Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:55:01 (3767)


[14:55]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég sá að hv. þm. var órótt þegar hann kom úr stólnum. Bréf forsrh. er frá 8. sept. 1993, svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Landbúnaðarráðherra, Halldór Blöndal, Rauðarárstíg 25.
    Vegna þess álitaefnis hvort landbrh. eða fjmrh. ber að fjalla um innflutning á landbúnaðarvörum,

samanber sérstaklega það dæmi sem nú er uppi, er rétt að taka fram eftirfarandi:
    Að sérstöku gefnu tilefni gaf ég yfirlýsingu á Alþingi sl. vor um að forræði á innflutningi á búvörum væri að óbreyttum lögum áfram hjá landbrh. Þessa yfirlýsingu gaf ég að höfðu samráði við utanrrh., fjmrh. og þáv. viðskrh. Engin athugasemd var gerð við þessa yfirlýsingu á þinginu, hvorki af ráðherrum né einstökum þingmönnum. Síðan hefur engin lagabreyting verið gerð. Yfirlýsingin hlýtur því að standa óhögguð og forræði málsins að vera áfram hjá landbrn.
    Þetta er tekið fram vegna ágreinings fjmrh. og landbrh. og með vísað til 8. gr. stjórnarráðslaga, nr. 93/1969.``
    Undir þetta rita Davíð Oddsson og Albert Jónsson. Samrit var sent til fjármálaráðherra.
    Hæstv. forseti. Ég vil þessu til viðbótar minna á að í lögunum frá 21. des. sl. er kveðið skýrt á um að það skuli vera í höndum landbrh. að veita heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum. Hann skuli hafa verðjöfnunargjöldin í sínum höndum og í þeim lögum er jafnframt kveðið á um það að landbrh. --- að vísu stendur þar ráðherra sem útleggst landbrh. í þessum lögum, því varla legg ég sem landbrh. fram frv. um landbúnaðarmál þar sem varpa á hlutkesti um það í hvers höndum valdið skuli vera. Þar er einnig talað um útflutningsmálin. Þannig að bæði innflutnings- og útflutningsmálin eru í höndum landbrh., á því leikur ekki vafi. Það var vikið að þessu atriði í héraðsdómi á sl. hausti og sá úrskurður stóð óhaggaður eftir dóm Hæstaréttar.