Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:48:24 (3629)


[13:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni að það hefur heilmikið skýrst frá því að ég flutti mína ræðu hér áðan. Það hefur nefnilega komið í ljós að málið stendur alveg nákvæmlega eins og það stóð fyrir meint samkomulag um forræði varðandi innflutning í desember. Málið stendur alveg eins. Og ræður þessara tveggja hæstv. ráðherra áðan hafa staðfest að það fólst ekkert í því samkomulagi. Ríkisstjórnin er eftir sem áður jafnófær um að taka á því pólitíska úrlausnarefni sem hér er um að ræða. Eftir ræður þessara hæstv. ráðherra áðan sé ég ekkert sem bendir til þess að það komi frv. frá ríkisstjórninni um þetta mál á næstu dögum. Og það eru ekki beint friðarinnar augnatillit sem ganga á milli þeirra tveggja ráðherra sem sitja á hægri hönd við forsetastól í dag. Ég verð þess vegna, virðulegur forseti, að taka undir það að það er mjög brýnt að Alþingi fái að segja vilja sinn í þessu máli. Það vantar ekki frumvörp til þess. Það liggur frammi frv. til þess að taka á málinu. Það er ljóst að ríkisstjórnin getur það ekki og ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan að núv. landbrh. virðist vera búinn að leggja málið í hendur Alþfl. og sitja og standa eins og hann vill í þessu máli.