Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:28:05 (4470)


[16:28]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka formanni íslensku þingmannanefndarinnar, 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmi Egilssyni, fyrir ágæta forustu í nefndinni. Hann hefur að mínum dómi, og mér er ljúft að láta það koma hér fram, sinnt því starfi af miklum áhuga. Við erum að vísu ekki sammála um stefnu í Evrópumálum eða hver ætti að vera stefna Íslands en ég vil láta þetta koma fram í upphafi.
    Hér hefur verið ofurlítið fjallað um framtíð EFTA og þá er eðlilegt að hugsa líka til framtíðar Evrópsks efnahagssvæðis. Þegar við vorum að ræða þetta mál, samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, í fyrra þá var okkur tamt að tala um tveggja stoða samstarf. Nú held ég að engum detti í hug að taka sér það orð í munn eða þá klisju nema þá í gríni. Önnur stoðin er orðin ansi feyskin. Önnur stoðin er á fallanda fæti. Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Noregur eiga í samningaviðræðum við Evrópubandalagið um inngöngu. Nú er að vísu ekki útséð um hvernig þeir samningar fara. Það eru enn þá talsverðir þröskuldar fyrir öllum þessum þjóðum inn í Evrópubandalagið. Í Svíþjóð og Finnlandi eru það fyrst og fremst átök út af landbúnaði, Austurríki út af flutningamálum, Noregi út af fiskveiðum, olíu og landbúnaðarmálum. Menn hafa sett sér daginn 1. mars, nú eftir örfáa daga, þar sem úrslit fáist úr þessum samningum, þ.e. hvort þeir ganga fram eða ekki í þessari lotu.
    Vissulega geta stjórnir viðkomandi ríkja látið þessa samninga takast með því að gefast upp og samþykkja það sem Evrópubandalagið fer fram á. En það hefur hins vegar það í för með sér að ólíklegt virðist að viðkomandi þjóðir kyngi því. Horfur eru á því að a.m.k. samningunum við Noreg seinki og það kunna að vera nokkur hernaðarvísindi að láta þá dragast aftur úr vegna þess að þar er andstaðan öflugust og meiri líkur til að hún láti bugast ef Svíþjóð og Finnland eru áður orðin aðilar að Evrópubandalaginu.
    Það er of snemmt að spá um hvað þarna verður en eins og horfur eru nú þá er framtíð EFTA ákaflega óviss. Menn hafa verið að velta því fyrir sér hvort sú lausn sé heppileg að Austur-Evrópuríkin, a.m.k. sum, gerðust aðilar að EFTA. Sum þeirra sækja fast að komast inn í Evrópubandalagið en þau búa við mismunandi aðstæður og það er óvíst að Evrópubandalagið vilji taka við þeim, a.m.k. ekki á næstu árum og

