Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 01:32:13 (4206)


[01:32]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að þetta gangi nokkuð vel. Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. segir að kvótakerfið var framlengt með tilteknum hætti á grundvelli málamiðlunar í tíð ríkisstjórnar sem ég átti sæti í og ég skorast ekki undan þeirri hlutdeild minni í ábyrgðinni á þessu kerfi. En ég tel það ekki hafa bundið hendur mínar um aldur og ævi til þess að halda áfram að ræða mögulegar breytingar á fiskveiðistjórnun á Íslandi. Það er ekki svo. Spurningin er svo sú, hæstv. sjútvrh., sem kom hér loksins upp í lokin: Er kvótakerfið ekkert markmið í sjálfu sér? Því miður óttast ég að það sé orðið það í hugum ýmissa manna. Ég spyr mig t.d. að því hvað er á ferðinni þegar kvóta er viðhaldið á úthafsrækju ár eftir ár án þess að hann nokkurn tíma náist og fyrirtæki eru látin borga 11 kr. á kíló eða 15 kr. á kíló fyrir kvóta af úthafsrækju til þess að ná henni til vinnslu ár eftir ár þó að kvótinn náist aldrei. Hvað er þar á ferðinni? Er þar ekki verið að viðhalda kerfinu kerfisins vegna? Það eru engar fiskverndunarforsendur fyrir hendi lengur þegar svo er ástatt um. (Forseti hringir.) Ég óttast nefnilega, hæstv. sjútvrh., að þar hafi ráðherra hitt naglann á höfuðið. Það sé þannig fyrir suma að kerfið sé markmið í sjálfu sér.