Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:33:54 (3806)


[17:33]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég hef lengi tekið eftir því að hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, er eftirtektarsamur og bændur á Suðurlandi hafa borið til hans mikið traust. Þegar hann segir nú að ég bregðist þessum sömu bændum, þá langar mig að biðja hann að koma hér upp í ræðustól Alþingis og nefna sérstaklega til þá vöruflokka sem hann er kvíðinn út af að ekki séu inni í þessu frv. Inni í þessu frv. eru allar kjötvörur, það eru hráar vörur, það er slátur, það eru soðnar kjötvörur. Hér er líka talað um pasta og pitsur sem eu með kjötinnihaldi, bæði yfir og undir 20% o.s.frv. Og hér eru mjókurvörur, bæði unnar og óunnar. Hvað er það sérstaklega sem hv. þm. ber fyrir brjósti? Hvað vantar inn í þetta frv.? Hvað vill hann tryggja betur? Það væri fróðlegt að fá um það að vita. Hann hlýtur líka að verða spurður um það þegar hann fer austur fyrir fjall. Um hvað er hann nákvæmlega að tala? Í hverju hef ég brugðist?
    Ég vil líka að það komi vel fram að það kemur mér auðvitað á óvart að hv. þm. skuli ekki standa vel á bak við sína ráðherra eins og hann á vanda til.