Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:50:27 (3791)


[16:50]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrst hv. þm. Egill Jónsson vill fara hér í rökræður um desemberlögin, þá er rétt að gera sér grein fyrir því að við framsóknarmenn bárum efasemdir um það frv. En hvernig stóð hv. þm. sem hér þóttist hafa í hótunum við Alþfl. í haust að því verkefni? Hann heimtaði að þetta mál færi í gegnum þingið á tveimur dögum. Það mátti varla kalla fyrir lögmenn inn í nefndina. Það mátti ekki senda það til umsagnar, þá moðsuðu og hv. þm. Egill Jónsson gat þess margoft að þetta yrði að nást fram fyrir jólin. En frv. er samið 8. sept. í haust. Liggur þá fullbúið í sínum spjöldum og kemur eftir krókaleiðum inn í Alþingi 18. des. því að á þeim tíma var hæstv. utanrrh. erlendis og menn sögðu: Þetta verður að fara í gegn áður en hann kemur og veldur ófriði í ríkisstjórninni. En síðan þetta hefur gerst hefur hann nú tekið öll völd í þessum málaflokki.
    En við hv. Egil Jónsson vil ég segja þetta að lokum: Hjarta hans slær alltaf fastast og hraðast fyrir Sjálfstfl. Hann er tilbúinn að ganga í björg fyrir þennan flokk og hann er tilbúinn að gera það einnig fyrir áframhaldandi samstarf við Alþfl. En hann gleymir hagsmunum íslenskra bænda og þess fólks sem nú er í afurðastöðvum að berjast fyrir því að halda íslenskri framleiðslu og vinnu áfram í þessu landi.