Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 367 . mál.


727. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Árna M. Mathiesen um innheimtu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda.

    Hvernig metur ráðherra reynsluna af upptöku staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts með tilliti til innheimtuárangurs?
    Þau skattkerfi, sem um er fjallað í fyrirspurninni, eru ný eða nýleg og reynsla af þeim því eðlilega takmörkuð. Á það einkum við um reynslu af innheimtu þar sem marktækar upplýsingar liggja af eðlilegum ástæðum ekki fyrir fyrr en alllöngu eftir að viðkomandi skattlagningartímabili er lokið. Auk greiðslufrests, sem fyrir hendi kann að vera, er áætluð gjaldskylda fyrst eftir lok hvers tímabils ætíð veruleg og kröfur, sem ekki verða innheimtar, miklar.
    Þrátt fyrir tiltölulega stuttan reynslutíma má draga nokkrar ályktanir af innheimtu á fyrstu fjórum árum staðgreiðslu og fyrstu tveimur árum virðisaukaskatts. Í þessu efni verður þó að fara varlega og nauðsynlegt er að hafa í huga ýmis atriði sem gera það að verkum að innheimtutölur og innheimtuhlutföll eru ekki einhlítir mælikvarðar á árangur eða ástand í innheimtumálum.
    Óhjákvæmilegt er að í jafnviðamiklum kerfum og hér um ræðir — í hvoru um sig eru innheimtir um og yfir 40 milljarðar kr. — verði á hverjum tíma nokkrar eftirstöðvar. Auk krafna, sem ekki innheimtast á réttum tíma af ýmsum orsökum, er stór hluti eftirstöðva á hverjum tíma kröfur sem innheimtast alls ekki eða aðeins að óverulegum hluta af tilgreinanlegum ástæðum.
    Annars vegar er hér um að ræða áætlanir skattstjóra á þá aðila sem skila ekki skýrslum um virðisaukaskatt eða skilagreinum staðgreiðslu á réttum tíma. Áætlanir þessar eru m.a. notaðar til að knýja fram skil á skýrslum og skilagreinum. Þær eru yfirleitt verulega hærri en raunveruleg álagning verður þegar gögn berast. Nokkurn tíma getur tekið að fá rétt skýrsluskil og í mörgum tilvikum fást þau alls ekki, t.d. vegna þess að viðkomandi aðili er hættur starfsemi. Af þessum ástæðum sitja inni í kerfinu umframáætlanir sem safnast upp í eftirstöðvum. Í nýju kerfi fara eftirstöðvar því vaxandi fyrstu árin eða þar til breytingar á áætlunum eða afskrift eldri krafna nær jafnvægi við nýjar áætlanir.
    Hins vegar eru kröfur á aðila sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta. Eftir að bú er tekið til skipta geta innheimtumenn ríkissjóðs fátt gert annað til innheimtu en að bíða skiptaloka. Kröfurnar koma þó fram sem óinnheimtar kröfur þar til þær verða greiddar við skipti, sem sjaldan er, eða eru afskrifaðar í framhaldi af skiptalokum. Eins og kunnugt er geta skipti á þrotabúi dregist mjög lengi og safnast þessar kröfur þá upp sem eftirstöðvar. Eins og í fyrra tilvikinu líður nokkur tími í nýju kerfi þar til jafnvægi kemst á milli krafna í gjaldþrotabú og afskrifta.
    Þá má nefna þriðja atriðið er skekkir enn frekar allar venjulegar mælingar á innheimtuárangri en það eru dráttarvextir. Dráttarvextir eru reiknaðir á allar gjaldfallnar ógreiddar kröfur, þar með taldar umframáætlanir og kröfur í gjaldþrotabú. Þeir safnast því einnig upp í kerfinu og ýkja þær skekkjur sem að framan eru raktar.
    Þessi atriði, sem hér hafa verið talin, gera það að verkum að mæling innheimtu, eins og hún er oftast gerð, sbr. t.d. skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning fyrir árið 1991, er órökrétt og getur aðeins leitt til rangrar niðurstöðu að mati fjármálaráðuneytisins. Í skýrslunni eru allar ógreiddar kröfur í árslok, þar á meðal umframáætlanir, kröfur í þrotabú og dráttarvextir á þessar kröfur, reiknaðar sem hlutfall af heildarkröfum sem til innheimtu voru á árinu. Aðferð þessi er bersýnilega ófullnægjandi. Sem dæmi má nefna að væri í eitt skipti gerð skattakrafa í þrotabú sem næmi 10% af árlegri heildarálagningu ársins yrði innheimtan í byrjun 90% en færi síðan árlega lækkandi þar til búskiptum væri lokið, jafnvel þótt allar aðrar skattakröfur á þeim árum innheimtust að fullu á réttum gjalddögum. Sú niðurfærsla krafna, sem Ríkisendurskoðun gerir, lagfærir þessar skekkjur að einhverju marki en breytir ekki grundvallaratriðum aðferðarinnar.
    Fjármálaráðuneytið hefur í mati sínu á innheimtuárangri beitt annarri aðferð en Ríkisendurskoðun. Í henni eru lagðar til grundvallar þær skattakröfur sem myndast á hverju ári og athugað hverjar þeirra hafi innheimst að liðnum tilteknum tíma frá árslokum. Þannig er t.d. skoðuð álagning virðisaukaskatts á veltu tiltekins árs og athugað hvað innheimst hafi af henni á miðju árinu á eftir eða í lok þess árs. Þannig fæst raunhæfur samanburður á milli ára. Enn fremur heldur ráðuneytið höfuðstól álagningar aðgreindum frá viðurlögum og dráttarvöxtum og sérgreinir áætlanir skattstjóra og kröfur í þrotabú eftir því sem upplýsingar leyfa. Ráðuneytið telur að þessi aðferð hafi tvímælalausa kosti umfram þá aðferð sem fyrr er lýst og gefi viðunandi mynd af ástandi innheimtu og breytingum milli ára.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir innheimtu virðisaukaskatts og staðgreiðslu með þessari aðferð og tölum sem ráðuneytið hefur tekið saman. Eru þær byggðar á upplýsingum úr Ríkisbókhaldinu og skattkerfinu sem unnar hafa verið á síðustu missirum.

