Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:57:01 (3783)


[15:57]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það ber nú að fagna því að týnt frv. er komið fram eftir þrautir, innantökur og samningsþóf um langa hríð á stjórnarheimilinu og hefur hér birst í sinni mynd á nýjan leik, að vísu nokkuð breytt frá því að það hvarf fyrir rúmri viku síðan.
    Mér sýnist þetta frv. andvana fætt ef það á að koma í kring vilja þingsins og eyða allri réttaróvissu og skapa landbúnaðinum það starfsumhverfi og afurðastöðvum hans sem hlýtur að vera mikilvægast fyrir íslenska þjóð í þeim harða markaði sem fram undan er með verslun á búvörum í framhaldi af nýgerðu GATT-samkomulagi.
    Hér er frv. fram komið sem menn lýsa svo að ágreiningur sé lögfestur. Öll þessi harmsaga minnir mig á sögu sem ég heyrði þegar ég var strákur í bernsku og var verið einmitt að segja mér frá því hvernig menn ættu ekki að fara að. Þetta var austur í Flóa, hæstv. landbrh., en þá var mér kennd vísan um það hvernig sá vondi færi að og mistækist í ýmsum verkum, ekki síst ef hann færi að skapa mann. Og vísan var eitthvað á þá leið að hann hafi farið að skapa mann, skringilegan í hár og skinn, andanum kom hann ekki í hann, átti að heita ... ( Landbrh.: Þórarinn.) Hárrétt.
    Nú sjáum við það að hér er þetta frv. komið og enn vantar í það andann, enn vantar í það skýrleikann sem allir lögfræðingar hafa spurt um sem gengið hafa fyrir landbn. í þessari hér um bil árs þrautagöngu formanns landbn. sem var nú stærri í sniðum í upphafi þessa leiks heldur en nú um þessar mundir. En hér sitja þeir skólabræður, hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. Það er nú að verða algengt í umræðum um landbúnaðarmál að þeir félagar þurfa báðir að vera viðstaddir. Þetta hefðu þótt tíðindi fyrir einhverjum árum. En þetta minir mig mjög á það af því að ég horfi töluvert á handbolta um þessar mundir og dáist að mörgu afreki þar þá gerist það oft í snörpum leikjum að ágætir leikmenn eru teknir úr umferð því að þeir eru hættulegir. Og mér finnst að hér séu tvö lið og hæstv. utanrrh. sé falið það hlutverk af hálfu Alþfl. að taka hæstv. landbrh. úr umferð og það hafi honum tekist með prýðilegum hætti núna um alllangt skeið. Þessi staða er vissulega mjög varhugaverð og hættuleg fyrir íslenskan landbúnað.
    Svo ég tali ekki um það hvað hv. þm. Egil Jónsson varðar sem ég sagði að var kokhraustur fyrir ári síðan. Ég minnist þess að einhvern tíma í haust dáðist ég að þessum sterka þingmanni þegar hann sagði við þjóðina um sessunaut sinn sem er í landbn. og Alþfl. að ef þeir ekki féllust á frv., sem stoppaði í vor, og afdráttarlaus og skýr lög yrðu sett þá mundi hann fara að eins og gert var við klárana við plóginn. Færu þeir að liggja í taumum þá yrði gripurinn leystur frá. En nú hefur dæmið snúist við og ber ekki mikið á því að Alþfl. fái hótun um að vera leystur frá störfum, frá plógnum. ( Gripið fram í: Toga betur, toga betur.) Hv. þm. hefur náð að toga sitt fram. Það er nákvæmlega það sem gerst hefur. Hann hefur náð að toga sitt fram og haft sitt fram.
    Það er athyglisverð mynd í DV í dag þar sem mér sýnist hæstv. forsrh. hreinlega setja leysirinn á landbrh. Svo fast er augnaráðið þar að hann skipar honum að hætta þessu streði og ganga að því frv. sem fyrir liggur því annars þýði það að núv. ríkisstjórn getur sprungið. Og hver sem sér þessa mynd sér í henni heila sögu um margra mánaða átök sem eru að enda með þessum hætti að Alþfl. hefur náð töglum og högldum í landbúnaðarmálum á Íslandi. ( Landbrh.: Fríður foringi stýrir fræknu liði, þá fylgir sverði sigurinn.) Nú kann ég vel að meta hæstv. landbrh. Oft bregður svo við á neyðarstundu að hann reynir að brynja sig með skýrum kveðskap sem hann mælir af munni fram. En þó finnst mér kveðskapurinn bera meiri vott um það í seinni tíð að úr hendi sé fallið vopnið sem honum hafði verið treyst fyrir, sem íslensk bændastétt hafði trúað að hann héldi á henni til varnar og íslenskri atvinnu.
