Markaðsátak í rafmagnssölu

94. fundur
Mánudaginn 21. febrúar 1994, kl. 15:33:34 (4352)

[15:33]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Það blandast engum hugur um að í raforkukerfi landsins er vannýtt afkastageta sem m.a. helgast af því að á undanförnum árum hafa mál því miður þróast þannig að orkusala í landinu hefur dregist saman. Í upplýsingum sem fram komu í svari hæstv. iðnrh. við fyrirspurn minni um þessa þróun allt til ársins 1991 kemur m.a. fram að sala í gígavattstundum talin hefur minnkað ár frá ári allt frá árinu 1989. Ef við skoðum það sérstaklega í krónum talið þá blasir það við að samkvæmt þeim upplýsingum sem þá voru lagðar fram hefur heildarorkusalan, ef skoðað er árabilið 1973--1991, aldrei verið minni en á árinu 1991.
    Samhliða þessu hefur hins vegar átt sér stað gríðarlega mikil fjárfesting í orkukerfinu, ekki síst hjá Landsvirkjun, og á sama tíma og salan dróst saman ár frá ári 1989--1991 nam heildarfjárfesting Landsvirkjunar 11,3 milljörðum kr. á verðlagi ársins 1991. Þetta er kannski í hnotskurn sá vandi sem menn standa frammi fyrir í raforkukerfinu, annars vegar vaxandi heildarfjárfesting en á sama tíma minnkandi heildarorkusala. Fasti kostnaðurinn í raforkukerfinu hverfur ekki. Þessar fjárfestingar eru komnar til að vera og menn þurfa að borga af þeim vexti og annan fjármagnskostnað hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og hvernig svo sem orkusalan þróast á sama tíma. Þess vegna er það auðvitað mjög mikilvægt vegna hagsmuna orkukerfisins að unnt sé að auka tekjur þess með einhverjum hætti.
    Í þessum efnum hafa menn horft á margvíslega möguleika. Ég nefni aukna orkusölu til loðnu- og fiskimjölsverksmiðju, ég nefni aukna sölu í formi landrafmagns til skipa og ég nefni aukna sölu til gróðurhúsa svo að ég taki þrjú dæmi. Að öðru leyti má segja að tilgangurinn með aukinni orkusölu við þessar aðstæður geti verið tvíþættur fyrir utan það að auka raforkusölu; að auka þannig tekjur orkukerfisins og styrkja orkusölufyrirtækin. Þá er þetta ekki síður liður í því að bæta íslenska atvinnusköpun, fjölga íslenskum atvinnutækifærum og á því er víst engin vanþörf. Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að leggja fram eftirtaldar þrjár spurningar til hæstv. iðnrh. um markaðsátak í rafmagnssölu:
  ,,1. Hver hefur orðið árangurinn af átaki Landsvirkjunar til þess að auka rafmagnssölu á innanlandsmarkaði, mælt í gwst. og í krónum?
  2. Hversu stór hluti tekjuaukningarinnar varð af raforkusölu til stóriðju og hversu stór af sölu á rafmagni til annarra atvinnugreina?
  3. Eru fyrirhugaðar frekari ráðstafanir til að auka raforkusölu á vegum Landsvirkjunar?``