Innheimta staðgreiðslu árin 1988–1991.


    Staðgreiðsla opinberra gjalda var tekin upp í ársbyrjun 1988. Samtímis voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem miðuðu að því að einfalda álagningu tekjuskatts á einstaklinga, m.a. með það fyrir augum að staðgreiðslan yrði sem næst væntanlegri álagningu og sem einföldust í framkvæmd. Þegar allt er metið verður vart annað sagt en að framkvæmd hafi tekist vel. Til merkis um það er m.a. að ekki hafa verið gerðar teljandi breytingar á þessu kerfi og tillögur um breytingar á því hafa ekki verið uppi.
    Tiltækar tölur um innheimtu staðgreiðslu bera ekki með sér aðgreiningu á milli álagningar samkvæmt skilagreinum launagreiðenda og áætlana skattstjóra. Þær gefa hins vegar kost á að halda dráttarvöxtum aðgreindum frá höfuðstól og eru þær tölur, sem hér birtast, án þeirra. Eins eru kröfur í þrotabú sérgreindar og hægt að meta áhrif þeirra. Tölurnar eru allar miðaðar við stöðu mála 1. apríl 1992, nema tölur ársins 1991 sem eru miðaðar við stöðu í byrjun september 1992. Tölurnar eru því ekki fyllilega sambærilegar á milli ára en gefa engu að síður góða mynd af stöðu innheimtunnar.
    Tölurnar miðast við þá staðgreiðslu sem lögð var á launagreiðslur hvers árs um sig. Í fyrstu töflunni er gerð grein fyrir höfuðstól staðgreiðslu 1988–1991. Áætlanir skattstjóra á þá aðila, sem ekki skiluðu skilagreinum, eru meðtaldar og tekið er tillit til breytinga sem gerðar hafa verið á álagningunni. Þá sýnir taflan hvað innheimst hafði af þessum höfuðstól og hverjar eftirstöðvar voru á sama tíma. Þá eru innheimta og eftirstöðvar sýndar sem hlutfall af höfuðstól.

