Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:53:03 (3631)


[13:52]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það virðist alveg ljóst af þessum orðaskiptum hér að þetta mál er í hreinni upplausn. Það hefur nýlega gengið hæstaréttardómur sem hefur breytt viðtekinni lagatúlkun á þann veg að nú sé ekki lengur fyrir hendi í íslenskum lögum sjálfstæð heimild til að takmarka innflutning á búvörum, heimild sem er almenns eðlis eins og menn töldu að væri í búvörulögunum. Ég held þess vegna að í ljósi þeirra orðaskipta sem hér hafa farið fram milli ráðherra, að það hafi ekki á nokkurn hátt skýrst hvenær einhvers væri að vænta ef þá nokkurn tíma frá hálfu hæstv. ríkisstjórnar í formi samkomulags um þessi mál, þá sé ekkert annað um að ræða en Alþingi og viðkomandi nefnd taki málið í sínar hendur því við þetta ástand er ekki hægt að búa. Það eru örugglega öll þjóðin og þingið sammála um. Ég óska því eftir því að landbn. komi þegar í stað til fundar um þetta mál. Það hefur verið þar til umfjöllunar og það liggur í hlutarins eðli að fljótlegast væri að útkljá málið með tillöguflutningi eða frumvarpsflutningi þaðan.
    Ég minni enn fremur á það að formaður landbn. lofaði því á sl. vori að ef ekki yrði orðið samkomulag í ríkisstjórn um þetta mál með haustinu mundi hann sjálfur persónulega beita sér fyrir því að málið yrði útkljáð sem formaður landbn. Ég lýsi eftir þessum hv. formanni landbn. Hvar er hann nú? Nú er komið nýtt ár. Þessi óvissa hefur staðið mánuðum saman og auðvitað er það svo að ef formaður landbn. tekur ekki á sig rögg í þessu máli þá er hann algerlega ómerkur orða sinna. En ég veit að ég þarf ekki að rifja upp þær heitstrengingar og yfirlýsingar sem formaður landbn. hafði um það á sl. vori að þessi mál væru í traustum höndum og hann mundi sjá til þess að þeim yrði komið í skikk ef ekki yrðu aðrir til þess.
    Ég óska sem sagt eftir því að landbn. komi saman. Einnig liggur hér fyrir þingmál eins og kunnugt er og það er ekki hægt að bíða lengur eftir því að ríkisstjórnin togist á um þessi mál.