Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:20:14 (3785)


[16:20]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú fer ég að efast nokkuð um skýrleika hæstv. utanrrh. sem ég hef reyndar álitið nokkuð glöggan mann fram undir þetta á ýmsum sviðum. Hitt vil ég þó minna hann á: Hvers vegna stöndum við í þessari umræðu í dag? Það er vegna þess að menn eru klárir á því að hæstaréttardómurinn 20. jan. sagði það líka um lögin sett í desember að þau fullnægðu ekki og eyddu ekki réttaróvissu. Þess vegna stöndum við í þessari umræðu, hæstv. ráðherra. Hér er gat, hér er smuga sem er andstæð þingviljanum. Landið er opið í rauninni vegna þess að menn treysta ekki lögunum frá því desember fyrir innflutningi á kalkún og skinku hafi hæstv. ráðherra ekki áttað sig á því.
    Hvað hitt varðar þá snýr þetta ekki beint að búvörulögum. Hæstv. forsrh., æðsti maður í ríkisstjórninni, hefur sagt um hæstv. fyrrv. viðskrh. að hann hafi laumað eða smyglað eða hvað hann viðhafði. ( Utanrrh.: Nei, hann sagði það ekki.) Hann orðaði það í þeim dúr, lætt í gegnum þingið þá, hæstv. ráðherra, ( Utanrrh.: Hann spurði hvort hann tryði því að . . .  ) Ég bið því hæstv. utanrrh. að ræða við skólabróður sinn og spyrja hann í eitt sinn hvort það kunni ekki að vera að hann sé hér að fara með rangt mál.