða sparisjóður stundi þá starfsemi. Að því er varðar veð er um nýmæli að ræða að danskri fyrirmynd. Þar sem veðréttindi eru í eðli sínu óbein eignarréttindi þótti eðlilegt að fella þau undir ákvæðið. Heimild ákvæðisins á við um eignarhluti eða veð í einstökum fyrirtækjum og er þannig mun rýmri en núgildandi lög sem takmarkast við 2% af eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs. Þá er heimildin ekki takmörkuð við félög með takmarkaðri ábyrgð eins og gert er í gildandi lögum. Hins vegar er gert ráð fyrir því að heildarskuldbindingar hlutaðeigandi fyrirtækis gagnvart viðskiptabanka eða sparisjóði að viðbættum eignarhlut eða veðum hlutaðeigandi stofnunar í eignum fyrirtækisins fari ekki fram úr hámarki sem sett verður í reglum bankaeftirlitsins um fyrirgreiðslu til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila. Slíkar reglur yrðu settar á grundvelli laga um Seðlabanka Íslands. Samsvarandi reglur eru lögfestar í dönskum lögum og miða nú við 35% af eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs. Innan Evrópubandalagsins er vinna við samræmingu reglna um þessi efni á lokastigi og verður höfð hliðsjón af niðurstöðu þeirrar samræmingar við setningu reglna samkvæmt ákvæðinu.
     Í 2. mgr. eru takmarkanir á bókfærðu virði samanlagðra eignarhluta viðskiptabanka eða sparisjóðs í fyrirtækjum. Er um verulega rýmkun að ræða frá gildandi lögum sem miða við 15% af eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs.
     Ákvæði 2. mgr. greinist í aðalatriðum í tvo hluta. Í fyrsta lagi má samtala bókfærðs virðis á virkum eignarhlutum, þ.e. eignarhlutum sem nema 10% eða meira af eigin fé viðkomandi fyrirtækis, ekki nema hærri fjárhæð en 60% af eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs. Hins vegar má samtala allra eignarhluta viðskiptabanka eða sparisjóðs í fyrirtækjum ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 100% af eigin fé hlutaðeigandi stofnunar. Í síðara tilvikinu er átt við alla eignarhluti hvort sem um er að ræða virka eignarhluti eða aðra smærri. Við mat á þessum atriðum ber að telja með eignarhluti sem banki eða sparisjóður hefur eignast vegna fullnustu krafna skv. 45. gr. Hins vegar reiknast ekki með eignarhlutir sem dragast frá við útreikning á eigin fé eða eignarhlutir í fyrirtækjum sem mynda samstæðu með viðskiptabanka eða sparisjóði, sbr. 56. gr. frumvarpsins.
     Í 3. mgr. er veitt heimild til að eignarhlutir viðskiptabanka eða sparisjóðs geti farið fram yfir mörk skv. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. Ákvæðið er hugsað sem undantekning og ber að beita því í sérstökum tilvikum. Komi til þess ber að draga þá fjárhæð, sem er umfram heimiluð mörk, frá við útreikning á eigin fé hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs.
     Ákvæði 4. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Í 5. mgr. er nýtt ákvæði sem varðar lán viðskiptabanka eða sparisjóðs vegna kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum. Samsvarandi ákvæði er í dönskum lögum. Ákvæðið skýrir sig efnislega sjálft.

Um 47. gr.


    Þessi grein felur í sér grundvallarbreytingar frá gildandi lögum. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. gildandi viðskiptabankalaga er bankastjórum, aðstoðarbankastjórum og skoðunarmönnum viðskiptabanka óheimilt að vera skuldugir þeim banka sem þeir starfa við og sama á við um maka þessara aðila. Sama á við um sparisjóði, sbr. 1. mgr. 38. gr. gildandi laga um sparisjóði. Rökin fyrir þessari reglu voru þau að koma í veg fyrir að aðilar nátengdir þessum stofnunum gætu notað aðstöðu sína innan þeirra til að afla sér óeðlilegra hlunninda. Sömu sjónarmið eiga enn við þrátt fyrir þá breytingu sem hér er lögð til. Hins vegar hefur því verið haldið fram að núgildandi ákvæði séu óþarflega íþyngjandi og að það standi hlutaðeigandi stofnunum næst að sinna fyrirgreiðslu við þá aðila sem ákvæðið tekur til. Breytingin, sem hér er lögð til, kemur til móts við þessi sjónarmið. Hins vegar eiga enn við þau meginsjónarmið að þeim séu ekki veitt óeðlileg hlunnindi eða skapaðar aðstæður til að misnota aðstöðu sína að öðru leyti. Þeim reglum, sem settar eru í ákvæðinu um málsmeðferð, er ætlað að koma í veg fyrir það. Það verður á ábyrgð bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar að tryggja að ekki sé um óeðlilega fyrirgreiðslu að ræða.
     Í ákvæðinu er ekki vikið að aðstoðarbankastjórum eða aðstoðarsparisjóðsstjórum eins og gert er í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Um heimildir þeirra í þessu tilliti fer eftir reglum sem settar verða skv. 2. mgr. Á grundvelli þessa ákvæðis væri einnig heimilt að ákveða að viðskipti nánar tiltekinna starfsmanna hlutaðeigandi stofnunar fari eftir sömu meginreglum og gilda um bankastjóra eða sparisjóðsstjóra skv. 1. mgr. Ætti það einkum við um aðila sem samkvæmt stjórnskipulagi hlutaðeigandi stofnunar gegna stöðu sem réttlætir slíka sérstöðu.

Um 48. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru nýmæli. Kveðið er á um skyldu til nafnskráningar innlánsreikninga, annarra viðskiptareikninga og geymsluhólfa. Þessar upplýsingar eru almennt skráðar í dag samkvæmt fyrirmælum opinberra aðila eða einstakra viðskiptabanka eða sparisjóða án lagaskyldu. Þykir eðlilegt og nauðsynlegt að krefjast nafnskráningar allra innlánsreikninga og annarra viðskiptareikninga við þessar stofnanir. Sama gildir um geymsluhólf. Í annan stað er samkvæmt ákvæðum greinarinnar krafist sambærilegra upplýsinga um stofnun annarra viðskiptasambanda hlutaðeigandi stofnana og viðskiptamanna þeirra eftir því sem við getur átt. Greinin virt í heild miðar þannig einnig að því að auðvelda framkvæmd aðgerða til þess að sporna við tilraunum til peningaþvættis, en víðtæk alþjóðleg samvinna fer nú fram til að samræma reglur um þessi efni og tekur Ísland þátt í henni.

Um 49. gr.


    Þessi grein er í samræmi við ákvæði 32. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 36. gr. gildandi laga um sparisjóði og þarfnast ekki skýringa.

Um 50. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða ákvæðum gildandi laga um viðskiptabanka og laga um sparisjóði að öðru leyti en því að í stað orðsins „bækur“ í upphafi málsgreinarinnar er nú notað orðið „innlánsskilríki“ sem þykir nákvæmara. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
     Ákvæði 2. mgr. er nýmæli í lögum en í samræmi við gildandi framkvæmd. Það tekur til tryggingarsjóða viðskiptabanka og sparisjóða og einnig til Lánastofnunar sparisjóðanna hf. Þykir eðlilegt að staðfesta þessa framkvæmd með ákvæði þessu.

Um 51. gr.


    Í þessari grein eru gerðar breytingar til rýmkunar frá gildandi lögum að því er varðar heimildir viðskiptabanka og sparisjóða til að eiga aðrar fasteignir en þær sem stofnanirnar nota í starfsemi sinni. Samkvæmt ákvæðinu verður þessum stofnunum nú heimilt að eiga aðrar fasteignir að verðmæti allt að 20% af eigin fé hlutaðeigandi stofnunar. Heimildin er almenns eðlis og ekki háð því að viðskiptabanki eða sparisjóður eignist fasteignirnar á grundvelli yfirtöku skv. 1. mgr. 45. gr. frumvarpsins. Er sérstaklega tekið fram að við útreikning hlutfalls samkvæmt þessu ákvæði skuli ekki taka með fasteignir sem hlutaðeigandi stofnun hefur eignast með yfirtöku til fullnustu kröfu eða fasteignir sem stofnunin notar í starfsemi sinni. Með þessari breytingu eru heimildir innlendra viðskiptabanka eða sparisjóða samræmdar því sem þekkist erlendis. Þá gerir þessi breyting viðskiptabönkum og sparisjóðum kleift að aðstoða við uppbyggingu atvinnustarfsemi, t.d. með því að eiga sjálfir fasteignir en leigja þær út til aðila sem ekki hafa bolmagn til að fjárfesta í slíkum eignum á þeim tíma.

Um 52. gr.


    Grein þessi á sér fyrirmynd í dönskum lögum og er ætlað að tryggja að fyrirgreiðsla til aðila, sem í krafti eignarhlutar eða á annan hátt geta haft veruleg áhrif á ráðstafanir hlutaðeigandi stofnunar, sé í samræmi við reglur sem viðkomandi bankaráð eða sparisjóðsstjórn hefur sett og eðlilega viðskiptahætti að öðru leyti.

