Fob-tollun

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:18:56 (3352)


[17:18]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Þau voru afar skýr og mikil og reyndar það mikil að maður þyrfti helst að fá ræðuna útskrifaða til að stúdera hana betur. Ég er ráðherranum alveg sammála í því að það á að tolla raunverulegt verð vörunnar og það er einmitt það sem ég er að tala um. Það á að tolla vöruna sem slíka en ekki aðra þætti, enda spila aðrir þættir mjög mismunandi inn í vöruna eftir því hvaðan hún kemur. Frakt frá Evrópu er mikið ódýrari heldur en frakt frá Bandaríkjunum eða frakt frá Japan, en hún vegur engu að síður inn í vöruverðið sem slíkt þegar það er komið í gegnum tollafgreiðslu hér. Þannig að það er akkúrat þetta sem við erum að tala um. Það á að taka vöruna sem slíka og það á að tolla hana, en ekki aðra utanaðkomandi þætti. Það er í rauninni alveg sama hvaða þættir það eru, þeir eru allir tollaðir. Þeir koma allir inn í tollverðsgengið þó að það sé 0% tollur á vörunni. Tollverðsgengið er síðan notað til þess m.a. þegar enginn tollur er, 0% tollur, að finna virðisaukaskattinn. Þannig að þessir þættir virka inn í verðið jafnvel þó að það sé 0% tollur.
    Varðandi það að dýrt væri að breyta tölvukerfinu, þá er ég ekki alveg sammála því. Auðvitað getur vel verið að það sé dýrt, en við erum að gera það þessa dagana og erum alltaf af og til að breyta tölvukerfinu út af ýmsum gjöldum sem við erum að leggja á í innflutningnum og ýmsum breytingum. Það er kannski skemmst að minnast matarskattsins síðasta, þar sem þurfti að gera miklar breytingar á tölvukerfunum.
    Auðvitað er eðlilegt að þetta sé misjafnt eftir löndum, hvort það er EFTA eða USA, því frá USA, Japan og þeim svæðum erum við með hina svokölluðu ytri tolla. Þannig að það er mjög skiljanlegt. En það er líka önnur barátta sem við höfum verið að ræða töluvert í efh.- og viðskn. Það er hvort ekki eigi að fella niður ytri tollana og samræma tollalöggjöfina yfir höfuð, yfir línuna.
    Niðurstaða ráðherrans er sú að það komi ekki til greina að taka upp þessa tollun. Ég er honum ósammála. Ég tel að þetta sé réttlætismál bæði fyrir neytendur og eins fyrir innflytjendur, að slík tollun yrði tekin upp og gef þá lítið fyrir það hvað önnur Norðurlönd gera.