Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:23:18 (3327)


[16:23]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og eðlilegt er hefur í þessari umræðu verið drepið nokkuð á dóm Hæstaréttar þar sem staðfest var að Hagkaup hefði verið í fullum rétti með innflutning á margfrægri landbúnaðarafurð. Það er þess vegna vert að rifja það upp að á sínum tíma þá féllu þung orð í garð hæstv. utanrrh. vegna afstöðu hans í málinu. Hann var sakaður um pólitískar geðþóttaákvarðanir og það var staðhæft að hann hefði hunsað landslög. Nú liggur það hins vegar fyrir skýrt og skorinort með dómi Hæstaréttar að túlkun utanrrh. var rétt og um leið, virðulegi forseti, hljóta öll stóryrði í hans garð að falla dauð og ómerk.
    Nú er það svo að með samkomulagi um GATT þá hefur tekist pólitísk sátt þar sem aðalatriðið er að framvegis mun landbúnaðarstefnan ekki byggjast á bönnum heldur heimild til frjálsra viðskipta sem helgast af þeim samkeppnisreglum sem gilda á vegum GATT. Eðlilega er spurt um fyrirkomulag og forræði. Síðasta haust skipaði ríkisstjórnin nefnd fjögurra ráðuneyta sem var falið það verk að fara yfir innflutningslöggjöfina með tilliti til skuldbindinga okkar við GATT. Eins og hæstv. forsrh. gat um áðan þá er samkomulag um að þessi nefnd starfi áfram undir forustu forsrn. og þess er að vænta að úr hennar starfi komi tillögur um tilhögun og framkvæmd. Það er hins vegar rétt að minna á að í desember sl. tókst samkomulag um breytingar á búvörulögunum þar sem mælt var fyrir um hvernig ætti að haga innflutningi og verðjöfnun á búvörum sem féllu undir tvíhliða samning við EB sem fylgdi EES og aðra milliríkjasamninga. Þar var landbrh. falið forræðið með þeirri meðferð sem lýst er í 3. mgr. 72. gr. sem bætt var inn í lögin. Þótt sú grein hafi að sönnu ekki átt við GATT þá tel ég að í þeirri málsmeðferð felist fordæmi sem verði væntanlega fylgt.
    Virðulegi forseti. Frá því að deilur stóðu um landbúnaðarmál í lok sumars þá hefur tekist sátt um GATT. Landslagið er breytt. Með hliðsjón af þessu taldi Alþfl. rétt að styðja að fram að gildistöku þess samnings þá yrði innflutningur á búvörum ekki hömlulaus. (Forseti hringir.) Nú hefur komið fram með dómi Hæstaréttar að lagastoðin að baki reglugerðum sem áttu að takmarka innflutninginn stenst ekki. En orð skulu standa og þrátt fyrir dóminn þá stöndum við að hinu fyrra samkomulagi og þar með að því frv. sem hæstv. forsrh. hefur boðað að verði lagt fram á næstu dögum.