Um 53. gr.


    Í þessari grein er sett sú meginregla að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir um þau efni sem ákvæðið fjallar um. Er þetta í samræmi við reglur Evrópubandalagsins. Að því er varðar viðskiptabanka er ákvæðið samhljóða 22. gr. gildandi viðskiptabankalaga. Hins vegar felst í þessu ákvæði frumvarpsins breyting að því er varðar sparisjóðina. Felld er brott bein heimild þeirra til að hafa samráð við aðra sparisjóði. Hins vegar er haldið þeirri skipan gildandi laga að Lánastofnun sparisjóðanna hf. geti að ósk sparisjóðanna lagt fyrir þá leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld. Jafnframt er samsvarandi heimild Sambands íslenskra sparisjóða felld niður. Með hliðsjón af þeim megintilgangi banns við samráði að tryggja eðlilega samkeppni, svo og því að sparisjóðir eiga almennt ekki í innbyrðis samkeppni, er talið eðlilegt að heimila þeim að fela Lánastofnun sparisjóðanna hf. að veita leiðbeiningar í þessum efnum enda fellur það að hlutverki stofnunarinnar eins og það er skýrt í frumvarpi þessu. Vegna aðstæðna hérlendis má ætla að þessi heimild verði fremur til að styrkja samkeppni en draga úr henni.

54. gr.


    Fyrri málsliður þessarar greinar er efnislega samhljóða 35. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og 39. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði, þótt orðalagi hafi verið breytt með tilliti til þess að löggjöf um þessar stofnanir er nú sameinuð. Skilgreining á lausu fé er nokkuð breytt og er í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um Seðlabanka Íslands sem lagt var fram á Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–1992.

Um 55. gr.


    Grein þessi er í meginatriðum samhljóða 4. gr. laga nr. 7/1992, um breytingu á lögum um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og 1. gr. laga nr. 8/1992, um breytingu á lögum um sparisjóði, nr. 87/1985. Framangreindar breytingar voru gerðar til að laga ákvæði viðskiptabankalaga og sparisjóðalaga að svonefndum BIS-reglum er fjalla um lágmark og útreikning eigin fjár innlánsstofnana. Lítils háttar breytingar eru nú gerðar á þessum lagaákvæðum til samræmis við ákvæði tilskipunar um eigið fé lánastofnana, nr. 89/299/EBE, og tilskipunar um eiginfjárhlutfall lánastofnana nr. 89/647/EBE.
     1. mgr. er efnislega óbreytt frá ákvæðum laga nr. 7/1992 og nr. 8/1992.
     Orðalagi 2. mgr. hefur verið breytt lítillega frá ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 7/1992 og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 8/1992 til samræmis við ákvæði tilskipunar um eigið fé lánastofnana, nr. 89/299/EBE. Í aðalatriðum er einungis um nákvæmara orðalag að ræða miðað við gildandi ákvæði.
     3. mgr. er í meginatriðum samhljóða ákvæðum laga nr. 7/1992 og 8/1992, sbr. eftirfarandi: 1. tölul. er efnislega óbreyttur; 2. tölul., áður 3. tölul., er nákvæmar orðaður; 3. tölul., áður 2. tölul., er óbreyttur; 4. tölul. er efnislega óbreyttur en orðalagi er breytt til að gera ákvæðið skýrara; 5. tölul. er efnislega óbreyttur.
     4. mgr. er óbreytt frá ákvæðum laga nr. 7/1992 og nr. 8/1992. Í 4. mgr. er tilgreint hvaða liðir teljist falla undir eiginfjárþátt B og er í frumvarpinu eingöngu einn liður tilgreindur, þ.e. víkjandi lán. Samkvæmt tilskipun EB, sem gildir um eigið fé lánastofnana, nr. 89/299/EBE, skal endurmatsreikningur teljast með eiginfjárþætti B en ekki eiginfjárþætti A eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Samkvæmt þeim tilskipunum EB, sem gilda um ársreikninga félaga, er meginreglan kostnaðarverðsreikningsskil en EES-samningurinn gerir ráð fyrir tveggja ára aðlögunartíma að ákvæðum þeirrar tilskipunar fyrir Ísland, þ.e. til 1. janúar 1995. Fram að þeim tíma mun verða litið svo á að verðbólgureikningsskil, sem tíðkuð hafa verið hér á landi, verði heimil, en að þeim tíma liðnum þarf að setja í lög nýtt ákvæði sem gerir ráð fyrir að endurmatsreikningur samkvæmt kostnaðarverðsreikningsskilum teljist með eiginfjárþætti B. Reyndar er hugsanlegt að nýta megi heimildarákvæði 5. mgr. 56. gr. í þessu skyni.

Um 56. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru efnislega nær óbreytt frá ákvæðum 5. mgr. 4. gr. laga nr. 7/1992 og 5. mgr. 1. gr. laga nr. 8/1992. Tilvísun í ákvæði gildandi laga varðandi skilgreiningu á tegund félaga, sem viðskiptabanki eða sparisjóður á hlut í, er breytt þar sem nú er vísað til eignarhluta í öðrum þeim félögum sem stunda starfsemi sem talin er upp í viðauka I sem vísað er til í 44. gr. frumvarpsins. 1.–3. tölul. í 1. mgr. eru óbreyttir að undanskilinni tilvísun í lok 3. tölul. til frádráttar skv. 1. mgr. þessarar greinar frumvarpsins. Hér er um að ræða leiðréttingu á villu sem varð við undirbúning að lagabreytingunni vorið 1992, sbr. lög nr. 7/1992 og nr. 8/1992 en í þeim lögum var ranglega vísað á milli málsgreina í samsvarandi ákvæðum.
     Ákvæði 3. mgr. er nýtt. Þar er gert ráð fyrir að eignarhlutir og víkjandi lán viðskiptabanka eða sparisjóðs hjá dótturfélögum sem reka vátryggingarstarfsemi, sbr. 3. mgr. 44. gr., eða starfsemi skv. 4. mgr. sömu greinar, skuli dragast frá eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli. Eignarhlutir og víkjandi lán viðskiptabanka eða sparisjóðs hjá framangreindum dótturfélögum dragast frá þar sem ekki er gert ráð fyrir að slík félög teljist með í samstæðureikningi móðurfélags.
     Ákvæði 4. mgr. er nýtt. Þar er gert ráð fyrir að frá eigin fé dragist eignarhlutir í félögum sem eru umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 46. gr. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
     Ákvæði 5. mgr. er óbreytt frá ákvæðum 6. mgr. 4. gr. laga nr. 7/1992 og 6. mgr. 1. gr. laga nr. 8/1992.
     Ákvæði 6. mgr., sem kveður á um að ákvæði greinarinnar skuli einnig gilda fyrir Lánastofnun sparisjóðanna, er óbreytt frá ákvæði 7. mgr. 1. gr. laga nr. 8/1992.

Um 57. gr.


    1. mgr. þessarar greinar samsvarar efnislega 1. mgr. 37. gr. gildandi laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og 1. mgr. 41. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði. Nýmæli er þó að ársskýrsla, sem í þessu frumvarpi nefnist skýrsla stjórnar, er ekki talin hluti af ársreikningi og er það í samræmi við 1. mgr. 93. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum, sbr. enn fremur 1. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 78/660/EBE um ársreikninga félaga.
     Ársreikningur skal skv. 2. málsl. 1. mgr. hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Hins vegar skal skv. 3. málsl. 1. mgr. semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Með hliðsjón af 1. mgr. 63. gr. frumvarpsins, sem fjallar um framkvæmd endurskoðunar, er nauðsynlegt að aðskilja skýrslu stjórnar frá sjálfum ársreikningnum, enda er ekki hægt að ætlast til að skoðunarmenn geti staðfest áreiðanleik þeirra upplýsinga sem gert er ráð fyrir að fram komi í ársskýrslu, sbr. t.d. 2. mgr. 59. gr. frumvarpsins. Hins vegar er gert ráð fyrir í 3. mgr. 63. gr. að skoðunarmenn skuli í áritun sinni vekja athygli á því ef skýrsla stjórnar hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða ef skýrsla stjórnar er ekki í samræmi við ársreikning.
     Í síðasta málslið 1. mgr. þessarar greinar er gert ráð fyrir að reikningsár viðskiptabanka og sparisjóða sé almanaksárið en í gildandi lögum er gert ráð fyrir að reikningsárið sé ákveðið í reglugerð eða samþykktum. Nauðsynlegt er að ákveðin festa sé í þessum efnum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og er því engin ástæða til að gefa möguleika á annarri skipan en tíðkast hefur, þ.e. að reikningsárið sé sama og almanaksárið.
     2. mgr. er efnislega samhljóða ákvæði 2. mgr. 93. gr. gildandi laga um hlutafélög. Inn í þessa málsgrein hefur auk þess verið bætt ákvæði 3. mgr. 38. gr. laga um viðskiptabanka sem lýtur að því að ársreikningur ríkisviðskiptabanka skuli staðfestur af ráðherra.