a.m.k. ekki öllum. Sum þeirra banka því á allar dyr sem liggja til vesturs. T.d. lætur Albanía í ljósi verulegan áhuga á aðild að EFTA.
    Þetta er nokkuð vandmeðfarið bónorð. Ég held að það væri ekki skynsamleg lausn fyrir okkur Íslendinga eða skynsamleg niðurstaða að fara að fjölga í EFTA í bili. Ég held að svarið ætti að vera það að framtíð EFTA sé mjög óljós og ekki tímabært að taka við nýjum þátttökuríkjum. Við þurfum líka að huga að fjármálahliðinni. Okkur hefur þótt kenna nokkurs yfirgangs, sérstaklega af hálfu Svía sem vilja gjarnan mikil umsvif EFTA en eru þó á leiðinni burtu þannig að EFTA kynni að sitja uppi með fjárfestingar og stofnanir sem dýrt yrði að halda úti. Ef svo færi í næstu viku að teningunum yrði kastað og þessar þjóðir væru á hraðri leið inn í Evrópubandalagið þá held ég að ekki sé um neitt annað að gera en dusta rykið af þeirri ályktun sem Alþingi gerði í fyrravor og ríkisstjórnin verður að fara að huga að tvíhliða viðskiptasamstarfi Íslands og Evrópubandalagsins.
    Við erum nú búin að fá nærri tveggja mánaða reynslu af þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði. Væntanlega eru þeir sem harðast börðust hér fyrir inngöngu Íslands í Evrópskt efnahagssvæði nokkuð hamingjusamir með reynslu þessara tveggja mánaða. Ég er það hins vegar ekki enda var ég ekki fýsandi þess að við gerðumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Það er áreiðanlega mjög langt síðan Íslendingar hafa haft lakari markaðsaðgang að Vestur-Evrópu en þeir hafa akkúrat þessa dagana. Tollalækkunin sem átti að nema 7 milljörðum þegar utanrrh. var í hvað mestum ham, sumir töluðu alltaf um 2 milljarða á ári sem ættu að bætast í íslenskt þjóðarbú út af tollalækkuninni, hefur ekki skilað sér enn þá. Fiskurinn hefur hríðfallið á Evrópumarkaði. Auðvitað var það aldrei nema barnaskapur að ímynda sér að seljandinn, þ.e. Íslendingar, nytu þessarar tollalækkunar nema í litlum mæli. Að sjálfsögðu gerir neytandinn, þ.e. kaupandi vörunnar á meginlandinu, kröfu til þess að fá hag af tollalækkun þegar hann fellir niður tolla eða hans ríkjasamsteypa. Þar af leiðir að þetta hefur ekki orðið okkur sú féþúfa enn þá sem þeir sem gylltu samninginn hvað mest í fyrra reiknuðu með. Það kann að vera að Eyjólfur hressist en ýmsar blikur eru á lofti.
    Hegðun Frakka er náttúrlega algerlega forkastanleg. Langlundargeð íslenskra stjórnvalda er með ólíkindum að þau sýni ekki lit á því að reyna að reka réttar okkar eða standa á rétti okkar. Það nær engri átt hvernig Frakkar hafa farið með okkur. Hér er um mjög mikilvæga viðskiptahagsmuni að ræða. Það er verið að kippa mikilvægri stoð undan íslensku efnahagslífi ef framhald verður á þessu framferði Frakka og reyndar búið að vinna okkur stórtjón nú þegar. Það er verðugt verkefni að taka þá framkomu til meðferðar á Alþingi, frú forseti.
    Okkur hefur að þessu leytinu ekki reynst heldur nein stoð í þeim félagsskap sem við sórumst í í fyrravetur, þ.e. að Evrópsku efnahagssvæði. Það er nefnilega skilyrði að EFTA-ríkin tali einni röddu. Að sjálfsögðu tala þau ekki einni röddu höstuglega við bandalagið þegar fjórar af aðildarþjóðunum eru á hnjánum að biðja um inngöngu í bandalagið. Þar af leiðir að við erum nú ekki sérstaklega vel sett.
    Mig langar til að gera að umtalsefni hina nýju sameiginlegu þingmannanefnd EFTA og Evrópubandalagsins, eða Evrópuveldisins, sem nýlega var komið á fót, þ.e. með 33 þingmönnum frá þeim EFTA-ríkjum sem aðilar eru að Evrópsku efnahagssvæði og 33 frá Evrópubandalaginu. Það verður að hafa það í huga að í Evrópubandalaginu ráða þingmenn nákvæmlega engu. Þeir geta þvælst pínulítið fyrir, það er allt og sumt því þeir hafa ekki einu sinni almennilegt neitunarvald. Allt afl þessa stórríkis er hjá framkvæmdarvaldinu en ekki hjá löggjafarvaldinu. Hins vegar er þarna tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að kynna málstað okkar og þann vettvang verðum við að sjálfsögðu að reyna að nota. Jafnvel þótt við séum að kynna hann fyrir kollegum okkar sem eru þingmenn og enn þá valdalausari og vesælli en nokkurn tímann við, hinir íslensku þingmenn því að við höfum þó enn að nafninu til og reyndar í verulegum mæli í mörgum greinum löggjafarvald og þurfum ekki að sækja allt til framkvæmdarvaldsins.
    Ég verð að segja það eins og ég hef margoft látið koma fram í þessum ræðustól að mér finnst ömurlegt að þurfa að taka við tilskipunum úr Brusselfabrikkunni. Við verðum að hlýða þessum tilskipunum. Þær urðu rúmar 400 sem gefnar voru út bara á þeim tíma frá því að samningurinn var fullgerður og þangað til hann var staðfestur og við verðum að hlýða þeim og jafnvel að leiða þær í lög það sem við á og við eigum engan annan kost. Nú segir, frú forseti, í 2. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands:
    ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvald.``
    Þetta var okkur andstæðingum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði tíðrætt um í fyrravetur og vitnuðum til þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði samræmdist ekki hinni íslensku stjórnarskrá, hvorki í þessari grein né heldur 60. og 61. gr. sem hljóðar svo, frú forseti:
    ,,Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti`` o.s.frv.
    Talsmenn samningsins um Evrópskt efnahagssvæði mótmæltu því kröftuglega í fyrravetur í umræðunum um Evrópskt efnahagssvæði að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða þó að við hefðum sannfæringu fyrir því mörg hver að svo væri. Þess vegna þótti mér tíðindi nokkur þegar ég las Morgunblaðið þriðjudaginn 22. febr. 1994 en þar er, frú forseti, staðfest í hinni minni forustugrein blaðsins, þ.e. Staksteinum sem hv. 3. þm. Reykv. hefur m.a. verið húskarl í eða átt einhvern þátt í, þar er staðfest nákvæmlega allt sem við sögðum um þetta mál. Og mér þykir leitt að hafa ekki tíma til þess að lesa þessa klausu

fyrir þingheim en þar sem tími minn er búinn mun ég láta hér staðar numið í bili.