Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 9 . mál.


348. Nefndarálit



um frv. til samkeppnislaga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Georg Ólafsson verðlagsstjóri og frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri og Atli Freyr Guðmundsson skrifstofustjóri. Þá komu Birgir R. Jónsson, Stefán Guðjónsson og Ingólfur Árnason frá Íslenskri verslun, Jóhannes Gunnarsson og Jón Magnússon frá Neytendasamtökunum, Jónas Fr. Jónsson frá Verslunarráði Íslands, Kristján Jóhannsson frá VSÍ, Þorleifur Jónsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Jón Steindór Valdimarsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Tryggvi Pálsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka. Umsagnir um málið bárust frá eftirtöldum aðilum: Flugleiðum, Kreditkortum hf., BSRB, Íslenskri verslun, Félagi íslenskra iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna og VSÍ. Loks var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra sparisjóða, Ferðamálaráði, Þjóðhagsstofnun, Neytendasamtökunum, Lögmannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Verslunarráði Íslands, Tannlæknafélagi Íslands, Póst- og símamálastofnuninni, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Félagi íslenskra iðnrekenda.
    Frumvarpið var rætt ítarlega í nefndinni og eru fjölmargar breytingartillögur lagðar fram af hennar hálfu um þau atriði frumvarpsins sem hún telur að betur megi fara.
     Nefndin vill sérstaklega taka fram eftirfarandi um atriði sem talið var rétt að birta í áliti þessu: Annars vegar var rætt um hvort rétt væri að banna leiðbeinandi gjaldskrár eins og mælt er fyrir um í 10. gr. frumvarpsins. Niðurstaða nefndarinnar var sú að láta ákvæðið að hver og einn mundi verðleggja sinn rekstur standa óbreytt en tekið er fram að ekki er ætlunin að banna athuganir á rekstrarkostnaði í einstökum starfsgreinum. Hins vegar var rætt um hvort takmarka ætti svonefnda minniháttarreglu í 1. mgr. 13. gr. við ákveðna markaðshlutdeild eða hlutfall af heildarveltu fyrirtækis. Er það vandkvæðum bundið að svo stöddu en nefndin telur þó eðlilegt að væntanlegt samkeppnisráð setji sér reglur um tiltekin mörk, t.d. gætu þau verið að hámarki 15%.
    Lagðar eru til breytingar á 1. gr. sem draga fram frekari áherslur á markmið frumvarpsins.
    Lagt er til að 3. mgr. 3. gr. falli niður. Þykir fara betur á því að setja sérstök lög um réttaráhrif og skuldbindingargildi þeirra samninga sem getið er í ákvæðinu, svo og úrskurði stofnana samkvæmt slíkum samningum. Í kjölfar þessa er lögð til viðbót við 2. mgr. greinarinnar.
    Lagt er til að nýrri orðskýringu verði bætt í fyrri málsgrein 4. gr. þar sem hugtakið markaðsráðandi staða er skilgreint. Enn fremur er lögð til orðalagsbreyting í skilgreiningu á hugtakinu neytandi. Þá er lagt til að samkeppnisráð skeri úr ágreiningi um hugtök í stað ráðherra.
    Lagt er til að í 5. gr. verði hlutverk samkeppnisráðs skilgreint nánar en gert er í frumvarpinu.
    Lögð er til breyting á ákvæði um skipan samkeppnisráðs í 6. gr. en hún hefur sætt nokkurri gagnrýni, m.a. að óeðlilegt sé að Hæstiréttur skipi tvo menn í samkeppnisráð en ráðherra skipi áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sbr. 9. gr. Í ljósi þessa er lagt til að allir ráðsmenn samkeppnisráðs verði skipaðir af ráðherra og skulu þeir hafa sérþekkingu eða reynslu á sviði viðskipta og samkeppnismála. Nefndarmenn áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði aftur á móti skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Lagt er og til að fellt verði niður það ákvæði 6. gr. að ráðherra geti við ríkisstjórnarskipti fellt niður skipan formanns og varamanns hans og skipað nýja menn í þeirra stað. Telur nefndin farsælast að sem mestur stöðugleiki ríki um skipan ráðsins. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæðið reglum um vanhæfi.