Um 58. gr.


    1. og 2. mgr. þessarar greinar eru efnislega samhljóða 2. og 3. tölul. 2. gr. tilskipunar nr. 78/660/EBE um ársreikninga félaga en tilvitnuð ákvæði þeirrar tilskipunar gilda einnig fyrir ársreikninga banka og annarra fjármálastofnana skv. 1. gr. tilskipunar nr. 86/635/EBE.
     Samkvæmt 3. mgr. er gert ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands setji reglur um gerð ársreiknings en í því felst m.a. að kveða á um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings, skýringar og mat á einstökum liðum. Eðlilegt þykir að hin margvíslegu atriði sem kveða þarf á um við gerð ársreiknings séu sett í reglur. Hér er gert ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands setji slíkar reglur en í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði er það ráðherra sem setja skal sambærilegar reglur. Hjá öðrum Norðurlandaþjóðum er viðkomandi eftirlitsstofnunum falið það hlutverk að setja slíkar reglur og er lagt til að það verði einnig gert hér á landi.

Um 59. gr.


    Í þessari grein er fjallað um þau atriði sem upplýsa skal um í skýrslu stjórnar. 1., 3. og 4. mgr. eru í meginatriðum samhljóða 1. mgr., 1.–3. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. 103. gr. gildandi laga um hlutafélög. Síðasti málsliður 3. mgr. þessarar greinar gerir auk þess ráð fyrir að ákvæði hlutafélagalaga gildi að öðru leyti eftir því sem við á.
     2. mgr. er efnislega samhljóða a–c-liðum 2. tölul. 46 gr. tilskipunar nr. 78/660/EBE.

Um 60. gr.


    Ákvæði greinarinnar er breyting frá 42. gr. gildandi laga um sparisjóði. Með því er fyrst og fremst verið að gera stofnfjáreign í sparisjóði eftirsóknarverðari og um leið samkeppnishæfari við aðra fjárfestingarkosti á fjármagnsmarkaði. Niður er felld viðmiðun við bestu innlánskjör í sparisjóði á hverjum tíma en lagt í vald aðalfundar að ákveða arðgreiðslu af stofnfé. Hins vegar er kveðið á um að ekki megi ákveða arð hærri en Tryggingarsjóður kveður á um fyrir sparisjóðina í heild, enda getur Tryggingarsjóður haft verulegra hagsmuna að gæta af því að útgreiðsla úr eiginfjárreikningum sparisjóða tefli hag einstakra sparisjóða ekki í tvísýnu. Þá er í ákvæðinu kveðið á um að hagnað, sem ekki er varið til arðgreiðslu, skuli leggja í varasjóð.

Um 61. gr.


    1. og 2. mgr. kveða á um hverjir skuli endurskoða ársreikninga viðskiptabanka og sparisjóða og hvernig þeir skuli kjörnir. Efnislega er um óbreytta skipan mála að ræða frá gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 1. og 2. mgr. 40. gr. laga um viðskiptabanka og 1. mgr. 45. gr. laga um sparisjóði, ef undan eru skilin ákvæði gildandi laga um viðskiptabanka og sparisjóði um að í samþykktum hlutafélagsbanka eða sparisjóðs megi ákveða að löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarstofu skuli tilnefna á annan hátt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 40. gr. laga um viðskiptabanka og 2. málsl. 1. mgr. 45. gr. laga um sparisjóði. Síðasttöldu ákvæðin eru felld brott í þessu frumvarpi og er tilgangurinn sá að gera skoðunarmenn óháðari stjórn viðskiptabankans eða sparisjóðsins með því að gera ráð fyrir að þeir séu eingöngu kosnir á aðalfundi, sbr. þó ákvæði 3. mgr. þessarar greinar varðandi sparisjóði.
     Í 3. mgr. er gerð sú breyting frá ákvæði 2. mgr. 45. gr. gildandi laga um sparisjóði að heimild til að veita undanþágu frá kosningu löggilts endurskoðanda færist frá stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða til bankaeftirlitsins. Þykir eðlilegt og í samræmi við uppbyggingu frumvarpsins að öðru leyti að það sé á valdi eftirlitsaðilans að veita undanþágu af þessu tagi. Hins vegar er ekki gerð breyting að því leyti að komi til veitingar undanþágu samkvæmt ákvæðinu skal stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða tilnefna endurskoðanda.
     Ákvæði 4. mgr. er nýmæli en þar er gert ráð fyrir að ársreikningar móður-, systur- og dótturfélaga viðskiptabanka eða sparisjóða skuli endurskoðaðir af sömu skoðunarmönnum og endurskoða ársreikning hlutaðeigandi stofnunar. Með hliðsjón af mikilvægi þeirrar starfsemi sem um er að ræða þykir rétt að tryggja sem best að framkvæmd endurskoðunar allra þátta innan sömu samstæðu sé á sömu hendi.
     Ákvæði 5. mgr. er samhljóða ákvæðum 5. mgr. 40. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 4. mgr. 45. gr. laga um sparisjóði.

Um 62. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða ákvæðum 3. mgr. 40. gr. laga um viðskiptabanka og 3. mgr. 45. gr. laga um sparisjóði og þarfnast ekki skýringa.
     Ákvæði 2. mgr. um skoðunarmenn og maka þeirra og er efnislega óbreytt frá 1. mgr. 33. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 1. mgr. 38. gr. gildandi laga um sparisjóði. Ekki þótti fært að gera samsvarandi breytingar hvað þessa aðila snertir og gerðar eru tillögur um varðandi banka- eða sparisjóðsstjóra og maka þeirra skv. 47. gr. frumvarpsins, enda er það grundvallaratriði að skoðunarmenn séu óháðir hlutaðeigandi stofnun, sbr. einnig í þessu sambandi lög nr. 67/1976, um löggilta endurskoðendur.
     Ákvæði 3. mgr. er samhljóða ákvæði fyrri málsliðar 4. mgr. 40. gr. laga um viðskiptabanka.

Um 63. gr.


    1. mgr. er samhljóða ákvæði 42. gr. laga um viðskiptabanka og sambærileg við ákvæði 46. gr. laga um sparisjóði að því undanskildu að í síðasta málslið 42. gr. laga um viðskiptabanka er sleppt orðunum „varðandi upplýsingaskyldu banka“ þar sem þau eru í reynd óþörf.
     2. mgr. er samhljóða ákvæðum 1. mgr. 43. gr. laga um viðskiptabanka og 1. mgr. 48. gr. laga um sparisjóði.
     Ákvæði 1. og 3. málsl. 3. mgr. er samhljóða 2. mgr. 43. gr. laga um viðskiptabanka og 2. mgr. 48. gr. laga um sparisjóði.
     Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. er efnislega samhljóða ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 88. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum. Sambærilegt ákvæði er einnig í 51. gr., lið 1, a), í tilskipun nr. 78/660/EBE um ársreikninga félaga en tilvitnað ákvæði gildir einnig um lánastofnanir, sbr. 1. tölul. 1. gr. tilskipunar nr. 86/635/EBE, um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana.
     4. mgr. er samhljóða 3. mgr. 43. gr. laga um viðskiptabanka og 3. mgr. 48. gr. laga um sparisjóði.
     5. mgr. er efnislega samhljóða ákvæðum 4. mgr. 43. gr. laga um viðskiptabanka og 47. gr. laga um sparisjóði.
     6. mgr. er efnislega samhljóða ákvæðum 5. mgr. 43. gr. laga um viðskiptabanka og 5. mgr. 45. gr. laga um sparisjóði.
     7. mgr. er nýmæli en þar er gert ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands geti sett nánari reglur um framkvæmd endurskoðunar hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, þar með talið um stofnun innri endurskoðunardeilda. Með hliðsjón af mikilvægi starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða þykir nauðsynlegt að hinn opinberi eftirlitsaðili hafi heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd endurskoðunar hjá þessum stofnunum. Þess má geta að í lögum nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða, er að finna sambærilegt ákvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. þeirra laga.
     Ákvæði varðandi endurskoðunardeild eru í gildandi lögum um viðskiptabanka en samsvarandi ákvæði er ekki í gildandi lögum um sparisjóði. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. gildandi laga um viðskiptabanka er skylt að starfrækja endurskoðunardeild en samkvæmt gildandi sparisjóðalögum er ekki um skyldu að ræða. Gert er ráð fyrir að í reglum, sem settar yrðu með heimild í þessari málsgrein, verði stofnunum yfir tiltekinni stærð gert skylt að starfrækja endurskoðunardeild. Í reynd er þess ekki að vænta að mikil breyting verði á núverandi fyrirkomulagi, þ.e. að endurskoðunardeildir eru nú eingöngu starfræktar hjá viðskiptabönkunum, enda á slíkt fyrirkomulag eingöngu við hjá stofnunum yfir tiltekinni stærð. Þess má geta að samkvæmt reglum danska bankaeftirlitsins er gert ráð fyrir að bankar og sparisjóðir með niðurstöðutölu efnahagsreiknings yfir 750 milljónir danskra króna, þ.e. 7.200 milljónir íslenskra króna, skuli starfrækja endurskoðunardeild.

