Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 191 . mál.


1274. Nefndarálit



um frv. til hafnalaga.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur í umfjöllun sinni um málið skoðað umsagnir hafnarstjórna víðs vegar af landinu. Einnig lágu fyrir umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, hafnasambandi sveitarfélaga og Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða.
    Í mörgum af þessum umsögnum komu fram alvarlegar athugasemdir og tillögur um breytingar og ákveðin tilmæli um að fresta málinu þannig að betri tími gæfist til að ræða ýmis ágreiningsefni. Mikill ágreiningur er um þá skipan sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að hafnir geti orðið hlutafélag sem megi taka þátt í öðrum atvinnurekstri enda þótt þær hafi verið byggðar upp fyrir opinber framlög. Þá er mjög mikill ágreiningur um þær breytingar sem gert er ráð fyrir á kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í hafnarmannvirkjum.
    Ákvæði um 25% álag á vörugjöld, sem renni í Hafnabótasjóð, er mótmælt kröftuglega af mörgum aðilum. Þessu til viðbótar er fjölmörgum atriðum mótmælt í umsögnunum.
    Minni hlutinn er samþykkur mörgu af því sem fram kemur í umsögnunum og hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá fram breytingar á ákvæðum frumvarpsins. Í umræðum á fundum nefndarinnar kom hins vegar í ljós að enginn vilji var fyrir hendi hjá meiri hlutanum til að koma til móts við sjónarmið minni hlutans.
    Minni hlutinn telur að þetta mál sé ekki nægilega undirbúið þótt vissulega hafi gefist nægur tími til undirbúnings þar sem málið var lagt fram á síðasta þingi. Minni hlutinn gerði þá strax miklar athugasemdir við frumvarpið.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur ekki viljað taka tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið og vill afgreiða málið með smávægilegum breytingum.
    Minni hlutinn mótmælir þessum fyrirætlunum harðlega. Ágreiningur er um mörg og mikilvæg atriði í frumvarpinu. Telur minni hlutinn að ekki þjóni tilgangi að flytja breytingartillögur við málið og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 4. maí 1993.



Jóhann Ársælsson,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Guðni Ágústsson.


frsm.



Stefán Guðmundsson.