Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:46:01 (3778)


[15:46]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vissulega hefur sjávarútvegurinn skilað verulegri framleiðniaukningu á ákveðnum sviðum. Þökk sé því kerfi sem framsóknarmenn höfðu forgöngu um að koma þar upp og Alþfl. vill nú berjast á móti.
    Hæstv. ráðherra dró verulega í land og viðurkenndi það í sinni ræðu að hann hefði kannski verið að tala um einhverja fortíð, ekki um það sem er núna. Og ég vil benda hæstv. ráðherra á það, við töluðum um mjólkurframleiðslu áðan, að skömmtunarkerfið sem hann nefnir þar --- í hverju felst það? Nú vil ég taka það fram að auðvitað vildi ég sjá það að við þyrftum ekki á því að halda. En við höfum takmarkaðan markað og það sem stendur eftir af því sem hæstv. ráðherra kallar skömmtunarkerfi þar í dag er það

að bændur hafa leyfi samkvæmt lögum til að skipta markaðnum á milli sín. Það er ekkert annað. Og ég verð að ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er afar erfitt að þurfa að sitja undir málflutningi eins og var hjá hæstv. ráðherra hér áðan.
    Það er alveg rétt, hæstv. ráðherra, að það eru ýmsir bændur sem búa við bág kjör í dag og í sauðfjárræktinni hefðu ýmsir e.t.v. viljað geta brugðið búi og horfið til annarra atvinnugreina. Það horfir ekki þannig til í íslensku þjóðfélagi í dag. Við búum við þá stjórnarstefnu sem hefur leitt það af sér að þeir sem gjarnan vildu hætta hafa ekki að neinu að hverfa.