Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 15:21:43 (3887)


[15:21]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt að hv. þm. talaði um óeðlilegan þrýsting á dómara. Hvernig getur það verið óeðlilegur þrýstingur á dómara að aðilar máls biðji um sem bestar lögskýringar á þrætuefni sem fyrir dómstólum er? Er þar um óeðlilegan þrýsting á dómara að ræða að aðilar málsins hafi tækifæri til að leita sem best álits á deiluefninu? Ég tel að það sé einmitt kostur þessa frv. að menn geta gert það þegar á héraðsdómsstiginu. Og geta gert það í Hæstarétti og geta gert það fyrir félagsdómi. Að tala um slíka réttarvernd borgaranna sem óeðlilegan þrýsting á dómara er furðulegur málflutningur og á ekki við nokkur skynsamleg rök að styðjast og ég skil ekki hvernig hv. þm. leyfir sér að tala um slíka réttarvernd sem borgurunum er veitt sem óeðlilegan þrýsting á dómara, að aðilar máls geti krafist sem ítarlegastra upplýsinga á meðan mál eru fyrir dómstólunum um lögskýringaratriði og þau atriði sem undir dóminn heyra.
    Ég hlustaði á hina löngu ræðu að vísu með örstuttum hléum en það breytir engu um það að svona málflutningur um leiðir borgaranna til að leita réttar síns er náttúrlega algerlega út í hött, að það að þeir vilji fara þess á leit við dómara að leitað sé álits sé einhver óeðlilegur þrýstingur á dómara. Ef tilgangurinn er síðan líka sá hjá hv. ræðumanni að auðvelda mönnum þetta málskot með því að ríkissjóður taki að sér að bera kostnaðinn af því eins og fram hafa komið hugmyndir um, hvað þá um hinn óeðlilega þrýsting á dómarana? Mundi hann þá ekki aukast að mati hv. ræðumanns?
    Þannig að ég sé ekki hvernig þessi málflutningur yfirleitt gengur upp. Auðvitað er ekki hér um neinn óeðlilegan þrýsting að ræða. Hér er um ákveðna réttarvernd að ræða, ákveðna leið til þess að fá skorið úr ágreiningsefnum með þeim hætti að borgararnir viti um sína réttarlegu stöðu.