Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 351 . mál.


630. Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir og þróun fiskeldis á Íslandi fram til aldamóta.

Flm.: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ragnar Arnalds,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Pálmadóttir,


Einar K. Guðfinnsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Jóhann Ársælsson,


Rannveig Guðmundsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera áætlun um rannsóknir og þróun fiskeldis á Íslandi fram til aldamóta. Áætlunin skal taka til bæði eldis ferskvatnsfiska og sjávarfangs.
    Markmið áætlunarinnar skal vera að móta stefnu þannig að fyrir aldamót verði Íslendingar í fremstu röð þjóða hvað varðar þekkingu á eldi fiska og annars sjávarfangs.

Greinargerð.


    Mikil aukning hefur verið í fiskeldi í heiminum síðustu áratugina. Eldi ýmissa sjávardýra á sér langa sögu í Asíu og víðar en hefur undanfarin ár náð verulegri fótfestu í okkar heimshluta. Framboð sjávarafurða hefur aukist á síðustu árum vegna vaxandi framleiðslu eldisafurða og allt bendir til að vægi eldis muni aukast enn frekar á komandi árum. Gert er ráð fyrir að helstu fisk- og sjávardýrategundir í eldi muni verða þær sem þegar hafa náð fótfestu á mörkuðum, þar á meðal nokkrir helstu nytjafiskar Íslendinga. Framandi tegundir munu einnig verða ræktaðar en í mun minna mæli. Það er áhyggjuefni að þróun fiskeldis á Íslandi er ekki í svipuðum takti og þróun eldis í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við. Ef svo heldur sem horfir mun Ísland hverfa úr tölu þeirra þjóða sem teljast stórar á sviði sjávarafurða og verð á og eftirspurn eftir þeim afurðum, sem við framleiðum, fer að lúta öðrum lögmálum en hingað til.
    Eftirfarandi mynd sýnir neyslu á fiski í heiminum frá 1970. Einnig sýnir hún veiðar neyslufisks ásamt framleiðslu eldisafurða. Neysla sjávarfangs var um 70 millj. tonn árið 1990 og hefur aukist um 2,7% á ári sl. 20 ár. Veiðar á neyslufiski hafa aukist úr rúmlega 40 millj. tonna árið 1970 í um 60 millj. tonna árið 1990. Frá 1970 hefur fiskeldi ýmiss konar aukist úr 2 millj. tonna í um 11 millj. tonna á árinu 1990.



















        Neysla á fiskmeti frá 1970–1990 ásamt fiskveiðum og framleiðslu í eldi. Spá um eftirspurn og neyslu á fiskmeti ásamt þróun veiða og eldis til ársins 2010.
        Heimild: FAO og Perspektivanalyse for havbruk, skýrsla unnin fyrir NTNF Noregi.

    Samkvæmt norskri spá er gert ráð fyrir að eftirspurn eftir fiskmeti muni vaxa um 1,7% á ári fram til ársins 2010 og verði þá 100 millj. tonn. Helstu ástæður fyrir aukinni eftirspurn eru fólksfjölgun, áframhaldandi hagvöxtur, betri dreifikerfi og geymsluaðferðir og aukin eftirspurn eftir hollri og næringarríkri matvöru. Fyrir sama tímabil gerir Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, ráð fyrir óverulegri aukningu á verði neyslufisks m.a. vegna tímabundinnar eða stöðugrar ofveiði margra helstu fiskstofna í heiminum. Aftur á móti er gert ráð fyrir að framleiðsla í fiskeldi muni aukast um 5% á ári fram til ársins 2010 og verða þá um 30 millj. tonn. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þriðjungur af heildarframboði neyslufisks árið 2010 komi úr fiskeldi. Þrátt fyrir spár um litla eða enga aukningu í veiðum á neyslufiski er ekki hægt að útiloka að breytingar í vinnslu leiði til aukinnar nýtingar í framtíðinni. Þrátt fyrir aukningu á framboði fiskmetis á komandi árum er gert ráð fyrir að eftirspurn muni verða meiri en framboð. Í töflu 1 er yfirlit yfir heimsframleiðslu eldisafurða árið 1989.

