Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:38:19 (3334)


[16:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að það lægi alveg fyrir hver væri vilji Alþingis í þessu máli. Það er einmitt kjarni málsins, virðulegur forseti, það liggur alveg fyrir. Það lá fyrir sl. vor að það var meiri hluti til að ganga þannig frá þessum málum hér á Alþingi að þessum efa væri eytt. En hvers vegna var það ekki gert? Það var vegna þess að hæstv. forsrh. sleit þinginu í hvínandi hvelli vegna þess að hann sá það fyrir að ríkisstjórnin mundi springa ef vilji Alþingis næði fram að ganga. Þannig að það er ekki við Alþingi að sakast eins og ég sagði hér í minni fyrri ræðu. Málið er það að ríkisstjórninni hefur algjörlega mistekist að skapa þá sátt innan sinna raða sem nauðsynleg er til að það sé hægt að koma lagabreytingum fram. Það þýðir ekki lengur fyrir hæstv. ráðherra Sjálfstfl. að skammast stöðugt út í krata út af því máli. Hér er um að ræða stjórnarstefnu sem báðir flokkarnir bera jafna ábyrgð á.
    Virðulegur forseti. Það hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni hvernig við vinnum úr þessu máli á næstunni. Það hlýtur einnig að vera umhugsunarefni þegar menn hafa verið að ræða, m.a. hæstv. landbrh., um forræði landbrh. varðandi innflutning. Nú er það orðið ljóst að þá vinnu við lagasetningu um landbúnaðinn varðandi GATT-samningana á ekki að vinna í landbrn., það á að gera væntanlega eins og er unnið við þá breytingu sem hér á að leggja fram á morgun, í forsrn. og ráðgjafarnir verða úr viðskrn. og fjmrn. Sem sagt, það er búið að taka málið úr höndum landbrh., sem gumaði af því um áramótin að vera búinn að fá forræðið. ( Landbrh.: Þetta er ekki rétt.) Það er búið að taka málið úr höndum landbrh. og setja það í yfirnefnd ráðherra skipað fulltrúum fjögurra annarra ráðuneyta.