Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:40:07 (3624)


[13:40]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. hefur nú staðfest að ekki hefur tekist að ná samkomulagi í ríkisstjórninni um þetta mál. Yfirlýsing hæstv. landbrh. var nákvæmlega eins, og flutt fyrir einni og hálfri viku síðan, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja fram frv. en efnisatriðin í frv. liggja ekki fyrir. Það eina sem hæstv. landbrh. gat sagt var að hann vonaðist til að lausn fyndist á málinu. Í síðustu viku heyrðum við hæstv. landbrh. lýsa þeirri von sinni. Þá taldi hann að vonir hans stæðu til þess að slíkt frv. kæmi fram eftir einn eða tvo daga. Í lok síðustu viku var því lýst yfir að vonin stæði til að það kæmi fram í byrjun þessarar viku.
    Engin þessara vona hæstv. landbrh. hefur ræst. Ef það breytist ekki þá er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það hlýtur að koma að því að þingið taki fyrir það þingmál sem hefur verið lagt fram því það hefur verið lagt fram frv. um þetta efni. Vandamálið er ekki skortur á frv. Það liggur fyrir. Forsætisnefnd hlýtur þess vegna í ljósi yfirlýsingar hæstv. landbrh. áðan að taka það frv. fyrir nema þingið vilji láta réttaróvissuna ríkja áfram. Ríkisstjórnin virðist á fundi sínum í morgun hafa gefist upp við að leysa málið a.m.k. enn sem komið er og þá hlýtur það að koma í hlut þingsins að eyða réttaróvissunni.