Tafla 1.

Framleiðsla í eldi fiskafurða árið 1989.


Framleiðsla með veiðum neyslufisks gefin til samanburðar (í millj. tonna

).

Fiskur

Rækja

Skeldýr



Eldi                7
,3 0 ,6
3 ,0
Veiðar           53
,6 2 ,0
4 ,0
Samtals framleiðsla      60
,9 2 ,6
7 ,0
Hlutfall eldisframleiðslu (%)      12
,0 23 ,0
43 ,0

    Á níunda áratugnum meira en tvöfaldaðist framleiðsla í fiskeldi í heiminum og árið 1989 var hún rúmlega 7 millj. tonna. Þar vegur mest framleiðsla á karpategundum í Asíu. Á árinu 1989 voru um 12% af heildarframboði neyslufiska (sjávar- og ferskvatnsfiska) í heiminum úr eldi. Heildarframleiðsla í rækjueldi u.þ.b. tífaldaðist á sl. áratug og nam framleiðslan rúmlega 600 þús. tonnum 1989. Mest er framleitt í Asíu af heitsjávarrækju. Á árinu 1989 voru um 23% af allri rækju á heimsmörkuðum úr eldi. Eldi á skeldýrum óx úr um 2 millj. tonna í um 3 millj. tonna á sl. áratug. Mest er framleitt af kræklingsostru og hörpudiskstegundum. Þjóðir í Asíu framleiða um 75% af skeldýrum í eldi en í Evrópu eru framleidd rúmlega 600 þús. tonn, aðallega í Frakklandi og á Spáni. Það vekur sérstaka athygli að rúmlega 40% af heildarframboði skeldýra í heiminum skuli vera úr eldi og þannig er eldisframleiðsla að stórum hluta ráðandi á þeim mörkuðum.
    Á árunum 1970–1990 hafa Íslendingar veitt að meðaltali um 730 þús. tonn af fiski til neyslu eða um 1,4% að meðaltali af heildarframboði neyslufisks í heiminum. Ef fyrrnefndar spár ganga eftir um aukið framboð á neyslufiski á komandi árum mun hlutur Íslendinga í heildarframboði minnka úr 1,8% árið 1970 í 0,7% árið 2010 miðað við óbreyttar aðstæður hér á landi. Ef hins vegar hlutur Íslendinga á að haldast óbreyttur og miðast við meðaltal áranna 1970–1990 þarf framboð á neyslufiski frá Íslandi að aukast úr um 700 þús. tonnum í um 1.300 þús. tonn árið 2010. Aukin framleiðsla eldisafurða mun ekki aðeins leiða til mikillar verðmætasköpunar því að aukið framboð og nýjar eldistegundir geta auðveldlega haft áhrif á verð fiskafurða okkar og þannig á afkomu veiða og vinnslu hér á landi. Þótt ekki sé raunhæft að gera ráð fyrir um 600 þús. tonna aukningu frá Íslandi á framboði neyslufisks á næstu 15–20 árum er augljóst af framansögðu að það er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að ná tökum á fiskeldi og taka þátt í þeirri miklu aukningu á framboði fisks sem fram undan er.
    Stóraukin framleiðsla á eldislaxi hefur þegar leitt til mikillar verðlækkunar á laxamörkuðum. Skýrt dæmi um áhrif eldis á verðlag sjávarafurða er áhrif eldisrækju á markaði kaldsjávarrækju en af um 2 millj. tonna sem veiðast af rækju í heiminum eru um 10% kaldsjávarrækja. Árið 1975 voru framleidd um 30 þús. tonn af eldisrækju í heiminum. Framleiðslan fór vaxandi og árið 1983 var hún um 100 þús. tonn. Þá jókst framleiðslan ört og var komin í um 600 þús. tonn 1990. Spár gera ráð fyrir að á næstu árum muni framleiðslan halda áfram að aukast og verða um 1 millj. tonn árið 2000, þá er reiknað með að þriðjungur af allri rækju á heimsmörkuðum komi úr eldi. Frá árinu 1986 hefur verð á íslenskri kaldsjávarrækju farið lækkandi og um mitt ár 1991 nam lækkunin um 50% miðað við verð á seinni hluta árs 1986. Þótt ekki sé alveg hægt að kenna auknu framboði á eldisrækju um þessa miklu verðlækkun á íslenskri rækju er augljóst að mikil aukning í framleiðslu á eldisrækju hefur haft áhrif á markaðsverðið. Á næstu árum má gera ráð fyrir að eldi muni hafa áhrif á verðþróun fleiri sjávarafurða. Lúða