Ferill 299. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 299 . mál.


542. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.

    
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið, en tilgangur þess er einkum sá að gera nauðsynlegar lagabreytingar í framhaldi af samningi landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda um stjórnun mjólkurframleiðslu sem undirritaður var 16. ágúst 1992. Á fund nefndarinnar komu Sigurgeir Þorgeirsson frá landbúnaðarráðuneytinu og Tryggvi Gunnarsson hrl. Þá ræddi formaður nefndarinnar við Hauk Halldórsson, formann Stéttarsambands bænda, um ýmis atriði þessa frumvarps.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Lagt er til að 6. gr. frumvarpsins falli brott. Nánari athugun á lögunum leiddi í ljós að fyrirhugaðar breytingar á verðmiðlun vegna mjólkurframleiðslu rúmast innan gildandi laga. Í þessum breytingum felst að lögð verði niður verðmiðlun í núverandi mynd og hámarksinnheimta miðist því aðeins við 1% af heildsöluverði allra seldra mjólkurafurða frá 1. janúar 1993. Tekjum af þessu gjaldi verði einkum varið til flutningsjöfnunar á mjólk. Þrátt fyrir breytingar þessar verður þó heimilt að styrkja rekstur einstakra mjólkurbúa, sem búa við þröngan markað, svo að tryggt verði að þau geti borgað bændum fullt afurðaverð og tryggt neytendum á markaðssvæði sínu nauðsynlegt vöruframboð. Þessi ráðstöfun er í samræmi við tilgang verðmiðlunar skv. 19. gr. laganna og því ekki þörf breytinga. Rétt er að benda á B-, C-og D-liði ákvæða til bráðabirgða í 22. gr. frumvarpsins sem gera ráð fyrir sérstakri ráðstöfun verðmiðlunartekna á árunum 1993–1995. Á árunum 1993–1994 verður innheimta verðmiðlunargjalds miðuð við áðurnefnda 1% flutningsjöfnun og ráðstafanir samkvæmt bráðabirgðaliðum B–D. Þegar þeim skuldbindingum hefur verið fullnægt er heimildin bundin við innheimtu 1% flutningsjöfnunargjaldsins. Gengið er út frá að við setningu reglugerðar verði tekið mið af því sem að framan er greint.
    Lagðar eru til þrjár breytingar á 7. gr.:
         
    
    Lagt er til að innheimta verðskerðingargjalds verði háð því að fulltrúafundur Stéttarsambands bænda hafi óskað eftir töku þess. Markmið þessarar breytingar er að ákvörðun um gjald þetta verði ekki bundin við árlegan aðalfund Stéttarsambandsins. Nefndin vekur athygli á að þessi heimild til innheimtu verðskerðingargjalds nær ekki til framleiðslu sem til féll nú í haust. Því ber sauðfjárbændum að fá óskerta greiðslu vegna þeirrar framleiðslu.
         
    
    Lagt er til að skilyrði þess að fulltrúafundur geti óskað eftir innheimtu verðskerðingargjalds verði að tilkynning um slíkt hafi komið fram í fundarboði.
         
    
    Þá er lagt til að bætt verði málslið við greinina þar sem kveðið verði á um að landbúnaðarráðherra skuli setja reglur um innheimtu og ráðstöfun verðskerðingargjalds skv. 20. og 21. gr. laganna.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein er verði 9. gr. Í 25. gr. laganna er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra geti með vissum skilyrðum innheimt ákveðið gjald af heildsöluverði búvara til að standa straum af kostnaði Framleiðsluráðs landbúnaðarins við framkvæmd laganna. Lagt er til að Framleiðsluráð geti látið hluta þessa gjalds renna til samtaka afurðastöðva. Í tengslum við þær breytingar, sem nú verða á stjórn búvöruframleiðslunnar, er m.a. gert ráð fyrir að viss verkefni færist frá Framleiðsluráði til Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Því þykir rétt að opna þá möguleika að auknum verkefnum fylgi samsvarandi tekjur þannig að ekki þurfi að koma til innheimtu frekari gjalda vegna þeirra verkefna.
    Lagt er til að 11. gr. frumvarpsins falli brott, en hún felur í sér heimild Stéttarsambands bænda til að semja við afurðastöðvar um umsýsluviðskipti með afurðir. Þessi breyting felur í sér áréttingu þess að ganga skuli út frá því að bændur fái greitt að fullu skráð búvöruverð. Umsýsluviðskipti ganga gegn þessum grundvallarmarkmiðum og þeirri stefnu sem gilt hefur um þessi efni og er því þessari grein hafnað.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 13. gr. frumvarpsins:
         
    
    Breytingartillagan við 2. málsl. áréttar að mjólk, sem framleidd er umfram greiðslumark, eigi ekki að koma til sölu innan lands nema brýn þörf komi til. Markmiðið er að koma í veg fyrir að bændur freisti þess að framleiða umfram greiðslumark nema til útflutnings.
         
