Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:55:23 (3813)


[17:55]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að halda hér margar ræður í dag en að gefnu tilefni ætla ég að koma upp og nota seinni tíma minn í þessari umræðu. Gagnvart því sem hv. 3. þm. Austurl. nefndi varðandi það frv. sem við tveir þingmenn Framsfl. höfum lagt fram er ég hins vegar tilneyddur til að segja nokkur orð.
    Ég vil benda á það að á því frv. og því frv. sem samþykkt var hér fyrir jólin er einn grundvallarmunur. Okkar frv. lýtur að því að gera breytingu á 52. gr. frv. sem fjallar um innflutninginn. Gera hana þannig úr garði að hún héldi gagnvart innflutningnum og undantekningarnar væru síðan þeir milliríkjasamningar sem við höfum gert. Þetta er allt annar hlutur heldur en eins og gert var í vetur að búa til nýjar greinar sem voru ,,þrátt fyrir``-greinar. Nú sé ég að hv. þm. brosir en þetta er ekkert broslegt. Hv. þm. brosti ekkert undir ræðu hv. þm. Eggerts Haukdal hér áðan og andsvörum hans. Ég held nefnilega að málið sé alls ekkert broslegt.
    Það er svo annað mál að fyrir því að við lögðum þetta fram í þessu formi eru ákveðnar ástæður. Það eru þær ástæður að þetta var sú málamiðlun sem Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. komu á í störfum sínum í landbn. á síðasta voru. Við nefnum hins vegar í greinargerðinni að --- ég ætla að lesa það upp, með leyfi forseta:
    ,,Flutningsmenn gera sér ljóst að við þinglega meðferð málsins kann að þurfa að gera breytingu á frumvarpsgreininni vegna þeirra laga sem samþykkt voru í árslok 1993 og fleiri atriða. Hún er hins vegar flutt óbreytt þar sem ljóst var að allir fulltrúar Sjálfstfl. og fulltrúi Alþfl. í landbn. skrifuðu undir hana í fyrra og verður því að ætla að þingmeirihluti sé fyrir henni.``
    Hér kemur alveg skýrt fram að við erum okkur meðvitaðir um að það kunni að þurfa að breyta greininni og ekki mun standa á okkur að þær breytingar gangi í þá átt sem hv. þm. nefndi áðan. En ég er ekki viss um það að hv. formaður landbn. hafi afl til þess að fylgja þeim breytingum eftir.
    Ég man eftir því þegar við vorum að vinna hér að þessu máli fyrir jólin að það lá alveg ljóst fyrir hjá hv. formanni landbn. að það mátti ekki breyta stafkrók í því frv. sem þá var búið að leggja fram. Það mátti ekki einu sinni láta fylgja með í nál. þær lögfræðiálitsgerðir sem við höfðum þó fengið í nefndinni, málið var svo viðkvæmt.
    Ég vil í öðru lagi koma að því sem hæstv. landbrh. nefndi hér áðan --- nú sé ég að hann er horfin úr salnum en ég ætla ekki að gera athugasemd við það núna, hann er orðinn þreyttur og skil ég það vel hann stendur í erfiðum málum --- gagnvart því að 52. gr. eins og hún er nú í búvörulögunum hafi ekki haldið og svona sé þetta búið að vera síðan 1955 eins og hv. formaður landbn. nefndi. Þá vil ég ítreka það sem ég sagði fyrr í dag og kom fram í frv. ríkisstjórnarinnar í fyrra að þetta bann byggðist á innflutningslögunum og byggðist á því að það var fullur trúnaður og full samvinna milli landbrn. og viðskrn. enda

ráðuneytin í sama húsinu. Og viðskrn. skrifaði umyrðalaust upp á þetta bann.
    Það er svo eitt í þessu máli, virðulegi forseti, sem mér finnst umhugsunarefni. Það er að allt þetta hafarí síðustu vikurnar, öll þessi vinna sé til þess eins að tryggja óbreytt ástand um 11 mánaða skeið. Það segir mest um ástandið í ríkisstjórninni að hún geti ekki komið sér saman um það án þess að njörva það niður í lagatexta hvernig hún ætlar að standa að þessum málum fram að næstu áramótum.
    Þá komum við að því sem að mínu mati er stóra málið í þessu. Við eigum ekki að horfa til baka. Það sem skiptir öllu máli er: Hvernig stöndum við að GATT-samningunum? Hvernig ætlum við að nota þær stoðir sem við höfum til þess að verja okkar framleiðslu fyrir niðurgreiddri innfluttri og hvernig ætlum við að nota þá möguleika sem eru til útflutnings? Þetta er það sem skiptir höfuðmáli. Og ég vil spyrja hæstv. landbrh. og ítreka spurningu mína frá því fyrr í dag: Hvað líður þeirri vinnu hjá ríkisstjórninni? Mun stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ákvörðun tollígilda vegna GATT liggja fyrir áður en Alþingi fer heim í vor?
    Nú er ég ekki endilega að segja að það þurfi að vera búið að binda þetta í lög fyrir vorið, þó það væri það besta, en mun stefnan liggja fyrir? Því þetta er sú stefna sem íslenskur landbúnaður þarf að fara að vinna eftir frá og með næstu áramótum. Við lásum það í Morgunblaðinu í morgun að hæstv. utanrrh. segir að frá og með þeim tíma verði þau tæki sem við höfum og getum beitt til að verja okkar framleiðslu fyrir niðurgreiddum erlendum búvörum ekki í höndum landbrh. heldur í höndum fjmrh. Í framhaldi af því spyr ég hæstv. ráðherra: Er ráðherrann sammála þessu mati viðskrh., sem kemur fram í Morgunblaðinu í morgun, að frá og með næstu áramótum verði þetta alfarið í höndum fjmrh.?
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta hér. Ég sá það á hæstv. landbrh. að honum var ekki sama um ræðu hv. þm. Eggerts Haukdals áðan. Ég býst við að hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, sé nú nokkuð gott ,,barómet`` á viðhorf hins almenna manns út um sveitir landsins gagnvart þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar að það sé að renna upp fyrir fleirum og fleirum að málefnum landbúnaðarins getur ekki verið vel fyrir komið ef svo er að öll orka ríkisstjórnarinnar sem beinist að þessum málaflokki fer í innbyrðis deilur. Og yfirlýsingar ráðherranna í Morgunblaðinu í morgun segja mér ekkert annað en að það verður ekkert hlé á þessu. Það er engin samstaða um hvernig á að taka á GATT-samningnum sem við þurfum að fara að vinna eftir frá og með næstu áramótum. Landbúnaðurinn, bændur og vinnslustöðvar, er farinn að búa sig undir þetta en það er ekkert komið frá hæstv. ríkisstjórn um það hvernig hún hugsi sér að móta stefnuna. Og það má eitthvað mikið breytast ef það liggur fyrir fyrr en á síðustu stundu.