Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:35:42 (3333)


[16:35]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. umhvrh. eins og hann sagði hér áðan að í reynd snýr dómur Hæstaréttar við öllum þeim ummælum sem áður höfðu fallið og beinst að hæstv. utanrrh., til að mynda eftir að dómur undirréttar féll. Hæstv. umhvrh. var þar með undir rós að segja að einkunnagjöfin um geðþóttaákvarðanir, um að hunsa landslög o.s.frv., ætti nú við um þá landbrh. og fjmrh. Þetta er afleiðing af því, hæstv. umhvrh., þegar ráðherrarnir beita lögreglunni hverjir á aðra. Hæstiréttur, á hvorn veginn sem hann hefði dæmt í málinu, hefði gefið einhverjum ráðherra í ríkisstjórn Íslands þessa einkunn. Því miður lá nú málið einfaldlega þannig. Ef hlutföllin hefðu orðið öfugt, fjórir hefðu skrifað undir sem varð álit minni hluta og þrír undir hitt, þá hefði það verið hæstv. utanrrh. sem sat í súpunni.
    Í öðru lagi held ég að það sé alveg nauðsynlegt að menn átti sig á því að þetta mál snýst um meira en það að ákveða hver hafi forræði þessara innflutningsmála búvaranna að svo miklu leyti sem þær snúa að tilteknum alþjóðasamningum, GATT og EES. Það verður að komast á hreint hvar hið almenna forræði málaflokksins liggur vegna þess að innflutningsmál geta verið fleira en GATT og EES. Þeirri óvissu verður að eyða í heild sinni. Þess vegna munu menn ekki komast upp með það hér ef einhver manndómur er eftir í mönnum á Alþingi að læða í gegn einhverri moðsuðu sem á að leysa vandann fyrst og fremst með því að vísa til GATT og EES. Það mun ekki duga. Vonandi bera menn enn þá virðingu fyrir sjálfum sér og starfi sínu hér að þeir komi þessu máli nú á hreint og láti það vera alveg morgunljóst samkvæmt alveg óumdeilanlegum lagatexta hver fer með hvaða vald í þessum efnum.
    Það má svo spyrja að lokum hvar forræði liggi orðið yfirleitt í þessum málum. Ef

það er rétt að frv. til laga um breytingu á búvörulögum hafi verið í smíðum í forsrn. og ráðgjafarnir hafi verið úr utanrrn. og viðskrn., hvar er þá orðið forræði í landbúnaðarmálum?