Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:42:02 (3625)


[13:42]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það var einu sinni flutt hér ræða af varaþingmanni sem þá var. Hún var afarstutt og hljóðaði þannig, með leyfi forseta:
    ,,Nú skil ég ekki neitt.``
    Hún var ekki lengri. Hún var flutt eftir að sá sem hana flutti hafði leitað eftir skýringum á ákveðnu máli hjá viðkomandi ráðherra og honum fannst ekki meira til um skýringarnar en þetta.
    Ég verð eiginlega að gera þessa ræðu að minni: Nú skil ég ekki neitt. Ég verð að biðja þá hæstv. ráðherra sem eru aðalleikarar í því sjónarspili sem nú fer fram á stjórnarheimilinu að útskýra fyrir mér í

hverju það liggur að frv. um mál sem fulltrúar beggja stjórnarflokkanna sögðu fyrir rúmri viku að væri samstaða um innan ríkisstjórnarinnar kemur ekki fram. Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. utanrrh. eftir þessu þar sem hann var ekki við þá umræðu sem fór fram hér í síðustu viku. Þar sagði hæstv. umhvrh., sem þá fór með utanríkismálin, að væntanlega mundi hefðin leiða það af sér að í framtíðinni mundi landbrh. fara með forræðið varðandi þann innflutning sem er vegna GATT-samninganna. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann staðfesti ekki þessi orð hæstv. umhvrh. frá síðustu viku.
    Til viðbótar við allt þetta kemur hæstv. forsrh. og segir að hér sé bara um að ræða tittlingaskít. Það er um það að ræða að við erum að ræða um starfsgrundvöll heillar atvinnugreinar hér á landi í framtíðinni. Því að starfsgrundvöllur landbúnaðarins mun ráðast af því hvernig staðið verður að þeirri löggjöf sem fjallar um innflutningsmálin.