Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:25:47 (3328)


[16:25]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Nú liggur það fyrir að málamiðlun gengur ekki upp í lagasetningu. Skýrleikabrestur er aftur og aftur í störfum löggjafans sem veldur svo aftur réttaróvissu. Meiri hlutinn á Alþingi býr nú við það ástand að annar fóturinn undir ríkisstjórninni er visnaður fótur Alþfl. sem engu eirir til að koma höggi á íslenskan landbúnað nema guð láti gott á vita þau sinnaskipti sem hér gerðust undir ræðu hæstv. umhvrh. áðan.
    Það frv. sem hefði eytt réttaróvissu strandaði í þinginu í fyrravor. Moðsuðan sem komst í gegnum þingið fyrir jól er dæmi um hvernig landbrh. hélt að hann eyddi réttaróvissu með því að fara eins og köttur í kringum heitan graut Alþfl. Ríkisstjórnin býr við alvarlegt vandamál. Það heitir Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh.
    Búvörulagafrv. sem samþykkt var fyrir jól var að fullu smíðað 8. sept. eins og hér stendur. Það kom ekki til umræðu í þinginu fyrr en eftir miðjan desember vegna þess að þá sá stjórnarmeirihlutinn ástæðu til þess þar sem var smuga vegna þess að hæstv. utanrrh. var staddur erlendis. Hér var allt að fara á taugum af því að menn urðu að koma að þessu máli áfram áður en sá maður kæmi heim. ( Gripið fram í: Bull og vitleysa.)
    Hæstv. forseti. Heiður þingsins er nú í veði. Hæstv. forseti ber þar ábyrgð vegna

þess að forsetinn styður þessa ríkisstjórn og blessar og sættir sig við að ríkisstjórnin ryðji vanhugsuðum málum á engum tíma í gegnum þingið. Hæstv. landbrh. fer með málefni landbúnaðarins. Undan því getur hann ekki vikist. Ætlar hann í einhverjum friði við kratana að valda því að þúsundir Íslendinga tapa atvinnu sinni? Hæstv. landbrh. verður að gera sér grein fyrir því að hann getur ekki staðið í eilífum feluleik við Alþfl. Lögin um innflutning verða hér sem annars staðar að vera skýr og afdráttarlaus. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Við þolum alls ekki að yfirfullur erlendur markaður flæði inn í landið. Því verður það að gerast og þar verður forseti þingsins að koma til starfa að hér verði sett markvissari löggjöf í þessum efnum en allt sem hefur gerst í þessu máli er á ábyrgð forsetans og ríkisstjórnarflokkanna.