er eldistegund sem miklar vonir eru bundnar við á norðlægum slóðum og gert er ráð fyrir að eldi hefjist á þeirri tegund innan skamms. Verð á ferskri lúðu er hátt og framboð er lítið. Ísland er meðal þriggja þjóða þar sem hefur tekist að framleiða lúðuseiði í eldi. Íslendingar eru þess vegna í fremstu röð meðal þeirra sem stunda rannsóknir á lúðueldi og með auknu rannsókna- og þróunarstarfi eigum við góða möguleika á að vera meðal þeirra fremstu í nýrri atvinnugrein sem lúðueldi er. Verð á nýjum eldistegundum er oftast hátt í byrjun þegar framboð er lítið en með aukinni framleiðslu má reikna með verðlækkun. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar valdar eru tegundir til eldis. Mesta uppbyggingin í laxeldi á Íslandi hófst þegar verð á erlendum mörkuðum fór að lækka vegna aukinnar framleiðslu, fyrst og fremst í Noregi. Í kjölfar þessa var mikill taprekstur í laxeldi sem endaði með mörgum gjaldþrotum í greininni. Til að greiða niður dýran en nauðsynlegan þróunarkostnað vegna uppbyggingar eldis nýrra tegunda er þess vegna mikilvægt að koma snemma inn í eldisferilinn en ekki seint eins og dæmið um íslenska laxeldið sýnir. Mikilvægt er að fylgjast vel með markaðsþróun og stunda rannsóknir á nýjum tegundum til að geta hafið eldi á þeim á heppilegum tíma með hliðsjón af stöðu markaða. Í mörgum löndum er mikill áhugi á þorskeldi og hafbeit og eru umfangsmiklar rannsóknir í gangi þar að lútandi. Vegna þróunar í eldi á laxi og rækju verður að gera ráð fyrir að í framtíðinni muni þorskafurðir úr hefðbundnum sjávarútvegi lenda í samkeppni við hafbeitar- og/eða eldisþorsk á mörkuðum. Þess vegna er nauðsynlegt að móta heildarstefnu í fiskeldi jafnhliða mótun sjávarútvegsstefnu.
    Innan Efnahagsbandalags Evrópu er vaxandi áhersla á fiskeldi ýmiss konar og í Noregi tvöfölduðust opinber framlög rannsóknarsjóða til fiskeldisrannsókna frá 1987–1989 en það ár námu þau rúmum 1 milljarði ísl. kr. Þá eru ótalin framlög fyrirtækja og stofnana sem voru um 2 milljarðar ísl. kr., samtals voru því framlög til fiskeldisrannsókna í Noregi árið 1989 um 3 milljarðar ísl. kr. Á árinu 1991 námu heildarframlög til fiskeldisrannsókna á Íslandi um 180 millj. kr. eða 6% af framlögum Norðmanna á árinu 1989. Af framansögðu ætti að vera ljóst að ef Íslendingar ætla að taka þátt í auknu framboði á fiskafurðum og halda sínum hlut á heimsmörkuðum á komandi árum verður að stórauka framlög til rannsókna- og þróunarstarfs innan fiskeldis og hafbeitarrannsókna.
    Þrátt fyrir verðlækkanir á fiskafurðum í einstaka árum hefur verð á botnfiskafurðum frá Íslandi farið hækkandi frá árinu 1984 þegar á heildina er litið. Verðþróunin milli afurðaflokka er mismunandi en mest hefur hækkunin orðið á sjófrystum og ísuðum fiski. Fyrir fiskeldi almennt eru það hækkanir á ferskfiskmörkuðum sem skipta mestu máli þar sem eldisafurðir eru að langmestu leyti seldar ferskar. Skiptar skoðanir eru á því hvort fiskafurðir muni hækka enn frekar á næstu árum. Bent hefur verið á að verð á fiskafurðum sé orðið það hátt að með frekari hækkunum muni neytendur snúa sér í ríkari mæli að öðrum neysluvörum.
    Í Asíu er langmest framleitt af eldisafurðum en framleiðsla hefur einnig vaxið á undanförnum árum í öðrum heimshlutum. Í mörgum nágrannalandanna og hjá samkeppnisaðilum á erlendum fiskmörkuðum hefur fiskeldi farið vaxandi. Í töflu 2 er yfirlit yfir hlutfall eldisafurða af aflamagni og aflaverðmætum hjá helstu OECD-löndunum árið 1989.

