Búvörulagafrumvarp o.fl.

96. fundur
Miðvikudaginn 23. febrúar 1994, kl. 13:42:22 (4401)


[13:42]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er ekkert lát á þessum farsa stjórnarliðsins í landbúnaðarmálum. Nú eru menn farnir að verða mjög gamansamir og skjóta yfir markið líka, finnst mér, þegar þeir eru farnir að óvirða þá embættismenn sem hafa verið fengnir til liðs við landbn. í þessu máli með því að kalla þá verktaka. Ég tel ekki rétt að tala þannig um þá sem beðnir eru um álit eða að sinna verkefnum fyrir nefndir þingsins. Ég held að þeim væri sæmast sem eiga hlut að máli að setjast niður og verða sammála um að sitja þangað til þeir eru búnir að fá niðurstöðu í þetta mál.
    Annars var það annað, hæstv. forseti, sem fékk mig til þess að biðja um orðið um störf þingsins. Hinn 10. okt. sl. lögðu allir þingmenn Alþb. fram beiðni um skýrslu dómsmrh. um árangur af einkavæðingu Bifreiðaeftirlits ríkisins. Og skv. 46. gr. þingskapa á slík skýrsla að vera tilbúin innan 10 vikna frá þeim tíma sem eftir henni er óskað. Það munu vera liðnar nokkuð mikið fleiri en 10 vikur síðan þessi beiðni var lögð fram. Ég óska mjög eindregið eftir því að þessi skýrsla fari að líta dagsins ljós og vil biðja hæstv. forseta að beita sér í því máli að farið verði eftir þingsköpum og þessi skýrsla birtist sem allra fyrst vegna þess að ég hef orðið var við að margir hafa áhuga á því að fá að vita allt um það hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Þessi skýrsla er mjög nauðsynlegt gagn til þess að á Alþingi geti farið fram umræða um allt þetta mál frá upphafi og fram á þennan dag. Það er mikil óánægja með framgang þessa máls allt frá upphafi og kominn tími til að Alþingi fái að ræða hana.