    Lagt er til að 5. mgr. 7. gr. falli brott en henni þykir ofaukið í ljósi þeirrar framkvæmdar sem ríkir um ráðherraskipaðar nefndir.
    Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting við 8. gr. að frestur til staðfestingar bráðabirgðaráðstafana verði styttur en hann þykir óþarflega langur samkvæmt ákvæðinu. Í öðru lagi er lagt til að forstjóri samkeppnisstofnunar verði skipaður til ákveðins tíma og að ráðherra skipi hann að fenginni umsögn samkeppnisráðs.
    Lögð er til breyting á skipan áfrýjunarnefndar samkeppnismála í 9. gr. og vísast um það til athugasemda í 5. tölul. hér að framan. Þá er lagt til að áfrýjunarnefndin úrskurði um mál innan sex vikna frá áfrýjun.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að seljandi ákveði hámarksverð sem endurseljandi getur notað við verðlagningu á vörum með heimild samkeppnisstofnunar. Þykir nauðsynlegt að bæta þessu ákvæði inn í greinina svo að komið verði í veg fyrir að hámarksverð verði ákveðið til þess að halda verði vöru uppi. Þá er lagt til, til að taka af allan vafa, að kveðið verði á um að ákvörðun um hámarksverð skuli ekki takmarka hæfilegt svigrúm til álagningar á endursölustigi.
    Lagt er til að samkeppnisráð hafi skv. 13. gr. það verkefni að meta áhrif samkeppnishamlna á þann markað sem um er að ræða í stað samkeppnisstofnunar. Þá er lagt til að frestur samkvæmt síðari málsgrein verði styttur úr þremur mánuðum í tvo.
    Lagt er til að 14. gr. verði breytt þannig að nýju ákvæði verði bætt við í þeim tilgangi að styrkja samkeppni, einkum þar sem yfirburðaaðstaða er í skjóli ríkisvalds. Þá verði gerð orðalagsbreyting á þeirri málsgrein sem fyrir er.
    Lagðar eru til breytingar á 15. gr. er varða orðanotkun í greininni. Er lagt til að í stað orðsins „nytjaleyfishafi“ verði notað orðið: rétthafi og í stað orðsins „nytjaleyfisnotandi“ komi orðið: nytjaleyfishafi, en skv. 43. gr. laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, er sá sem gerir samninga um nýtingu einkaleyfis síns nefndur einkaleyfishafi og sá sem hann gerir samninga við nefndur nytjaleyfishafi. Þá er lagt til að orðið „vörumerki“ falli niður en undanþága samkvæmt greininni eins og hún er nú getur orðið víðtækari en til var ætlast með því að hún nái einnig til samkeppnishamlna á grundvelli vörumerkis.
    Lagt er til að við 16. gr. bætist ný málsgrein, en ákvæði fyrri málsliðar hennar miðar að því að undanþágur verði aldrei víðtækari en nauðsynlegt er og getur verið mikilvægt þegar kemur að túlkun á umfangi og lögmæti undanþágu. Þá er lagt til að samkeppnisráð geti veitt frekari skilyrði fyrir undanþágu; ekki verða öll tilvik séð fyrir.
    Lagt er til að nýr stafliður bætist við 17. gr. þar sem lagt er til að 26. og 27. gr. frumvarpsins falli brott. Enn fremur er lögð til viðbót við 2. mgr. þar sem kveðið er á um að samkeppnisráð grípi einungis til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör þegar ekki er með öðrum hætti hægt að vinna gegn skaðlegum áhrifum á samkeppni.
    Lagðar eru til breytingar á 18. gr. þannig að ekki verði skylda að tilkynna um samruna fyrirtækja eða yfirtöku fyrir fram. Slík skylda gæti haft í för með sér hemil á endurskipulagningu í viðskiptalífinu. Aftur á móti er lagt til að aðilar geti leitað álits samkeppnisráðs á því hvort fyrirhugaður samruni eða yfirtaka sé lögmæt. Þá er lagt til að samkeppnisráð skuli við mat sitt á því hvort yfirtaka eða samruni sé lögmætur taka tillit til þess hversu samruninn styrki hið sameinaða fyrirtæki í samkeppni við erlend fyrirtæki. Loks er lagt til að frestur til að ógilda yfirtöku eða samruna styttist úr þremur mánuðum í einn.