    Við skulum fjalla örlítið um þessa sögu. Nú erum við í þriðja sinn að berjast við þetta mál. Skýrt frv. og afdráttarlaust, sem hér er einnig til umræðu, og fyrir var meiri hluti á vorþingi. ( Utanrrh.: Það er úrelt.) Úrelt, kallar hæstv. utanrrh. fram í. Ég hygg að það sé ekki úreltara en svo að í því er allur sá skýrleiki sem lögmenn og dómarar spyrja eftir. Þá mundi það ekki gerast að Hæstiréttur klofnaði og það munaði einu atkvæði. Hæstv. landbrh. telur það og talar um það eins og sjálfsagðan hlut. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir því, jafnlagaglöggur maður og hann er, að auðvitað er mikið að í lagasetningunni þegar hæstaréttardómur fer að klofna með slíkum hætti trekk í trekk.
    Mér þætti það undarlegt ef Sjálfstfl., en ég hygg að hluti hans vilji efla landbúnaðinn og að hann fái að bíða þeirra sóknarfæra sem vissulega bíða hans --- aldrei gerðist það á viðreisnarárunum að Gylfi Þ. Gíslason yrði settur yfirfrakki Ingólfs heitins á Hellu. Nú stöndum við frammi fyrir því að Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. ráðherra, er jafnnauðsynlegur við umræðu um landbúnaðarmál og hæstv. landbrh. Slíkt er framsal á völdum úr þessu ráðuneyti.
    Ég ætla aðeins að minnast á ákveðna stöðu sem mér finnst mikilvæg þegar horft er til framtíðar. Nú blasir það við á Íslandi að hér erum við að glíma við 5--6% atvinnuleysi. Því er spáð að það muni vaxa mjög enn. Íslenska þjóðin er komin í hnút vegna þessa máls. Þó vita það allir og það liggur skýrt fyrir að hvert 1% í atvinnuleysi þýðir fyrir ríkissjóð útlát upp á 700 millj. kr. Þessi ríkisstjórn er með stefnu sinni að valda því að það verður að greiða vegna atvinnuleysis 3,5--4 milljarða á ári beint út um gluggann nánast. Því er það svo, og að því kom hæstv. utanrrh. í ræðu sinni, að það er mikilvægt og ég tek undir með honum að ræða um veigameiri hluti sem varða landbúnaðinn og framtíðina í landinu. Undir þetta get ég tekið. Það kann að vera svo að um þessar mundir þegar íslenskir bændur eru að fá fyrir sínar úrvalsafurðir, hreint kjöt, verð til sín upp á 170--200 kr. fyrir fullunnna vöru, virðisaukinn liggur eftir í landinu, þurfi nú þegar á Alþingi Íslendinga að ákveða á ný útflutningsbætur til þess að mæta framtíðinni. Því að ekki hélt hæstv. utanrrh. betur á málum en svo í þeim viðræðum sem hann hefur átt fyrir Íslands hönd um GATT og fleira en að erlendar landbúnaðarþjóðir eiga að hafa heimild til þess að viðhalda sínum útflutningsuppbótum sem við höfum lagt niður. Þeir eiga að keppa við okkur sem ekki erum lengur þátttakendur í útflutningsuppbótum. Þeir eiga að fá að nota þær til þess að keyra okkur niður. Og því er það kannski spurningin: Getur það ekki hugsast að það borgi sig að taka upp útflutningsuppbætur á ný, 500 millj. og fullunnin vara á Íslandi á einhverju sviði, kjötafurð, ostar eða eitthvað? Það getur gert það að verkum að það fari milljarði minna í atvinnuleysisbætur og sú hörmung og það hamingjuleysi sem nú hvílir yfir mörgum heimilum verði liðin tíð. Þetta er eitt af þeim atriðum sem Alþingi verður að marka stefnu um. Það er heimild hjá okkur að taka útflutningsbætur upp á nýjan leik að hæstv. utanrrh. sé þeirrar skoðunar að það eigi að gera það. Ég vil alla vega inna hann eftir því.
    Ef ég skoða þetta frv. sem nú liggur fyrir í nýrri mynd þá hef ég rætt við ýmsa lögmenn um þetta frv. í morgun. Ég hef alls staðar fengið sama svarið hjá lögmönnum. Þetta er götótt og skrýtið frv. Hér stendur til að lögfesta gífurlega mikinn viðauka við þetta frv. sem venjulega er þá í reglugerð. Þeir segja: Þetta er arfavitlaus lögfræði. Þetta er arfavitlaus lögfræði, segja lögmenn mér. Og þeir spyrja: Hvers vegna er verið að gera þetta og segja jafnframt: Auðvitað hlýtur það að vera vegna þess að menn ætla að ,,fixa`` við þessa hluti eftir á. Menn ætla að halda áfram að leika sér að þessum eldi. Og hvernig fer þegar nýjar vörur undir einhverjum öðrum tollnúmerum sem tilheyra landbúnaði falla ekki undir þessi ákvæði? Þetta er því mjög óskýrt. Og svo er með fleiri atriði í þessu frv.
