Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 247 . mál.


321. Tillaga til þingsályktunar



um samning milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 18. maí 1992.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samnings milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands. Samningurinn er birtur sem fskj. 1 með þingsályktunartillögu þessari.
     Samningur þessi tekur við af samningi landanna um sama efni frá 12. júní 1989, sbr. auglýsingu nr. 2/1989 í C-deild Stjórnartíðinda þar sem samningurinn er birtur. Sá samningur var árangur viðræðna í Ósló í janúar 1989. Samningur um loðnuveiðar hafði verið í gildi síðan í maí 1980 milli Íslands og Noregs en þrátt fyrir margar tilraunir hafði ekki tekist fyrir fundinn í Ósló að ná samkomulagi sem tæki til veiða innan grænlenskrar lögsögu. Alþingi veitti heimild til staðfestingar samningsins með ályktun 11. maí 1989. Í samningnum var kveðið á um skiptingu á leyfilegum heildarafla milli landanna og enn fremur um heimildir til veiða innan lögsögu landanna. Samkvæmt samningnum var grænlenskum og norskum skipum heimilt að veiða loðnu innan lögsögu Íslands norðan 64°30'N til 15. febrúar ár hvert. Jafnframt voru íslenskum veiðiskipum heimilaðar veiðar innan lögsögu Jan Mayen án takmarkana og í lögsögu Grænlands norðan 64°30'N. Samningur þessi gilti fyrir þrjár vertíðir og féll úr gildi 30. apríl 1992 eða í lok síðustu vertíðar.
     Þær þrjár vertíðir, sem fylgdu eftir að samningurinn tók gildi, brá svo við að loðnuveiðar gengu mjög illa fyrir áramót og var afli á sumar- og haustvertíð óverulegur miðað við það sem hann hafði áður orðið. Hins vegar varð veiði betri eftir áramótin og leiddi þetta til þess að hin erlendu veiðiskip sóttu í auknum mæli til veiða hér við land eftir áramótin en þá eru veiðar yfirleitt stundaðar á takmarkaðra svæði en á sumrin.
     Í febrúar 1992 var boðað til fundar samningsaðila í Ósló þar sem rætt var m.a. um hvort framlengja bæri samninginn. Af Íslands hálfu var lögð fram hugmynd sem gerði ráð fyrir takmörkun á heimildum erlendra skipa til veiða innan lögsögu Íslands. Ekki náðist samkomulag á þessum fundi en aðilar héldu áfram að ræða óformlega um möguleika á samkomulagi. Þessar viðræður leiddu síðan til að haldinn var fundur í Kaupmannahöfn 18. maí 1992 og náðist þar samkomulag um að framlengja samninginn um tvær vertíðir með þeirri breytingu að aðilar skyldu semja sérstaklega um takmarkanir á veiðum innan lögsögu Íslands og Jan Mayen. Með þessari breytingu var komið til móts við óskir Íslendinga um takmarkanir á veiðum innan íslenskrar lögsögu. Að öðru leyti er efni samningsins óbreytt frá þeim samningi sem gerður var 1989.
    Jafnhliða þessu komust aðilar að samkomulagi um sameiginlega yfirlýsingu varðandi framkvæmd samningsins. Hún fylgir hér sem fskj. 2. Í yfirlýsingunni er kveðið á um að aðilar skuli kappkosta að veiða sinn hlut í heildaraflanum innan eigin lögsögu. Jafnframt komust Ísland og Noregur að samkomulagi um frekari takmarkanir á veiðum. Í yfirlýsingunni segir að norskum skipum sé aðeins heimilt að veiða 35% af bráðabirgðakvóta Noregs innan lögsögu Íslands. Með sama hætti eru veiðar íslenskra skipa í lögsögu Jan Mayen takmarkaðar við 35% af bráðabirgðakvóta Íslands. Jafnframt er í yfirlýsingunni kveðið á um hvernig skuli standa að reikningi bóta. Ekki þykir þörf á að setja samsvarandi takmarkanir á veiðar grænlenskra skipa því Grænlendingar eiga engin skip sem stunda loðnuveiðar. Fái skip annarra þjóða hins vegar leyfi hjá grænlenskum stjórnvöldum til þess að stunda veiðar úr hlutdeild Grænlands hafa þau ekki heimild til veiða innan lögsögu Íslands nema að fengnu sérstöku samþykki íslenskra stjórnvalda.
     Fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi tóku þátt í samningaviðræðunum um gerð samningsins og hafa mælt með staðfestingu hans.

    [Samningur milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands ásamt sameiginlegri yfirlýsingu varðandi framkvæmd samningsins (á íslensku og norsku) var birtur í þingskjalinu sem fskj. 1 og 2. Samningurinn verður enn fremur prentaður í C-deild Stjórnartíðinda.]