Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 564 . mál.


931. Frumvarp til laga



um öryggisfræðslunefnd sjómanna.

Flm.: Árni Johnsen, Jón Kristjánsson, Gunnlaugur Stefánsson, Ólafur Þ. Þórðarson,

Þórhildur Þorleifsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Árni M. Mathiesen,

Guðjón Guðmundsson, Egill Jónsson, Árni R. Árnason,

Sigbjörn Gunnarsson, Einar K. Guðfinnsson.


1. gr.


    Markmið laga þessara er að draga úr slysum á sjó með bættu öryggi og aðbúnaði sjómanna.

2. gr.


    Samgönguráðherra skipar þrjá fulltrúa í öryggisfræðslunefnd sjómanna til fjögurra ára í senn. Skal einn fulltrúi vera tilnefndur af samtökum sjómanna, annar af samtökum útgerðarmanna en formann skipar ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Hlutverk nefndarinnar er:
    Að beita sér fyrir auknu öryggi sjómanna með fræðslu og upplýsingum um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir slys á sjómönnum við störf og aðgerðir til að bæta aðbúnað sjómanna til dvalar og vinnu á skipum.
    Að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um öryggismál sjómanna.
    Að veita aðstoð og leiðbeiningar um öryggismál sjómanna.
    Að fylgjast með og nýta reynslu og þekkingu annarra þjóða á sviði öryggismála sjómanna.

3. gr.


    Tekjur öryggisfræðslunefndar sjómanna eru:
    0,8% af vátryggingariðgjöldum íslenskra skipa.
    0,8% af slysatryggingum sjómanna á íslenskum skipum.
    Nefndin gerir tillögur til ráðherra um ráðstöfun fjárins.

4. gr.


    Ríkissjóður greiðir þóknun til nefndarmanna samkvæmt mati þóknananefndar.
    Samgönguráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um störf öryggisfræðslunefndar sjómanna.

5. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. október 1993.

Greinargerð.


     Öryggismálanefnd sjómanna, sem Matthías Bjarnason, fyrrverandi samgönguráðherra, skipaði níu alþingismönnum 1984, starfaði tímabundið til október 1986, en hluta starfstímans hafði nefndin úr fjármagni að spila til þess að reka áróður fyrir átaki í slysavörnum sjómanna. Fjármagnið, sem kom til vegna uppstokkunar sjóðakerfis sjávarútvegsins, skipti sköpum um það að skilningur og áhugi á öryggismálum sjómanna jókst bæði til sjós og lands, en íslenskir sjómenn búa við hæsta slysatíðni sjómanna allra nágrannalanda Íslendinga. Það er ljóst að það mun taka mörg ár að auka skilning sjómanna sjálfra á mikilvægi þess að vera vel á verði í öllu er lýtur að öryggi sjófarenda og efla virka þátttöku þeirra. Áróðursherferð þingmannanefndarinnar undir forustu Péturs Sigurðssonar, fyrrverandi alþingismanns, sannaði að það er hægt að gera stóra hluti í þessum efnum ef fjármagn er tryggt til verkefnisins. Með skipun öryggisfræðslunefndar sjómanna er ætlast til fyrirbyggjandi aðgerða, áróðurs á opinberum vettvangi sem beint sé til þeirra sem á brennur. Lögin um tóbaksvarnanefnd eru ekki ósvipuð að uppbyggingu og eðli, en einnig þeim er ætlað fyrirbyggjandi starf þar sem um líf og dauða er að tefla. Markaður tekjustofn hefur ráðið úrslitum um árangur, en síðan lögin tóku gildi hefur mælst á Íslandi mesti samdráttur í heiminum í notkun tóbaks hjá einni þjóð. Nær 80% af gjaldeyristekjum Íslendinga kom frá sjávarútvegi. Sá tollur, sem hafið tekur í harðri baráttu sjómanna við Ægi konung, er ótrúlega mikill, nær daglega slys þar sem menn eru frá vinnu í tvær vikur eða meira og fjöldi sjómanna ferst árlega í hafi. Það er því til mikils að vinna og ekki óeðlilegt að af tryggingum skipastóls landsmanna og slysatryggingum sjómanna sé tekið gjald til þessa viðfangsefnis því að aukinn áróður og fræðsla í öryggismálum sjómanna ætti að draga úr slysum og mannsköðum á sjó. 0,8% gjald af fyrrgreindum iðgjöldum hefði veitt öryggisfræðslunefnd sjómanna um 13,6 millj. kr. til ráðstöfunar 1992.
    Árið 1992 voru iðgjöld af íslenskum fiskiskipum undir 100 tonnum um 365 millj. kr., 1.100 millj. kr. af skipum yfir 100 tonnum, af öðrum skipum um 150 millj. kr. og iðgjöld af atvinnuslysatryggingu sjómanna tæplega 100 millj. kr., alls um 1.700 millj. kr.
    Öryggismál sjómanna eru viðamikill málaflokkur sem lýtur bæði að fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir slys á sjó og aðgerðum til að bæta gerð og búnað skipa. Þar undir fellur m.a. hönnun og smíði skipa, búnaður þeirra, stöðugleiki og fjarskipti, þjálfun og menntun sjómanna og skipulag leitar og björgunar.
    Á undanförnum árum hefur mikið áunnist í þessum efnum. Sett hafa verið lög og reglur sem gera auknar kröfur til gerðar og búnaðar skipa en ekki síður til útgerðarmanna og áhafna skipanna. Lögum og reglum þarf hins vegar að fylgja eftir. Aukinn öryggisbúnaður skipa og fræðsla sjómönnum til handa hefur skapað forsendur fyrir auknu öryggi þeirra sem síðan ætti að leiða til fækkunar slysa á sjó. Sjómenn sjálfir hafa sýnt þessum málum aukinn áhuga. Þrátt fyrir þetta hefur sjóslysum ekki fækkað og er mikilvægt að leitað sé allra leiða til að fækka slysum á sjó.
    Í mars 1984 skipaði þáverandi samgönguráðherra, Matthías Bjarnason, nefnd níu alþingismanna til að gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur í öryggismálum sjómanna. Nefndin skilaði ítarlegum tillögum sem flestar hafa þegar verið framkvæmdar. Óhætt mun því að fullyrða að árangur af starfi nefndarinnar hafi þegar komið í ljós.
    Tvær ráðstefnur hafa verið haldnar um öryggismál sjómanna, 1985 og 1987. Voru þær mjög vel sóttar, ekki síst af sjómönnum sjálfum, og gagnlegar tillögur komu þar fram sem margar verða væntanlega framkvæmdar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. er kveðið á um markmið laganna.

Um 2. gr.


    Samkvæmt greininni skal skipa þriggja manna öryggisfræðslunefnd sjómanna til fjögurra ára í senn.
     Í greininni eru enn fremur nokkuð tæmandi ákvæði um störf öryggisfræðslunefndarinnar.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að tekjustofn fyrir nefndina verði markaður sem 0,8% gjald af vátryggingariðgjöldum allra íslenskra skipa (skipa sem eru skráð eða skráningarskyld hér á landi) og af slysatryggingum sjómanna. Sá sem tryggir þarf samkvæmt því að greiða umrætt gjald til viðfangsefnisins.

Um 4.–5. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.