Viðhald húsa í einkaeign

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:35:47 (3586)


[15:35]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :

    Virðulegi forseti. Fyrsta fsp. hv. þm. hljóðar svo:
  ,,1. Hvert er verðmæti húsa í einkaeign talið vera?``
    Samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins frá árinu 1993 er matsverð eftir fasteignaflokkum þannig:
    Íbúðarhús og bílskúrar: 537 milljarðar 610 millj. 801 þús. kr. Verslunar- og skrifstofuhúsnæði: 51 milljarður 849 millj. 830 þús. kr. Iðnaðarhús: 51 milljarður 795 millj. 73 þús. kr. Vörugeymslur: 13 milljarðar 795 millj. 792 þús. kr. Sérhæfðar byggingar: 104 milljarðar 248 millj. 229 þús. kr. Íbúðarhús á jörðum: 13 milljarðar 793 millj. 432 þús. kr. Eða samtals verðmæti húsa í einkaeign: 773 milljarðar 93 millj. 157 þús. kr.
    Þá eru undanskildir sumarbústaðir og útihús á jörðum.
    Eignarhald á byggingunum er ekki sundurliðað í upplýsingunum en slíkar upplýsingar mætti fá fram með aukinni úrvinnslu.
    Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hver er eðlilegur árlegur viðhaldskostnaður þessa húsnæðis talinn vera, annars vegar innan húss og hins vegar utan húss?``
    Viðhaldskostnaður bygginga er mjög breytilegur og fer vaxandi með auknum aldri bygginga. Að því kemur að framkvæma þarf umfangsmiklar aðgerðir sem eru tiltölulega dýrar og árlegur viðhaldskostnaður fellur á ný einhvern tímann þar á eftir. Viðhaldskostnaður er iðulega reiknaður sem hlutfall af nýbyggingarkostnaði húsa. Hvert prósentustig í viðhaldskostnaði gefur því miðað við framangreindar upplýsingar um 7,7 milljarða á ári í kostnað við byggingarviðhald. Það er ekki vitað hver árlegur viðhaldskostnaður er hérlendis en slíkar upplýsingar eru þekktar erlendis frá og tæpast ástæða til að ætla að viðhald hérlendis sé verulega frábrugðið. Til viðmiðunar við erlendar stærðir má áætla að árlegur kostnaður við viðhald bygginga nemi um 1,5--2% af heildarkostnaði. Þar sem íslenskar byggingar eru fremur nýjar getur því þessi hlutfallstala fyrir Ísland verið lægri en er í löndunum í kringum okkur.
    Lausleg athugun bendir til að viðhald utan húss annars vegar og innan húss hins vegar sé álíka að umfangi.
    Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hve mikill hluti verkefna byggingariðnaðarins telst vera viðhaldsverkefni, annars vegar húsnæðis í opinberri eigu og hins vegar í einkaeign?``
    Upplýsingar um skiptingu verkefna á milli nýbygginga og viðhalds liggja ekki enn fyrir en Meistara- og verktakasamband byggingarmanna hyggst safna upplýsingum varðandi þetta meðal meðlima sinna upp úr áramótum.
    Í fjórða lagi er spurt: ,,Hver var fjárfesting í nýbyggingum á síðasta ári borin saman við meðaltal áranna 1980--1990?``
    Þjóðhagsstofnun hefur birt gögn um fjárfestingar í byggingum og mannvirkjum á verðlagi hvers árs. Ég er út af fyrir sig með þær skriflegar en þar er um að ræða tölur á verðlagi hvers árs þannig að þær segja kannski ekki mikla sögu. En ef menn miða við fjármunamyndun í byggingum og mannvirkjum og ganga út frá magnvísitölunni 100 árið 1980 þá má segja að fyrir ofan töluna 100 hefur fjármunamyndunin verið 1982 102,6, 1987 102,9, 1988 103,9 og 1989 103,1. En hin síðari ár hefur þessi vísitala farið stöðugt lækkandi. Þannig var hún 1992 87,7 miðað við 100 stig árið 1980. 1993 spá 86,7 og áætlun fyrir 1994 84,1.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að þylja allar þessar tölur en vildi gjarnan koma þessum upplýsingum eigi að síður á framfæri til hv. þm. og mun því afhenda honum þær eins og þær eru uppfærðar í því svari sem ráðuneytið hefur látið mig fá.