Tafla 2.

Framleiðsla eldisafurða og veiðar í nokkrum löndum OECD árið 1989.



                Hlutfall úr eldi (%)



Veiðar

Eldi

Af afla-

Af afla-


Land

(þús. tonn)

(þús. tonn)

magni

verðmætum



Finnland     
111
19 17 64
Bretlandseyjar     
823
51 6 46
Noregur     
1.900
119 6 44
Írland          
245
20 8 40
Vestur-Þýskaland     
234
44 19 36
Frakkaland     
876
234 27 32
Japan*          
11.968
1.425 12 25
Svíþjóð     
258
8 3 18
Danmörk     
1.927
33 2 16
Bandaríkin     
5.744
443 8 15
Ástralía     
176
14 8 13
Kanada     
1.554
18 1 5
Belgía          
40
0 ,7 2 4
Grikkland     
129
5 4 4
Ísland          
1.505
2 0 ,1 1 ,4
* 1988 sjávargróður einnig tekinn með.
(Heimildir OECD og FAO).

    Í löndum eins og Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Japan og löndum á meginlandi Evrópu er fiskeldi vaxandi atvinnugrein. Í þessum löndum eru verðmæti úr eldi mikil eða frá 15–45% af heildaraflaverðmætum úr sjó en sumar hverjar þessara þjóða eru meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims. Á Íslandi eru verðmæti eldisafurða aðeins rúmlega 1% af aflaverðmætum. Það undirstrikar mikilvægi þess að á Íslandi verði mótuð framtíðarstefna í fiskeldi sem verði nátengd fiskveiðum og vinnslu.
    Mikilvæg forsenda þess að ný atvinnugrein nái að festa rætur og skila arði er að henni séu sett skýr markmið og um hana mótuð ákveðin stefna. Fiskeldi hefur oft verið til umfjöllunar á Alþingi síðustu áratugi og þingið hefur samþykkt mörg lög og gert ályktanir sem í sjálfu sér eru stefnumarkandi en um eiginlega heildarstefnumótun hefur þó ekki verið að ræða. Þetta hefur m.a. leitt til þess að greinin hefur þróast með öðrum hætti en æskilegt hefði verið og oft hefur verið brugðist seint við ýmsum vandamálum og með ófullnægjandi hætti.
    Til að tryggja að fjármagn, sem bundið er í fiskeldi, nýtist sem best og vöxtur og viðgangur greinarinnar verði sem mestur er mikilvægt að mótuð verði opinber stefna í málefnum fiskeldis, því sett skýr markmið og skilgreindar leiðir til að ná þeim markmiðum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar litið er til þess að eldi á sumum nytjafiskum okkar virðist vera að hefjast og gera verður ráð fyrir að fiskeldi tengist mun meira hefðbundnum fiskveiðum og vinnslu en verið hefur.
    Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins var unnin skýrsla um fiskeldi á Íslandi sem var lögð fram og kynnt á þessu ári (1992). Þá hefur hópur á vegum sjávarútvegsráðuneytisins starfað frá árinu 1990 og gert tillögur um framkvæmd á eldi sjávardýra hér á landi. Við mörkun heildarstefnu um fiskeldi á Íslandi í framtíðinni er eðlilegt að niðurstöður fyrrnefndra starfshópa verði hafðar til hliðsjónar og þannig verði vinna, sem þegar hefur verið unnin, nýtt til uppbyggingar fiskeldis hér á landi.