Eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 14:12:13 (3940)


[14:12]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, sem ætlað er að leysa af hólmi lög nr. 53/1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur, ásamt breytingu á þeim lögum sem samþykkt voru síðla árs 1992 vegna gildistöku samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Frv. byggir á tillögu nefndar sem skipuð var á árinu 1992 til að endurskoða lögin frá 1978 í heild sinni. En jafnframt hefur nefndin það hlutverk að endurskoða gildandi reglugerðir á þessu sviði. Frv. er nú endurflutt en það var lagt fram á vorþinginu í fyrra en hlaut ekki afgreiðslu. Hv. landbn. fékk frv. til meðferðar og aflaði umsagna um það frá Skógræktinni, Landgræðslu, Áburðarverksmiðju, yfirdýralækni, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélagi.
    Búnaðarþing það sem starfaði á síðasta ári fékk frv. til meðferðar og mælti með lögfestingu þess enda var það mat þingsins að breytingar þær sem felast í frv. væru til bóta fyrir málaflokkinn en benti þó á að í breyttu viðskiptaumhverfi mundi trúlega versna aðstaða Íslands til að gera kröfur um gæði og hreinleika þeirra vörutegunda sem frv. tekur til.
    Ljóst er að gildistaka samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði leiðir af sér breytt viðskiptaumhverfi fyrir þær vörur sem hér um ræðir. Vegna þeirrar verndar sem viðskipti með landbúnaðarvörur hafa notið hefur með gildandi lögum og reglugerðum verið einfaldara að ná þeim meginmarkmiðum sem unnið er að með þessu frv. Um leið og markaðir opnast eykst þörfin á að skýra og skerpa þann ramma sem vinna verður eftir.
    Helstu breytingar sem felast í lögfestingu frv. eru eftirfarandi:
    Framkvæmd þeirrar tilkynningarskyldu sem kveðið er á um í 12. gr. gildandi laga er breytt í ljósi fenginnar reynslu. Frv. gerir ráð fyrir að svonefnt aðfangaeftirlit skrái alla þá aðila sem framleiða fóður, áburð og sáðvörur hér á landi, eða flytja þessa vöru til landsins. Sýna verður fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem rekin er og tilkynnt er um. Sama gildir um vöruna og er gert ráð fyrir sérstakri staðfestingu á skráningu aðfangaeftirlits. Tilkynningarskylda sem þessi er nauðsynleg til tryggingar því að virtar séu reglur um notkun fóðurefna og íblöndunarefna. Ákvæði 4. og 5. gr. frv. eru ítarlegri og skýrar orðaðar en 12. gr. gildandi laga. En á skorti að mati eftirlitsdeildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að ákvæði hennar væri að öllu leyti uppfyllt.
    Í öðru lagi. Ákvæði sem nú gilda um vörulýsingar og skilgreiningar á vörum þarf að samræma eins og unnt er sambærilegum ákvæðum erlendis. Það verður gert með reglugerð sem sett verður skv. 2. mgr. 5. gr. frv.
    Í þriðja lagi. Gert er ráð fyrir að opinbert eftirlit verði ótvírætt hluti framkvæmdarvaldsins. Kveðið er á um að eftirlitsdeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins verði lögð niður og opinbert eftirlit, sem nefnt er aðfangaeftirlit í frv., færist undir yfirstjórn landbrh. Breyting þessi er mikilvæg að því leyti að hún tekur af allan vafa um stjórnsýslulega stöðu þessa málaflokks. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi er eftirlitsdeildin sem sinnt hefur opinberu eftirliti hluti af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, stofnun sem jafnframt er framleiðandi sáðvöru sem er eftirlitsskyld samkvæmt núgildandi lögum og frv. Slíkt fyrirkomulag er í raun ótækt og ósamrýmanlegt nútímastjórnsýslu. Sú breyting sem frv. gerir ráð fyrir að þessu leyti leiðir til þess að eftirlitsstarfsemin verður óháð og stjórnsýslulega sambærileg við það sem gerist erlendis. Samkvæmt þeim ákvæðum sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið byggir á er ætlast til að hvert þjóðríki standi að opinberu eftirlit með líku sniði og hér er lagt til. Gert er ráð fyrir að til aðstoðar hinu opinbera eftirliti starfi þrjár nefndir, fóðurnefnd, sáðvörunefnd og áburðarnefnd og er skipun nefndanna lýst í 2. mgr. 3. gr.
    Að lokum skal vikið að því nýmæli 8. gr. að heimilt sé að innheimta svonefnt ,,sértækt eftirlitsgjald`` eftir reikningi. Átt er við gjald sem ætlað er að standa undir kostnaði við sérstakar rannsóknir sem gera þarf á vörum og eru umfram þær almennu vörulýsingar sem kveðið verður á um í reglugerð.
    Að mati fjárlagaskrifstofu fjmrn. hefur lögfesting frv. ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð eða notendur vörunnar.
    Frv. fylgja tveir kaflar samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, sbr. fylgiskjal II og III, sem fjalla um fóður og áburð. Þar er að finna sérákvæði sem varða íslenska hagsmuni með tilliti til hreinleika þeirra landbúnaðarvara sem framleiddar hafa verið hér á landi og við viljum að framleiddar verði eftirleiðis. Í II. kafla viðauka I, um fóður, er m.a. staðfest heimild fyrir Ísland til að viðhalda eigin löggjöf um sýklalyf í fóðri búfjár. Hér á landi er bann við allri lyfjanotkun í fóðri að undanteknu hníslasóttarlyfi í kjúklingafóðri. Í XIV. kafla viðauka II, fskj. III, sem fjallar um áburð er heimild til handa öllum EFTA-ríkjum til að takmarka aðgang að mörkuðum sínum varðandi kadmíum í tilbúnum áburði. Þungamálmurinn kadmíum sem er eitur er oft og tíðum fylgifiskur við vinnslu áburðarefna úr jörðu. Með því að velja hreinni áburð eins og gert hefur verið hér á landi, a.m.k. síðasta áratug, af Áburðarverksmiðju ríkisins hefur verið dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum af notkun tilbúins áburðar. Þessi réttur okkar helst við gildistöku samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.