Um 64. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið geti leyst skoðunarmenn frá störfum ef störf þeirra eru ekki í samræmi við ákvæði laga og reglna og í stað þeirra útnefnt aðra skoðunarmenn þar til nýir skoðunarmenn hafa verið valdir. Samkvæmt 2. mgr. getur bankaeftirlitið látið framkvæma sérstaka endurskoðun hjá viðskiptabanka eða sparisjóði á kostnað hlutaðeigandi stofnunar en kostnaður við slíka endurskoðun skal þó háður samþykki bankaeftirlitsins. Með sérstakri skoðun er hér átt við endurskoðun þriðja aðila, þ.e. hvorki kjörins skoðunarmanns né bankaeftirlits.
     Ákvæði þessarar greinar þykja nauðsynleg með tilliti til mikilvægis þeirra stofnana sem hér um ræðir og þeirra ríku hagsmuna sem almenningur hefur af því að þessar stofnanir séu starfræktar samkvæmt þeim ýtrustu öryggisreglum sem hverju sinni gilda um starfsemina. Þess má geta að sambærileg ákvæði eru í dönskum lögum.

Um 65. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að endurskoðaður og undirritaður ársreikningur viðskiptabanka eða sparisjóðs ásamt skýrslu stjórnar skuli sendur bankaeftirlitinu innan 10 daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Með undirritun er hér einnig átt við staðfestingu ráðherra á ársreikning ríkisviðskiptabanka, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 57. gr. Ákvæði varðandi tímafresti við gerð ársreiknings eru í 1. og 3. mgr. 38. gr. gildandi laga um viðskiptabanka, þ.e. að ársreikningur ríkisviðskiptabanka skuli lagður fyrir skoðunarmenn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok reikningsárs og að endurskoðaður ársreikningur ríkisviðskiptabanka skuli lagður fyrir ráðherra til staðfestingar eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Í 1. mgr. 43. gr. gildandi laga um sparisjóði er gert ráð fyrir að gerð ársreiknings og endurskoðun skuli lokið eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Ákvæði 3. mgr. er efnislega samhljóða ákvæðum 39. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og 44. gr. gildandi laga um sparisjóði og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 66. gr.


    1. mgr. gerir ráð fyrir að bankaeftirlitið setji reglur um mánaðarleg efnahagsyfirlit, árshlutauppgjör á eiginfjárhlutfalli, árshlutarekstrar- og efnahagsuppgjör og lausafjáruppgjör. Í 16. gr. laga nr. 36/1986 er reyndar nú þegar heimild fyrir bankaeftirlitið að afla þeirra upplýsinga sem um er rætt í 1. mgr., en rétt þykir að hafa slíkt ákvæði í ársreikningakafla þessa frumvarps. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki frekari skýringa.
     Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Samkvæmt 3. mgr. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið geti veitt undanþágu frá ákvæðum um gerð árshlutauppgjörs. Ekki er raunhæft að gera ráð fyrir að aðrar stofnanir en viðskiptabankar og stærstu sparisjóðir semji árshlutauppgjör og er þessu ákvæði ætlað að gefa bankaeftirlitinu möguleika á að veita minni innlánsstofnunum undanþágu frá ákvæðum væntanlegra reglna um gerð árshlutauppgjöra.

Um 67. gr.


    Með þessari grein eru tekin inn í frumvarpið ákvæði um samstæðureikninga í tilskipun nr. 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana, sbr. enn fremur tilskipun nr. 83/349/EB um samstæðureikninga og ákvæði tilskipunar nr. 83/350/EBE um eftirlit með lánastofnunum á grunni samstæðureikninga.
     Ákvæði 1. mgr. kveður á um að viðskiptabanki eða sparisjóður, sem er móðurfyrirtæki, skuli ásamt dótturfyrirtæki mynda samstæðu og þarfnast málsgreinin ekki frekari skýringa.
     Í 2.–5. mgr. er að finna nánari skilgreiningu á móður- og dótturfyrirtæki. Ákvæði 2.–5. mgr. eru efnislega í samræmi við ákvæði 1. og 2. gr. tilskipunar nr. 83/349/EBE um samstæðureikninga, sbr. 1. tölul. 42. gr. tilskipunar nr. 86/635/EBE um ársreikning og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana.
     Samkvæmt 6. mgr. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið setji nánari reglur um gerð samstæðureikningsskila. Í áðurnefndum tilskipunum EB eru ýmis ákvæði sem setja þarf í lög eða reglur hér á landi og er talið heppilegra að ákvæði, sem varða nánari útfærslu á samstæðureikningsskilum, verði sett í reglur en meginatriðin sett í lög eins og hér er gert.
     Í 7. mgr. er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins um: a) takmarkanir á eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum, svo og takmarkanir á skuldbindingum stærstu lánþega, b) takmarkanir á eignarhaldi í fasteignum, c) takmarkanir á veitingu lána til aðila sem hafa veruleg áhrif á ráðstafanir stofnunarinnar, d) laust fé og e) eigið fé skuli einnig gilda fyrir samstæðuna þegar um hana er að ræða. Tilgangurinn með ákvæði 7. mgr. er að tryggja að framangreindar öryggisreglur, sem gilda varðandi starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs, gildi einnig fyrir samstæðu þessara stofnana og dótturfélaga. Slíkt ákvæði er nauðsynlegt með hliðsjón af þeim fjárhagslegu tengslum sem eru milli móðurfélags og dótturfélags og þeim áhrifum sem slík tengsl geta haft á einstaka hluta samstæðunnar. Samkvæmt seinni málslið 7. mgr. bera stjórnendur móðurfyrirtækisins ábyrgð á framkvæmd þessa ákvæðis. Þetta ákvæði er nauðsynlegt þar sem hinn opinberi eftirlitsaðili hefur ekki í öllum tilvikum beint eftirlit með félögum innan samstæðunnar.
     Í 8. mgr. er kveðið á um að tiltekin ákvæði VII. kafla frumvarpsins um ársreikning, endurskoðun og samstæðureikningsskil skuli gilda eftir því sem við á bæði fyrir samstæðuna og fyrir einstök fyrirtæki samstæðunnar. Sama á við um það ákvæði frumvarpsins sem fjallar um möguleika bankaeftirlitsins til að afla upplýsinga hjá tengdum fyrirtækjum. Þessi málsgrein þarfnast ekki frekari skýringa.
     Samkvæmt 9. mgr. er bankaeftirlitinu veitt heimild til að ákveða að ákvæði 6.–8. mgr. gildi einnig fyrir önnur tilvik þegar um er að ræða viðskiptabanka eða sparisjóð sem einn og sér eða í samstarfi við annan aðila er í þannig eignatengslum við fyrirtæki að nauðsynlegt teljist að beita þessum reglum. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
     Í 10. mgr. er gert ráð fyrir að ákvæði 6.–8. mgr. þessarar greinar gildi ekki um fyrirtæki sem viðskiptabanki eða sparisjóður hefur eignast tímabundið hlut í, annaðhvort til að tryggja fullnustu kröfu eða vegna endurskipulagningar þess fyrirtækis. Bankaeftirlitið getur þó ákveðið að umrædd ákvæði skuli gilda. Gert er ráð fyrir að ákvæði seinni málsliðar 10. mgr. verði einkum beitt þegar viðskiptabanki eða sparisjóður hefur átt hlut í öðru fyrirtæki um lengri tíma, þannig að vafi leiki á að um tímabundið eignarhald sé að ræða. Enn fremur getur stærð viðkomandi dótturfyrirtækis í hlutfalli við hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóð gefið tilefni til þess að ákvæði seinni málsliðar 10. mgr. verði beitt.
     Í 11. mgr. er bankaeftirlitinu gefin heimild til að veita undanþágu frá ákvæðum 6.–8. mgr. Tilgangur þessa ákvæðis er að gefa möguleika á að undanþiggja einstök tengd fyrirtæki frá tilvitnuðum ákvæðum. Þetta á t.d. við þegar smæð fyrirtækis er slík að ekki skiptir máli fyrir samstæðuna hvort umrædd ákvæði gilda eða ekki eða eðli rekstrar fyrirtækis er með þeim hætti að óviðeigandi sé að gera samstæðureikning.

Um VIII. kafla.


