Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 19:07:01 (3920)


[19:07]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það er ástæða til að mótmæla mörgu í þessari síðustu ræðu en ég mun ekki gera það, enda áttu umræður sér stað á síðasta þingi um þessi mál og þær furðulegu yfirlýsingar um stjórnarskrárbrot og annað sem ég ætla ekki að fara að mótmæla hér aftur og endurtaka þær umræður.
    Ég vil hins vegar segja aðeins, frú forseti, að í ræðu minni hér áðan mótmælti ég því alls ekki að það yrði hugað að því að auðvelda fólki að leita réttar síns með því að létta af því kostnaði í þessu máli. Ég vakti hins vegar athygli á þeirri þversögn sem kom fram í máli hv. 9. þm. Reykn. þegar annars vegar var kvartað undan því að fólk hefði þennan rétt og síðan talað um að það væri nauðsynlegt að auðvelda mönnum að geta nýtt sér hann með því að aðrir tækju að sér að bera kostnaðinn. Það var þessi þversögn því að eins og sá hv. ræðumaður setti málið fram, þá var full ástæða til að vekja máls á þessari þversögn í þeim málflutningi. Og mér finnst furðulegt af hv. 15. þm. Reykv. að taka síðan til við að snúa út úr mínum orðum og segja að ég hafi verið að andmæla því að aðrir bæru þennan kostnað. Ég tók enga afstöðu til þess máls. Vafalaust er unnt að finna sanngjarnar reglur í því en hins vegar sýna dæmin, frú forseti, að menn eru reiðubúnir til að leggja mikið á sig til þess að verja málstað sinn á erlendum vettvangi ef þannig skiptir. Við minnumst þess t.d. þegar fulltrúar Alþýðusambands Íslands gerðu sér ferð með einkavél til Strassborgar til þess að gera grein fyrir málstað sínum frammi fyrir embættismannanefnd félagsmálasáttmála Evrópu til þess að verja sinn málstað þar. Það eru því mörg dæmi um það að menn eru reiðubúnir til þess að leggja mikið á sig og ekki tel ég að þegar Alþingi staðfesti félagsmálasáttmálann, þá hafi menn verið að einblína á þau atriði að það kynni að koma til þess að íslenskir aðilar þyrftu að verja sitt mál vegna þess sáttmála.