Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:07:13 (3323)

[16:07]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Tilefni þessarar umræðu er að fá úr því skorið hvað fólst í samkomulagi stjórnarflokkanna frá því fyrir áramót um forræði varðandi innflutning á búvörum. Það var látið að því liggja að um það væri samkomulag að þetta forræði væri hjá

landbrh. Það kom síðar í ljós þegar utanrrh. tók til máls í umræðum um búvörulagabreytingarnar fyrir jólin að samkomulagið, sem lagabreytingin byggðist á, tók aðeins til þeirra takmörkuðu innflutningsheimilda sem eru vegna EES og tvíhliða samninga sem EFTA hefur gert við einstök ríki. Utanrrh. sagði að hvernig tollaígildum vegna GATT yrði beitt væri óleyst pólitískt úrlausnarefni sem biði seinni tíma enda kom í ljós að þegar hæstaréttardómurinn í skinkumálinu féll að innbyrðis deilur í ríkisstjórninni blossuðu upp á nýjan leik.
    Nú dettur mér ekki í hug að það sé deila um dóm Hæstaréttar. Hitt er jafnljóst að hann skapar á nýjan leik réttaróvissu í málinu. Ég hlýt því að leita eftir því á hvern hátt ríkisstjórnin ætlar að eyða þeirri réttaróvissu. Við höfum af því fregnir að nú sé verið að vinna að lagabreytingum í þá átt án þess að landbrn. komi þar að. Ég hef reyndar fengið það staðfest ofan úr landbrn. að svo sé.
    Í þessu sambandi vil ég benda á að það kom fram á fundi landbn. nú í morgun með lögfræðingunum Sveini Snorrasyni og Tryggva Gunnarssyni að ef Alþingi hefði samþykkt að afgreiða búvörulagabreytingu eins og meiri hluti landbn. lagði til sl. vor og meiri hluti var fyrir á Alþingi hefðu ekki þurft að koma til þessar síendurteknu uppákomur varðandi innflutning búvara sem síðan hafa dunið yfir. Þetta staðfestir að mínu mati það að sá vandræðagangur sem verið hefur í þessu máli stafar ekki af vanhæfni Alþingis til þess að taka á því eins og sumir hafa viljað vera láta. Vilji Alþingis hefur legið fyrir. Málið er það að hér er um að ræða pólitískt úrlausnarefni sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru ófærir um að leysa. Það endurspeglast í því að öll lagasetning í málinu er fálmkennd og markast í raun af því samkomulagi eða e.t.v. væri réttara að segja ósamkomulagi sem er á milli stjórnarflokkanna um þetta mál á hverjum tíma. Það er verið að lögfesta pólitískar málamiðlanir.
    Virðulegi forseti. Ég hef oft lýst því yfir hér á Alþingi að það hvernig þeir samningar sem við höfum gert koma við landbúnaðinn sé frekar innanríkismál en utnaríkismál, það hvernig þeir koma við atvinnuveginn ráðist af pólitískum vilja til þess að beita þeim heimildum til verndar sem við höfum. Í þessu sambandi vil ég nefna að hagsmunasamtök bænda hafa alltaf sagt að við hljótum að vera aðilar að GATT og að bændur landsins hafa á síðustu árum samið um verulegar verðlækkanir á afurðum sínum, m.a. til þess að vera betur í stakk búnir til þess að takast á við breyttar aðstæður.
    Nú liggur það fyrir að GATT-samkomulagið tekur gildi um næstu áramót. Það verður því að mínu mati að liggja fyrir áður en þessu þingi lýkur hvernig ríkisstjórnin ætlar að beita þeim heimildum til að leggja á tollígildi sem í samkomulaginu felast þannig að hægt sé að gera nauðsynlegar lagabreytingar þar að lútandi áður en þing fer heim í vor. Það er algjörlega óviðunandi að bíða með það þangað til á haustþingi, ég tala ekki um ef það á að afgreiða það á tveim síðustu dögum fyrir jól eins og raunin varð á síðasta ári.
    Ef ríkisstjórnin getur ekki tekið á þessum málum á næstunni er það enn eitt dæmið um að hún er algjörlega vanhæf að taka á mikilvægum pólitískum úrlausnarefnum. Ég vil í þessu sambandi ítreka það að hvernig til tekst um lagasetningu vegna GATT-samninganna ræður algjörlega starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar á næstu árum.
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja fram þrjár spurningar til hæstv. forsrh.:
    1. Hvað fólst í samkomulagi stjórnarflokkanna frá því fyrir áramót um forræði varðandi innflutning á búvörum? Var gengið út frá því þar að landbrh. færi með forræði varðandi innflutning vegna GATT-samkomulagsins?
    2. Hvernig hyggst ríkisstjórnin eyða þeirri réttaróvissu sem uppi er eftir hæstaréttardóminn í skinkumálinu?
    3. Hvernig hyggst ríkisstjórnin nota heimildir til að beita tollígildum vegna GATT-samningsins og ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar á þessu þingi til þess að hægt sé að beita þeim heimildum sem þar eru til gjaldtöku?