Staðgreiðsla 1988–1991, höfuðstóll álagningar og innheimta.



Innheimt af

Áætlaðar

Áætlað

Eftirstöðvar


Álagning,

höfuðstól

eftirstöðvar

innheimtu-

1. apríl 1992


Ár    (Upphæðir eru í m.kr.)

höfuðstóll

1. apríl 1992 1)

höfuðstóls

hlutfall %

hlutfall % 1)



1988          
20.651
20.344 308 98 ,51 1 ,49          
1989          
25.019
24.649 370 98 ,52 1 ,48
1990          
30.757
30.307 449 98 ,54 1 ,46
1991          
34.491
34.003 488 98 ,59 1 ,41
Samtals     
110.918
109.303 1.615 98 ,54 1 ,46

1) 6. september 1992 fyrir árið 1991.
    Eins og fram kemur er innheimtuhlutfallið nánast hið sama fyrir árin 1988–1990 eða rúmlega 98,5%. Eftirstöðvar sem hlutfall af álagningu eru því svipaðar frá ári til árs og hafa farið lækkandi ef eitthvað er. Þær eru samtals um 1,6 milljarðar kr. fyrir fjögur fyrstu ár staðgreiðslunnar en álagning þessara ára var alls um 111 milljarðar kr.
    Gjaldþrot hafa að sjálfsögðu veruleg áhrif á stöðu innheimtu. Af þeim 1,6 milljörðum kr., sem ekki höfðu innheimst, sbr. framangreint, var rúmlega helmingur kröfur í þrotabú. Tölur um kröfur í þrotabú vegna 1991 lágu ekki fyrir en af rúmlega 1,1 milljarði óinnheimtra krafna vegna áranna 1988–1990 voru yfir 800 millj. kr. kröfur í þrotabú en tæplega 300 millj. kr. eru óinnheimtar kröfur á aðra. Í eftirfarandi töflu hafa þrotabú verið tekin út úr gagnagrunninum. Taflan lítur þannig breytt svo út fyrir árin 1988–1990.

Staðgreiðsla 1988–1990, höfuðstóll álagningar og innheimta.



Álagning,

Innheimt af

Áætlaðar

Áætlað

Eftirstöðvar


höfuðstóll

höfuðstól

eftirstöðvar

innheimtu-

1. apríl 1992


Ár    (Upphæðir eru í m.kr.)

án áætlana.

1. apríl 1992

höfuðstóls

hlutfall %

hlutfall %



1988          
18.569
18.532 36 99 ,81 0 ,19     
1989          
23.175
23.094 81 99 ,66 0 ,34
1990          
29.204
29.028 176 99 ,40 0 ,60
Samtals     
70.948
70.654 293 99 ,59 0 ,41

    Eins og taflan sýnir eru eftirstöðvar frá árunum 1988–1990 hjá öðrum en þrotabúum 0,2–0,6% af höfuðstól álagningar eða um 300 millj. kr. af um 71 milljarðs kr. álagningu á sömu aðila. Mismun talnanna virðist fyrst og fremst mega rekja til mislangs tíma frá álagningu þar sem oft tekur langan tíma að ljúka sumum málum, hvort sem er með breytingu á áætlun, innheimtu eða afskrift kröfu. Á talnalegum forsendum virðist ekki að marktæk breyting hafi orðið á innheimtu staðgreiðslu á árinu 1991.

Innheimta virðisaukaskatts árin 1990 og 1991.


