Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 562 . mál.


929. Tillaga til þingsályktunar



um að ráða myndlistamanninn Erró til að vinna myndlistarverkefni fyrir Íslendinga.

Flm.: Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason,

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


     Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að taka upp viðræður við myndlistarmanninn Erró, Guðmund Guðmundsson, í því skyni að hann taki að sér myndlistarverkefni fyrir Íslendinga, tengd menningu, sögu, atvinnulífi og náttúru landsins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Greinargerð.

    Erró er sá Íslendingur í málaralist sem er hvað þekktastur á alþjóðavettvangi og vekja verk hans sífellt meiri athygli. Stíll Errós höfðar til alls þorra fólks óháð landamærum. Erró hefur tekið að sér ákveðin verkefni fyrir stórfyrirtæki og stjórnvöld erlendis og hafa slík verk verið sýnd á alþjóðavettvangi.
    Margt ynnist ef þessi íslenski málari tæki að sér verkefni fyrir Íslendinga, annaðhvort ákveðinn fjölda verka eða um ákveðinn tíma. Sérstæðir hæfileikar Errós nýttust á þann hátt íslenskri menningu og sýningarherferð á slíkum verkum á alþjóðavettvangi gæti verið liður í kynningu á Íslandi og markaðssókn í öðrum löndum. Sýning 15–30 verka Errós gæti orðið allsérstæður þáttur og nýstárlegur í slíkri viðleitni Íslendinga erlendis. Frami Errós er mikill heiður fyrir Ísland og ástæða er til fyrir Íslendinga að rækta betur samband við hann og list hans.