    Það mun svo vera, hæstv. landbrh., að kollegar þínir í öllum nálægum löndum hafa náð samstöðu um það að landbrh. fari með setningu tollígilda. Landbúnaðarráðherrar þjóðanna hér í kringum okkur munu hafa náð samstöðu um að þeir fari með þetta vald. En hér virðist hæstv. landbrh. sætta sig við að ráða þar litlu um í framtíðinni.

    Ég vil spyrja hæstv. landbrh. Við skulum segja að það komi nýir tollflokkar, smjörlíki undir nýjum tollflokkum eða einhver innflutningur með kjötréttum í. Ætlar þá hæstv. landbrh. að kalla Alþingi saman til þess að setja ný lög o.s.frv.? Þarf að breyta lögum í hvert sinn?
    Nei, það hlýtur að falla undir þann skýrleika sem setja verður. Um það er kannski Alþingi sammála að eftir að GATT tekur við þá verði það hæstv. landbrh. sem fer með alla ákvörðun um tollígildi. Þetta eru jöfnunartollar sem fara eftir ákveðnum reglum og þeir hljóta að eiga að vera í höndum landbrh.
    Hæstv. landbrh. hefur vissulega sagt það, sem er kannski nýmæli, að mönnum beri að hlíta lögum og taka löggjafann alvarlega. Hann sagði enn fremur að það væri óhæft fyrir Alþingi að fá málið í hausinn á nýjan leik. Undir þetta vil ég taka með hæstv. ráðherra því það er náttúrlega óþolandi fyrir löggjafarsamkomuna að skýrleikinn sé ekki meiri en það. Mér finnst að hæstv. landbrh. hafi kannski verið að senda flokksbróður sínum, hv. þm. Agli Jónssyni sem gegnt hefur formennsku í landbn., smákveðju og segja þó við hann í þetta sinn: Þú hefur svolítið frjálsari hendur til að laga þetta frv. en þú hafðir í desember. Við skulum minnast þess að moðsuðan sem hér var á borðum í desember var með þeim hætti í huga hv. þm. að þar mátti ekki hreyfa stafkrók. Þó að lögmenn og nefndarmenn bentu á ýmis atriði sem yrði að breyta þá mátti ekki breyta stafkrók. Það var skýrt samkomulag á milli flokkanna í ríkisstjórninni.
    Það frv. sem lagt var fram hér í vor og við höfum flutt á nýjan leik, ég og hv. þm. Jóhannes Geir, er afdráttarlaust frv. Það ber öllum saman um það, lögmönnum og öðrum, að það frv. beri þann skýrleika í sér og hefði eytt allri réttaróvissu sem ríkti síðasta sumar. Það hefði aldrei komið til þeirra átaka, hæstv. utanrrh., sem hér urðu út af kalkún og skinku ef það frv. hefði verið lögfest. Það segir t.d. í 1. gr.:
    ,,Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbrh. Hið sama gildir um vörulíki þessara vara.`` --- Þetta er skýrt og hreint. Það segir enn fremur . . .  ( Utanrrh.: Þessi texti er brot á gildandi GATT-samningum.) Brot á gildandi GATT-samningum, kallar hér hæstv. ráðherra fram í. GATT hefur nú ekki tekið gildi. ( Utanrrh.: Jú, jú, gildandi GATT-samningum.) GATT hefur ekki tekið gildi í þeirri nýju mynd sem opnar það sem við erum að ræða um, lágmarksaðgang og það frelsi sem þessir flokkar hafa náð saman um að innflutningur sé frjáls. Þetta ákvæði hefði því ekki brotið það. Síðar segir:
    ,,Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, enda sé verðjöfnunargjöldum beitt í samræmi við heimildir í milliríkjasamningum.`` --- Þarna liggur þetta skýrt síðar í lagatextanum, hæstv. utanrrh. Enn fremur segir:
    ,,Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um til hvaða vara og vörulíkja ákvæði 1. og 2. mgr. tekur, þar með talin hlutfall hráefna í unnum vörum.
    Ráðherra ákveður með reglugerð af hvaða hráefni og landbúnaði skuli vera heimilt að endurgreiða verðjöfnunargjald við útflutning og hver endurgreiðslufjárhæðin skal vera.``
    Ég vitna hér í nokkur atriði úr þessu frv. Við skulum hugsa okkur hvernig þetta frv. varð til. Það varð til eftir mikla vinnu í landbn. þar sem allir flokkar lögðu sig fram og Alþfl. var meira að segja með í þeirri vinnu, hæstv. ráðherra, og með færum lögmönnum. En það strandaði og ég hygg að til þess að við getum náð hér friði á næstu mánuðum um þessi atriði þá hljótum við að verða mjög að lesa þau frumvörp saman sem hér liggja fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki níðast á tímanum þó að ég hefði getað ýmsu bætt við þessa stuttu ræðu mína.