Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:28:23 (3730)


[15:28]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Þetta mál hefur fengið allítarlega umræðu á hinu háa Alþingi og verið rætt nokkrum sinnum og mér sýnist á þeim brtt. sem hér liggja fyrir og þeim umræðum sem fylgja í kjölfarið að hv. samgn. hafi vandað til umfjöllunar sinnar um málið líka. Það er aðeins um 8. gr. frv. sem ég vildi hafa örstutt mál og kannski frekar spyrjast fyrir um.
    Í 8. gr. er m.a. kveðið á um heimild til hæstv. ráðherra um að mynda hafnasamlög nokkurra hafna og um rekstur og þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Það er orðalagið sem mig langar til að spyrjast fyrir um hvað táknar. Það segir svo orðrétt, með leyfi forseta, í 8. gr.:
    ,,Ráðherra skal ákveða með reglugerð að höfðu samráði við eigendur viðkomandi hafna að mynduð verði hafnarsamlög um rekstur þeirra þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi.``
    Það er í raun eitt orð sem stingur í stúf en það er orðið ,,samráð``. Þýðir þetta orð það sama og samþykki? Þær eru ekki ókunnar umræður hér á hinu háa Alþingi hvað þetta hugtak þýðir í raun og veru og hvaða þýðingu það hefur, þess vegna skiptir mjög miklu máli að hér liggi fyrir mjög skýrar yfirlýsingar um hvað hér býr að baki. Táknar samráð t.d. það að það sé nóg að halda einn fund með fulltrúum viðkomandi hafna og síðan sé ráðherra frjálst og heimilt samkvæmt þessum lögum að stofna hafnarsamlög þó svo kunni að vera að ein eða fleiri hafnarstjórnir séu því andvígar? Að hér séum við að veita ráðherra heimild til þess að stofna hafnasamlög gegn vilja viðkomandi hafnarstjórna. Nú veit ég að núverandi hæstv. samgrh. mundi aldrei slíkt gjöra, hann mundi aldrei ganga gegn vilja hafnarstjórna í svo viðkvæmu máli sem þessu. Alla vega þekki ég hæstv. núv. samgrh. af slíku og treysti honum fullkomlega að fara með slíka heimild. En það munu hugsanlega aðrir einstaklingar ganga í sporin hans og fjalla um þessa heimild. Það er aldrei að vita nema þá kunni að verða gripið til annarra ráða og þess vegna er mjög mikilvægt að það liggi fyrir mjög skýr túlkun að baki.
    Ef einhver vafi er á þá tel ég afar mikilvægt að hv. samgn. kanni það gaumgæfilega hvort það eigi að skipta um orð og segja samþykki í staðinn fyrir samráð þannig að enginn vafi leiki á hver réttur og heimild hæstv. ráðherra er og hver réttur hafnarstjórnanna er. Þetta er afar viðkvæmt mál og ég trúi því ekki að hið háa Alþingi ætli að gefa ráðherra heimild til þess að sameina hafnir með handafli. Ég treysti mér ekki til þess og ég trúi að það sé ekki viljinn að baki þessa orðalags.
    Ég vildi vekja á þessu athygli við 2. umr. málsins. Ég gerði það við 1. umr. þegar þetta mál var fyrst lagt fram á 116. löggjafarþinginu. Þá urðu hér allmiklar og snarpar umræður um málið og kann að vera að þessi athugasemd hafi ekki komist til skila í nefndinni en ég legg afar mikla áherslu á að hér séu mál skýrð mjög gaumgæfilega og við vitum hvað við erum að gera.