Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:44:26 (4471)

[16:44]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og sá þm. hv. sem talaði hér á undan mér, 1. þm. Norðurl. v., þakka fyrir þessa skýrslu og þá sérstaklega formanni þingmannanefndar EFTA fyrir hans starf á þeim vettvangi og get sagt eins og hv. samnefndarmaður minn, Páll Pétursson, að hann hefur sinnt því starfi með mikilli prýði og þótt við séum ósammála um stefnuna almennt í Evrópumálum þá höfum við ekki verið ósammála um það starf sem haldið hefur verið uppi á vettvangi þingmannanefndar EFTA. Þar hafa þingmenn verið mjög samstiga.
    Hvað varðar þessa þingmannanefnd þá má segja núna að hún standi á ákveðnum tímamótum. Sl. ár hefur nefndin aðallega varið kröftum sínum í að undirbúa Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. að þingmannanefnd hins Evrópska efnahagssvæðis tæki til starfa, og flestir fundir í þingmannanefnd EFTA hafa verið svona nokkurn veginn til undirbúnings því þar sem þar hefur þurft að setja starfsreglur bæði um EFTA-nefndina og EES-nefndina. Hins vegar var nú um áramótin eða í janúar stofnfundur þingmannanefndar EES og við förum þá að starfa samkvæmt þeim samþykktum sem við vorum að vinna að á sl. ári. Það á síðan eftir að reyna á það hvernig EES-samstarfið virkar, hvernig það gengur og hvort þingmenn þeirra ríkja sem hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu sinna því starfi af fullum áhuga og fullri alvöru en líta ekki bara á þetta sem eitthvert tímabundið apparat sem ekki taki því að sinna. Ég hef svo sem ekki orðið vör við að það sé viðhorfið hjá þessum þingmönnum. Þvert á móti sá maður ekki betur en á stofnfundinum ætluðu menn sér að sinna þessu af talsverðri alvöru enda held ég að þingmennirnir geri sér flestir grein fyrir því að það getur brugðið til beggja vona um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu þegar það er borið upp í þeim ríkjum sem nú eru að sækja um aðild þannig að þetta gæti auðvitað staðið lengur en ýmsir ætluðu sér í upphafi.
    Ég sagði að við stæðum á ákveðnum tímamótum í þessum málum í þingmannanefnd EFTA og ástæðan er sú að þessum kafla er þá lokið og EES hefur nú tekið gildi en við tekur innan EFTA að velta fyrir sér hver eigi að verða framtíð þess bandalags eins og menn hafa vikið að á undan mér. Það eru að vissu leyti ákveðin tímamót almennt í heiminum. Við stöndum andspænis breyttri heimsmynd og ýmsar þær alþjóðastofnanir eða fjölþjóðastofnanir sem starfað hafa í Evrópu og víðar þurfa svolítið að breyta störfum sínum eða starfsháttum. Ýmist átti að leggja þær af eða þá að gefa þeim nýtt inntak. Það má segja að flestar þessara stofnana séu í ákveðinni tilvistarkreppu. Það hefur komið fram m.a. með RÖSE. Við vitum um þá tilvistarkreppu sem NATO er í og segja má að það sama gildi um EFTA, það sé í ákveðinni tilvistarkreppu. Það er eins og mál standa mjög líklegt að það fækki verulega þeim ríkjum sem nú mynda EFTA. Ef aðild að Evrópubandalaginu verður samþykkt í öllum þessum fjórum ríkjum, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Austurríki, þá er orðið ansi fáliðað í þessari EFTA-sveit. Og það skapar auðvitað ákveðna tilvistarkreppu þarna og menn verða að velta því fyrir sér hvert þetta á að þróast. Á að gefa þessu nýtt innihald eins og hér hefur verið minnst á og taka hugsanlega inn Austur-Evrópuríkin eða á hreinlega að leggja þessi samtök af og búa til einhver allt annars konar samtök?
