Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 13:36:04 (3873)


[13:36]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í tæplega tvö ár hefur heimurinn horft upp á sívaxandi hörmungar hins grimmilega stríðs í Bosníu-Hersegovínu þar sem fjöldanauðgunum á konum og telpum hefur verið beitt og karlmenn sveltir og drepnir, að ekki sé minnst á þá markvissu og miklu eyðileggingu á menningarverðmætum sem aldrei verður fyrir bætt.
    ( Forseti (VS) : Má biðja um hljóð í salnum.)
    Síðastliðinn laugardag bárust þær fréttir frá höfuðborg Bosníu, Sarajevó, að tugir manna hefðu fallið og enn fleiri særst í kjölfar sprengjuárása á markað í borginni. Sprengjum rigndi yfir almenna borgara sem voru að ná sér í mat og nauðsynjar í þessari stríðshrjáðu borg. Dag eftir dag höfum við horft á fréttir af mannfalli og hörmungum sem engan enda virðast ætla að taka. Börnin hafa lært að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og eiga dauða síns von á hverri stundu eða trúa á verndarmátt almættisins.
    Atburðir laugardagsins hafa vakið hörð viðbrögð, enda má ekki lengur við svo búið standa. Enn einu sinni er hrópað um allan heim: Nú verður að grípa til þeirra ráða sem duga til að stöðva stríðið. En hver eru þau ráð? Hvað dugar til að koma á friði og jafnvægi þegar annars vegar á í hlut gamalt valdakerfi sem verst dauða sínum af grimmd og hörku og hins vegar fólk sem þolað hefur ótrúlegar þjáningar og berst fyrir tilveru sinni?
    Þetta er ótrúlega flókið stríð sem á sér djúpar rætur aftur í aldir í bland við hagsmunatogstreitu náskyldra þjóða. Í stíði er enginn saklaus en það fer ekki á milli mála að í styrjöldinni í Bosníu eru Serbar í árásarhlutverkinu á meðan Bosníumenn verjast.
    Mánuð eftir mánuð hafa samningamenn Evrópubandalagsins og Sameinuðu þjóðanna þjarkað við stríðsaðila með takmörkuðum árangri á meðan hjálparstarf er gróflega hindrað og íbúum Bosníu-Hersegovínu haldið í herkví víðast hvar án matar, eldsneytis og lyfja. Sameinuðu þjóðirnar ákváðu á sínum tíma að setja viðskiptabann á stríðsaðila sem Bosníumönnum hefur fundist bitna mun harðar á sér en Serbum. Staðreyndin er sú að viðskiptabannið hefur alls ekki virkað. Af ýmsum ástæðum, sögulegum og viðskiptalegum, hafa m.a. Evrópuþjóðir ekki gripið til viðeigandi aðgerða til þess að tryggja að banninu sé framfylgt. Þar er ótrúlegur tvískinnungur á ferð. Annars vegar er sett á bann en síðan eru þeir sem eiga að framfylgja banninu svo liðfáir að þeir geta engan veginn sinnt sínu verki. Serbar fá þau vopn, olíu og vistir sem þeir þurfa enda eiga þeir víða stuðningsmenn þótt ekki fari hátt.
    Þeir alþingismenn sem sæti eiga í Evrópuráðinu í Strassborg áttu þess kost að hlýða á Thorvald Stoltenberg gera grein fyrir ástandinu í Bosníu fyrir tæpum tveimur vikum. Í máli hans kom fram að á svæðinu er allt morandi í vopnum frá öllum hugsanlegum löndum sem sýnir best hvað viðskiptabannið virkar illa. Yfirmenn friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna báðu um ákveðinn liðsafla sem nauðsynlegur væri til að hægt væri að sinna gæslustarfi og koma á svokölluðum öruggum svæðum í samræmi við áætlanir Sameinuðu þjóðanna. Aðeins hluti þess liðs sem nauðsynlegt er hefur fengist sem að mati Stoltenbergs skýrir að hluta til hvernig til hefur tekist í samkomulagsumleitunum.
    Hershöfðingjar Sameinuðu þjóðanna töldu nauðsynlegt að fá 7.500 gæslusveitir --- ég er hér að þýða orðið ,,troops`` --- en hingað til hafa aðeins verið sendar 1.000 sveitir. Afleiðingin er m.a. sú að í desember tókst aðeins að koma 45% hjálpargagna til skila.
    Ég spyr: Er einhver alvara að baki þegar svona er staðið að málum? Hefur í raun verið látið reyna á þær friðsamlegu leiðir sem til eru? Mér sýnist að svo sé ekki.
    Í gær var haldinn fundur utanríkisráðherra Evrópusambandsins og var hann mjög litaður af hinum hryllilegu atburðum í Sarajevó. Ráðherrarnir sem mánuðum saman hafa verið mjög tvístígandi gagnvart hernaðaríhlutun í Bosníu, komust að þeirri niðurstöðu að tími loftárása væri runninn upp. Að vísu var ekki eining um þessa afstöðu samkvæmt fréttum en meiri hlutinn er nú kominn á band Clintons Bandaríkjaforseta sem um skeið hefur mælt með árásum á bækistöðvar Serba. Boðaður hefur verið fundur hjá NATO vegna málsins en mér hafa ekki borist fregnir af því hvort sá fundur hefur farið fram eða hvort niðurstaða liggi þar fyrir. Og þar með er komið að meginorsök þessarar umræðu, virðulegi forseti, þeirri spurningu hver afstaða íslenskra stjórnvalda sé til loftárása á heri Serba og hvernig hæstv. utanrrh. hyggist beita sér í þeim alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að og fjalla um ástandið í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu.
    Ég hef fylgst grannt með atburðum í Bosníu og hlustað aftur og aftur á umræður um þau mál í Evrópuráðinu og hvað eftir annað hefur mér blöskrað grimmdin og valdníðslan líkt og flestum öðrum. En það er ekkert auðvelt að svara þeirri spurningu hvernig stöðva megi ósköpin. Það má þó benda á ýmsar leiðir en ég vil segja það hér í upphafi umræðunnar að ég á afar erfitt með að mæla með loftárásum á stöðvar Serba vegna þess að ég óttast þær afleiðingar sem því muni fylgja en ég mun greina betur frá því í síðari ræðu minni.