    Virðisaukaskattur hefur verið lagður á frá ársbyrjun 1990 og liggur nú fyrir reynsla á innheimtu hans tvö fyrstu árin. Hér á eftir er gerð grein fyrir árangri í innheimtu virðisaukaskatts árin 1990 og 1991 með talnalegum upplýsingum frá Ríkisbókhaldi og úr skattkerfinu. Þær tölur eru frábrugðnar þeim tölum sem eru í ríkisreikningi fyrir sömu ár. Hér er miðað við þann skatt sem lagður er á veltu hvors árs, 1990 og 1991, og hvað hafi innheimst af honum í hvoru tilviki 31. desember árið eftir. Í ríkisreikningi er hins vegar miðað við þær kröfur sem gjaldfallnar eru í lok álagningarárs. Nákvæmt talnalegt samræmi við ríkisreikning er því ekki fyrir hendi sem breytir því þó ekki að með góðu móti má bera saman niðurstöðurnar.
    Eins og fram hefur komið eru það einkum áætlanir skattstjóra, skuldir gjaldþrotabúa og áfallnir dráttarvextir sem leiða til skekkju þegar verið er að meta innheimtu. Í þeim tölum, sem notaðar voru, lá ekki fyrir sérgreining á vanskilum þrotabúa og eru þau því talin með öðrum vanskilum. Aftur á móti var unnt að sérgreina dráttarvexti og eru þeir ekki taldir með. Jafnframt er gerð grein fyrir áhrifum af áætlunum skattstjóra.
    Í eftirfarandi töflu er sýnd álagning virðisaukaskatts á veltu áranna 1990 og 1991 og hvað innheimst hafði af henni þegar ár var liðið frá lokum álagningarárs. Álagning ársins 1991 með leiðréttingum til 31. desember 1992 lá fyrir. Þar sem álagning fyrir árið 1990, eins og hún stóð í árslok 1991, var ekki tiltæk var notuð álagning á árið 1990 með breytingum og leiðréttingum til 5. mars 1992.

Virðisaukaskattur, höfuðstóll og innheimta.



Höfuðstóll

Innheimt


álagningar

31. des.

Eftirstöðvar

Innheimtu-


Ár    (Upphæðir eru í m.kr.)

án álaga 1)

árið eftir

höfuðstóls

hlutfall %



1990          
38.980
38.078 902 97 ,7
1991          
44.118
42.834 1.284 97 ,1
Samtals     
83.098
80.912 2.186 97 ,4

1) 5. mars 1991 fyrir árið 1990, 31. desember 1992 fyrir árið 1991.
    Óinnheimtar eftirstöðvar vegna þessara ára eru tæplega 2,2 milljarðar kr. af álagningu að fjárhæð rúmlega 83 milljarðar kr. og nema því um 2,6%. Í þessum tölum eru meðtaldar kröfur á þrotabú sem ekki reyndist unnt að sérgreina og áætlanir sem vikið verður að síðar.
    Hvað innheimtuhlutfallið varðar er gott samræmi milli þessarar niðurstöðu og talna Ríkisendurskoðunar vegna ársins 1990, enda er það fyrsta ár skattsins og ekki er farið að gæta skekkju vegna uppsöfnunar. Mismunur á hlutfallslegri innheimtu áranna 1990 og 1991 er ekki stórfelldur og allur annar en lesa má í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sé að auki tekið tillit til þess að áætlanir skattstjóra hafa áhrif á innheimtutölur verður enn hæpnara að draga slíka ályktun.
    Áætlanir skattstjóra eru m.a. notaðar til að knýja fram skil á skýrslum og eru oft fjarri endanlegri álagningu. Í byrjun mars 1991 voru áætlanir fyrir árið 1990 um 651 millj. kr. en 31. desember 1992 voru áætlanir fyrir árið 1991 um 907 millj. kr. Í eftirfarandi töflu er reynt að meta áhrif áætlana á innheimtuhlutfall. Er það gert á þann hátt að áætlanir eru dregnar frá álagningu. Enn fremur er miðað við að allar innborganir hafi verið vegna álagningar samkvæmt skýrslum en ekki vegna áætlana. Áætlanir eru því einnig dregnar frá eftirstöðvum.

