Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:36:20 (3808)


[17:36]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Í 10 daga höfum við beðið eftir því að sjá þetta frv. sem hér er á dagskrá. Við höfum heyrt yfirlýsingarnar sitt á hvað. Það var alltaf að fæðast en jóðsóttin tók bara svona langan tíma. Út af fyrir sig fagna ég því að ríkisstjórnin skyldi koma þessu frá sér. Þetta frv. þrengir a.m.k. þá smugu sem meiri hluti Hæstaréttar fann á löggjöfinni og meiri hlutinn byggði dóm sinn á, og það er auðvitað óviðunandi ástand að láta við svo búið sitja.
    Það er til þjóðsaga um það að afkvæmi hunds og tófu sé kallað skoffín. ( Landbrh.: Manstu hvort er móðirin?) Þá er tófan móðirin. Þetta afkvæmi utanrrh. og landbrh. er nokkuð sérkennilegt líka. Það gefur aldeilis á að líta, þetta frv. Það er einkennilegt sköpunarverk. Þarna er ekki lengur heiðursmannasamkomulag. Nú er skrifað. Nú treysta menn ekki lengur hver öðrum. Nú þarf að skrifa niður hlutina og það er fest við þetta tollskrá eða tollnúmeraskrá upp á örfáar blaðsíður þar sem kveðið er á um hvað hæstv. landbrh. megi gera. Hæstv. landbrh. er með þessu frv. settur í búr. Út úr því búri má hann ekki fara og hann á ekki að skipta sér af því sem skeður utan við búrið. Áhrifavald hans er takmarkað með algerlega óviðunandi hætti. Hann fær að taka nokkrar ákvarðanir. Flestar þeirra eru reyndar sjálfsagðar. Hann fær t.d. að taka ákvörðun um það hvort, eins og segir hér í upphafi, vörur sem háðar eru innflutningsleyfi landbrh., þ.e. 0201 kjöt af dýrum af nautgripakyni, nýtt eða kælt. Síðan er hér heilmikið af kjöti allt aftur í múlasna og múldýr, nýtt, kælt eða fryst. Og ætir hlutar af dýrum af nautgripakyni, svínum, kindum, geitum, hestum, ösnum, múlösnum eða múldýrum nýtt, kælt eða fryst. ( Landbrh.: Þetta er í tollskránni.) Það má hæstv. landbrh. hafa á sinni könnu en þetta eru nú reyndar sjálfsagðir hlutir. Það er bannað í öðrum lögum að flytja þetta inn. Það væri reyndar svona til umhugsunar eftir síðustu afskipti Hæstaréttar af þessu máli. Hvernig mundi fara ef landbrh. drifi sig nú í það að heimila innflutning á einhverjum af þessum vörum sem bannaðar eru með sjúkdómavarnalögum og við skyldum segja að yfirdýralæknir eða hv. þm. Árni M. Mathiesen stefndi landbrh. fyrir þetta brot á sjúkdómavarnalögunum? Hvað mundi Hæstiréttur segja? Mundi hann telja að sjúkdómavarnalögin tækju af eða ekki? Þetta er hliðstætt eins og með búvörulögin.
    Alþingi hefur legið undir miklu ámæli fyrir það að hafa sést yfir þá smugu sem Hæstiréttur fann. Ég flutti hér í fyrra og flyt aftur í ár, á þessu þingi, till. til þál. um lagaráð Alþingis. Þessu lagaráði er ætlað að vera Alþingi til ráðuneytis um viðkvæm og flókin úrlausnarefni. Ef þetta lagaráð hefði nú verið sett á stofn eftir tillögu minni í fyrra, ef hún hefði hlotið afgreiðslu þá og þetta lagaráð verið sett á stofn, þá er ég ekki viss um að þessi misbrestur, þessi yfirsjón, sem meiri hluti Hæstaréttar telur Alþingi hafa gert, hefði skeð.
    Út af fyrir sig er kannski ekki ástæða til að orðlengja mikið um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Hér er bara verið að tjalda til einnar nætur. Það er troðið upp í smuguna svona að mestu leyti a.m.k., svona til áramóta, það er að vísu hægt að fara í að opna hana hugsanlega með nýjum tollanúmerum, en það er troðið upp í smuguna til áramóta. En eins og hæstv. utanrrh. segir: Þá kemur GATT. Og það var ekki lítill sigurvegari sem var í stólnum hér fyrr í dag. Því miður þá held ég að hæstv. landbrh. hafi ekki hlustað á hann. Ég hlustaði á hann. Ég sá fyrir mér mann sem hafði unnið fullan sigur. Og hann hafði líka efni á því að vera glaður. Þá er allt opið, þá hefur hann fengið viljann sinn. Þá er það hann sem ræður. Það er úr af fyrir sig lítil fórn fyrir hæstv. utanrrh. að bíða í ellefu mánuði, þá fær hann allt sem hann vill. Þetta er bara biðleikur eða hlé. Ég verð að telja það mikið geðleysi hjá hæstv. landbrh. hvernig hann er búinn að láta hæstv. utanrrh. fara með sig. Ég hélt ekki að hæstv. landbrh. væri svona lítilþægur eða mikill meinleysingi að hann léti fara svona með sig, sérstaklega með tilliti til þess að þingheimur, þorri þingmanna, stendur á bak við landbrh. Ekki það að okkur þyki hann vera sérstaklega góður landbrh. en ef hann heldur fram réttu og skynsamlegu máli þá stendur ekki á stjórnarandstöðunni að styðja hann. Eins og glögglega kom fram hér þegar forsrh. rauk til með gerræðislegum hætti í fyrravor og sleit þinginu til að ekki yrði afgreitt mál sem hafði fylgi 50 þingmanna þá veit landbrh., ætti að vita, að staða hans er miklu sterkari en raunin hefur orðið af því hvernig hann beygir sig, hvað hann er hálsliðamjúkur við hæstv. utanrrh. Hann er með hausinn ofan í bringu ef utanrrh. tekst á við hann. Utanrrh. hæstv. hefur alltaf betur í þeirra skiptum. Ég skil ekkert í hæstv. landbrh., sem ég þekki frá fornu fari sem ansi öflugan náunga, að láta fara svona með sig.
    Erindi mitt í ræðustól er að brýna hv. landbn. til að lagfæra þetta frv. Breyta því þannig að smugan sem meiri hluti Hæstaréttar fann sé örugglega lokuð og innflutningur og útflutningur landbúnaðarvara sé tvímælalaust og undantekningalaust á forræði landbrh. og ákvörðun um jöfnunargjald. Það koma nefnilega aðrir landbrh. í framtíðinni sem ekki munu una því að vera í gíslingu hjá öðrum ráðherrum. Þeir vilja

ekki vera í búri. Þeir koma til með að hugsa kuldalega til hæstv. núv. landbrh. sem hefur rýrt þetta embætti með því að láta beygja sig með þeim hætti sem hann hefur gert.
    Landbn. verður að laga þetta frv. og gera það þannig úr garði að hagur landbúnaðarins, atvinnan í landinu, sé sæmilega tryggð og vegur landbrh. framtíðarinnar sé gerður eðlilegur en ekki skilið við eins og gert er með þessum hætti.