Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:33:29 (3331)


[16:33]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Ég vil varpa fram þeirri spurningu: Hvenær lýkur þeim ,,farsa`` sem hæstv. utanrrh. hefur staðið fyrir gegn íslenskum landbúnaði sem hófst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og stendur að fullu enn? Lýkur honum með samþykkt þess frv. sem nú er boðað til breytinga á búvörulögum?
    Við vitum að lengi er búið að togast á um orðalag á hv. Alþingi og í þessu stjórnarsamstarfi. Þetta átti að leysa vorið 1993, þetta átti að leysast fyrir jólin og nú að loknum hæstaréttardómi í janúar á enn að prufa nýjan texta. Hver er virðing Alþingis hjá þjóðinni að svo skuli ganga?
    Allt stafar þetta af baráttu hæstv. utanrrh. gegn íslenskum landbúnaði, gegn íslenskri atvinnu. Hann hefur unnið óheilt í samningunum við EES. Þá ekki síst í garðyrkjunni eins og rakið var hér áðan. Þar væri hægt að bæta aðeins um vegna skaða ráðherrans með því að lækka raforkukostnað til garðyrkjunnar. Spyrja má: Hvernig getur einn ráðherra, sem ég hélt að hefði nóg að gera, verið stöðugt mánuðum saman að ,,dúlla`` við skinku og kalkúnalappir?
    Virðulegi forseti. Tekst loksins með þeim texta sem fram kemur í fyrirhuguðu frv. sem senn liggur fyrir að laga þessi mál? Eða verður innflutningsárátta hæstv. ,,kalkúnalappamálaráðherra`` sigurvegari áfram?