Virðisaukaskattur, höfuðstóll án áætlana og innheimta.



Höfuðstóll

Innheimt

Áætlaðar

Áætlað


Áætlanir

álagningar

31. des.

eftirstöðvar

innheimtu-


Ár    (Upphæðir eru í m.kr.)

skattstjóra

án áætlana 1)

árið eftir

án áætlana

hlutfall



1990          
651
38.329 38.078 251 99 ,3
1991          
907
43.211 42.834 377 99 ,1
Samtals     
1.558
81.540 80.912 628 99 ,2
    
1) 5. mars 1991 fyrir árið 1990, 31. desember 1992 fyrir árið 1991.
    Sé gengið út frá þessari forsendu reiknast eftirstöðvar vegna álagningar beggja áranna samtals rúmlega 600 millj. kr. eða innan við 1% af álagningu og enginn marktækur munur er á milli áranna 1990 og 1991.
    Í útreikningi þessum var gert ráð fyrir að ekkert hefði innheimst upp í áætlanir skattstjóra þótt reikna megi með því að eitthvað sé um það. Innheimtuhlutfallið er af þeim sökum ofmetið hér í stað þess að vera vanmetið í fyrra dæminu. Með tilliti til þess má með góðri vissu fullyrða að raunverulegt innheimtuhlutfall liggi á milli talna þessara tveggja dæma og sé sem hér segir 20. ágúst eftir lok álagningarárs:
                                  Vegna ársins 1990: 97,7–99,3%.
                                  Vegna ársins 1991: 97,1–99,1%.
    Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir að þegar tekið er tillit til umframáætlana séu óinnheimtar eftirstöðvar álagningar innan við 2% og um eða innan við 1,5 milljarðar kr. samtals vegna tveggja ára og að munur á milli áranna sé ekki verulegur. Í þessum eftirstöðvum eru kröfur á þrotabú meðtaldar en þær voru ekki sérgreindar að þessu sinni. Miðað við reynslu af staðgreiðslu gætu slíkar kröfur verið um helmingur eftirstöðvanna og innheimtuárangur væri þá svipaður og hann er í staðgreiðslunni.
    Ekki er vafi á því að tölur, reiknaðar samkvæmt þessari aðferð, eru betri mælikvarði á innheimtuárangur en þær tölur sem Ríkisendurskoðun hefur notað í skýrslum sínum. Munar allmiklu á þeim og ekki verður með neinum skynsamlegum rökum sýnt fram á að veruleg breyting til hins verra hafi orðið í innheimtu virðisaukaskatts á milli áranna 1990 og 1991 eins og lesa má úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Munur á milli ára er langt frá því að geta verið marktækur. Sé engu að síður litið svo á að hann sé um 0,4%, sem er mismunur miðtalna talnabilanna hér að framan, má rekja um 160 millj. kr. hækkun á eftirstöðvum milli ára til breytinga á innheimtu en ekki rúman milljarð króna eins og Ríkisendurskoðun virðist ganga út frá.
    Áhrif áætlana eru nokkru meiri síðara árið en hið fyrra. Áætlanir vaxa milli ára úr um 650 millj. kr. fyrir árið 1990 í um 900 millj. kr. fyrir árið 1991. Virðist mega rekja það til eðlilegra ástæðna en ekki til verri skýrsluskila. Má draga þá ályktun af samanburði álagningartalna á milli ára sem sýndur eru í töflunni hér á eftir ásamt breytingum á innheimtu höfuðstóls og endurgreiðslum vegna matvöru, vinnu á byggingarstað og til sveitarfélaga og ríkisstofnana.

Virðisaukaskattur, höfuðstóll og innheimta árin 1990–1991.



1990

1991

Breyting milli ára


m.kr.

m.kr.

m.kr.