    
    Þá er lagt til að lokamálsliður greinarinnar falli brott. Ekki er talin þörf á að landbúnaðarráðherra setji sérstakar reglur um uppgjör fyrir mjólk, umfram greiðslumark sem ekki fellur innan heildargreiðslumarks. Ráðstöfun þeirrar mjólkur verður alfarið á ábyrgð framleiðenda og mjólkursamlaga. Þeirra er að semja um uppgjör fyrir þá framleiðslu. Í 21. gr. frumvarpsins er mjólkursamlögum og Framleiðsluráði landbúnaðarins heimilað að semja um verkaskiptingu varðandi framleiðslu mjólkurvara, jafnt fyrir innlendan sem erlendan markað. Á þennan hátt er valin sú leið að mjólkursamlögin geti hagað rekstri sínum og framleiðslu þannig
að samrýmist sem best markaðsaðstæðum og markmiðum um búvöruframleiðslu þegar á heildina er litið.
    Sú viðbót, sem lögð er til við 17. gr. frumvarpsins, er þess efnis að eigandi lögbýlis geti óskað eftir því við ábúðarlok leiguliða að greiðslur, sem hann hefur þegið sem bætur fyrir skerta búrekstraraðstöðu, skuli koma til mats skv. 16. gr. ábúðarlaga. Réttlátt þykir að leiguliði taki við bótunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Sú staða getur aftur á móti komið upp að leiguliði yfirgefi jörðina skömmu eftir að hann hefur tekið við bótum og er það þá eigandinn sem situr eftir með skerta eign. Af þessum ástæðum þykir eðlilegt að unnt sé að taka tillit til umræddra bóta í uppgjöri eiganda og leiguliða við ábúðarlok.
    Lögð er til sú breyting á 18. gr. að fellt verði niður það skilyrði að viðkomandi rétthafi greiðslumarks skuli hafa staðfest samþykki sitt um niðurfellingu eða geymslu þess. Ákvæðið þykir veita rétthafa greiðslumarks nægilega tryggingu án þessa skilyrðis, enda ber ráðherra sönnunarbyrðina um að rétthafinn hafi átt þess kost að leggja inn greiðslumark sitt og fengið tilkynningu um fyrirhugaða niðurfellingu þess.
    Við 19. gr. er lagt til að í stað orðsins „verðskerðingar“ komi: verðskerðingargjald. Hér er aðeins um orðalagsbreytingu að ræða.
    Lagðar eru til þrjár breytingar á 20. gr.:
         
    
    Breytingartillagan við a-lið felur aðeins í sér leiðréttingu á texta. Þannig færist 2. mgr. til í textanum og komi orðrétt á eftir 1. málsl.
         
    
    Tillagan við c-lið 2. mgr. felur aðeins í sér breytingu á orðalagi án efnisbreytingar.
         
    
    Lagt er til að í stað orðsins „verðskerðingar“ í fyrri málsgrein e-liðar komi „verðskerðingargjald“ til samræmis við breytingartillöguna við 19. gr.
         
    
    Breytingartillagan við síðari málsgrein e-liðar er tvíþætt. Annars vegar er það áréttað betur en í frumvarpinu að sérstök lækkun greiðslumarks til að koma út birgðum geti því aðeins orðið að birgðirnar hafi safnast upp vegna framleiðslu innan greiðslumarks, þ.e. vegna samdráttar í neyslu en ekki vegna umframframleiðslu. Á hinn bóginn felur tillagan í sér víðtækari heimildir til ráðstöfunar þeirra fjármuna sem kunna að sparast vegna þessa.
    Eftirfarandi breytingar eru lagðar til á 22. gr.
         
    
    Lögð er til sú breyting á B-, C- og D-liðum 22. gr. að í stað orðanna „úr Verðmiðlunarsjóði mjólkur“ komi: af innheimtu verðjöfnunargjalds vegna mjólkur. Ástæða breytingartillögunnar er sú að hugtakið „Verðmiðlunarsjóður mjólkur“ á sér enga skilgreiningu í lögum. Hins vegar eru tekjur af verðmiðlunargjaldi sérgreindar eftir afurðum þannig að ekki er óeðlilegt að vitna til verð miðlunargjalda af mjólkurafurðum.
         
    
    Sú breyting, sem lögð er til á D-lið 22. gr. er til samræmis við greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1993, sbr. lið 410, Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu, bls. 304, en þar segir m.a. að á grundvelli kerfisbreytinga sé gert ráð fyrir að greiða þurfi 350 m.kr. vegna birgðauppgjörs mjólkurafurða samkvæmt eldri samningi. Þar af verði 175 m.kr. fjármagnaðar af Verðmiðlunarsjóði sem ríkissjóður endurgreiði honum á árinu 1994.
         
    
    Loks er lagt til að bætt verði nýjum málslið við E-lið þess efnis að landbúnaðarráðherra setji reglur um auglýsingu og framkvæmd forkaupsréttar. Þessi breytingartillaga miðar að því að tryggja réttaröryggi og samræmi um allt land hvað rétt þennan varðar.
    Lagt er til að við 23. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein sem veitir heimild til endurútgáfu laga nr. 46/1985, ásamt síðari breytingum.

Alþingi, 19. des. 1992.


Egill Jónsson,

Össur Skarphéðinsson.

Eggert Haukdal.

form., frsm.



Ragnar Arnalds,

Guðni Ágústsson,

Einar K. Guðfinnsson.

með fyrirvara.

með fyrirvara.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Árni R. Árnason.

Kristín Ástgeirsdóttir,

með fyrirvara.

með fyrirvara.