     Í VIII. kafla, 68.–72. gr., eru ákvæði um slit viðskiptabanka eða sparisjóða. Í gildandi lögum er ákvæðum um slit og samruna þessara stofnana skipað saman í kafla en frá því er horfið í frumvarpi þessu. Ákvæði þessa kafla um slit eru efnislega óbreytt frá 45.–49. gr. laga um viðskiptabanka og 61.–64. gr. laga um sparisjóði og skýra sig sjálf. Þó hefur orðalagi verið breytt í einstöku tilvikum vegna laga um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds í héraði.

Um IX. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um samruna viðskiptabanka og sparisjóða. Ákvæðin eru að
flestu leyti efnislega óbreytt frá ákvæðum gildandi laga. Þó hefur einstökum efnisatriðum og orðalagi verið breytt nokkuð frá því sem nú gildir um þessi atriði, að sumu leyti til einföldunar. Í gildandi lögum er ýmist rætt um samruna eða sameiningu þessara stofnana. Í frumvarpinu er til einföldunar lagt til að notað verði orðið samruni. Með samruna er átt við þau tilvik að einn eða fleiri viðskiptabankar eða sparisjóðir renni saman við aðra slíka þannig að stofnun, sem fyrir hendi er, heldur áfram tilvist sinni eftir samrunann. Einnig er átt við þau tilvik að einn eða fleiri viðskiptabankar eða sparisjóðir renni saman og myndi nýja stofnun sem ekki var til fyrir. Um ríkisviðskiptabanka gilda sérstakar reglur skv. 75. gr. frumvarpsins.

Um 73. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. er einungis gert ráð fyrir samruna viðskiptabanka og sparisjóða en felld eru brott ákvæði um samruna þessara stofnana við aðrar innlánsstofnanir. Þótti ekki ástæða til að halda óbreyttum ákvæðum laga að þessu leyti, sérstaklega með tilliti til rýmkaðra heimilda viðskiptabanka og sparisjóða skv. VI. kafla. Gert er ráð fyrir að til samruna þurfi samþykki ráðherra og er það óbreytt frá gildandi lögum. Þá er einnig gert ráð fyrir að ráðherra skuli leita umsagnar bankaeftirlitsins um samruna áður en leyfi er veitt. Í þessu felst breyting frá því sem gildir um viðskiptabanka. Í lögum um sparisjóði er gert ráð fyrir slíkri umsögn bankaeftirlitsins og einnig stjórnar Tryggingarsjóðs sparisjóða en áskilnaður um umsögn hennar er felldur brott. Þá er einnig fellt brott ákvæði 2. mgr. 65. gr. gildandi laga um sparisjóði um skipun sérstakrar nefndar sparisjóða sem geri tillögur um fjárhagslegt uppgjör við samruna og rekstrartilhögun að honum loknum. Þykir ákvæðið óþarft og nægilegt að um þessi atriði fari samkvæmt samningum aðila. Þá er einnig fellt brott ákvæði 3. mgr. sömu greinar gildandi laga um sparisjóði sem kveður á um að ráðherra skuli, áður en samruni sparisjóðs er heimilaður, athuga möguleika á samruna sparisjóðs við annan sparisjóð. Þykir ákvæðið óþarft og eðlilegt að ákvörðun um og ábyrgð á því hvort sparisjóður rennur saman við annan sparisjóð eða viðskiptabanka sé alfarið í höndum sparisjóðsstjórnar og fundar stofnfjáreigenda. Hins vegar er nú gerð sú krafa samkvæmt frumvarpinu að til samruna þurfi samþykki aukins meiri hluta. Efnislega er ákvæðið að þessu leyti sniðið eftir 76. gr. laga um hlutafélög.
     Ákvæði 2. mgr. er nýjung og á sér hliðstæðu í dönskum lögum á þessu sviði. Er nauðsynlegt að gera ráð fyrir þeim möguleika sem greinin fjallar um. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.
     Ákvæði 3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum um viðskiptabanka. Samsvarandi ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum um sparisjóði en ákvæðið tekur einnig til þeirra eðli máls samkvæmt. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
     Ákvæði 4. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum um viðskiptabanka að öðru leyti en því að orðalagi er breytt vegna þess að ákvæðið tekur nú einnig til sparisjóða.
     Ákvæði 5. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 74. gr.


    Í þessari grein eru settar fram kröfur um eigið fé viðskiptabanka eða sparisjóða miðað við samanlagt eigið fé þeirra að loknum samruna. Ákvæðið tekur til samruna viðskiptabanka eða sparisjóða sem voru starfandi við gildistöku laganna og felur í sér að þeim er heimilt að halda áfram starfsemi eftir samruna enda þótt lágmarki eigin fjár skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr. sé ekki náð. Er þetta í samræmi við undanþáguákvæði 7. gr. frumvarpsins en 2. mgr. þeirrar greinar tekur til stofnana sem hér getur.

Um 75. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er óbreytt frá 4. mgr. 50. gr. gildandi laga um viðskiptabanka að öðru leyti en því sem áður er sagt um aðrar innlánsstofnanir og því að nú er í ákvæðinu notað orðið „samruni“ í stað orðsins „yfirtaka“ í gildandi lögum. Engin breyting er þó á túlkun ákvæðisins frá því sem verið hefur. Samruni ríkisviðskiptabanka við aðra viðskiptabanka eða sparisjóði, sem felur í sér að starfandi ríkisviðskiptabanki hættir störfum, getur ekki orðið nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Sé um að ræða yfirtöku starfandi ríkisviðskiptabanka á öðrum viðskiptabanka eða sparisjóði þannig að ríkisviðskiptabankinn haldi áfram starfsemi nægir hins vegar leyfi ráðherra. Samruni tveggja ríkisviðskiptabanka þyrfti samkvæmt þessu að eiga sér stoð í sérstakri lagaheimild. Er þetta eðlileg skipan með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins.

Um X. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða. Nokkrar breytingar eru gerðar hvað varðar Tryggingarsjóð sparisjóða og einnig aðrar minni háttar orðalagsbreytingar, m.a. vegna þess að gildandi lög um sparisjóði tóku mið af því að verið var að stofna nýjan Tryggingarsjóð. Að öðru leyti eru ákvæði kaflans sambærileg við ákvæði gildandi laga. Fyrir liggur að endurskoða þurfi kaflann með tilliti til fyrirhugaðrar samræmingar innan Evrópubandalagsins á þessu sviði. Þótti því ekki rétt að gera miklar breytingar á kaflanum að þessu sinni.

Um 76. gr.


    Hér er fjallað um Tryggingarsjóð viðskiptabanka. Ákvæðið er óbreytt frá 51. gr. gildandi laga um viðskiptabanka að öðru leyti en því að bætt er inn í ákvæðið að gjald til Tryggingarsjóðs miðist við næstu áramót á undan. Er þetta til samræmis við það sem gildir um greiðslur í Tryggingarsjóð sparisjóða. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 77. gr.


    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 49. gr. gildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að felldur er brott sá hluti ákvæðisins sem bannar að framlög til Tryggingarsjóðs séu færð sem eign í efnahagsreikningi sparisjóða. Rökin fyrir þessu ákvæði voru í upphafi þau að í tíð eldri Tryggingarsjóðs, fyrir gildistöku laga nr. 87/1985, tíðkaðist að færa framlög með þessum hætti. Þessu var breytt með gildandi lögum og er ekki gert nú. Þykir því ekki ástæða til að hafa í lögum beint ákvæði hér að lútandi enda þótt ekki sé ætlunin að breyting verði á framkvæmd frá því sem nú er. Ákvæðið er að öðru leyti óbreytt frá 1. mgr. 50. gr. gildandi laga.

Um 78. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um greiðslur til Tryggingarsjóðs sparisjóða. Ákvæðið er nokkuð breytt frá gildandi lögum og er með því ætlunin að styrkja Tryggingarsjóð sparisjóða. Höfð var hliðsjón af ákvæðum í samþykktum fyrir Tryggingarsjóð sparisjóða. Lagt er til að hlutfall greiðslna verði það sama og greitt hefur verið í sjóðinn undanfarin ár en viðmiðun samkvæmt gildandi lögum er 0,05%. Þá er mælt fyrir um gjalddaga greiðslnanna 1. mars ár hvert sem einnig er nýjung og felld er brott heimild aðalfundar til að veita undanþágur frá greiðslum í sjóðinn. Í 1. mgr. 77. gr. frumvarpsins er kveðið með nokkuð öðrum hætti á um lok greiðslna í Tryggingarsjóð en gert er samkvæmt gildandi samþykktum hans. Samkvæmt samþykktunum er gert ráð fyrir að þegar 1% marki þeirra sé náð falli greiðslur til sjóðsins niður. Ekki er sérstaklega vikið að ábyrgðum í þessu sambandi. Nú er lögð til sú breyting að greiðslur í sjóðinn falli ekki sjálfkrafa niður við ákveðið mark heldur þurfi sérstaka ákvörðun aðal- eða aukafundar þar um. Þá er einnig sérstaklega tekið fram í ákvæðinu að ábyrgðir falli niður þegar tilteknu lágmarksmarki í heildareign er náð. Ekki er kveðið á um þetta með skýrum hætti nú og er með þessari orðalagsbreytingu komið í veg fyrir vafa og hugsanlegan ágreining um þessi atriði. Loks er gert ráð fyrir því að lækki ráðstöfunarfé Tryggingarsjóðs niður fyrir 1% af heildarinnlánsfé sparisjóða skuli greiðslur teknar upp að nýju samkvæmt nánari ákvörðun aðal- eða aukafundar Tryggingarsjóðs. Ákvæðið er að þessu leyti sambærilegt við 2. mgr. 4. gr. samþykkta fyrir Tryggingarsjóð að öðru leyti en því að nú er notað orðalagið „nánari ákvörðun“. Í því felst að taka þarf sérstaka ákvörðun um upptöku greiðslna að nýju, þar á meðal um hlutfall þeirra.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá gildandi lögum auk þess sem höfð var hliðsjón af samþykktum fyrir Tryggingarsjóð sparisjóða.