%



Álagður virðisaukaskattur     
38.980
44.118 5.138 13 ,2
Virðisaukaskattur án áætlana     
38.329
43.211 4.882 12 ,7
Innheimt af álagningu     
38.078
42.834 4.756 12 ,5
Endurgreiðslur     
2.342
2.570 228 9 ,7
Innheimta — endurgreiðslur     
35.736
40.264 4.528 12 ,7

    Tafla þessi ber með sér að álagningartölur án áætlana vaxa meira milli ára en sem nemur almennum verðlags- og veltubreytingum í þjóðfélaginu og bendir það ekki til lakari skattskila. Álagning með áætlunum hækkar enn meira sem er eðlilegt í nýju kerfi af þessu tagi en gæti einnig bent til virkari skattheimtu. Breytingar á innheimtutölum benda til þess að innheimta hafi ekki versnað. Endurgreiðslur úr kerfinu vaxa hins vegar minnst á milli ára sem bendir ekki til þess að séu þær sá veikleiki sem Ríkisendurskoðun telur.

    Hvernig hyggst ráðherra bregðast við gagnrýni Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings á framkvæmd innheimtumála, sbr. skýrslu þessara aðila við endurskoðun ríkisreiknings 1991?
    Í skýrslu um ríkisreikning fyrir árið 1991 fjalla Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings um innheimtu ríkissjóðstekna á því ári. Eru þar gerðar ýmsar réttmætar athugasemdir og veittar gagnlegar ábendingar. Engu að síður er framsetning sumra talna í skýrslunni hæpin og sumar ályktanir í henni varhugaverðar, einkum þegar höfð er í huga túlkun þeirra í meðferð fjölmiðla og annarra sem ekki hafa aðstöðu til að leggja raunhæft mat á niðurstöðurnar.
    Mat Ríkisendurskoðunar á innheimtu hefur að áliti fjármálaráðuneytisins veilur sem óhjákvæmilega leiða til rangrar niðurstöðu og hæpinna ályktana. Eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir liggur veilan í þeirri aðferð að blanda saman innheimtutölum margra ára og bæta eftirstöðvum fyrri ára við innheimtustofn þess árs sem fjallað er um hverju sinni og notaður er við að reikna innheimtuhlutfall. Þessi aðferð leiðir óhjákvæmilega til rangrar niðurstöðu um árangur innheimtu og breytingar á henni. Staðgreiðsla og virðisaukaskattur eru nýleg tekjuöflunarkerfi sem gerir það að verkum að veilur þessar bjaga niðurstöður meira en ella væri.
    Sú aðferð, sem Ríkisendurskoðun notar til að meta innheimtuárangur, leiðir til vafasamrar niðurstöðu a.m.k. í tveimur veigamiklum atriðum. Annars vegar verða eftirstöðvar ofmetnar sem nemur umframáætlunum og töpuðum kröfum. Vöxtur eftirstöðva fyrstu árin í nýjum kerfum mælist mikill án þess að innheimta hafi versnað. Hins vegar mun innheimtuhlutfall, eins og Ríkisendurskoðun reiknar það, fara stöðugt lækkandi ár frá ári þar til vissu marki er náð. Á það einnig við þótt innheimta sé stöðug og góð. Ályktanir á þeim grundvelli um breytingar á innheimtuárangri á milli ára verða því marklitlar.

