Greiðslur atvinnuleysisbóta til bænda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:13:01 (4069)


[17:13]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það er vissulega rétt sem hann benti á að það atvinnuleysi sem blasir víða við bændum kemur mjög hart niður á konum því bú hafa minnkað svo mikið að það er ekki lengur fyrir tvo að hafa atvinnu af búrekstrinum. Það verður auðvitað að skoða þessi mál í ljósi þess líka.
    Þá má einnig nefna að í umræðum um þessar tvær síðustu fyrirspurnir hefur komið fram að sjálfstætt starfandi atvinnurekendum er gert mjög erfitt fyrir um að nálgast atvinnuleysisbætur. Það er umhugsunarvert á þessum tíma þegar atvinnuleysi fer sívaxandi og ævinlega er verið að hvetja fólk til þess að stofna ný atvinnufyrirtæki, þ.e. að fleiri og fleiri gerist sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Á sama tíma er atvinnuleysislöggjöfinni þannig háttað að þeir sem hugsanlega mundu gera þetta eiga þar enga innkomu. Þessu finnst mér rétt að vekja athygli á í umræðunum.