Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:46:10 (3628)


[13:46]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér var áðan vitnað í ræðu varaþingmanns sem hafði sagt: ,,Nú skil ég ekki neitt``. En nú stend ég í þessum ræðustól og skil loksins allt. Nú skil ég að hæstv. landbrh. Halldór Blöndal er í gíslingu Jóns Baldvins Hannibalssonar hæstv. ráðherra í þessum málum og hefur misst öll völd sín varðandi landbúnaðinn, varðandi þessi innflutningsmál, yfir til hæstv. utanrrh. og fjmrh. einnig. Það var svo að hæstv. utanrrh. var í þeim klæðum þegar hann gegnir störfum landbrh. sem hann gerir nú líklega orðið í þessari ríkisstjórn bæði daga og nætur.
    En, hæstv. forseti, sem gegnir hér æðsta starfi á þessum degi, ég verð að fara fram á það við hæstv. forseta að það frv. sem liggur fyrir fullbúið og eyðir allri óvissu verði tekið fyrir á þingfundi eigi síðar en á morgun.
    Við skulum gera okkur grein fyrir því að íslenska þjóðin er sammála um að þessari réttaróvissu verði eytt. Hér var slíkur þingmeirihluti fyrir því frv. sem nú liggur fyrir síðasta vor að minnst 50 hv. alþm. ætluðu að styðja það þá. En þá tókst þessum nýja hæstv. landbrh., Jóni Baldvin, að verða valdur að því að þing var rofið og menn sendir heim. En óvissan er og hæstv. forseti og Alþingi getur ekki búið við þetta ástand og landbúnaðurinn enn þá síður.