Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 13:52:20 (3877)


[13:52]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda að það er full ástæða til að ræða þetta mál hér í Alþingi og einnig vil ég taka undir með henni þegar hún lýsti þeirri ræðu sem við þingmenn í Evrópuráðinu hlýddum á þegar Thorvald Stoltenberg gerði okkur grein fyrir stöðu mála í Júgóslavíu fyrir um það bil hálfum mánuði. Við höfum á þeim vettvangi einnig fengið tækifæri til að kynnast þingmönnum frá Bosníu-Hersegovínu sem hafa lýst ástandinu í Sarajevó og það fer ekkert á milli mála að sú lýsing þeirra er rétt. Þar hefur verið komið á stærstu fangabúðum í mannkynssögunni og þar er fólk drepið eftir tilviljun eftir því hvernig mönnunum í fjöllunum í kring líkar að hverju sinni og hvert þeir vilja senda sprengjurnar. Síðasta laugardag sendu þeir þær beint inn á markaðstorgið eins og við höfum heyrt um í fréttum.
    Hæstv. utanrrh. gat um það í ræðu sinni hér áðan að mál þetta hefði verið til umræðu í utanrmn. á sl. sumri. Það er rétt. Það var til umræðu á tveimur fundum og á síðari fundinum hinn 10. ágúst sl. var það samdóma niðurstaða í nefndinni að Íslendingar ættu að standa að niðurstöðu á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, enda væru hernaðaraðgerðir í nafni bandalagsins skilyrtar á þann veg að til kæmi samþykki Sameinuðu þjóðanna. Ég held því að það sé enginn efi um það hvaða afstöðu utanrmn. hefur tekið, og þar með tel ég einnig Alþingi, að á fundi nefndarinnar var það niðurstaðan að það yrði að standa að þessu máli með þeim hætti að grípa til hernaðaraðgerða á vegum Atlantshafsbandalagsins svo framarlega sem það væri skilyrt og með samþykki Sameinuðu þjóðanna.