Um 79. og 80. gr.


    Ákvæði 79. og 80. gr. frumvarpsins eru óbreytt frá gildandi lögum um sparisjóði og þarfnast ekki skýringa.

Um 81. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá 55. gr. núgildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að ekki er sérstaklega tekið fram að stjórn Tryggingarsjóðs skuli ráða löggiltan endurskoðanda sem annist árlega endurskoðun hjá sjóðnum. Þótti ákvæðið óþarft með hliðsjón af því að samþykktir Trygggingarsjóðs eru háðar staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn bankaeftirlitsins. Í núgildandi samþykktum fyrir Tryggingarsjóð sparisjóða er ráðning löggilts endurskoðanda meðal verkefna stjórnar sem talin eru upp í 8. gr., sbr. 16. gr. samþykktanna.

Um 82. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru óbreytt frá 56. gr. gildandi laga um sparisjóði, sbr. einnig 16. gr. reglugerðar um Tryggingarsjóð viðskiptabanka, og þarfnast ekki skýringa.

Um 83. gr.


    Ákvæði þetta er í samræmi við 2. mgr. 68. gr. gildandi laga um sparisjóði og þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um XI. kafla.


     Ákvæði þessa kafla frumvarpsins eru nýmæli og nauðsynleg vegna samningsins um
Evrópska efnahagssvæðið og þeirrar meginreglu um staðfesturétt og gagnkvæmni sem hann byggir á. Höfð var hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins, svo og ákvæðum danskra laga í einstökum efnisatriðum.

Um 84. gr.


    Í 1. mgr. er erlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum, með staðfestu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og hafa hlotið þar starfsleyfi lögbærra yfirvalda, veitt almenn heimild til starfsemi hér á landi með stofnun útibúa. Með setningu laga um viðskiptabanka frá 1985 var erlendum hlutafélagsbönkum heimilað að starfrækja umboðsskrifstofur hér á landi. Með lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, var erlendum hlutafélagsbönkum heimilað að opna útibú hér á landi og lögum um viðskiptabanka var breytt til samræmis með lögum nr. 7 frá 1992. Ákvæði þessarar málsgreinar er sett með hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins. Sambærilegt ákvæði er einnig í dönskum lögum á þessu sviði. Heimildir til að starfa hér á landi eru þó ekki án takmarkana. Heimildin nær til þess að stunda starfsemi sem frumvarp þetta tekur til. Þá verður hlutaðeigandi stofnun að hafa hlotið starfsleyfi í sínu heimaríki og slíkt starfsleyfi verður að heimila henni að stunda þessa starfsemi þar. Ekki er ætlast til að stofnanir geti stundað víðtækari starfsemi í öðrum ríkjum sem aðild eiga að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en þær gætu stundað í sínu eigin heimaríki. Lögbær yfirvöld í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar verða að staðfesta gagnvart bankaeftirliti að stofnun hafi fullgilt starfsleyfi og til hverrar starfsemi það taki. Hins vegar getur erlendur viðskiptabanki eða sparisjóður ekki hafið starfsemi hér á landi fyrr en tveimur mánuðum eftir að staðfesting berst bankaeftirlitinu.
     Í 2. mgr. eru nánar tilgreind þau atriði sem tilkynna skal til bankaeftirlitsins. Ákvæðið skýrir sig efnislega sjálft.
     Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Ákvæði 4. mgr. á sér hliðstæðu í dönskum lögum á þessu sviði og er nauðsynlegt vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Dæmi um ákvæði laga um hlutafélög, sem ekki gætu átt við skv. 4. mgr., eru 136. og 138. gr. þeirra.
     Ákvæði 5. mgr. er sett vegna ákvæða í tilskipunum Evrópubandalagsins. Sams konar ákvæði er í dönskum lögum á þessu sviði. Ákvæðið veitir bankaeftirlitinu heimild til að krefjast sérstaks auðkennis til viðbótar nöfnum erlendra viðskiptabanka eða sparisjóða í þeim tilvikum sem ákvæðið greinir. Hins vegar er ekki heimilt að krefjast þess að þessar stofnanir taki sér nýtt heiti vegna starfsemi sinnar hér á landi.

Um 85. gr.


    Í þessari grein er fjallað um heimildir viðskiptabanka eða sparisjóða annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins til að stunda starfsemi hér á landi án stofnunar útibús. Ákvæðið er sett með hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins. Samsvarandi ákvæði er í dönskum lögum á þessu sviði. Sömu sjónarmið og getið var í athugasemdum við 84. gr. um staðfestingu eftirlitsaðila í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar og starfsheimildir samkvæmt því eiga hér við. Þó er ekki mælt fyrir um tveggja mánaða frest samkvæmt þessu ákvæði líkt og gert er í 84. gr.

Um 86. gr.


    Í 1. mgr. er viðskiptaráðherra veitt heimild til að setja reglur um starfsemi erlendra viðskiptabanka eða sparisjóða frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi. Heimildin tekur bæði til starfsemi skv. 84. og 85. gr. frumvarpsins, þ.e. bæði til starfsemi útibúa og annarrar þjónustustarfsemi án stofnunar útibúa. Verður að skýra þá heimild með hliðsjón af samningi um Evrópskt efnahagssvæði þannig að í henni felist ekki mismunun í starfsheimildum eða starfsskilyrðum.
    Samkvæmt 2. mgr. er viðskiptaráðherra falið að setja reglur um heimildir viðskiptabanka eða sparisjóða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins til að stunda starfsemi hér á landi. Ákvæðið er sett með tilliti til tilskipunar Evrópubandalagsins á þessu sviði. Ákvæðið er nauðsynlegt til að tryggja að ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem njóta aðgangs að markaði ríkis innan þess, búi ekki við betri starfsskilyrði en stofnanir innan svæðisins heldur sambærileg. Þá er ákvæðinu einnig ætlað að tryggja að ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem fengið hafa starfsleyfi í ríki innan þess, veiti stofnunum efnahagssvæðisins sambærilegar heimildir á sínum heimamarkaði. Um þessi atriði eru nánari reglur í tilskipunum Evrópubandalagsins sem reglur settar samkvæmt þessu ákvæði tækju mið af.

Um XII. kafla.


     Í þessum kafla er kveðið á um starfsemi innlendra viðskiptabanka eða sparisjóða erlendis. Ákvæði kaflans eru sett með hliðsjón af tilskipunum Evrópubandalagsins líkt og ákvæði XI. kafla og eiga sömu meginsjónarmið við. Samsvarandi ákvæði eru í dönskum lögum og var einnig tekið tillit til þeirra í þessu sambandi.

Um 87. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. svara efnislega til 1. og 2. mgr. 84. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda með þeirri grein.
     Samkvæmt 3. mgr. getur bankaeftirlitið hafnað beiðni um að senda nauðsynlegar upplýsingar til viðkomandi erlendra yfirvalda séu aðstæður með þeim hætti sem ákvæðið greinir. Með þessu er það lagt í ábyrgð eftirlitsaðila heimaríkis að tryggja að stofnanir, sem hefji starfsemi á sameiginlegum markaði, séu traustar. Berist tilkynning ekki innan tilskilins frests er litið svo á að hlutaðeigandi stofnun sé heimilt að hefja starfsemi í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Neiti bankaeftirlitið að framsenda nauðsynlegar upplýsingar skal það kynnt viðskiptabanka eða sparisjóði sérstaklega svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku upplýsinga skv. 1. mgr.
     Ákvæði 4. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 88. gr.


    Ákvæðið er efnislega byggt á samsvarandi sjónarmiðum og fram koma í athugasemdum við 84. gr. frumvarpsins og er vísað til þeirra.

Um 89. gr.


    Ákvæðið er eðlilegt og nauðsynlegt vegna almennra eftirlitssjónarmiða og samskipta við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og skýrir sig sjálft efnislega.

Um XIII. kafla.