Um innheimtu virðisaukaskatts.
    Á bls. 48 í skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um innheimtu virðisaukaskatts. Þar segir svo: „Álagður virðisaukaskattur til innheimtu á árinu 1991 nam alls 47.991 milljón króna. Upp í þá fjárhæð innheimtust 39.217 milljónir króna eða 81,7%. Ef tekið er tillit til ógjaldfallinna eftirstöðva að fjárhæð 6.527 milljónir króna er innheimtuhlutfallið 94,6%. Innheimtuhlutfall 1990 var um 97% en þessi samanburður er af ýmsum ástæðum ekki marktækur, m.a. vegna þess að þetta var fyrsta árið sem skatturinn var innheimtur.“
    Hér er því slegið föstu að innheimtuhlutfallið sé 94,6% og hafi versnað um nærri 2,5% frá árinu áður. Þess er vissulega réttilega getið að þessi samanburður er ekki marktækur. Ástæðan er þó ekki sú sem Ríkisendurskoðun telur. Ástæðan er einfaldlega sú að aðferðin, sem notuð er, felur í sér þá grundvallarskekkju, eins og bent var á í upphafi, að safna upp eftirstöðvum liðinna ára og bæta þeim við innheimtustofn nýs árs. Innheimtuhlutfallið lækkar milli ára þótt innheimtan sé óbreytt eða jafnvel batni.
    Til samanburðar við tölur Ríkisendurskoðunar eru þær tölur, sem raktar eru í svari við fyrri hluta fyrirspurnarinnar og sýna að innheimta virðisaukaskatts árin 1990 og 1991 er að teknu tilliti til umframáætlana og gjaldþrota 98–99% af álagningu hvors árs um sig þegar ár er liðið frá lokum þess.
    Á sömu blaðsíðu í skýrslunni segir enn fremur: „Þrátt fyrir að innheimtuhlutfall sé vel viðunandi hafa gjaldfallnar eftirstöðvar rúmlega tvöfaldast á milli áranna 1990 og 1991 og hefur þá verið tekið tillit til niðurfærslu eftirstöðva í árslok 1991 að fjárhæð 607 milljónir króna.“ Í framhaldi þessa texta segir á næstu síðu: „Þó svo að áætlanir séu stór hluti eftirstöðva er hér um mjög alvarlega þróun sem nauðsynlegt er að sporna við strax.“
    Úr þessu verður ekki lesið annað en að það sé álit Ríkisendurskoðunar að innheimta hafi versnað svo að eftirstöðvar hafi tvöfaldast. Eftirstöðvar hafa að vísu tvöfaldast en ekki vegna verri innheimtu. Skýringin er einfaldlega sú að í árslok 1990 stóðu í bókunum eftirstöðvar eins árs, fyrsta árs virðisaukaskattsins. Í árslok 1991 standa í bókunum eftirstöðvar tveggja ára, þ.e. áranna 1990 og 1991. Staðreyndin er sú að mestur hluti eftirstöðva hvers árs eru áætlanir skattstjóra og vanskil gjaldþrota aðila og eru eftirstöðvar tveggja ára því eðlilega hærri en eftirstöðvar eins árs og skýrir það hækkun bókfærðra eftirstöðva milli ára.
    Eins og gerð hefur verið grein fyrir bendir reynsla af innheimtu virðisaukaskatts á tveimur fyrstu árum þess kerfis til þess að um ári eftir síðasta gjalddaga vegna hvors árs hafi náðst að innheimta um u.þ.b. 98% af höfuðstól álagningar þegar tekið hefur verið eðlilegt tillit til áætlana. Gera má ráð fyrir að á sama tíma séu eftirstöðvar af höfuðstól án umframáætlana 500–700 millj. kr. vegna hvors árs. Þar af er einhver hluti hjá aðilum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta. Skilvirkni hefur ekki hrakað milli ára, álagning og innheimta hafa aukist umfram verðlags- og veltubreytingar en endurgreiðslur lækkað að tiltölu.
    Niðurstöður þessar, sem nánar eru sýndar og rökstuddar hér að framan, sýna að mat Ríkisendurskoðunar á innheimtu virðisaukaskatts er ekki rétt og gefur sem slíkt ekki tilefni til sérstakra aðgerða.

Um innheimtu staðgreiðslu.
    Reynsla af innheimtu staðgreiðslu á fyrstu fjórum árum hennar er um margt hliðstæð því sem fram hefur komið varðandi virðisaukaskatt og verður í heild að teljast viðunandi. Eftirstöðvar af höfuðstól álagningar þessara ára alls voru um mitt þetta ár um 1,6 milljarðar kr. sem eru tæplega 1,5% af álögðum höfuðstól. Þar af er á annan milljarð króna kröfur í þrotabú lögaðila. Að þrotabúum frátöldum eru eftirstöðvar höfuðstóls vegna áranna 1988–1990 innan við 300 millj. kr. sem er innan við 0,5% af þeim rúmlega 70 milljörðum sem lagðir voru á í staðgreiðslu á þessum árum.
    Eins og tölur þessar sýna og nánar var útlistað hér að framan eru ályktanir Ríkisendurskoðunar um innheimtu staðgreiðslu og eftirstöðvar ekki á traustum grunni reistar og gefa sem slíkar ekki tilefni til sérstakra aðgerða. Fjármálaráðuneytið mun hins vegar taka til athugunar ábendingu Ríkisendurskoðunar um ábyrgð ríkisins á vanskilum á staðgreiðslu og uppgjör við sveitarfélögin.

