Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 309 . mál.


479. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 112/1989, um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar.

Frá landbúnaðarnefnd.



1. gr.

    Í stað síðari málsliðar 2. gr. laganna kemur: Þá er Stofnlánadeild heimilt að fella niður allt að helmingi af heildarskuldbindingum sem stofnað hefur verið til hjá deildinni vegna loðdýraræktar. Heimildin nær til afskriftar á lánum og niðurfellingar vaxta eftir nánari reglum sem landbúnaðarráðherra setur að höfðu samráði við stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt að ósk landbúnaðarráðherra og byggist á áliti nefndar sem fjallað hefur um fjárhagsvanda loðdýrabænda. Frumvarpið felur í sér að Stofnlánadeild landbúnaðarins eru veittar heimildir til að fella niður sem svarar helmingi af heildarskuldbindingum loðdýrabænda við Stofnlánadeild.
    Búist var við að þessi nýja búgrein gæti að einhverju marki komið í stað þess óhjákvæmilega samdráttar sem orðið hefur í hefðbundnum greinum landbúnaðarins á síðustu árum og þannig treyst búsetu á landsbyggðinni. Verðfall á loðdýraafurðum hefur hins vegar leitt til mikils vanda í þessari grein.
    Þá er lög nr. 112/1989 voru sett hafði loðdýrarækt búið við mikinn rekstrarvanda um nokkurt skeið. Í greinargerð með þeim lögum segir að þau miði að aðgerðum í þágu loðdýraræktarinnar sem auðvelda skulu einstökum loðdýrabændum að taka ákvörðun um framtíð búrekstrar síns. Því miður hefur ekki tekist sem skyldi að rétta fjárhagsstöðu loðdýrabænda. Þess er vænst að með frumvarpi þessu sé fundin leið til að treysta grundvöll loðdýraræktarinnar þannig að sú þekking og reynsla sem fengist hefur varðveitist og nýtist þegar betur árar.