     Ákvæði þessa kafla fjalla sérstaklega um afturköllun starfsleyfa viðskiptabanka, bæði
um heimildir eða skyldu til afturköllunar og málsmeðferð í þessum tilvikum. Höfð var hliðsjón af ákvæðum danskra laga um þessi efni. Ákvæði kaflans eiga við um innlenda viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 90. gr.


    Í þessari grein er viðskiptaráðherra veitt heimild til afturköllunar starfsleyfis viðskiptabanka eða sparisjóðs í nánar tilteknum tilvikum. Ákvæðið skýrir sig efnislega sjálft.

Um 91. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er óbreytt efnislega frá gildandi lögum, sbr. 45. og 46. gr. laga um viðskiptabanka og 61. og 62. gr. laga um sparisjóði, að öðru leyti en því sem leiðir af því að frumvarpið gerir ráð fyrir sérstakri afturköllun starfsleyfis. Samsvarandi ákvæði er í dönskum lögum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 92. gr.


    Ákvæði 1. mgr. um tilkynningar um afturköllun starfsleyfa til eftirlitsaðila annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins er í samræmi við tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði og skýrir sig sjálft. Ákvæðið er nauðsynlegt með tilliti til þess að gilt starfsleyfi er grundvöllur fyrir heimildum stofnana til að starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sömu sjónarmið eiga við um tilkynningar til eftirlitsaðila annarra ríkja þar sem viðskiptabankar eða sparisjóðir stunda starfsemi sína.
    Ákvæði 2. mgr. skýrir sig efnislega sjálft. Slit vegna afturköllunar færu samkvæmt ákvæðum VIII. kafla eftir því sem við getur átt.

Um XIV. kafla.


     Í þessum kafla eru ákvæði um eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með starfsemi
viðskiptabanka og sparisjóða og annarra stofnana sem frumvarpið tekur til. Samsvarandi ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum um viðskiptabanka eða sparisjóði. Að svo miklu leyti sem ákvæði frumvarpsins mæla ekki fyrir um annað fer um eftirlitið samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands eins og því er nú háttað.

Um 93. gr.


    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að skýrt er tekið fram að eftirlit bankaeftirlitsins taki til allra stofnana sem frumvarpið tekur til og nær það þannig til viðskiptabanka, sparisjóða, Lánastofnunar sparisjóðanna hf., Tryggingarsjóðs viðskiptabankanna og Tryggingarsjóðs sparisjóðanna. Jafnframt nær eftirlit bankaeftirlitsins til erlendra viðskiptabanka og sparisjóða frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hér kunna að starfa svo og viðskiptabanka eða sparisjóða frá ríkjum utan Evrópubandalagsins. Eftirlit með erlendum stofnunum sem frumvarpið tekur til takmarkast þó af meginreglu tilskipana Evrópubandalagsins um eftirlit heimaríkis með þeim viðskiptabönkum eða sparisjóðum sem fengið hafa starfsleyfi í viðkomandi ríki.
     Ákvæði 2. mgr. er nýmæli og veitir bankaeftirlitinu heimildir til beins aðgangs að upplýsingum og til að framkvæma vettvangsathugun hjá fyrirtækjum tengdum viðskiptabanka eða sparisjóði með þeim hætti sem ákvæðið tiltekur. Ákvæðið tekur mið af tilskipunum Evrópubandalagsins og samsvarandi ákvæði eru í dönskum lögum. Með tengdum fyrirtækjum er átt við dótturfyrirtæki viðskiptabanka eða sparisjóðs, móðurfélag viðskiptabanka eða sparisjóðs og önnur dótturfyrirtæki þess (systurfyrirtæki). Með hlutdeildarfyrirtækjum er átt við fyrirtæki sem ekki eru dótturfyrirtæki viðskiptabanka eða sparisjóðs en hlutaðeigandi stofnanir og dótturfyrirtæki þeirra, hvert fyrir sig eða sameiginlega, eiga hluti í og hafa veruleg áhrif á rekstrarlega og fjármálalega stjórn hjá. Viðskiptabanki eða sparisjóður er talinn hafa veruleg áhrif ef hann, og eftir atvikum dótturfyrirtæki hlutaðeigandi stofnunar, ræður yfir 20% eða meira af atkvæðisrétti í hlutdeildarfyrirtækjum.

Um 94. gr.


    Í þessu ákvæði endurspeglast meginregla tilskipana Evrópubandalagsins um eftirlit heimaríkis. Sambærilegt ákvæði er að finna í dönskum lögum á þessu sviði. Ákvæðið skýrir sig efnislega sjálft.

Um 95. gr.


    Í 1. mgr., sem er í samræmi við tilskipanir Evrópubandalagsins og dönsk lög á þessu sviði, er skýrt kveðið á um að erlendir viðskiptabankar eða sparisjóðir skuli hlíta ákvæðum íslenskrar löggjafar og um heimildir bankaeftirlitsins um beitingu viðurlaga gagnvart hlutaðeigandi stofnunum sé út af brugðið.
     Ákvæði 2. mgr. vísar til samnings um Evrópskt efnahagssvæði um málsmeðferð komi til beitingar ákvæða 1. mgr. Meginreglan er tilkynningar og samráð milli viðkomandi eftirlitsaðila. Hlíti hlutaðeigandi stofnun ekki kröfum bankaeftirlitsins er meginreglan sú, að áður en til beitingar 1. mgr. kemur skal tilkynna eftirlitsaðilum heimaríkis brot hlutaðeigandi stofnunar og skal þá sá eftirlitsaðili gera nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að binda enda á ólögmætt eða óeðlilegt ástand. Dugi það ekki til getur bankaeftirlitið, að undangenginni tilkynningu til eftirlitsaðila í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar, komið í veg fyrir frekari brot og beitt refsiviðurlögum gagnvart hlutaðeigandi stofnun.

Um 96. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 97. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 98. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra fari með leyfisveitingar og afturköllun þeirra. Að öðru leyti er framkvæmd laganna, m.a. setning ýmissa reglna, falin bankaeftirlitinu. Víða erlendis hefur þróunin orðið sú að lögbærum eftirlitsaðilum er falið að annast framkvæmd laga af þessu tagi að öllu leyti, þar á meðal leyfisveitingar og afturköllun. Er því t.d. þannig farið í Danmörku á því sviði sem frumvarp þetta tekur til. Þykir heppilegt að viðskiptaráðherra hafi heimild til að fela bankaeftirliti þessi verkefni og fylgja þessari þróun kjósi hann að gera svo. Með þessu ákvæði er opnuð leið til þess án þess að til lagabreytingar þurfi að koma.

Um 99. gr.


    Ákvæði greinar þessarar er nauðsynlegt vegna sérstöðu þeirra sparisjóða þar sem sveitarfélög eða héraðsnefndir eru ein stofnfjáreigenda, enda geta almenn ákvæði eðli málsins samkvæmt ekki átt við. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.

Um 100. gr.


    Í þessu ákvæði er það nýmæli að kostnaður við tilkynningar samkvæmt frumvarpinu greiðist af hlutaðeigandi stofnunum. Þykir eðlilegt að þær beri þennan kostnað.

Um 101. gr.


    Gert er ráð fyrir því, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III, að Lánastofnun sparisjóðanna hf. verði lögð niður í núverandi mynd innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara. Lánastofnun hefur gegnt mikilvægu hlutverki til hagsbóta fyrir sparisjóðina í heild og veitt þeim víðtæka þjónustu. Meðal annars hafa viðskipti einstakra sparisjóða við Seðlabanka Íslands farið fram með milligöngu Lánastofnunar samkvæmt sérstöku samkomulagi milli þessara aðila. Uppbygging Lánastofnunar fellur ekki að skilgreiningu frumvarpsins á viðskiptabanka eða sparisjóði, en stofnunin er í reynd banki sparisjóðanna með sama hætti og tíðkast víða erlendis. Lagaleg staða Lánastofnunar er ófullnægjandi í þessu samhengi og hefur skapað stofnuninni vissa erfiðleika í samskiptum við erlenda aðila. Þykir því eðlilegt að veita Lánastofnun fullar heimildir sem viðskiptabanki og fella starfsemi hennar að öllu leyti undir ákvæði frumvarpsins. Hins vegar er gert ráð fyrir þvi að stofnun, sem tekur við hlutverki Lánastofnunar, gegni áfram sérstöku þjónustuhlutverki gagnvart sparisjóðunum, m.a. gagnvart Seðlabanka Íslands. Vegna þess þjónustuhlutverks hefur Lánastofnun haft ákveðna sérstöðu og er gert ráð fyrir að banki, sem tekur við hlutverki hennar, haldi þeirri sérstöðu. Til að slíkt sé framkvæmanlegt er talið nauðsynlegt að heimilt verði að setja hömlur á viðskipti með hluti í þeirri stofnun sem tekur við hlutverki Lánastofnunar.

Um 102. gr.


    Orðalagi ákvæðisins er breytt frá gildandi lögum þannig að ekki er lengur sérstaklega tekið fram að um brot gegn lögunum fari að hætti opinberra mála. Þótti það óþarft með tilliti til þess að þau viðurlög, sem ákveðin eru í ákvæðinu, leiða sjálfkrafa til þeirrar málsmeðferðar.