Almennt um innheimtu.
    Þótt almennt ástand í innheimtu þessara mikilvægu tekjustofna megi teljast vel viðunandi má vafalaust enn bæta það. Þá fer ekki hjá því að finna megi einstök tilvik og framkvæmdamáta sem rétt er að endurmeta. Ábendingar Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings um ýmislegt það sem betur má fara eru því þarfar.
    Fjármálaráðuneytið hefur á undanförnum missirum lagt áherslu á innheimtumál. Upplýsingum um innheimtu er safnað reglulega og miðlað til innheimtumanna ríkissjóðs og þær eru kynntar á fundum með þeim. Liður í eftirliti ráðuneytisins með innheimtu er einnig að senda innheimtumönnum ríkissjóðs með reglulegu millibili yfirlit yfir innheimtuframvindu vegna þeirra aðila sem eru í mestum vanskilum.
    Innheimtumenn ríkissjóðs vinna eftir þeim reglum sem þeim eru settar í lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Þeir hafa engu að síður nokkurt svigrúm og geta að einhverju marki hagað innheimtuaðgerðum með tilliti til þess hvernig þeir telja að hagsmunum ríkissjóðs sé best borgið hverju sinni. Fjármálaráðuneytið telur slíkt svigrúm nauðsynlegt og geta leitt til betri innheimtu en ella væri þótt óneitanlega felist einnig í því ákveðin áhætta.
    Fjármálaráðuneytið mun halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið í innheimtumálum og leitast við að treysta þann góða árangur sem náðst hefur og bæta hann þar sem úrbóta er þörf. Það mun enn efla samstarf við innheimtumenn ríkissjóðs, miðla til þeirra upplýsingum og samræma störf þeirra að því er tekur til þess hvernig og hvenær skuli beita þeim innheimtuúrræðum sem hverju sinni eru fyrir hendi lögum samkvæmt. Fjármálaráðuneytið mun í starfi þessu gaumgæfa þær ábendingar Ríkisendurskoðunar sem á rökum eru reistar og til bóta mega horfa.
    Árangur af innheimtu skatta ræðst m.a. af þeim viðhorfum sem gjaldendur hafa til skattlagningar og innheimtu þeirra. Er mikilvægt að þeir geti treyst því að ekki sé gert upp á milli manna og að allir landsmenn sitji við sama borð í þessum efnum. Það traust þarf að byggja upp með því að miðla til gjaldenda raunsannri mynd af ástandi í þessum málum og viðleitni stjórnvalda til að bæta það sem aflaga fer. Sú mynd, sem almenningur fær af þessum málum, mótast m.a. af umfjöllun fjölmiðla. Hún byggir að mestu á upplýsingum sem opinberir aðilar veita með einum eða öðrum hætti. Ekki fer hjá því að skýrslur Ríkisendurskoðunar vega hér þungt og hafa vegna stöðu þeirrar stofnunar mikil áhrif.
    Af þessum sökum er mikilsvert að í skýrslu sem þeirri, sem hér um ræðir, sé þess gætt að draga upp raunsanna mynd af því ástandi sem fjallað er um. Einhliða umfjöllun um neikvæð atriði og neikvæða túlkun efnisatriða — eins þótt hún stafi af ófullkomnum efnistökum — er til þess eins fallin að veikja tiltrú gjaldenda og missir marks sem aðhald að þeim sem vinna að innheimtumálum.