    Þetta eru ekki einföld mál, hvorki ef litið er á þau bara út frá einföldum hagsmunum og heldur ekki ef litið er á málin í víðara samhengi og þá sérstaklega út frá Austur-Evrópuríkjunum.
    Þau ríki Austur-Evrópu sem kannski helst hafa lýst áhuga á því að ganga í EFTA eru ríki sem hafa mjög takmarkaða samninga við Evrópusambandið núna. Það eru ríki eins og Eistland, Slóvenía og önnur slík sem helst hafa lýst þessum áhuga en hin svokölluðu ,,vicegrade`` ríki, þ.e. Tékkland, Ungverjaland og Pólland hafa öll Evrópusamning svokallaðan við Evrópusambandið og þau hafa ekki lýst þeim sama áhuga á EFTA og þau ríki sem ég gat um hérna áðan. Það sem fyrir þessum ríkjum öllum vakir er, og við skulum vera alveg raunsæ með það, að tengjast Evrópusambandinu með einhverjum hætti. Þau hafa í sjálfu sér afskaplega lítinn áhuga á EFTA. Það er ekki fyrir þeim nein endastöð. Þau eru að hugsa um nánari tengsl við Evrópusambandið og hvernig þau geti komist í þessi tengsl. Þess vegna eru það ríkin sem ekki hafa Evrópusamning sem leita fyrst og fremst á EFTA og þá kannski sjá þau það fyrir sér að þau geti í framtíðinni tengst Evrópusambandinu í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Hin ríkin eru sem sagt með Evrópusamninginn.
    Þau ríki innan EFTA sem kannski helst hafa talað fyrir því að Austur-Evrópuríkin yrðu tekin inn í EFTA, eru ef ég má segja ríki sem hyggjast yfirgefa EFTA. Þannig var það utanríkisviðskiptaráðherra Austurríkis sem tók þetta mál m.a. upp og taldi að það væri full ástæða til þess að skoða það að Austur-Evrópuríkin fengju aðild að EFTA og hann virtist líta á EFTA sem einhvers konar æfingabúðir fyrir aðild að Evrópubandalaginu. Þar gætu menn farið í gegnum ákveðnar æfingabúðir áður en þeir færu inn í Evrópusambandið. Það verður að segjast eins og er að ef ríki eins og Austurríki, Svíþjóð, Finnland og Noregur yfirgefa EFTA þá er kannski orðið heldur fáliðað í þeirri sveit sem á að æfa Austur-Evrópuríkin, þá standa eftir í EFTA Ísland, Liechtenstein og Sviss. Með allri virðingu fyrir þessum þremur ríkjum þá sé ég það ekki alveg fyrir mér hvernig þau eiga að sinna uppeldishlutverki á þessum Austur-Evrópuþjóðum

þannig að ég hef ákveðnar efasemdir um þessa leið auk þess sem ég óttast líka að okkar hagsmunir mundu falla þar mjög í skuggann vegna þess að þau vandamál sem þessi Austur-Evrópuríki mörg hver eiga við að etja eru svo stórbrotin og svo stór í sniðum að okkar vandamál mundu í samanburði við þau teljast harla lítil og léttvæg þannig að ég óttast að fókusinn yrði kannski svolítið sérkennilegur í þessum málum. En út frá okkar hagsmunum hef ég ákveðnar efasemdir um þetta. Hins vegar verður það að segjast eins og er að ef EES verður ekki lengur til, ef þessi fjögur ríki ganga nú inn í Evrópusambandið og samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði hættir að vera til í þeirri mynd sem hann er núna, þá stendur það eftir að reyna að ná samningum um tvíhliða samning við Evrópusambandið eins og Alþingi hefur ályktað um. Þá vaknar sú spurning: Hvernig á að reka þann samning? Ætlum við Íslendingar að gera það sjálf upp á eigin spýtur hér? Er létt verk að gera það eða ætlum við að reka þennan samning í gegnum einhverja fjölþjóðastofnun eins og t.d. EFTA? Í gegnum þá stofnun höfum við hingað til rekið fríverslunarsamning okkar meðan hann var í gildi við Evrópubandalagið og þá núna samstarfið í gegnum hið Evrópska efnahagssvæði. Og ég held að það sé öllum ljóst að við höfum haft mjög mikið í þetta fjölþjóðasamstarf að sækja og það hefur gagnast okkur mjög vel. Það hefur ekki verið okkur dýrt en við höfum fengið talsvert mikið út úr því þannig að þetta er vandi sem við stöndum andspænis. Getum við bara ein og sér upp á eigin spýtur rekið þennan tvíhliða samning ef til hans kæmi eða þurfum við á einhverjum slíkum fjölþjóðasamningum að halda eins og EFTA? Og hvernig ætlum við þá að tryggja tilveru þessara samtaka? Það má segja að við séum í ákveðinni tilvistarkreppu líka og við þurfum að gera upp við okkur hvernig þessum málum eigi að haga í framtíðinni.
