Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:32:36 (3805)


[17:32]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. var vissulega búinn að ná sér í mikla stöðu í sveitum landsins með starfi sínu í þessari ríkisstjórn og hefur raunar enn. En mér þykir leitt að hann skuli hafa látið falla á þessa stöðu sína með allt of miklum undirlægjuhætti við kratana sem enn og best kemur fram í því frv. sem hann er hér að leggja fram sem leysir ekki þennan vanda nema síður sé. Það er búið að auglýsa þennan ágreining viku eftir viku milli utanrrh. og landbrh. og þetta er grátlegt fyrir sjálfstæðismenn ( Gripið fram í: Það er rétt.) að horfa á þessa uppákomu og fyrir þjóðina alla. Ég vildi mega vænta að hann færi að taka sig á. Á því ríða ekki aðeins hagsmunir landbúnaðarins heldur og flokks okkar og þjóðar.