    Lögð er til breyting á 19. gr. því eðlilegt er að almenningur fái einnig að vita um hvaða lög og reglur eru talin torvelda frjálsa samkeppni og stríða gegn markmiðum laganna.
    Lagt er til að í 23. gr. verði kveðið á um að skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða þjónustu sína á Íslandi, skuli vera á íslensku. Þykir rétt að svo verði auk þess sem 22. gr. frumvarpsins mælir fyrir um að auglýsingar, sem höfða eiga til íslenskra neytenda, skuli vera á íslensku.
    Lagt er til að 26. gr. falli niður. Hún er nánast óframkvæmanleg. Þar að auki er hún ekki í samræmi við nútímaviðskiptahætti og getur gert fyrirtækjum erfitt fyrir. Ef upp koma alvarleg mál af þessu tagi, sem fela í sér óréttmæta viðskiptahætti, geta 20. og 21. gr. frumvarpsins tekið til þeirra.
    Lagt er til að 27. gr. falli niður og vísast um það til athugasemda í liðnum hér á undan.
    Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting við 36. gr. og í öðru lagi er lagt til að settar verði reglur um öflun þeirra upplýsinga sem í ákvæðinu getur, svo og meðferð og birtingu.
    Lagt er til að orðalagi síðari málsliðar 37. gr. verði breytt en hann hefur sætt nokkurri gagnrýni.
    Lagt er til að 40. gr. falli niður en hún þykir óþörf, auk þess að vera of víðtæk.
    Lögð er sú til breyting á 41. gr. að felldur verði niður áskilnaður um samþykki Alþingis í formi þingsályktunartillögu þegar framlengja þarf verðstöðvun eða aðrar aðgerðir samkvæmt greininni.
    Lagðar eru til breytingar á 43. gr. en ákvæði hennar þykja of víðtæk í núverandi mynd.
    Lögð er til breyting á fyrri málsgrein 44. gr. til þess að orðalag verði skýrara.
    Lagðar eru til breytingar á 46. gr. Sú fyrri er leiðrétting og sú seinni er til þess að taka af allan vafa um hvaða upplýsingar er skylt að gefa.
    Lagt er til að í 47. gr. verði kveðið fastar að orði um hvaða brot á ákvæðum samkeppnisreglna EES-samningsins varði sektum.
    Lögð er til leiðrétting við 50. gr. en þar mun eiga að vera tilvísun í 61. gr. EES-samningsins.
    Lagt er til að 52. gr. verði breytt þannig að þau samningsákvæði, sem brjóta í bága við ákvæði frumvarpsins, verði ógild en önnur samningsákvæði, sem ekki eru háð þeim, haldi gildi sínu. Oft getur verið ósanngjarnt að ógilda samning í heild vegna þess að hluti hans brýtur gegn ákvæðum frumvarpsins.
    Lagt er til að í 54. gr. verði kveðið á um hámarks- og lágmarksfjárhæðir dagsekta.
    Lagt er til að stjórnvaldssektir, sem samkeppnisráð getur lagt á fyrirtæki eða samtök þeirra, verði miðaðar við ákveðna fjárhæð, auk hlutfalls af veltu.
    Lögð er til breyting við 57. gr. sem felur í sér leiðréttingu á pennaglöpum.
    Lögð er til sú breyting á 60. gr. að tekið verði af skarið og kveðið á um sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga í 4. mgr. í samræmi við athugasemdir við ákvæðið í greinargerð.
    Lagt er til að nýtt kaflaheiti komi fyrir framan 62. gr.
    Lagt er til að gildistöku frumvarpsins verði seinkað til 1. mars 1993 en gildi XI. kafla verði þó háð gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Lögð er til viðbót við ákvæði til bráðabirgða og felst m.a. í henni að ákvarðanir verðlagsráðs gildi eftir gildistöku laganna þangað til samkeppnisráð ákveður annað. Helgast þetta af því að samkeppnisráð tekur í raun við af verðlagsráði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum. Steingrímur J. Sigfússon flytur þó breytingartillögu við frumvarpið um takmörkun á eignaraðild í samgöngufyrirtækjum.

Alþingi, 25. nóv. 1992.



Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Guðmundur H. Garðarsson.

Sólveig Pétursdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


með fyrirvara.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon,

Halldór Ásgrímsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.