Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:16:42 (3801)


[17:16]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt í annan stað að gera athugasemdir við þau ummæli hv. þm. að það sé vafamál um það hvort réttur ráðherra til álagningar verðjöfnunargjalda sé bundinn við fríverslunarsamningana um Evrópska efnahagssvæðið eða sé almennur. Auðvitað er rétturinn almennur. Það er skýrt kveðið á um það í lögunum frá 21. des. þar sem segir:
    ,,Ráðherra ákveður með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning. Verðjöfnun á unnum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.`` O.s.frv.
    Þessi lagaákvæði eru mjög ítarleg. Dettur einhverjum manni í hug að allt það sem menn lögðu á sig í desember hafi einungis verið til að tryggja landbrh. að leggja verðjöfnunargjöld á jógúrt og kókómjólk? Dettur einhverjum manni það í hug? Auðvitað dettur engum þingmanni það í hug. Sú hugsun kom aldrei inn hér í þinginu. Hún kom aldrei inn í nefndinni. Þetta er fáránleg rökskýring og á sér engin rök og enga stoð.
    Á hinn bóginn eru það útúrsnúningar af þessu tagi sem veikja landbúnaðarlöggjöfina í heild sinni, trú manna á henni og eiga rætur til þess glundroða sem hefur ríkt í þessum efnum. Þessi ummæli þingmannsins nú áðan ganga þvert á það sem sagt var áður og það er í sannleika sagt undarlegt að ekki skuli hafa verið hægt að tala um atvinnumál landbúnaðarins, lög sem fjalla um landbúnaðinn með sama hætti og um aðra atvinnuvegi, af hverju útúrsnúningar og tortryggni ráða þar ríkjum og það er ekki hægt að ganga ærlega til verks um löggjafarstarfið eða annað þegar landbúnaðurinn er annars vegar.