    Hér hafa menn aðeins minnst á þá deilu sem við eigum í við Frakka núna eða framferði Frakka, getum við sagt, á frönskum fiskmörkuðum. Ég held að það sé öllum ljóst sem koma að þessu máli að Frakkar eru að brjóta alla samninga með þessu framferði og það hefur m.a. verið samþykkt eftir því sem mér er best kunnugt í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að þetta sé brot á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði þannig að það sé ekki neinum blöðum um það að fletta. Spurningin er sú hins vegar hvort það sé hægt að leysa þessa deilu sem upp er komin, og hvernig er hægt að fá Frakka til þess að láta af þessum aðgerðum. Í samningum um hið Evrópska efnahagssvæði eru ákveðin tæki til þess að leysa deilumál sem þá er hægt að nýta sér en vandamálið við þau tæki er að þetta tekur tíma. Ef það er ekki pólitískur vilji hjá Frökkum til að leysa þetta mál þá getur auðvitað ýmislegt gerst og þá getað þeir skaðað mjög okkar hagsmuni á frönskum mörkuðum. Í 111. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði eru ákvæði um lausn deilumála og ef maður les þau ákvæði má ljóst vera að það getur tekið allt að því sex mánuði að leysa deilumálin í hinni sameiginlegu EES-nefnd. Og á sex mánuðum getur ýmislegt gerst og hagsmunir okkar geta skaðast verulega og til frambúðar á evrópskum mörkuðum. Það sem þetta mál hlýtur að snúast um er pólitískur vilji til að leysa það frá Frakka hálfu og eitthvert pólitískt tæki sem við verðum að reyna að beita. Ég held að það hljóti að vera aðalatriðið í þessu.
    Eins og ég sagði þá virðist sem framkvæmdanefnd Evrópusambandsins sé þeirrar skoðunar að Frakkar séu að brjóta alla samninga með framferði sínu í þessu máli en svo er það auðvitað vandamálið að ef menn vilja brjóta samninga þá geta þeir gert það að vissu marki þar til við getum þá eftir einhverja mánuði farið með þetta í dóm og látið á það reyna og látið dæma á Frakka ef við teljum að það sé óyggjandi. En sú spurning vaknar hins vegar og ég held að það vanti kannski inn í samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. hvernig tjónið verði bætt sem af hlýst. Ef ég man rétt þá eru engin sérstök ákvæði um það hvernig með það skuli fara og hvort það þurfi þá að bæta það tjón sem þeir valda með framferði sínu og það yrði þá væntanlega eitthvert prófmál í þessum samningi ef þetta færi alla þá leið sem við skulum vonast til að verði ekki.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Mig langaði bara aðeins til að leggja orð í belg varðandi þessa skýrslu og varðandi störf þingmannanefndarinnar sem ég held að sé núna á ákveðnum tímamótum og við þurfum hér á Alþingi að taka til alvarlegrar umræðu og til stefnumörkunar hvernig við sjáum fyrir okkur starfið í EFTA á komandi árum.