Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:25:41 (3761)


[14:25]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að deila frekar við þingmanninn um þetta en ég vil minna hann á það að þegar hann stökk á mig í andsvörum hér í fyrra þá vitnaði ég oftar en einu sinni í ágætan bækling sem Alþb. gaf út á miðju sumri 1992, þar sem það lagði til að við gerðum tvíhliða samning við EB sem byggði á innri markaðnum, sem byggði á fjórfrelsinu og það var ekki hægt að framkvæma, virðulegi þingmaður, á annan hátt en þann að taka upp þá löggjöf EB sem við höfum verið að gera hér að undanförnu. (Gripið fram í.) ( HG: Hver var afstaða þín til samningsins?) Hver var afstaða til samningsins? Ég minni á það að þessi samþykkt Alþb. var gerð örfáum vikum áður en umræðan hófst hér og afstaða formanns Alþb. í umræðunni um samninginn var sú að við ættum að gera þennan tvíhliða samning sem byggir á fjórfrelsinu, sem byggir á innri markaðnum og öllu því sem fylgir. Og það er afskaplega billegt að skjóta sér á bak við sameiginlega afstöðu sem þýðir ekki meira en þetta.
    Þetta verð ég því miður að rifja hér upp fyrir þingmanninnum. Ég veit að hann veit það. Hann er bæði vel lesinn og minnugur en Alþb. hefur kosið að breiða yfir þetta á þennan hátt. Ég hafði ekki ætlað mér að eyða ræðutíma í dag í karp við Alþb. En það er nú einu sinni þannig að Alþb. virðist hafa gefist upp við að berjast við ríkisstjórnina, það hefur sýnt sig á síðustu mánuðum, en fundið sér nýjan andstæðing sem er Framsfl. Og það er allt í lagi með það. Við framsóknarmenn tökum þá þátt í þeim leik ef Alþb. kýs að hafa það þannig. En ég hefði miklu frekar viljað að við stæðum hér í hörðum slag við þá ríkisstjórn sem ég hélt að við værum sammála um að við vildum koma frá. ( HG: Hvaða Framsfl.?)