Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 456 . mál.


792. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. laga þessara er umhverfisráðherra heimilt, að fenginni umsögn eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins og í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að setja reglugerð um innflutning, sölu, notkun, örugga meðhöndlun og förgun eiturefna og hættulegra efna sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt að beiðni umhverfisráðherra í tilefni af framkvæmd Vínarsamningsins um vernd ósonlagsins og Montreal-bókunarinnar sem gerð var 16. september 1987. Umhverfisráðherra hefur ekki lagaheimild til útgáfu reglna til að tryggja framkvæmd samningsins hér á landi. Kveður frumvarpið á um að umhverfisráðherra fái slíka heimild.
    Ísland er aðili að Vínarsamningnum um verndun ósonlagsins og Montreal-bókuninni við hann sem gerð var 16. september 1987. Alþingi ályktaði í maí 1989 að heimila ríkisstjórn að staðfesta samninginn og bókunina. Samkvæmt fyrstu ákvæðum Montreal-bókunarinnar skuldbinda aðildarþjóðir sig til að draga úr notkun tilgreindra klórflúorkolefna um 20% fyrir árið 1993 og um 50% fyrir árið 1998 miðað við notkun árið 1986 og jafnframt að tryggja að notkun svokallaðra halóna verði ekki meiri í viðkomandi löndum árið 1992 en hún var 1986. Í ljósi nýrra upplýsinga um ástand ósonlagsins var ákveðið á fundum aðildarríkja samningsins í Lundúnum í maí 1990 og í Kaupmannahöfn í nóvember 1992 að herða verulega ákvæði Montreal-bókunarinnar.
    Tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda þær breytingar við Montreal-bókunina, sem samþykktar voru í Lundúnum, hefur verið lögð fram á þessu löggjafarþingi en búið er að uppfylla þær skuldbindingar sem breytingar þessar kveða á um. Breytingin á Montreal-bókuninni, sem gerð var í Kaupmannahöfn 1992, felur í sér að banni við notkun tiltekinnar klórflúorkolefna var flýtt um fjögur ár. Í stað þess að miða við 1. janúar árið 2000 er nú miðað við 1. janúar 1996. Jafnframt skal notkunin hafa dregist saman um 75% fyrir 1. janúar 1994 miðað við notkun árið 1996. Notkun halóna verður ekki heimil eftir 1. janúar 1994 en áður var miðað við að bannið tæki gildi árið 2000.
    Íslendingar hafa verið í hópi þeirra þjóða sem mesta áherslu hafa lagt á að draga úr notkun ósoneyðandi efna og hefur verulegur árangur náðst hér á landi á því sviði. Til að Íslendingar geti uppfyllt þær skuldbindingar, sem nú felast í Montreal-bókuninni, þarf að setja nýjar reglur um notkun ósoneyðandi efna sem samræmast síðustu breytingum á samningnum. Eðlilegt er að umhverfisráðherra setji slíkar reglur þar sem framkvæmd samningsins er á verksviði umhverfisráðuneytisins. Þótt umhverfisráðuneytið fari með mál sem varða varnir gegn mengun á landi, í lofti og á legi samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969, ásamt síðari breytingum, skortir umhverfisráðherra lagaheimild til að setja nauðsynlegar reglur um notkun ósoneyðandi efna.
    Lagabreytingin, sem hér er lögð til, miðar að því að veita umhverfisráðherra slíka heimild. Búið er að leggja drög að reglugerð um varnir gegn mengun af völdum klórflúorkolefna og halóna sem sett verður á grundvelli laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ef frumvarp þetta verður samþykkt. Brýnt er vegna þeirra mörgu aðila sem hagsmuna hafa að gæta vegna innflutnings og sölu á ósoneyðandi efnum að reglugerðin verði kynnt sem allra fyrst. Stefnt er að gildistöku hennar eigi síðar en um mitt ár 1993.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að umhverfisráðherra verði veitt heimild til að setja reglugerð samkvæmt lögum um eiturefni og önnur hætturleg efni. Tilgangur heimildar þessarar er sá að hægt verði að framkvæma þá þætti mengunarvarna sem tengjast innflutningi, sölu og notkun á hættulegum efnum og efnasamböndum sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið, t.d. á ósonlagið svokallaða. Með þessu er m.a. átt við að efni verði skilgreind sem hættuleg efni, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, feli notkun þeirra í sér hættu fyrir heilsu manna og dýra vegna skaðlegra áhrifa á umhverfið.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.