Um 103. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um gildistöku og lög sem felld eru brott með frumvarpinu. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að gildistaka er miðuð við lögfestingu samnings um Evrópskt efnahagssvæði hér á landi.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


     Samkvæmt frumvarpinu er mótuð sú stefna að einungis verði um stofnfjársjóði að ræða innan tiltekins tíma frá gildistöku laganna. Ákvæði, sem sérstaklega nefndu ábyrgðarsjóði, eru því felld brott. Ákvæði 1. mgr. tekur mið af þessum breytingum.
     Í 2. mgr. er veittur frestur til að framkvæma breytingar úr ábyrgðarsjóðum yfir í stofnfjársjóði. Verði þessu ekki fullnægt innan tilskilinna tímamarka yrði hlutaðeigandi sparisjóði slitið.
     Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Í 4. mgr. er kveðið á um meðferð á séreignarsjóðum en samkvæmt frumvarpinu verða þeir lagðir niður. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


     Með lögum nr. 87 frá 1985 var þáverandi Tryggingarsjóður sparisjóða, samkvæmt lögum nr. 69 frá 1941, lagður niður. Eignir hans voru þá faldar núverandi Tryggingarsjóði til varðveislu og ávöxtunar sem séreign hvers sparisjóðs en urðu ekki hluti af ráðstöfunarfé Tryggingarsjóðs með sama hætti og framlög sparisjóðanna. Nú er lagt til að séreign hvers sparisjóðs verði hluti af ráðstöfunarfé Tryggingarsjóðs með þeim hætti sem nánar er mælt fyrir um í þessu ákvæði. Fyrir þessari framkvæmd liggur fyrir samþykki allra sparisjóða.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


     Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að sérákvæði gildandi laga um sparisjóði, sem
lúta að Lánastofnun sparisjóðanna hf., verði felld brott. Í stað Lánastofnunar verði stofnaður banki sparisjóðanna innan tiltekinna tímamarka sem mælt er fyrir um í 1. mgr. þessa ákvæðis. Um röksemdir fyrir þessari breytingu vísast til athugasemda við 101. gr. frumvarpsins. Þar til breyting þessi kemur til framkvæmda gilda um Lánastofnun sparisjóðanna hf. ákvæði núgildandi laga sem flutt hafa verið í þetta ákvæði til bráðabirgða. Ákvæðin eru efnislega óbreytt frá gildandi lögum.
     Ákvæði 1. tölul. leysir af hólmi 1. og 2. mgr. 57. gr. núgildandi laga um sparisjóði. Þykir sú breyting, sem hér er lögð til, eðlileg með tilliti til þess að núgildandi ákvæði eiga fyrst og fremst við um stofnun Lánastofnunar á sínum tíma og eiga ekki við lengur.
     Ákvæði 2. tölul. er óbreytt frá 3. mgr. 68. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.
     Í 3. tölul. er skilgreiningu á hlutverki Lánastofnunar breytt og það rýmkað nokkuð frá gildandi lögum. Samkvæmt frumvarpinu er það meginhlutverk hennar að annast starfsemi í þágu sameiginlegra hagsmuna sparisjóðanna. Í þessu felst hins vegar engin efnisbreyting heldur fremur viðurkenning á þeirri framkvæmd sem hefur verið viðurkennd að því er varðar starfsemi Lánastofnunar. Þá er Lánastofnun heimilt að annast sams konar verkefni og henni er heimilt samkvæmt gildandi lögum að öðru leyti en því að samkvæmt þessari grein er Lánastofnun veitt heimild til að eiga útlánsviðskipti við almenning. Einnig að þessu leyti er tekið tillit til þeirrar framkvæmdar sem verið hefur á starfsemi Lánastofnunar og er með breytingunni stefnt að því að auðvelda stofnuninni að aðstoða sparisjóðina við að leysa af hendi verkefni sem þeim væri ókleift að sinna hverjum um sig, m.a. vegna eiginfjárákvæða og reglna um hámarkslán til einstakra lánþega. Með þessu er sparisjóðum gert kleift með aðstoð Lánastofnunar að veita stórum viðskiptaaðilum eðlilega lánafyrirgreiðslu í samvinnu við Lánastofnun og þannig má ætla að áhætta af slíkri fyrirgreiðslu dreifist.
     Ákvæði 4. tölul. er óbreytt frá 2. mgr. 58. gr. gildandi laga um sparisjóði að öðru leyti en því að óþarft þykir að taka sérstaklega fram þau atriði varðandi ávöxtun fjár stofnunarinnar sem getið er í samsvarandi ákvæði gildandi laga.
     Ákvæði 5. tölul. er efnislega óbreytt frá 1.–3. mgr. 60. gr. gildandi laga um sparisjóði. Hins vegar er 4. mgr. þess ákvæðis felld niður enda talin óþörf. Eðlilegt er að sparisjóðir annist sjálfir um að tryggja rétt sinn í þeim tilvikum sem um ræðir en sé ekki veittur lögbundinn réttur af þessu tagi.
     Í 2. mgr. er mælt fyrir um innlausnarverð stofnfjárhluta með sama hætti og gert er í 2. mgr. 60. gr. gildandi laga um sparisjóði.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um viðskiptabanka og sparisjóði.


    Með frumvarpi þessu er ætlað að setja lög um viðskiptabanka og sparisjóði er komi í stað laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og laga nr. 87/1985, um sparisjóði, auk ýmissa laga um veðdeildir Landsbanka og Búnaðarbanka. Með því eru lög um viðskiptabanka og sparisjóði felld í einn bálk en fram að þessu hafa ávallt gilt tvenn aðskilin lög um þessar tegundir bankastofnanna. Þá er íslensk löggjöf um bankastofnanir löguð að gildandi lögum Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins, enda er frumvarpi þessu, verði það að lögum, ætlað að taka gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
     Í 8. gr. segir: „Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka“. Núgildandi hliðstætt ákvæði er að finna í 2. gr. laga nr. 86/1985 og hljóðar svo: „Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Til þess að taka lán erlendis án tryggingar í sjálfs sín eigum þarf ríkisviðskiptabanki sérstaka lagaheimild hverju sinni.“ Með frumvarpinu er þessi síðari setning felld niður.
     Núgildandi umrætt lagaákvæði um ríkisábyrgð á ríkisviðskiptabönkum hefur verið óbreytt í áratugi. Á því tímabili hefur það oft verið túlkað af stjórnvöldum á þann veg að ríkissjóður beri einfalda ábyrgð á erlendum skuldum viðskiptabanka ríkisins. Skv. 8. gr. laga nr. 37/1961, sbr. 2. gr. laga nr. 65/1988 um ríkisábyrgðir greiða viðskiptabankar ríkisins ábyrgðargjald til ríkissjóðs af skuldbindingum sínum gagnvart erlendum aðilum, þar með töldum ábyrgðum. Þegar Útvegsbanka Íslands var breytt í hlutafélag með lögum nr. 7/1987 tók ríkissjóður á sig ábyrgð á öllum skuldbindingum Útvegsbanka Íslands, sbr. 6. gr. þeirra laga.
     Með tilliti til þessa verður að álykta að núverandi lagagrein, 2. gr. laga nr. 86/1985, sé í raun nokkuð þrengri en hin nýja grein frumvarpsins en hins vegar hefur núverandi lagagrein jafnan verið túlkuð á þann veg af viðskiptabönkum ríkisins gagnvart erlendum lánveitendum þeirra að ríkissjóður beri ábyrgð á erlendum skuldbindingum þessara banka, þrátt fyrir umrætt núgildandi lagaákvæði. Orðalagsbreyting sú, sem að ofan getur, er því til þess fallin að taka af allan vafa í þessu efni.
     Í X. kafla frumvarpsins er fjallað um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og sparisjóða. Þau ákvæði eru að mestu óbreytt frá núgildandi lögum. Sjóðirnir verða áfram tveir og gjald til þeirra nær óbreytt frá núgildandi lögum. Stefnt er að því (76. og 78. gr.) að ráðstöfunarfé tryggingarsjóðanna nái a.m.k. 1% af heildarinnlánum bankanna á innlánsreikningum. Slík innlán námu 148 milljörðum króna í lok september 1992 sem þýðir að stefnt er að því að sjóðirnir til samans hafi eigi minna en um 1,5 milljarða króna í ráðstöfunarfé. Við sl. áramót námu niðurstöðutölur efnahagsreiknings Tryggingarsjóðs viðskiptabanka 1.074 m.kr. og Tryggingarsjóðs sparisjóða 168 m.kr., samtals 1.242 m.kr. Telja verður að fé þetta sé of lítið miðað við stærð innlánsstofnana og muni sjóðirnir ekki vera þess megnugir að bæta fyrir eignabrest innlánsstofnana nema í takmörkuðum tilfellum.