Réttindi Íslendinga í Bandaríkjunum

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:49:42 (3846)


[16:49]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. spyr hvernig á því standi að Íslendingar, búsettir tímabundið í Bandaríkjunum í viðskiptaerindum þar, njóti ekki sömu réttinda og þegnar annarra Norðurlandaþjóða, þ.e. geti ekki fengið svokallaða ,,e-visa``.
    E-visa er vegabréfsáritun sem Bandaríkjamenn veita ríkisborgurum þeirra landa sem hafa gert viðskipta- og siglingasamninga við Bandaríkin. Þeir samningar verða að kveða á um gagnkvæm réttindi til þess að stunda viðskipti eða fjárfestingar í landinu. Slíkar vegabréfsáritanir eru háðar ýmsum skilyrðum, t.d. verður magn viðskipta eða fjárfestinga að vera verulegt og viðkomandi einstaklingur verður að vera í stjórnunarstöðu eða búa yfir sérstakri þekkingu í starfi. Þessi skilyrði eru sérstaklega ströng að því er varðar aðila sem leita þar eftir fjárfestingartækifærum svo sem nánar er gerð grein fyrir í ítarlegri reglugerð bandarískri sem sjálfsagt er að láta hv. fyrirspyrjanda í té.
    Svarið við spurningu hv. þm. er einfaldlega það að íslenskir viðskiptamenn fá ekki slíkar áritanir af þeirri ástæðu að við höfum ekki sambærilegan samning við Bandaríkin sem tryggir gagnkvæm réttindi til dvalar í tengslum við erlendar fjárfestingar. Tiltölulega skammt er síðan hin Norðurlöndin gerðu ráðstafanir til þess að ríkisborgarar þeirra fái ,,e-áritanir`` og á það sérstaklega við um Svíþjóð og Finnland.

Finnar gerðu sérstakan samning 1. júlí 1991 sem tryggir gagnkvæm dvalarréttindi í tengslum við fjárfestingar. Sá samningur þurfti að fara fyrir Bandaríkjaþing til staðfestingar. Svíar byggja réttindi sín á sérstöku undanþáguákvæði í bandarísku innflytjendalöggjöfinni sem tók gildi 1. okt. 1991. Í báðum tilvikum er það talið verulegum erfiðleikum bundið að fá þessi réttindi viðurkennd. Af hálfu íslenska utanrrn. var fyrir alllöngu, fyrir fáeinum árum síðan, farið að kanna hvort æskilegt og mögulegt væri að gera sambærilegar ráðstafanir í þessum efnum og önnur ríki Norðurlanda og þeim athugunum og viðræðum er ekki lokið. Í þessu sambandi skipta þær breytingar máli sem orðið hafa að undanförnu á löggjöfinni um erlendar fjárfestingar og liggur frv. um frekari breytingar nú fyrir Alþingi Íslendinga.
    Það er hins vegar ekki rétt að Íslendingar, búsettir í Bandaríkjunum vegna viðskipta þar, fái ekki nauðsynlegar vegabréfsáritanir eða a.m.k. er utanrrn. ekki kunnugt um það og hefur ekki verið til þess leitað af þeim sökum. Þvert á móti hafa Íslendingar sem aðrir greiðan aðgang að því að dvelja í Bandaríkjunum í viðskiptaerindum enda reyna Bandaríkjamenn að laða að erlenda fjárfesta sem er eins og hv. þm. veit mætavel annað en segja má t.d. um okkur Íslendinga.